Drama(tripp)

Anomalisa

Ekki er það lítið afrek að gera svona über-hversdagslega, tragíkómíska og manneskjulega litla sögu með brúðum. Segir sig líka sjálft að flest sem kemur úr hreinskilna, svartsýna en lúmskt heillandi heilabúinu hjá Charlie Kaufman sé alls ekki allra.

Þunglyndissýn Kaufmans spilar stórt hlutverk hér í handriti sem best má kalla bitra, skondna og súra stúderingu á manni sem er týndur í gráa fiðringnum og sér ekki fegurð eða ánægju nema í leiftrandi smáskömmtum, og þannig dulbýr sjarmi myndarinnar sig svolítið. Kaufman lagar þarna gamalt útvarpsleikrit sitt að stop-motion mynd í fullri lengd og deilir leikstjórakreditinu með Duke Johnson. Ferlega töfrandi blanda allt saman, fyrir utan þann mínus að leikritið hafi verið um helmingi styttra – og má alveg finna fyrir uppfyllingunum.

anomalisa-mag-02-1

Auðvelt er að dást að Kaufman fyrir einstöku, hugmyndaríku og óforskömmuðu rödd sína (og eins mikið og ég elska Adapatation eða Eternal Sunshine finnst mér Synecdoche, New York vera hans mikla meistarastykki). Anomalisa smellur hins vegar ekki alveg saman. Tek það ekki frá henni að stíllinn og umgjörðin er almennt stórkostleg og pökkuð alls konar smáatriðum. Raddleikararnir – allir þrír – eru góðir og það er harður og viðtengjanlegur áþreifanleiki sem Kaufman og Johnson skapa með nokkrum lykilsenum – og alnokkrum meinfyndnum mómentum – sem hitta beint í mark innan frústrerandi heildar.

Kaufman vill annars vegar að þú vitir alltaf að þú sért að horfa á brúður og felur ekki hönnunargalla þeirra (þó svo að það hefði ekki verið flókin vinna í eftirvinnslu að þurrka út línurnar sem brjóta upp andlitsföllin). Það var að vísu stílísering sem truflaði mig alltaf. Myndin reynir aðeins að kommentera á þetta, enda saga um gæja að brotna í sundur, en ekki nóg.

Þarna eru nokkrar fjöllaga senur, litlir súbtextar og öskrandi yfirtónar í henni en maður finnur sömuleiðis fyrir því að teygt hefur verið á sögu sem í grunninn er hvorki viðburðarrík né sérlega áhugaverð, og borin uppi af fullleiðinlegri aðalpersónu. Það eru til marglaga skíthælar og karakterar sem ná að vera skemmtilegir eða sjarmmerandi þrátt fyrir að vera viðbjóðslega gallaðir, en Michael Stone (talsettur með ágætum af David Thewlis), eins „mannlegur“ og hann er, er bara þurr, óviðkunnanlegur og þreytandi karakter.

1401x788-068-ANOMALISA-008R

Svo er það Lisa, sem Jennifer Jason-Leigh blæs ótrúlega miklu lífi í, en hún er heldur ekki mjög þrívíð eða spennandi persóna. Heillandi kannski, en ótrúverðug. Bestur er Tom Noonan í hlutverki allra annarra karaktera í myndinni, því fyrir Michael er heimurinn svo einsleitur að bókstaflega allir í kringum hann hljóma og lúkka eins.

Skilaboð sögunnar eru umræðuverð innan marka en undir yfirborðinu er ekki úr miklu að moða. Anomalisa kemur inn á einamanaleika, tengingarleysi og bölvunina að sjá veröldina frá mjög lokuðu sjónarhorni, en það er fátt og lítið sem Kaufman hefur að segja sem hann kom ekki þrefalt betur að í einum-tólfta af þemunum sem komu fyrir í Synecdoche, New York. Kannski verður hún betri því oftar sem ég sé hana, en tvær undanfarnar tilraunir hafa ekki gert mig vongóðan á það.
Og ekki að það eigi að skipta máli, en Team America er eiginlega búinn að skemma alla möguleika á því að hægt sé að taka ‘raunsætt’ kynlíf alvarlega í brúðumynd framar.

Leikararnir og samtölin standa samt upp úr, en þó svo að Kaufman komi þér áreynslulaust og vel í hausinn á manni eins og Michael þýðir ekki endilega að það sé hvorki forvitnilegur staður til að vera á eða spennandi bíósaga. En athyglisverð brúðusýning? sannarlega!

 

fin

Besta senan:
Michael mætir fyrrverandi.

