Epík

John Wick: Chapter 2

Þegar bíómynd mætir upp úr þurru, malar gull í miðasölum og kemur fyrst og fremst þrælskemmtilega á óvart er til mikils að biðja um að fá annað eintak sem er á sama pari, hvað þá betra. John Wick var ein af þessum myndum sem algjörlega sló á réttar nótur, með bálreiðum, einbeittum og skotglöðum Keanu Reeves í burðarhlutverkinu og einfalda keyrslu, glæsilega skipulagðan hasar og snyrtilegan stíl – og mikið af honum. Gegn öllum lögmálum er John Wick: Chapter 2 alveg jafn góð og sú fyrri, reyndar betri á ýmsum sviðum. Myndin ‘öppar’ hasarinn og fílinginn frá þeirri fyrstu jafn mikið og The Raid 2 gerði m.v. sinn forvera… með dásamlegum árangri.

Fyrri myndin hafði auðvitað þessa hefndarkeyrslu sem dreif hana svo sterkt og framhaldið átti auðvitað aldrei séns í að toppa það. Hún skilur þetta hins vegar vel og kýs frekar að fara „meira-er-meira“ leiðina með því að byggja náttúrulega ofan á forverann og breikka svakalega út þennan spennandi heim launmorðingja sem hún gerist snýst kringum. Flestar cash-grab hasarframhaldsmyndir eru yfirleitt bara latar endurtekningar og hálfbakaðar úrvinnslur (heyriði þetta, Taken 2 og 3!). John Wick: Chapter 2 ætlar sér í staðinn að drekkja sér í metnaði og stilla sér upp sem pakkaðri og eitrað töff „miðjumynd“ í tilvonandi þríleik.

john-wick-chapter-2-keanu-reeves-hd-wallpaper-11048

Það er margt og mikið sem Keanu passar bara ekkert inn í, stundum kemur það fyrir með stórmögnuðum og hlægilegum árangri (Dracula, Knock Knock t.d. eða þegar maðurinn reyndi að hnerra í Lake House), en þegar hann finnur kúlið sitt og smellir í rétta hlutverkið er ótakmarkað hversu mikið má halda upp á kauða. John Wick er naglharður, með útgeislun en viðkunnanlegur líka innan um hafsjó af óþokkum, launmorðingjum og villidýrum.

Keanu er orðinn miklu öruggari með sig í rullunni sem hann þegar gjörsamlega rúllaði upp í fyrri lotunni, nema núna er minna pláss fyrir hann til að fara út í of dramatískan ofleik (muniði ekki eftir senunni í nr. 1 þegar hann „sprakk út“?), verður því lágstemmdari og allan tímann svalari fyrir vikið. Ruby Rose og Common eru hörkufínar og fimar viðbætur, með eftirminnilega karaktera ásamt meiriháttar gestainnkomu frá Peter Stomare og (aftur) Ian McShane til að dressa meira kúl í þetta. Laurence Fishburne dúkkar þarna einnig upp í smástund og er þetta trúlega fyrsta skiptið í veröldinni þar sem hann sér um að vera yfirdrifnari en Reeves á skjánum. Gaman að sjá þá báða aftur, en af öllu fína liðinu á skjánum hefur Fishburne eflaust minnst við það bæta.

Ég leit á það sem vondar fréttir þegar ég komst að því fyrirfram að Elísabet Ronaldsdóttir myndi ekki sjá um að klippa þessa, en með aðstoð reyndra leikstjóra, frábærrar kameruvinnu og koríógraffa var það að miklu leyti Betu að þakka að fyrri myndin hafði þennan púls sem hún gerði. Ryþminn var góður, fáeinar senur (eins og á klúbbnum) stórkostlegar og alltaf sá maður hvað var í gangi. Það er einhvern veginn stórmagnað hvernig margar hasarmyndir rugla saman kaótík fyrir samansem-merki á adrenalín og spennu. Hins vegar hleypur klipparinn Evan Schiff þrælvel í skarðið fyrir Betu.

download

Alveg eins og með þá fyrri er hasarinn skemmtilegur, intensífur og ánægjan að sjá Keanu – með sitt ofurmannlega úthald – vaða í hvern óvininn á eftir öðrum stoppar ekki. Fjölbreytnin er líka meiri hér, sem skrifast auðvitað líka á hærra budget, en orkan viðheldur sér vel og magnast sérstaklega í kringum miðbikið. Þarf síðan varla að minnast á það hvað kvikmyndatakan er flott og litabeiting áberandi geggjuð. Ég kann virkilega að meta fantasíuyfirbragðið yfir þessum tón en samt eru slagsmálin oft jarðbundin og brútal. Húmorinn er þó aldrei langt undan. Búturinn með tröppurnar fór með mig…!

