Eitthvað annað

John Wick: Chapter 3 – Parabellum

Stundum má velta því fyrir sér hvort John Wick myndirnar séu eða verði afskrifaðar af mörgum í framtíðinni sem taumlaust ofbeldisklám (sem sérstaklega daðrar við innbyggt byssublæti). Að þær séu fátt meira en sundurteygðar afsakanir til að snillingar monti sig af koríógraffi, látum og typpakeppnum – og sé raunverulega engin saga eða þýðing á bakvið þetta allt.

Þarna kem ég inn, sem bæði skammarlaus Keanu-aðdáandi og klappstýra fyrir þessa seríu, og berst dyggðarlega fyrir því að segja að þessar myndir hafa næstum því skapað eigin sérflokk hvað meint ofbeldisklám varðar – þess vegna hef ég alltaf verið hrifinn af lýsingunni “ofbeldisballett”.

John Wick-myndirnar hafa fótað sig upp í það að vera ekkert annað en masterklassa-hasarveislur, þar sem saga og örk eitursvalrar hetju mótast í gegnum magnandi hasarinn þar sem hann bókstaflega lemur djöfla sína frá sér í leit að endurlausn, og sjálfum sér í raun. Það er eitt að segja sögu sem reglulega kallar fram eftir slagsmálum og eltingarleikjum, en að segja söguna með slagsmálunum, hnífakeppnunum, hestareiðunum og byssuhvellunum er snúinn galdur. Mad Max: Fury Road er til dæmis hið fullkomna dæmi um það hvernig hasarmynd leggur út framvindu og sýnir persónusköpunina mest megnis þögult og með gjörðum án þess að missa nokkur tök á adrenalíninu.

Ekki ósvipað má segja um John Wick: Chapter 3 – Parabellum; lengstu, hörðustu, ýktustu og trúlega fyndnustu mynd seríunnar hingað til. Fyrir utan snargeðveika bardagahönnun og stönt, sem veldur því að áhorfandinn finnur fyrir hverju höggi nánast og missi tennur, þá er Keanu einfaldlega bara fæddur í rullu stóíska, fámála bardagamannsins. Örk persónunnar er líka gegnumgangandi í þróun þar sem hverju sinni er skoðað hvernig maður hann vill vera – og hvað sé næst. En svo má bara ekki gleyma því hversu viðbjóðslega auðvelt er að halda með manninum, sérstaklega í heimi þar sem þriðji hver maður er leigumorðingi.

Parabellum fer af stað eins og raketta – og réttilega! Einn af mörgum hápunktum seinustu myndar var þessi ljúffengi “Ó, fokk!” endir og gegnir hann hlutverki fullkomins stökkpalls fyrir dramatíska klípu hjá titilhetjunni góðu. Þegar við sáum hann síðast hafði hann brotið reglur síns samfélags og fengið á sig 14 milljón dollara prís á sig, eða boð í opið hlaðborð hjá öllum til að reyna sitt besta á manninum, oft í bílflotum. John Wick var þó heppinn maður og frá upphafi þessarar myndar á hann enn tæpan klukkutíma til stefnu (mikið óskaplega breyttist birtan hratt frá endi síðustu myndar) áður en allt kaosið byrjar.

Hvert lofofð sem forverinn eða þessi mynd leggur út er efnt. Parabellum er á kafi í flottum bardögum, einvígum, skothríðum og almennri “ég-trúi-ekki-að-hann-drap-manneskju-með-þessum-hlut” maníu – á besta máta. Myndin heldur flæði og kætir stanslaust augað með stílíseringu úthugsaðra lita og klippingar sem aldrei flækist fyrir. Það ríkir líka svo mikið texture í þessum heimi, sem lífgar auðvitað enn meira upp þegar gúrme sarpur af aukaleikurum fylgir með, þar sem allir hafa einhverju bitastæðu við að bæta.