Categories: Drama(tripp) | Leave a comment

Inherent Vice

Þó Paul Thomas Anderson geri ekki alltaf snilldarmyndir þá er maðurinn samt sem áður snillingur. Með Inherent Vice er eins og hann hafi farið rétt að hér um bil öllu, en innihaldslega er meira til að annaðhvort dást eða hlæja að – og með – heldur en límast við. Fyrir hans gæðakvarða kalla ég það vönduð vonbrigði.

Skemmtanagildi hefur sjaldan verið í forgangi hjá þessum leikstjóra, og verður e.t.v. hver kvikmynd frá honum enn óaðgengilegri í mainstream-samhengi heldur en sú seinasta. Aðlögun á samnefndri skáldsögu eftir Thomas Pynchon ætti áreynslulaust að kljúfa áhorfendum Andersons í tvær fylkingar á ný. Með fullri virðingu fyrir Pynchon sem penna þá er framvinda efniviðarins ekki að öðlast neinn umræðuverðan púls í þessari aðlögun. Hún öðlast annars vegar mikið líf í vissum sprettum, eins langt og það er á milli þeirra.

Ástríðan sem leikstjórinn sýnir römmum, leikurum sínum og miskunarlausri smámunasemi fyrir andrúmslofti, tilfinningaspennu og umgjörð er alveg til staðar. Ég kann líka vel við tilbreytingu hans að leyfa sér að vera með léttan og sprellifandi húmor aftur (seinast var það Boogie Nights!). Hann bindir sig sömuleiðis grimmt við ritstíl, byggingu og rödd höfundarins Pynchon og býður hráefnið upp á flippaða, ruglingslega grashausa-noir sögu (m.ö.o. má blanda áferðina á The Long Goodbye saman við kómíska stefnuleysið úr Big Lebowski).

1412102722000-Inherent-Vice

Þetta er ein furðulega grilluð mynd, með mikinn karakter, ljúfan períódusjarma og lítinn haug af undarlegum uppákomum. Það sem hangir ekki saman er hvað hún er köld, óþarflega flækt (og merkilegt nokk… það er viljandi) og langdregin.

Það kemur út eins og PTA vilji að þú sjáir myndina undir tilsettum áhrifum en ég get ekki mögulega ímyndað mér annað en að myndin komi í staðinn þannig út sem stórspennandi svefnmeðal. Á tveimur og hálfum tíma er myndin óhrædd við að taka sinn tíma og labba í hringi með frásögnina og gera allt sem hún getur til að hún öðlist einhverja orku. En til að reyna að spegla áhrif aðalpersónunnar er ræman á tíðum dáleiðandi, nojuð og súrrealískt fyndin.

Bæði söguþráðurinn og stakar senur geta tekið hinar fríkuðustu random stefnur, og Joaquin Phoenix stendur sig tvímælalaust eins og hetja sem spæjarareykháfurinn Doc Sportello, sem þuklar sig í gegnum margbrotinn vef. Og þegar aðalkarakterinn í noir-sögu er ítrekað gaddfreðinn má vissulega gera ráð fyrir að hann eigi erfitt með að púsla hlutunum svolítið saman.

inherent-vice-joaquin-phoenix-benicio-del-toro-josh-brolin-desk

Phoenix er – eðlilega – í sínum eigin heimi út alla myndina, en fyrst öll myndin/Pynchon er hvort eð er í eigin heimi er það vel viðeigandi. Sportello er slakur, skemmtilegur, fyndinn (…þetta öskur!) og makalaust glórulaus karakter og Phoenix kemur miklu til skila milli hamagangsins, keðjureykinganna og undrunarsvips síns. Þetta gullfallega og þrælskemmtilega litla hlaðborð fjölda leikara er einmitt það sem gerir myndina.

Anderson gerir sitt besta til að sjá til þess að allir sérvitringarnir sem Phoenix rekst á er eins eftirminnilegur og tíminn leyfir, því margir mega þar kalla sig heppna ef þeir fá fleiri en eina til tvær senur. Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér hversu þurr myndin væri án t.d. Reese Witherspoon, Martins Short, Benicio Del Toro eða Hong Chau, sem stelur hreint og beint senunni sem atvinnunuddari, innan gæsalappa, sem er alltaf með svör sín á hreinu.

