Eitthvað annað

Fullir vasar

Yfirleitt er alvarleikinn allsráðandi í íslenskum glæpamyndum, sem á góðum degi getur leitt til bitastæðra verka en á versta tíma framkallað hlátursköst óviljandi, sem er því miður algengara tilfellið. Fyrir hverja Reykjavík-Rotterdam eða Svartur á leik eigum við minnsta kosti eina Kalda slóð og þrjár í líkingu við Austur.

Með Fullum vösum er spaugilegi tónninn annars vegar gefinn strax frá byrjun og ljóst er að aðstandendur vilji að þú hlæir að verkinu. Því gæti þetta vel verið fyrsta íslenska glæpakómedían í háa herrans tíð (trúlega síðan Sódóma, ef ekki Óskabörn þjóðarinnar), þar sem brandarar, sjomlar og gúmmítöffarar ganga fyrir. Fyrir leikstjórann Anton Sigurðsson er þetta mikil breyting á stíl frá fyrri verkum (Grafir & bein, Grimmd) og sækir kappinn hér í naglhörðu og léttgeggjuðu takta Guy Ritchie-mynda, Snatch og Lock, Stock svona helst, í bland við langan sketsaþátt.

Fullir vasar nær samt aldrei að komast yfir yfir einn hjalla og heilt yfir má segja að þetta sé meiri vörukynning heldur en bíómynd, með vænan tíma gefinn til þess að „plögga“ Domino’s, Vodafone og Húsasmiðjuna, sem dæmi. Myndin sjálf er innihaldsrýr og er lítið gert við karaktera sem tengist því ekki að tala út í loftið eða spinna brandara. Heppilega er ýmislegt í dýnamík drengjanna sem smellur og fyllir fínt í tómarúmið.

Myndin snýst annars um hinn lygasjúka og almennt misheppnaða Arnar (leikinn af Hjálmari Erni Jóhannessyni), sem þarf að koma sér úr skuld við glæpamann með því að ræna banka með félögum sínum, með aðeins nokkra daga til stefnu.

Áhorfandinn finnur aldrei fyrir þessari pressu og kemur út eins og vanti allt tímaskyn í framvinduna. Oft kemur líka fyrir að senur stefna hvergi og eru því yfirleitt bara til að tefja. Þetta kemur sérstaklega fyrir í auglýsingahléunum sem virðast vera byggð inn í söguna.

Fígúran Arnar er dæmigerður þöngulhaus sem talar út um rangan enda og kemur sér stöðugt í vesen. Hjálmar Örn felur annars reynsluleysið sitt vel og sinnir þessu hlutverki af miklu öryggi, en karakterinn hans er alltof háfleygur og álíka lúmskur og sleggja í nárann. Það er erfitt að hlæja að honum, eða með, og stuðningur frá áhorfandanum er enginn.

Það hefði getað orðið önnur saga ef myndin hefði þróað meira tengsl hans við dóttur sína, en hún hverfur alveg inn í bakgrunninn, eins og margt annað.

Hópurinn á skjánum er yfir heildina fjörugur og henta flestir efninu og týpum sínum vel. Strákarnir spila að mestu frekar náttúrulega hvor af öðrum – fyrir utan einn lykilmeðlim hópsins sem er áberandi stirðari en hinir. Aron Mola hefur vissa útgeislun og Egill Ploder á heiðurinn á nokkrum betri frösum myndarinnar.

Sveinn Ólafur Gunnarsson á einnig góða innkomu og Hilmir Snær Guðnason hefur masterað óborganlega drullusokkinn með glæsibrag síðan úr Fóstbræðrum. Sem kaupauki eru kostuleg gestahlutverk dreifð víða, sem bætir með naumindum upp fyrir ákaflega vannýttan Ladda, en hefði heldur ekki sakað að gefa leikkonum eitthvað til að gera.

Fyrri hlutinn er brattur á meðan seinni leysist meira eða minna upp í graut af klisjum og uppfyllingum. Það er sitt og hvað af bröndurum sem ganga upp (þar á meðal eitt kostulegt rifildi á táknmáli) og stöku sinnum er beitt eftirtektarverðum brögðum með klippingu og upptöku, þrátt fyrir að myndin detti úr fókus annað slagið og virki í heildina óslípuð. En langi þig í pitsu, glænýjan jeppa eða heitan pott að myndinni lokinni, er hún klárlega að gera eitthvað rétt.

„Týpískt íslenskt“ er þetta þó svo sannarlega ekki. Það má myndin eiga.

