ekkert

Fantastic Four (2015)

Ég er víst á meðal örfárra sem myndi aldrei kalla hinar Fantastic Four-myndirnar ÞAÐ slæmar, eins og meirihluti öskrandi myndasögunörda vill meina. (Fyrri myndinni mæli ég persónulega betur með í lengri útgáfu sinni, en það er dauft lof.) Báðar tvær eru óneitanlega hvorki minnisstæðar né skarpar myndir en mátulega kjánalegar og lúmskt skemmtilegar skrípóafþreyingar. Báðar með vit fyrir því að taka ekki þennan tiltekna kómíkpakka of alvarlega. Af ástæðu…

Nýja Fant4stic ‘ríbúttið’ gerir þveröfugt. Hún tekur þetta teymi og kaffærir þeim í litlausum, grafalvarlegum tón – sem er síðan stöðugt áttavilltur um það hvort hann vilji breytast í léttara ævintýri eða ekki. Úrvinnslan er ekki heilsteypt verk frekar en skilaboðasaga um margt sem á ekki að gera við Hollywood-mynd. Eitt það versta sem ofurhetjumynd getur gert sjálfri sér er að vera býsna leiðinleg, eða löt. Það er eins og leikstjórinn Josh Trank hafi sett fyrri mynd sína, hina dúndurgóðu Chronicle (sem sjálf sótti helling í Akira, ofurkraftaklisjur o.fl.), í sömu volgu pilot-formúlu og gamla 2005-myndin.

Fantastic-Four-Doom

Sama saga, eða svo gott sem, svipuð (maukþjöppuð) heildarlengd, keimlíkur strúktúr, engin epík eða undurtilfinning. Bara stanslaus uppbygging og ekkert ‘payoff’. Tim Story-myndin var nógu sparsöm á hasar en Fantastic Four, 2015 eintakið, toppar hana með trompi. Gæti trúlega verið hingað til sú ofurhetjumynd sem hefur hvað minnsta magn af hasar sem ég veit um. Iron Man 2 er eins og Pacific Rim í samanburði við þessa.

Hasar er margt í svona myndum en ekki allt. Skorturinn á slíkum væri í lagi mín vegna ef áherslan og áhugi fyrir persónunum væri til staðar og framvindan á góðu grípandi róli. Það er nánast þannig í fyrri helmingnum. Hann er flatur en pínu spennandi. Síðan í kringum miðjuna er eins og allt hafi fari til fjandans í klippiherberginu, eða framleiðendur orðið of óþolinmóðir.

Mann líður eins og ekki bara heila kafla vanti heldur sub-plott, mótiveringar og, leitt að segja það – en eðlilegt, meiri hasar! Lokauppgjörið klárast áður en maður veit af, með meistaralegri and-klímax sveiflu og beint í kjölfarið á því er eins og myndin sé í bráðaflýti að klárast. Einmitt þegar hún tók sinn afslappaða tíma í alla byggingu.

This photo provided by Twentieth Century Fox shows, Kate Mara, left, as Sue Storm, and Michael B. Jordan as Johnny Storm, in a scene from the film,

Þetta er súr óreiða, en samt svo næstum-því-spennandi vegna þess að Miles Teller, Michael B. Jordan, hin óbrosmilda Kate Mara og ‘hálfur’ Jamie Bell koma frekar vel út saman sem fræknu fjórmenningarnir. Eini hængurinn er að ég kaupi ekkert þeirra sem „unglinga“. Annars öll með einkennin á hreinu en nýtast fremur illa því séns á meiri dýpt í hverri frammistöðu skaddast út af handritnu. Þau fá varla neinn tíma til þess að þróa almennilega kemistríu, samband eða samspil.

