Drama(tripp)

mother!

Hann Darren Aronofsky er ekki beinlínis þekktur fyrir það að fara pent í hlutina, sama hvaða verkefni hann tekur að sér. Flestar ef ekki allar myndir hans eru ágengar, grafalvarlegar, hugmyndadrifnar og hafa að einhverju leyti snúist um persónur sem haldnar eru vissri þráhyggju sem seinna meir setur líf þeirra á hliðina eða leiðir til sjálfseyðileggingar.

Skilaboðin eru yfirleitt mjög augljós í Aronofsky-myndum en það er sama hvort viðkomandi kann að meta manninn sem leikstjóra eða ekki, það er erfitt að neita því að hvert verk frá honum feli í sér talsvert hugrekki og skilji eitthvað eftir sig.

Það er því óvenju mikið sagt að mother! (já, með lágstaf og upphrópunarmerki víst) sé það djarfasta og svartasta sem Aron­ofsky hefur hingað til komið sér út í; mynd sem er nánast í eðli sínu hönnuð til þess að fæla meirihluta fólks frá, en gerð til þess að skapa umræður. Á einn veg er þetta ein metnaðarfyllsta og brjálaðasta mynd leikstjórans til þessa og á annan sú allra persónulegasta og hreinskilnasta.

Myndin segir frá ónefndu pari á afskekktum stað, sem er einnig ónefndur. Maðurinn er skáld og plagaður af ritstíflu en konan bjartsýn og umhyggjusöm húsfreyja. Hlutirnir virðast samt í fyrstu vera nokkuð rólegir (þó fjarri því að vera „eðlilegir“) en öll tilveran breytist með komu óvæntra gesta. Fyrr en varir fjölgar hratt í mannskapnum og þegar allt fer að flæða út um dyr fer heimur húsfreyjunnar í rúst, á biblíulegan mælikvarða, ef svo má segja.

Mikilvægt er að hafa það strax í huga að myndin er öll ein gríðarstór myndlíking, og þrátt fyrir að tilfinningarnar séu jarðbundnar og eflaust viðtengjanlegar fyrir einhverja, er ekki ætlast til þess að allt sé tekið bókstaflega. Þetta er ekki saga um persónur, heldur erkitýpur og augljósar staðalmyndir fyrir þemun og hugmyndirnar sem sóst er eftir. Smám saman fer myndin að spil­ast út eins og abstrakt martröð, og finna má fyrir áhrifum frá David Lynch og sérstaklega Roman Polanski, þó svo að útkoman sé algerlega einstök í sjálfri sér.

Leikstjórinn nær allavega að vinna fyrir þessu upphrópunarmerki í titlinum.

Aronofsky heldur aldeilis ekki aftur af neinu og hefur margt í huga með mother!
Fyrst og fremst höfum við hér grimma og súrrealíska skilaboðasögu sem hefur sitt að segja um sköpun, móður jörð, átrúnaðargoð, frægð, verstu eðlishvatir mannsins og hvernig eitt einhliða ástarsamband getur rýrnað með eitruðum hætti – svo aðeins eitthvað sé nefnt. Eins og það sé ekki nóg er þetta í senn eitt furðulegasta „rímix“ af gamla testamentinu og nýja sem fyrirfinnst.

Eftir stendur annars vegar frambærilegur og vandaður sálfræðihrollur en hið óvænta er að þarna undir yfirborðinu leynist líka sótsvört kómedía (án gríns). Á komandi árum mun fólk deila stíft um það hvort þetta sé lokkandi, martraðarkennt og bitastætt meistarastykki eða argasta sorp sem búið er að sósa upp úr mikilli tilgerð.

mother! er annars ekki bara fyrsta myndin frá Aronofsky sem notast ekki við tónlist frá snillingnum Clint Mansell, heldur sú fyrsta sem leikstjórinn gerir án stefja yfirhöfuð. Upphaflega var það Jóhann Jóhannsson sem vann að tónlistinni áður en ákveðið var að sleppa henni. Ákvörðun þessi reyndist vera mjög skörp.

Hvaða tónlist sem er hefði getað gert myndina meira yfirþyrmandi og trúlega fullmaníska. Rammarnir lýsa sér meira eða minna sjálfir og öll óþægindin rísa með hjálp frá fyrir­taks hljóðvinnslu, faglegri klippingu, stórglæsilegri kvikmyndatöku frá hinum fasta tökumanni leikstjórans, Matthew Libatique, og ekki síst gallalausum leiktilþrifum frá Jennifer Lawrence, enda er öll sagan sögð frá hennar sjónarhorni og töku­stíllinn í takt við það.