Besta senan:
„Domino’s þögnin“

Categories: Eitthvað annað, Grín | Leave a comment

Split

Það er erfitt að taka því ekki með miklum fyrirvara þegar fólk á alnetinu og víða hrósar nýrri ræmu frá M. Night Shyamalan og kallar hana „comeback-myndina“ hans. Seinast heyrðist eitthvað sambærilegt í kringum (grín?)hrollvekjuna The Visit og þótti mér persónulega sú mynd vera á meðal hans verstu, næstum því á pari við The Happening nema bara ekki nærri því eins fyndin – eða leiðinleg. Nú hef ég heyrt svipað sagt um Split, og fyrir utan ágætistilraun til að búa til/stækka ákveðinn „bíóheim“ og snargeðveika frammistöðu frá James McAvoy, sé ég ekki alveg hvaða mynd aðrir eru að horfa á.

Hér er nefnilega ein ólgandi slæm mynd á ferð. Athyglisverð á köflum, hressilega múdí svosem og daðrar við ágætis þemur og klikkanir, en framvindan er undarlega óspennandi, steríl og viðburðarlítil. Efniviðurinn er truflandi en nálgunin er á tíðum eins og Shyamalan sé að rembast til þess að soga allan kraft úr honum og drekkja honum í staðinn með vondum samræðum og þar inniföldum glötuðum exposition-díalog. Í besta falli er þetta magnað demó-vídeó til þess að sýna hvað McAvoy getur lifað sig sterkt inn í (mörg) hlutverk (samtímis), en meira að segja á því sviði finnst mér myndin svíkja áhorfandann svolítið.

Shyamalan getur ekki kallast annað en merkilegur kvikmyndagerðarmaður, til hins betra eða verra, því fyrst og fremst REYNIR hann að gera eitthvað ferskt og persónulegt við fínar hugmyndir. Hins vegar, eftir að Signs kom út, hefur mér þótt bölvun hvíla á manninum sem lýsir sér þannig að hann kafnar í eigin metnaði og egói, verður þá fyrir vikið bara áttavilltur, steiktur og með nánast engan fókus á því hvað hann vill raunverulega segja eða gera við myndirnar sínar. Það er eins og hann skrifi einungis eitt draft af handritum sínum og kalli það gott.

Einu sinni átti Shyamalan framtíðina alla fyrir sér og ýmsir fóru að nota stóru orðin (svosem „næsti Spielberg“ eða Hitchcock), en hlutirnir sem hann var býsna góður í fyrst – m.a. að byggja upp lágstemmda spennu, fletta ofan af dulúð, stilla upp klæðskerasniðið andrúmsloft eða leikstýra barnleikurum – hafa farið hratt fölnandi með hverju verkefni. Sjálfur á ég erfitt með að trúa því að maðurinn sem gaf okkur The Sixth Sense og Unbreakable (hans besta – umhugsunarlaust!) skuli seinna meir hafa misst öll tök á því að finna sannfærandi frammistöðu í ungu fólki með myndum eins og The Last Airbender eða After Earth.

Að kalla Split bestu mynd leikstjórans í áraraðir er eins og að segja að betra sé að láta einhvern míga á fótleggina þína frekar en ofan mytti. Shyamalan eyðir miklu púðri í mannránsplott þar sem þrjár stelpur eru haldnar fastar. Hins vegar er ekki nema áhugi fyrir einni þeirra, þýðandi að hinar tvær falla rakleiðis í gleymsku og gengur voða illa að vera annað en slétt sama um örlög þeirra. Samt er nógu mikil áhersla á persónuleikadauðu stelpurnar til þess að við fáum aldrei að kynnast nema brot af þeim einstaklingum sem skiptast á meðvitund McAvoy. Sagan vill meina að þarna í honum séu rúmlega 20 persónuleikar, en varla helmingur þeirra einstaklinga sem fylgja honum er nafngreindur – og helmingurinn af þeim helmingi virkar eins og sami karakterinn.

Sagan fyllir líka upp í framvinduna með mikilvægum flassbakk-senum sem Shyamalan rétt skimar aðeins yfir.  Mesta kjötið í sögunni er þar að finna en Shyamalan ruglar saman „less is more“ nálgun og ófullnægjandi kitli. Bláendirinn trekkir upp (…ég viðurkenni) smáááá spennu fyrir áframhaldið, hvernig sem það mun spilast út, en atriðið sem er hérna klesst aftan á myndina er þvingað og býsna hallærislegt.