Toby Kebbell er fínn sem Victor von Doom, eða enn ein litlausa túlkunin á einu þekktasta Marvel-illmenni allra tíma. Kebbell er fínn áður en hann setur á sig grímuna: bitur, stórfyrirtækja-hatandi (hæ, Fox!), truflað gáfaður hakkari (og stórhættulegur umhverfissinni??) sem hefði mátt fá aðeins meiri skjátím. Þegar hann er strax dottinn í morðóða skúrkinn með breytist hann í vonda tölvuleikjafígúru, með óútskýrða guðakrafta og áætlanirnar hans heimskulega út úr kú. Tim Blake Nelson stoppar við sem týpískur corporate-skíthæll #325. Reg E. Cathey er þó með því besta við myndina, ef ekki bara út af þessari mögnuðu rödd sem læsi betur inn á trailera heldur en Morgan Freeman hvern dag vikunnar. En merkilega gerir hann fátt annað en að stafa út ræður um samvinnu.

fantastic-four-screenshot-Reg-E.-Cathey

Trank tekst að koma fyrir einhverjum dassi af þessum litla sci-fi/horror-væb sem hann hefur sóst eftir að ná. Þetta er næstum því eins og stór, tætt indí-mynd dulbúin sem sundurlaus stúdíóvara. Seinasti hálftíminn sérstaklega verður svo dæmigerður, nánast það fjarstýrður að púlsinn tekur aldrei kipp. Líka leitt að ekki varð til betri tónlist úr samstarfi þeirra Phillip Glass og Marco Beltrami auk innleggs frá Ólafi Arnalds.

Að frátöldum The Thing eru brellurnar þar að auki lítið betra en það sem hin áratugagamla samnefnda mynd hafði upp á að bjóða – og þær voru ekki einu sinni góðar á þeim tíma! En grótlurkurinn lítur a.m.k. ögn betur út í pixlum en gúmmíbúningnum sem Michael Chiklis eignaði sér með ágætum.

Það er nægur bömmer að ofurhetjumynd með þessu nafni standi engan veginn undir því í ómerkilegheitunum sínum (og meira þegar standardinn var þegar ekki hár fyrir þetta gullaldarbrand), en minna aðlaðandi að hún trekkir upp lítinn sem engan áhuga fyrir framhaldi.

This photo provided by Twentieth Century Fox shows, Kate Mara, left, as Sue Storm, and Michael B. Jordan as Johnny Storm, in a scene from the film,

Kannski með viðbættum hálftíma og hnitmiðari seinni helming hefði getað ræst eitthvað meira úr þessu, en orðrómar (og öll trailer-skotin sem vanta í lokaklippið…) hafa sterkt bent til þess að meira kaos en harmónía ríkti í þessari framleiðslu baksviðs. En stúdíópólitíkin á ekki að skipta máli, heldur lokavaran, og það stendur eiginlega ekkert eftir nema sóðalega tóm origin-froða sem virðist ekki vera með neinn fókus á markhópi sínum.

Of viðburðarlítil, grimm og óspennandi fyrir yngri hópinn og þreytulega þunn, þvæld og köld fyrir þá eldri. Enginn frábærleiki í augsýn. 40% áhugaverð, 0% fjör.

fjarki
Besta senan:
Doom reiður. Splatt.

Categories: Ævintýramynd, ekkert, Sci-fi | Leave a comment

Austur

Hér er hún, fyrsta íslenska „bíómyndin“ sem kalla má pyntingarklám (fyrst ekkert annað kemur til greina), nema með óvæntu tvisti þar sem hún snýr sér að áhorfandanum og sér til þess að hann verði miskunnarlaust fyrir almestu pyntingunni. Þetta gerir hún ekki með ofbeldi, heldur hreinu, ógeðfelldu stefnuleysi og glataðri, bókstaflega fókuslausri úrvinnslu.

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa.

9457466_1280x720

Austur er lauslega innblásin af hinu svokallaða Stokkseyrarmáli þegar manni var rænt og honum pyntað í sumarbústað. Atburðarásin er nákvæmlega ekkert flóknari en einmitt sú setning, og þ.a.l. gerist ekki rass í allri myndinni. Gæja er rænt af einhliða „þöggum“, þeir keyra með hann út á land, og þegar áfangastaðnum er náð pína þeir hann ítrekað… úr ramma. Punktur!