inherent-vice-image-joaquin-phoenix-katherine-waterston

Í stærri hlutverkunum er engin feilnóta slegin. Josh Brolin er endalaust fyndinn sem hrynjandi, hrokafull lögga með leikaraferil á niðurleið og Katherine Waterston gjörsamlega eignar sér myndina með einni senu. Og það hefur ekkert með það að gera að hún sé þar nakin í afar langri töku. Leikkonan er samt svo góð að það er hundfúlt að leyfist ekki meiri tími handa henni í þessum risastóra karakterhaug, sérstaklega þar sem hún er ekki bara ein heldur sú mikilvægasta. Auklega býður hún einnig upp á eina stystu ,,alvarlegu“ kynlífssenu sem ég hef séð í einum ramma þar sem performans gæjans vinnur ekki mörg kúl-stig. Við erum kannski að tala um svona 8 epískar sekúndur tótal. En hún kvartaði að vísu ekki…

Svo gæti það verið bara ég, en ég er heldur ekki svo viss um að Joanna Newsom sé besti þulurinn fyrir myndina. Það meikar sens að persóna hennar sé hlutlaus sögumaður en röddin hennar er svo róandi að hún svæfir, í mynd sem þegar nýtur þess að drolla.

En á meðan PTA hefur margt um persónur sínar og tímabilið að segja (enn og aftur syrgir hann og kveður ákveðið kúltúrs-era með mikilli fortíðarþrá), þá gagnast innihaldið ekkert á því að rammpakka svona miklum upplýsingum inn í söguna og „ráðgátuna“ þegar í ljós kemur síðan hve litlu allt plottið skiptir máli. Hér snýst það s.s. meira um trippuðu ferðina í stað áfangastaðarins eða fullnægjandi samantektar.

inherent-vice-owen-wilson-joaquin-phoenix

Ég skil að PTA vilji halla sér aftur og leyfa andanum og afslappaða farsagangnum að skolast yfir áhorfandann en upplýsingaorgían vinnur svolítið gegn því markmiði. En eins og allar myndirnar hans betlar þessi eftir öðrum séns eftir fyrstu meltingu, en út frá eigin reynslu breytti það litlu. Hver einasta sena er kjaftfull af litlum smáátriðum sem segja söguna betur en útkoman var samt alveg jafnvolg.

Stíllinn grípur, þó hann skorti meira ímyndunarafl til að skera sig út. Hann helst poppar út í períódunni þegar músíkvalið skreytir til. Robert Elswit hefur átt betri daga á kamerunni, en dregur það lítið frá því að hann merkir myndina alprýðilega með gullfallegum víðskotum, lýsingum og sterkum pallettum. Þarna koma orðin tvö aftur upp í hugann: vönduð vonbrigði.

-1361bddf-0f04-487b-8bbc-781f6f705837

Ef við tölum um Boogie Nights, Magnolia, Punch-Drunk Love, There Will Be Blood og 80% af The Master er ljóst að Inherent Vice stendur þeim langt að baki en á samt skilið sinn költaða hóp. Hún er athyglisvert og skemmtilega ruglað tímaflakk en Anderson á alveg að eiga meira grípandi efni í sér sem hann getur sjálfur frumsamið.

sexa

Besta senan:
Martin (ekki) Short á kókaíni.

Categories: Drama(tripp), Eitthvað annað, Gamanmynd | Leave a comment

The Congress

Oft eru Hollywood-leikarar búnir að hrósa nýjustu (Mo-Cap) byltingarþróunum hjá tölvudeildum bransans og djóka síðan með það að einn daginn verður varla þörf á þeim lengur, sem væri fyndnara ef það væru ekki einhver sannleikskorn í því. Kannski mun iðnaðurinn einn daginn þreytast endanlega á stjörnustælum, sett-leiðindum, neyslunum og ekki síst öllum óhjákvæmilegu hrukkunum þegar forrit geta séð um svo margar ‘reddingar’ þegar kemur að bíóstjörnum. Kannski er Hollywood ein stór uppsigling að fasisma.

Leikstjórinn Ari Folman, maðurinn á bakvið íraelsku, Flash-teiknuðu heimildarperluna Waltz with Bashir, veltir hér grimmt fyrir sér þessari pælingu. Stillir hann henni svo upp sem frumlegan grunn fyrir breiða og abstrakt sci-fi ádeilu á samfélag, iðnaðinn, fólk, tækniþróun, útlitsdýrkun, ímyndardýrkun og síðan magnast þetta upp í einfaldlega kexruglað sýrutripp, með dökkan kjarna og tilfinningaríka sál. Hana er svo að finna í sögu sem leggur undir sig persónulegri hugtök eins og tengingarleysi og eftirsjá. Kemur kannski engum á óvart að svona mynd er alls ekki allra.