Bardagalistamaðurinn og B-hasarkóngurinn Mark Dacascos er til dæmis á algerum heimavelli hér og stelur þónokkrum senum með drepfyndnum karakter. Ég kemst heldur ekki yfir það hvað Anjelica Huston, Ian McShane, Halle Berry, Asia Kate Dillon og Lance (fokking) Reddick eru öll grjóthörð á sinn hátt.

En missmekkleg dráp, adrenalín og saltaður slagsmálafarsi er auðvitað ekki handa öllum og ömmum þeirra, en það er gefið að fólk á ekkert erindi til þessara mynda ef sú fyrsta hitti ekki í mark. Ég myndi sjálfur færa rök fyrir því að hverju framhaldi hefur hingað til rétt tekist að toppa þó sterkan undanfara og það fylgja því mörg bónusstig hvað þessi yfirdrifni launmorðingja(bíó)heimur er úthugsaður, vel víkkaður og barasta stórskemmtilegur. Það er líka endalaust hressandi hvað aðstandendur eru sífellt meðvitaðir um absúrdleika þessara mynda og nýta sér viðeigandi tækifæri til að gera grín að því.

Það helsta sem mætti saka myndina um væri að vera fimm til tíu mínútum of löng og kemur út eins og eitthvað af þeim tíma fari í persónur sem er mögulega að geyma til næsta kafla, eða hasarinn fer að jaðra við endurtekningar á lokametrunum. Trúlega er það viljandi gert, því undir lokin eru áhorfendur orðnir næstum því jafn úrvinda og þungt andandi og aðalpersónan. En Reeves er í banastuði eins og hann kann og er þol mannsins á sextugsaldrinum okkur öllum til skammar.

Væri kúl að enda þetta hér?

En vil ég sjá annan Wick?

ENGIN SPURNING.

Besta senan:
Bók. Hnífar. Hestur. Umsátrið. Allt.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Ævintýramynd, Dansmynd, Eitthvað annað, Gamanmynd, _ | Leave a comment

Fullir vasar

Yfirleitt er alvarleikinn allsráðandi í íslenskum glæpamyndum, sem á góðum degi getur leitt til bitastæðra verka en á versta tíma framkallað hlátursköst óviljandi, sem er því miður algengara tilfellið. Fyrir hverja Reykjavík-Rotterdam eða Svartur á leik eigum við minnsta kosti eina Kalda slóð og þrjár í líkingu við Austur.

Með Fullum vösum er spaugilegi tónninn annars vegar gefinn strax frá byrjun og ljóst er að aðstandendur vilji að þú hlæir að verkinu. Því gæti þetta vel verið fyrsta íslenska glæpakómedían í háa herrans tíð (trúlega síðan Sódóma, ef ekki Óskabörn þjóðarinnar), þar sem brandarar, sjomlar og gúmmítöffarar ganga fyrir. Fyrir leikstjórann Anton Sigurðsson er þetta mikil breyting á stíl frá fyrri verkum (Grafir & bein, Grimmd) og sækir kappinn hér í naglhörðu og léttgeggjuðu takta Guy Ritchie-mynda, Snatch og Lock, Stock svona helst, í bland við langan sketsaþátt.

Fullir vasar nær samt aldrei að komast yfir yfir einn hjalla og heilt yfir má segja að þetta sé meiri vörukynning heldur en bíómynd, með vænan tíma gefinn til þess að „plögga“ Domino’s, Vodafone og Húsasmiðjuna, sem dæmi. Myndin sjálf er innihaldsrýr og er lítið gert við karaktera sem tengist því ekki að tala út í loftið eða spinna brandara. Heppilega er ýmislegt í dýnamík drengjanna sem smellur og fyllir fínt í tómarúmið.

Myndin snýst annars um hinn lygasjúka og almennt misheppnaða Arnar (leikinn af Hjálmari Erni Jóhannessyni), sem þarf að koma sér úr skuld við glæpamann með því að ræna banka með félögum sínum, með aðeins nokkra daga til stefnu.