Á góðum degi mætti rúlla upp þessu innihaldi í korters-langa stuttmynd, og illa gerða að auki. Myndin er drekkhlaðin löngum, díalóg-lausum uppfyllingum, sem samanstanda af öllu frá endalausum bílasenum eða skotum af Ólafi Darra að keðjureykja eða éta snakk. Það hefði verið hægt að spila aðeins með sækólógíuna og sambönd einstaklinganna á skjánum, en slíkt er bara aldrei til umræðu.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Engin spenna, engin skilaboð, ekkert sjokk, minni tilgangur. Fórnarlambinu fáum við aldrei að kynnast af viti, baksagan er öll týnd og gleymist alveg sjónarhorn þess eftir einhverjar tuttugu mínútur. Allar aðrar tilraunir til „persónusköpunnar“ eru vanhugsaðar og ódýrar. Sá eini sem er eitthvað líklegur til að sleppa úr þessu óskaddaður er auðvitað Ólafur Darri (nota bene, nýbúinn að deila skjánum með McConaughey, Harrelson, Stiller og Neeson!), bara því hann er sá eini þarna með einhverja reynslu og getu til að skila góðu úr engu.

870ae77d2c2310133b4fc937959c42d92b5bb4e6

Það hefði jafnvel verið sniðugt að gera karakter Ólafs einhvern veginn að þungamiðju sögunnar ef áhugi hefði verið fyrir öðru en bara að rétt skima yfir hans merkilega prófíl sem góðhjartaður (?) pedófíll.

Mikilvægt er að taka það fram að handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson skrifaði m.a. svellkalda saurinn Frost fyrir fáeinum árum, og eiga þær Austur (sem er leikstjórafrumraun hans) einmitt það sameiginlegt að geta ómögulega borið frásögn í fullri – eða svo mikið sem hálfri – lengd. Kannski vildi Jón Atli keyra myndina alla á sniglahægu tensjóni, myndrænni frásögn, hráum realisma og andrúmslofti, en öll svoleiðis mótíf skolast burt þegar annað hver rammi dettur úr fókus og hver sena á eftir annarri meira ósannfærandi.

Monday_night_football_-_sensory_deprivator_1

Hljóðvinnslan er í algeru rugli. Samræður bergmála oft, en þær missa hvort eð er missa flestar marks – eins sparsamlegar og þær eru. Menn rífa aðallega bara kjaft þegar þeir eru ekki að setja upp harðan svip, fikta í kveikjara og tala um allt sem þeir ætla að gera í stað þess að gefa okkur einhverja innsýn í hvað þeir eru að gera og hvernig áhrif það hefur eða hefur ekki á þá. Ef einhvern tímann verður litið yfir flóru íslenskra drasl-indímynda þá má aldrei sú sena gleymast þar sem manni er skipað fullum hálsi að skafa af happaþrennu, eða atriðið þar sem einn fanturinn lofar dóttur sinni að fara með hana í Smáralindina.

Þegar fréttist út að hópur fólks hafið gengið út úr miðri aðstandenda- og fjölmiðlasýningu greip leikstjórinn víst til þeirra orða að sumir áhorfendur höfðu einfaldlega bara ekki magann í þetta undirheimainnlit sem hann kvikmyndaði (kjaftæði…), enda virðist myndin bera „Stranglega bönnuð innan 16 ára“ merki sitt eins og heiðursstimpil og spáir ekkert í vörusvikunum.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Merkilega lítið er um ofbeldi í Austur (mest bara fáeinar blóðslettur), alveg eins og það er lítið sem líkist súbstans almennt. Förðunin sleppur svosem en þetta er allt bara þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess. Aðeins tvisvar sinnum á ævi minni hef ég gengið út af bíói og Austur freistaði mín svo, svo mikið. Ég hefði átt að beila og vita betur, en á endanum gat ég bara ekki leyft þessum viðbjóði að sigra mig.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

 

Einn Bósi Ljósár af tíu…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), aww..., ekkert, Grín, Sori | Leave a comment