Lawrence hefur tekið að sér krefjandi rullu þar sem nærri því allur tilfinningaskalinn fær að njóta sín í linnulausum nærmyndum. Hvernig stórstjarnan sprengir sig andlega út í seinni hluta sögunnar gerir hann þeim mun átakanlegri. Eymdin, sakleysið og örvæntingin er trúverðug og rúmlega það.

Svo er það Javier Bardem, sem er firnasterkur og áhorfandinn veit sjaldan hvar hann hefur karakterinn. Bardem er hlýr í smáskömmtum en oftast fjarlægur, stundum jafnvel ógnandi. Ed Harris og Michelle Pfeiffer bregður einnig fyrir í mikilvægum aukahlutverkum og stimpla sig sem dularfullar, skemmtilegar og sérlega minnisstæðar viðbætur.

Ákvörðunarstaður framvindunnar er fyrirsjáanlegur en ferðin þangað er samt óljós. Að sjálfsögðu fer það varla á milli mála að ýmsar senur gætu gengið hressilega fram af fólki, minnst tvær. mother! er náttúrulega ekki gerð til þess að vekja mild viðbrögð en Aronofsky er heldur ekki eingöngu að þessu til að ögra eða predika.

Skilaboðin eru einföld en úrvinnslan er marglaga og einlæg í því hvernig myndmáli og tilfinningum er háttað, og heildarpakkinn er eitthvað sem fólk getur túlkað á mismunandi hátt. Það má vissulega deila um það hvort Aronofsky sé að reyna að troða of miklu inn eða ganga fulllangt með hið augljósa en þegar rússíbanareiðin er svona kjörkuð, hvöss, úthugsuð og dáleiðandi í geðveikinni er erfitt að hafa augun af skjánum. Hér er ekki neitt „elsku mamma“.

Besta senan:
Nauðsynlegt er að fyrirgefa.
Eeeeeða hvað?

Categories: Drama(tripp), Spennuþriller, Svört gamanmynd | Leave a comment

Enemy

Denis Villeneuve er á meðal umtöluðu leikstjóra í dag, og réttilega svo – því hingað til hefur hann ekki ennþá gert slaka mynd. Allar þær eiga það líka sameiginlegt að vera gjörsamlega dropandi af andrúmslofti, vissum drunga og jarðbundnum realisma – oftast ofinn í kringum einhverja dulúð eða martraðarkenndan spíral þar sem karakterar upplifa ákveðna örvæntingu – eða geðtap.

Flestir kvikmyndaunnendur hafa verið duglegir að hrósa myndum eins og Incendies, Prisoners, Sicario og Arrival (sem er í dag sú bjartasta sem Denis hefur á ferlinum) – enda allar á sinn hátt frábærar – en ótrúlegt þykir mér að Enemy skuli alltaf vera skilin útundan. Það er svosem ekki erfitt að skilja það; myndin er súr, narsissísk á marga vegu, ákaflega óljós en í senn svo lagskipt, grípandi, útpæld og eftirminnileg.

Og væri ekki fyrir hina ómetanlegu Nightcrawler myndi ég segja að Enemy skarti albestu frammistöðu sem Jake Gyllenhaal hefur sýnt. Í það minnsta er þetta a.m.k. óvenjulegasti leikur hans til þessa, og hvernig handritið spilar með „duality-ið“ hans er umhugsunarvert og tragískt þegar svörin skýrast, og þessi yndislega tóbaksguli og eymdarlegi tónn sem fylgir atmóinu bætir miklu við.

Enemy er óvenjuleg mynd, en hún græðir svakalega á öðru og þriðja glápi – og að mati undirritaðs sú persónulegasta, tilraunarkenndasta og mögulega besta myndin frá þegar öflugum kvikmyndagerðarmanni.

Besta senan:
Lokaskotið.

Categories: Drama(tripp) | Leave a comment

Anomalisa

Ekki er það lítið afrek að gera svona über-hversdagslega, tragíkómíska og manneskjulega litla sögu með brúðum. Segir sig líka sjálft að flest sem kemur úr hreinskilna, svartsýna en lúmskt heillandi heilabúinu hjá Charlie Kaufman sé alls ekki allra.