Áhorfandinn finnur aldrei fyrir þessari pressu og kemur út eins og vanti allt tímaskyn í framvinduna. Oft kemur líka fyrir að senur stefna hvergi og eru því yfirleitt bara til að tefja. Þetta kemur sérstaklega fyrir í auglýsingahléunum sem virðast vera byggð inn í söguna.

Fígúran Arnar er dæmigerður þöngulhaus sem talar út um rangan enda og kemur sér stöðugt í vesen. Hjálmar Örn felur annars reynsluleysið sitt vel og sinnir þessu hlutverki af miklu öryggi, en karakterinn hans er alltof háfleygur og álíka lúmskur og sleggja í nárann. Það er erfitt að hlæja að honum, eða með, og stuðningur frá áhorfandanum er enginn.

Það hefði getað orðið önnur saga ef myndin hefði þróað meira tengsl hans við dóttur sína, en hún hverfur alveg inn í bakgrunninn, eins og margt annað.

Hópurinn á skjánum er yfir heildina fjörugur og henta flestir efninu og týpum sínum vel. Strákarnir spila að mestu frekar náttúrulega hvor af öðrum – fyrir utan einn lykilmeðlim hópsins sem er áberandi stirðari en hinir. Aron Mola hefur vissa útgeislun og Egill Ploder á heiðurinn á nokkrum betri frösum myndarinnar.

Sveinn Ólafur Gunnarsson á einnig góða innkomu og Hilmir Snær Guðnason hefur masterað óborganlega drullusokkinn með glæsibrag síðan úr Fóstbræðrum. Sem kaupauki eru kostuleg gestahlutverk dreifð víða, sem bætir með naumindum upp fyrir ákaflega vannýttan Ladda, en hefði heldur ekki sakað að gefa leikkonum eitthvað til að gera.

Fyrri hlutinn er brattur á meðan seinni leysist meira eða minna upp í graut af klisjum og uppfyllingum. Það er sitt og hvað af bröndurum sem ganga upp (þar á meðal eitt kostulegt rifildi á táknmáli) og stöku sinnum er beitt eftirtektarverðum brögðum með klippingu og upptöku, þrátt fyrir að myndin detti úr fókus annað slagið og virki í heildina óslípuð. En langi þig í pitsu, glænýjan jeppa eða heitan pott að myndinni lokinni, er hún klárlega að gera eitthvað rétt.

„Týpískt íslenskt“ er þetta þó svo sannarlega ekki. Það má myndin eiga.

Besta senan:
„Domino’s þögnin“

Categories: Eitthvað annað, Grín | Leave a comment

Split

Það er erfitt að taka því ekki með miklum fyrirvara þegar fólk á alnetinu og víða hrósar nýrri ræmu frá M. Night Shyamalan og kallar hana „comeback-myndina“ hans. Seinast heyrðist eitthvað sambærilegt í kringum (grín?)hrollvekjuna The Visit og þótti mér persónulega sú mynd vera á meðal hans verstu, næstum því á pari við The Happening nema bara ekki nærri því eins fyndin – eða leiðinleg. Nú hef ég heyrt svipað sagt um Split, og fyrir utan ágætistilraun til að búa til/stækka ákveðinn „bíóheim“ og snargeðveika frammistöðu frá James McAvoy, sé ég ekki alveg hvaða mynd aðrir eru að horfa á.

Hér er nefnilega ein ólgandi slæm mynd á ferð. Athyglisverð á köflum, hressilega múdí svosem og daðrar við ágætis þemur og klikkanir, en framvindan er undarlega óspennandi, steríl og viðburðarlítil. Efniviðurinn er truflandi en nálgunin er á tíðum eins og Shyamalan sé að rembast til þess að soga allan kraft úr honum og drekkja honum í staðinn með vondum samræðum og þar inniföldum glötuðum exposition-díalog. Í besta falli er þetta magnað demó-vídeó til þess að sýna hvað McAvoy getur lifað sig sterkt inn í (mörg) hlutverk (samtímis), en meira að segja á því sviði finnst mér myndin svíkja áhorfandann svolítið.