The Fifth Estate

Í stuttu máli: Ekki nógu ögrandi, nálgunin er umdeilanlega í rugli og Benedict Cumberbatch getur reddað sér út úr öllu, meira að segja úr efni sem rétt verður að miðjumoði. Nú kemur lengri útgáfan…

Það eru ekkert rosalega margar áttir sem þessi „WikiLeaks-mynd“ gat farið í með þessa frásögn sína. Það fer allt eftir afstöðunni sem hún tekur, og ef ég met hana hlutlaust, þá er hún voða óreiðuleg og misáhugaverð en ef ég set mínar eigin skoðanir inn í málið, sem ég vil helst ekki gera of mikið, þá sé ég hana sem ekkert margt annað en Hollywood-filteringu og mynd sem þráir að vera eins góð og The Social Network með örlitlu áróðurstvisti. Ómerkileg mynd um merkilegan hlut, getur varla orðið þurrara en það.

The Fifth Estate ætti að vera ofsalega djörf, mikilvæg mynd (hvar er „gamli“ Oliver Stone þegar maður þarf hann? Sjálfur Sorkin hefði einnig dugað) en hefur valið kolvitlausa leið til að segja „alvöru“ sögu sína. Beint leiðir þetta til þess að hún verður gjörsamlega bitlaus, þ.a.l. áhrifalaus og með stuðandi flutning á skilaboðum sínum, ástæðurnar eru tvær:

a) Það kemur beint út eins og bandaríska ríkisstjórnin sé (óbeint) að reyna að láta sig líta betur út, og b) WikiLeaks-hausinn Julian Assange er skilyrðislaust sýndur í neikvæðu ljósi. Ég hefði ekkert kært mig frekar um það að sjá hann málaðan sem dýrling en þegar myndin er samhengislaust farin að minna okkur á t.d. kynferðisbrotakæru – sem kemur umfjöllunarefni myndarinnar sama og ekkert við – þá er augljóst hvar hollusta handritshöfundarins liggur. Sérstaklega í ljósi þess að hann tók tvær neikvæðustu bækurnar um Assange og skrifaði efnið upp úr því.

Myndin ætlar sér reyndar að svara svona gagnrýni með vægast sagt áhugaverðu lokaatriði, og hvetur áhorfandann óbeint til að mynda sína eigin skoðun á sannleikanum. Það er alltaf jákvætt, en frústeringin og fyrirsjáanlegi mórallinn sem myndin dregur upp gerir hana ótrúlega ómarktæka, og á endanum tilgangslausa, að því algjörlega ógleymdu að hún potar sjálf göt í þann sannleika sem hún ætlar sér að segja. Fyrir aðdáendur sannsögulegu snilldarinnar The Insider þá er þetta eins og að sú mynd hefði skipt um gír og ákveðið að lítimagninn væri í raun óvinurinn eftir fyrri helming.

Á tæknilegu stigi er The Fifth Estate mátulega vel unnin en gerir það lítið til ef notagildið er afskaplega aumt og fátt gert til þess að vekja mann til umhugsunar (með efni sem býður upp á það í bílaförmum). Myndin flæðir ágætlega, hún er stanslaust upptekin en felur hvorki dýpt né þyngd í sér, fyrir utan allt sem Cumberbatch gerir til þess að tryggja það að hann er hreinlega of góður fyrir þessa mynd. Með beittara handriti með aðeins öðruvísi viðhorfi og fókus hefði verið ótvírætt Óskars-kalíber efni hérna, að hluta til vegna þess að Cumby kóperar Assange alveg fjandi óaðfinnanlega. Þetta er auðvitað leikari sem gæti leikið hurðaskraut með sannfærandi hætti, en sjaldan finnur maður svona góða lykilframmistöðu í mynd sem á hana ekki skilið.