Þunglyndissýn Kaufmans spilar stórt hlutverk hér í handriti sem best má kalla bitra, skondna og súra stúderingu á manni sem er týndur í gráa fiðringnum og sér ekki fegurð eða ánægju nema í leiftrandi smáskömmtum, og þannig dulbýr sjarmi myndarinnar sig svolítið. Kaufman lagar þarna gamalt útvarpsleikrit sitt að stop-motion mynd í fullri lengd og deilir leikstjórakreditinu með Duke Johnson. Ferlega töfrandi blanda allt saman, fyrir utan þann mínus að leikritið hafi verið um helmingi styttra – og má alveg finna fyrir uppfyllingunum.

anomalisa-mag-02-1

Auðvelt er að dást að Kaufman fyrir einstöku, hugmyndaríku og óforskömmuðu rödd sína (og eins mikið og ég elska Adapatation eða Eternal Sunshine finnst mér Synecdoche, New York vera hans mikla meistarastykki). Anomalisa smellur hins vegar ekki alveg saman. Tek það ekki frá henni að stíllinn og umgjörðin er almennt stórkostleg og pökkuð alls konar smáatriðum. Raddleikararnir – allir þrír – eru góðir og það er harður og viðtengjanlegur áþreifanleiki sem Kaufman og Johnson skapa með nokkrum lykilsenum – og alnokkrum meinfyndnum mómentum – sem hitta beint í mark innan frústrerandi heildar.

Kaufman vill annars vegar að þú vitir alltaf að þú sért að horfa á brúður og felur ekki hönnunargalla þeirra (þó svo að það hefði ekki verið flókin vinna í eftirvinnslu að þurrka út línurnar sem brjóta upp andlitsföllin). Það var að vísu stílísering sem truflaði mig alltaf. Myndin reynir aðeins að kommentera á þetta, enda saga um gæja að brotna í sundur, en ekki nóg.

Þarna eru nokkrar fjöllaga senur, litlir súbtextar og öskrandi yfirtónar í henni en maður finnur sömuleiðis fyrir því að teygt hefur verið á sögu sem í grunninn er hvorki viðburðarrík né sérlega áhugaverð, og borin uppi af fullleiðinlegri aðalpersónu. Það eru til marglaga skíthælar og karakterar sem ná að vera skemmtilegir eða sjarmmerandi þrátt fyrir að vera viðbjóðslega gallaðir, en Michael Stone (talsettur með ágætum af David Thewlis), eins „mannlegur“ og hann er, er bara þurr, óviðkunnanlegur og þreytandi karakter.

1401x788-068-ANOMALISA-008R

Svo er það Lisa, sem Jennifer Jason-Leigh blæs ótrúlega miklu lífi í, en hún er heldur ekki mjög þrívíð eða spennandi persóna. Heillandi kannski, en ótrúverðug. Bestur er Tom Noonan í hlutverki allra annarra karaktera í myndinni, því fyrir Michael er heimurinn svo einsleitur að bókstaflega allir í kringum hann hljóma og lúkka eins.

Skilaboð sögunnar eru umræðuverð innan marka en undir yfirborðinu er ekki úr miklu að moða. Anomalisa kemur inn á einamanaleika, tengingarleysi og bölvunina að sjá veröldina frá mjög lokuðu sjónarhorni, en það er fátt og lítið sem Kaufman hefur að segja sem hann kom ekki þrefalt betur að í einum-tólfta af þemunum sem komu fyrir í Synecdoche, New York. Kannski verður hún betri því oftar sem ég sé hana, en tvær undanfarnar tilraunir hafa ekki gert mig vongóðan á það.
Og ekki að það eigi að skipta máli, en Team America er eiginlega búinn að skemma alla möguleika á því að hægt sé að taka ‘raunsætt’ kynlíf alvarlega í brúðumynd framar.

Leikararnir og samtölin standa samt upp úr, en þó svo að Kaufman komi þér áreynslulaust og vel í hausinn á manni eins og Michael þýðir ekki endilega að það sé hvorki forvitnilegur staður til að vera á eða spennandi bíósaga. En athyglisverð brúðusýning? sannarlega!

 

fin

Besta senan:
Michael mætir fyrrverandi.

Categories: Drama(tripp) | Leave a comment

Powered by WordPress.com.