Split er fyrir hina allra hörðustu Shyamalan-aðdáendur, þó ég hafi ekki hugmynd um hvort þeim hafi farið fækkandi eða óútskýranlega fjölgandi gegnum árin. En hún virkar ekki sem sjálfstæður þriller og virkar enn púðurlausari sem eins konar „origin“ saga. Væri ekki fyrir McAvoy einan (eða… tólf) og mjög sannfærandi grátur frá Anyu Taylor-Joy (sem var FRÁBÆR í The Witch) væri þessi mynd frekar mikil tímasóun.


Besta senan:
Hedwig tekur dansinn.
Segjum það bara.

Categories: Eitthvað annað, Spennuþriller | Leave a comment

Love (3D)

Eins mikið og ég er viss um að Gaspar Noé kunni að meta hæperbólið, þá er LOVE (3D) ekki beinlínis nógu transgressíf til að hljóta titilinn ‘djarfasta kvikmynd ársins’ eins og svo margir halda, enda lítil ástæða til þess. Í henni er ekkert sem ekki er hægt að finna á nokkrum sekúndubrotum á internetinu hvað hasar í svefnherberginu varðar og myndin er sannarlega ekki að segja neitt nýtt eða betur um ástina, og undarlegra þykir mér að hún er klárlega mildasta og þar með meinlausasta mynd leikstjórans til þessa – en í staðinn er hún hans persónulegasta.

CMHUGNFXAAAPvOG

Gaspar er alls ekki maður sem kallar fram volgar tilfinningar, sama á hvorum endanum þú lendir með myndirnar hans. Það er erfitt að klára af heila Gaspar-mynd án þess að fussa og sveia nafni hans með bæði lúmskri fyrirlitningu og heilmikilli aðdáun. Hann elskar að ganga fram af áhorfendum sínum, með grimmd, óþægindum, ögrun eða einfaldlega einhæfum brögðum. Því er hann ákaflega góður í því að gera kvikmyndir sem snerta erfið og merkileg efni en umfram allt myndir sem mann langar ekkert sérstaklega mikið til að horfa á aftur.

Love hefur ekki miskunnarlausa bitið sem t.d. Irreversible hafði né fílósófíurnar og einstöku, draumakenndu stílbrögðin á pari við Enter the Void en þrátt fyrir alla sýniþörfina hefur hún gallhörð tök á sínu umfjöllunarefni, kemur skilaboðunum áleiðis og vinnur úr þeim með eftirminnilegum hætti.

Þegar James Cameron kom þrívídd aftur í bólgandi tísku bjóst hann að öllum líkindum seint við því að listrænn og opinn argentískur furðufugl myndi nýta sér formið til að sýna ástarleiki og stinna líkamsparta í ólgandi nærmynd. Lostaleikirnir í LOVE 3D eru kannski ekki allt sem býr henni að baki en þeir gefa klárlega mynd eins og Fifty Shades of Grey mikið til að hundskammast fyrir og lítur hún í samanburði út eins og Inside Out, eins hirðir Gaspar til sín heitið ‘óbeisluð gredduepík’ sem Lars von Trier taldi sig sjálfsagt áður eiga með Nymphomaniac.

love-skip-crop

Ekki er mikið um sögu að ræða eða narratífu. Myndinni er stillt upp eins og sveittri og dramatískri minningarhrúgu, enda saga sem er mest sögð í tættu endurliti um ástarsamband frá aðallega sjónarhorni kynlífsins. Hún virkar fyrir vikið pínu stefnulaus en er alls ekki merkingalaus. Áhorfandinn gerist fluga á vegg – og óbeinn þátttakandi hvort sem honum líkar það betur eða verr. Það hefði verið hægt að segja þessa sögu án þess að fókusa svona skýrt á kynlífið. Þá hefði hún verið stílískur og pínu athyglisverður grautur – í dæmigerðari kantinum – um hæðir, lægðir og geðköst ástarinnar og eðli manneskjunnar. Kynlífið gegnir oftast tilgangi og gefur myndinni annars vegar (fyrirgefið frönskuna…) mikið „bragð“.

Noé leikur sér með ákveðna fjölbreytni innan einhæfa rammans sem hann hefur með því að sýna ýmsar ólíkar týpur af svipuðum athöfnum; Reitt kynlíf, blítt, stutt, langt, persónulegt, ópersónulegt, undir áhrifum, innandyra, almannfæri, trekantur, léttar orgíur o.fl. En meðan ég rifja upp ógleymanlegu orð Ridleys Scott um þetta mál („Sex is boring, unless you’re having it“) verður að segjast að graðhundurinn Noé reynir afskaplega á þolinmæðina með í völdum tilfellum, og þó kynlífið sé oftast smekklega gert (að frátöldum þeim skotum sem sýna fullt afl 3D-tækninnar í brandaralegri nálægð) og hann missir sig aldrei of mikið í subbulegum nærskotum, er bara takmarkað sem hann vill eða nær að bæta við með nálguninni og þessu myndmáli. Eins og hann freistist til að ýta viðtengjanlega ‘innihaldinu’ frá á köflum til að víkja fyrir rúnkefninu.