Það eru reyndar flestir leikarar í myndinni býsna góðir en hérna þýðir það varla annað en að þeir gera flatar senur aðeins betri því allt þetta eru góðir leikarar, eins og Daniel Brühl, David Thewlis, Laura Linney, Stanley Tucci og Anthony Mackye. Sniðugast hefði verið að sleppa algjörlega helmingnum þeirra og öllu þessu subplotti með Washington. Leikstjórinn (ræðum hann síðar) virðist vera eitthvað óákveðinn í því hvort hann sé að gera sjónvarpsþriller eða sína eigin Social Network.

Cumby og Brühl smella vel saman en gallinn með þeirra samband er hversu hálfbakað það er. Þótt Assange sé teiknaður út frá mörgum hliðum (flest allar neikvæðar, og spilað er grimmt með það hversu mikill félagsfáviti hann er) þá er heilum helling sleppt eða skimað yfir, og Bruhl er ekki með eins mikið svigrúm til að anda. Samband og sambandsþróun þeirra gerir það ekki heldur þegar hitt plottið truflar alltaf. Það hefði alveg verið hægt að sleppa því og taka annan vinkil á ríkisstjórnarpanikkið.

Gleyma má því ekki að þessi mynd kemur frá nokkrum Bill Condon, leikstjóra sem byrjaði glæsilega en þrepaði sig svo niður með hverri mynd. Fór hann úr gæðastöffi eins og Gods and Monsters yfir í það að klára Twilight-seríuna, og ráðinn nú til að koma því til skila að of mikill sannleikur getur varla verið góður hlutur. Assange er augljóslega ekki stuðningsmaður þessa verks, en persónulega veit ég ekki hvort að hann eigi að vera sáttari eða ósáttari með þá staðreynd að bíómyndin um hann kom ekkert betur út en sitthvor Breaking Dawn-myndin.

Það eru þematískir afgangar hér og þar sem díla við félagslegar fórnir, siðblindu og einangrun en framvindan verður bara svo grunn, fyrirsjáanleg, þjöppuð og aulaleg. Condon reynir að skreyta skjáinn eins og hann getur og halda flæðinu með klippingartakti, til að hylja það að þetta er ekki beinlínis saga sem öskrar að vera sögð á stóru bíótjaldi, enda situr fólk oft bara og talar saman eða tæpar mjög mikið á tölvur, að gera oft sömu hlutina. Kannski er það þess vegna sem það er svona sjónvarpstónn á henni (og wannabe Fincher-fílingur í tónlistinni). En til þess að reyna að gera tölvustöffið áhugavert og útskýra fyrir tækniheftum hvað er í gangi kemur Condon með asnalegt visual mótíf sem engan veginn virkar. Ég kunni betur við það þegar skjásamtöl eru stöfuð út á rammanum, en mér finnst svosem ekkert alltaf að því að lesa myndirnar mínar – en þessi les aðeins of mikið upphátt fyrir mig.

The Fifth Estate er hönnuð með formúlu til að ná til þeirra sem eru mest áhrifagjarnir. Hún losnar við það að vera leiðinleg og það er sjálfsögðum hápunkti að þakka og bröttu rennsli. Maður græðir samt mest bara á því gera eins og myndin segir sjálf reynir að segja eftir áróðurinn: að kynna sér málið. Gúglið bara WikiLeaks í hel ef þið vitið ekki nóg um þetta, lesið bréfin frá Assange, skoðið viðtöl við hann, móthliðar o.s.frv. bara helst ekki láta Twilight-leikstjórann mynda skoðunina fyrir þig.

fimm

PS. Fyrir þá sem veit ekki hvað „Establishing skot“ þýðir þá er það í rauninni kvikmyndarammi sem leggur víða áherslu á svæðið/staðinn/borgina/húsið (o.s.frv.) sem ákveðið atriði gerist á/í.
Fifth Estate gerist að hluta til á Íslandi og í henni kemur fram eitt slíkt sem kom mér skemmtilega á óvart og með Paint-kunnáttu minni reyndi ég að endurskapa það sem sést, svo fólk sjái hvað máluð er raunsæ mynd af okkar dásamlegu höfuðborg:

rvk

Categories: Drama, ekkert, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.