Ekkert er svosem nýtt við það að blanda saman læv-aksjón og teiknimynd, en þessi 50/50 mixtúra þykir mér eitthvað extra spes. Skiptingin er fjarri því að vera gallalaus en upplifunin sem á móti kemur er frekar einstök. Mögulega hefði betur stemmt við innihaldið að skipta yfir í tölvu(…en ekki 2D-)grafík en svipur Folmans er sterkur og fyrir mitt leyti erfitt að standast góðar handteikningar núorðið.

Staðlaði titillinn lofar þó ekki beint einhverri maníu við fyrstu sýn, en The Congress fer létt og rólega af stað en kemur því fljótlega til skila hversu snjallt og öðruvísi handritið er. Myndin er alveg höfðingjalega frábær fyrstu 45 mínúturnar þegar hún er öll leikin. Myndatakan er góð, litirnir og skotin hugsuð út, leikararnir eru snillingar og efnið hættulega tælandi. Mo-Cap atriðið í lokin á þessum fyrsta (segjum) þriðjungi er eitt og sér ógleymanlegt. Fyndið, sorglegt, og verður seinna aldrei toppað á tilfinningaleveli.

Svo byrja áhrifin svo að kikka inn, með fullu afli. Þegar teiknimyndin tekur við er skiljanlegt að hrifning fólks getur skotist hratt í aðra eða hina áttina. Aldrei kemur samt upp sú tilfinning eins og maður sé dottinn inn í einhverja allt aðra sögu. Aðra týpu af mynd, jú, en sagan heldur alltaf sínu striki og verður síðan enn villtari í pælingum sínum þegar lengra líður á hana og tripp-tilfinningin nær einhvers konar geggjuðu hámarki áður en slakað er síðan á undir rest. Folman gerir hvern einasta ramma að einhvers konar listaverki og passar að halda augunum uppteknum, með súrrealísma sem minnir á tíðum á Ralph Bakshi.

Yfirhöfuð kemur leikstjórinn með eitt kjarkaðasta effort sem ég hef séð lengi, bæði með skotunum sem myndin kemur með á iðnaðinn (ætli Miramax og Paramount séu fúlir?) og bara almennt gegnum leikkonuna Robin Wright. Þetta er hennar mynd og satíran öðlast mun sterkara bit með því að hún skuli leika „ýkta“ útgáfu af sjálfri sér – þ.e.a.s ef við ímyndum okkur það öll að hún hafi óskiljanlega hrapað með ferilinn eftir Forrest Gump. Wright er býsna ótrúleg og fær gott til að spila með á móti frá Harvey Keitel, Danny Huston (alltaf traustur! alltaf), Paul Giamatti (hann líka!) og fleirum. Það má samt ekki vanmeta það sem Wright og aðrir – en hún sérstaklega – leggja á sig fyrir teiknimyndaatriðin. Jon Hamm er nokkuð fínn þarna með sína karlmannlegu rödd.

Í þessari sögu vefjast saman mörk raunveruleikans og fantasíu, og samkvæmt henni er ekkert í heiminum sem meikar ekki sens, því allt er hvort sem er í hausnum á okkur. Hugmyndirnar eru póstmódernískar og djúpar en ekki allar grandskoðaðar nóg. Sóst er eitthvað laulega í bókina The Futurological Congress eftir Stanisław Lem (hinn sami og samdi Solaris), sem var m.a. einn af tugum fyrirmynda The Matrix. Í seinni helmingnum byrjar hins vegar myndin að leysast örlítið upp, kannski vegna þess að hún kýs að tapa sér meira í sjónræna montinu. Á efnislegu stigi kemst hún upp með það en heildarupplifunin er of ójöfn til að geta stimplað sig almennilega inn tilfinningalega þegar vissir hápunktar koma, og því er þetta meira mynd til að dást meira að yfir heildina heldur en að hleypa tárunum út fyrir.

Markmiðin sem The Congress setur sér eru aðeins hærri heldur en hún nær en hvernig hún háttar þessu létta skilaboða-mændfokki er nógu merkilegt til að gera hana umræðunnar virði. Unnendur fríkaðra teiknimynda og yfir höfuð kvikmynda sem hugsa öðruvísi ættu allir að gefa henni séns. Það er alltaf gaman að vera ein sinnar tegundar og þessi mynd er það án spurninga.

thessi
Besta senan:
Mó-kappið.

Categories: Drama(tripp), Sci-fi | Leave a comment

Powered by WordPress.com.