Leikararnir eru vissulega hugrakkir fyrir að stunda raunverulegar samfarir á kameru og bera hold sitt eins og ekkert sé eðlilegra (partur af tilganginum er einmitt til að sýna hversu náttúrulegt þetta allt er…) og setja sig í hvaða stellingar sem leikstjórinn hefur beðið um, en það gefur þeim svosem ekki frípassa til að afsaka heildarframmistöðu þeirra. Myndin er ekki alltaf vel leikin og karakterarnir hvorki marghliða né sérlega áhugaverðir, en það sem reddar þeim rétt svo er að umfjöllunarefnið sjálft ristir aðeins dýpra. Love er realísk mynd sem hefði þó getað orðið ógleymanlegri ef helstu leikarar væru ögn meira sannfærandi, og sama gildir oft um díalóginn. Yfirleitt hljóta klámmyndir einmitt svipaða gagnrýni en þessi er ekki alveg svo illa stödd þar. Lykilparið í myndinni nær ágætlega saman í samtalssenum, hitinn svosem til staðar en kemistrían misjöfn. Ég held að Gaspar hefði komið betur út úr því að skrifa og gera myndina á frönsku.

346782.jpg-c_640_360_x-f_jpg-q_x-xxyxx

Ef það er hægt að reiða á eitthvað í Noé-myndum – a.m.k. undanfarið – þá er það kröftug og nýjungarík kvikmyndataka. Hvernig hann leikur sér með uppstillingar, litafiltera og lýsingu gefur öllum myndum hans einkenni sem eru hér um bil dáleiðandi, reyndar ‘trippí’, og fjandi góð tónlistarnotkun vantar heldur ekki upp á skreytinguna að gera.

Það liggur þó við að mig langi til að draga nokkur stig frá Noé fyrir að reyna að sprauta egóinu sínu í myndina við hvert gefið tækifæri. Hann kemur ágætlega út í smáhlutverki listadólgs en þegar tveir karakterar í myndinni eru nefndir eftir honum og reglulega er vitnað í sláandi Love-hótelið úr Enter the Void er öruggt að hann sé fyrstur og líklegastur til að gæla við sjálfan sig á meðan lengdinni stendur. Og myndin er heldur ekki stutt. Hún er lengi að líða og hefði mikla snyrtingu mátt þurfa að halda í klippingunni (ofnotkunin á blikkandi, svörtum römmum verður einnig pirrandi) en hins vegar er áhrifaríkur tilgangur með tímahoppinu og byggingunni og endirinn hreyfir smávegis við, á einn hátt eða annan.

enhanced-buzz-wide-2833-1432298231-11 (1)

Miðað við kynningarefnið lítur Love 3D varla út fyrir að vera annað en óvenjulega vel skotin klámmynd, en á bakvið alla gredduna leynir hún á sér sóðalega hreinskilna, ágenga, sannleiksríka og prakkaralega litla sögu um nánd og eftirsjá í mjög skerandi mynd. Hún veitir ekkert gríðarlegt innsæi í sitt umfjöllunarefni og Noé nær sjálfsagt best að ganga þá línu með að sýna hvernig titilfyrirbærið hjá ástarsjúkum og þröngsýnum ungum manni jaðar við hreina geðveiki, enda fátt meira sem getur blindað okkur eða kallað fram úr okkur sterkustu tilfinningar, jákvæðar sem neikvæðar undir gefnum kringumstæðum.

Lítið sjokk í þessu, bara vönduð og villt eðlilegheit. Ég á enn eftir að sjá margar beinar klámmyndir sem hafa eins mikinn áhuga á mannlega eðlinu og litlu mómentunum sem tengja okkur oft saman, þó innihaldið sé lítið sem var ekki t.a.m. betur höndlað og næstum jafn bersýnislega í Blue is the Warmest Color eða jafnvel Lie with Me. Myndin er heldur ekki linnulaus ríðingarveisla í líkingu við 9 Songs en það sem skilur eftir sig er alveg þess virði að skoða.

Hver áhorfandi metur bara fyrir sig hvort hann vilji spóla yfir „söguþráðinn“ eða drekka þetta allt í sig.

thessi

Besta senan:
Noé fær á baukinn og Disco Science (úr Snatch, muniði?) flýgur í gang.

Categories: Drama, Eitthvað annað | Leave a comment

Powered by WordPress.com.