Shyamalan getur ekki kallast annað en merkilegur kvikmyndagerðarmaður, til hins betra eða verra, því fyrst og fremst REYNIR hann að gera eitthvað ferskt og persónulegt við fínar hugmyndir. Hins vegar, eftir að Signs kom út, hefur mér þótt bölvun hvíla á manninum sem lýsir sér þannig að hann kafnar í eigin metnaði og egói, verður þá fyrir vikið bara áttavilltur, steiktur og með nánast engan fókus á því hvað hann vill raunverulega segja eða gera við myndirnar sínar. Það er eins og hann skrifi einungis eitt draft af handritum sínum og kalli það gott.

Einu sinni átti Shyamalan framtíðina alla fyrir sér og ýmsir fóru að nota stóru orðin (svosem „næsti Spielberg“ eða Hitchcock), en hlutirnir sem hann var býsna góður í fyrst – m.a. að byggja upp lágstemmda spennu, fletta ofan af dulúð, stilla upp klæðskerasniðið andrúmsloft eða leikstýra barnleikurum – hafa farið hratt fölnandi með hverju verkefni. Sjálfur á ég erfitt með að trúa því að maðurinn sem gaf okkur The Sixth Sense og Unbreakable (hans besta – umhugsunarlaust!) skuli seinna meir hafa misst öll tök á því að finna sannfærandi frammistöðu í ungu fólki með myndum eins og The Last Airbender eða After Earth.

Að kalla Split bestu mynd leikstjórans í áraraðir er eins og að segja að betra sé að láta einhvern míga á fótleggina þína frekar en ofan mytti. Shyamalan eyðir miklu púðri í mannránsplott þar sem þrjár stelpur eru haldnar fastar. Hins vegar er ekki nema áhugi fyrir einni þeirra, þýðandi að hinar tvær falla rakleiðis í gleymsku og gengur voða illa að vera annað en slétt sama um örlög þeirra. Samt er nógu mikil áhersla á persónuleikadauðu stelpurnar til þess að við fáum aldrei að kynnast nema brot af þeim einstaklingum sem skiptast á meðvitund McAvoy. Sagan vill meina að þarna í honum séu rúmlega 20 persónuleikar, en varla helmingur þeirra einstaklinga sem fylgja honum er nafngreindur – og helmingurinn af þeim helmingi virkar eins og sami karakterinn.

Sagan fyllir líka upp í framvinduna með mikilvægum flassbakk-senum sem Shyamalan rétt skimar aðeins yfir.  Mesta kjötið í sögunni er þar að finna en Shyamalan ruglar saman „less is more“ nálgun og ófullnægjandi kitli. Bláendirinn trekkir upp (…ég viðurkenni) smáááá spennu fyrir áframhaldið, hvernig sem það mun spilast út, en atriðið sem er hérna klesst aftan á myndina er þvingað og býsna hallærislegt.

Split er fyrir hina allra hörðustu Shyamalan-aðdáendur, þó ég hafi ekki hugmynd um hvort þeim hafi farið fækkandi eða óútskýranlega fjölgandi gegnum árin. En hún virkar ekki sem sjálfstæður þriller og virkar enn púðurlausari sem eins konar „origin“ saga. Væri ekki fyrir McAvoy einan (eða… tólf) og mjög sannfærandi grátur frá Anyu Taylor-Joy (sem var FRÁBÆR í The Witch) væri þessi mynd frekar mikil tímasóun.


Besta senan:
Hedwig tekur dansinn.
Segjum það bara.

Categories: Eitthvað annað, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.