Það sem aðskildi John Wick að mörgu leyti frá týpískum B-hefndarmyndum – fyrir utan að sjálfsögðu vönduð vinnubrögð og helfókuseraðan Keanu, blæðandi kúli, eins og áður var nefnt – var einmitt þessi heimur sem myndin skapaði. En í fyrri kaflanum var Wick eins og jarðýta í hefndarhug sínum, en mjög fáir þar áttu hvort sem er roð við hans reynslu og þjálfun. Í öðrum kaflanum er Wick-maskínan umkringd fullt af gæjum sem hafa hlotið sambærilega þjálfun, sem þýðir: meira kaos, erfiðari fantar, harkalegri högg og enn óútreiknanlegra fjör. Klæmaxinn í þessari mynd tekur lokasprettinn úr þeirri fyrstu í nefið og hvernig hætturnar og hindranirnar magnast upp heldur blóðinu flæðandi léttilega út þessa tvo tíma, sama hversu þunnur efniviðurinn verður. Endirinn er líka nett djarfur, og öðruvísi.

Þessi dýrindis, sítrekkjandi ofbeldisballett sem einkennir John Wick: Chapter 2 er meira en fullnægjandi og verður í rauninni erfitt að finna betri pjúra hasarafþreyingu á þessu ári, þar sem öll bestu brögðin tilheyra gamla skólanum. Ef sú þriðja hittir naglann á höfuðið eins vel og báðar tvær Wick-myndirnar hafa gert, þá siglir þetta í óskaplega ljúfan og ómissandi þríleik með langt líf framundan. Meira, takk!

 

gedveik

Besta senan:
Speglasalurinn, eða lestarstöðin.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Epík, Spennumynd, Svört gamanmynd | Leave a comment

Straight Outta Compton

Aðeins hörðustu pjúrítanar og – feisum það – rasistar geta sagt að Straight Outta Compton fjalli ekki um stórmerkilegan tíma í sögu rapp- og poppkúltúrs, þar sem heill músíkgeiri öðlaðist nýtt líf og var ljósi varpað á viðbjóðslega valdamisþyrmingu, opinbera fordóma og bælingu sem á enn við í dag, því miður

Hvort sem þú þolir ekki eða hefur margsinnis hlustað á gangsta-rapp ætti ekki að vera neinn ákvörðunarfaktor í því hvort þessi bíómynd gæti virkað á þig. Hún er býsna aðgengileg og fjandi vel gerð dramatísering á upprisu og sundrun N.W.A. grúppunnar og öllum litlu látunum í kringum hana.

Í lykilfókus eru vitanlega Ice Cube, Dr. Dre og Easy-E, semsagt helsti textasmiðurinn, pródúserinn og aðalröddin. Með öðrum orðum: tveir framleiðendur myndarinnar og hinn látni – og aukalega vill svo til að þriðji framleiðandinn er ekkja E. Þeir MC Ren og DJ Yella virðast sumsé bara vera þarna að mestu til þess að fylla upp í ramma og atriði til skrauts.

Straight Outta Compton

Þegar mynd eins og þessi hefur verið í áraraðir í þróun og framleidd af tveimur aðilunum sem hún fjallar um (og báðir tveir hafa ýmsa fortíðarskugga að baki sem hefði getað virkilega djúsað upp innihaldið hér) getur maður stólað á það að trilljónir funda fóru í það að skoða hvað færi inn og hvað ekki, og allra hörðustu aðdáendur N.W.A. eru ekki lengi að spotta ýkjurnar. Nokkrar þeirra álíka sannfærandi og hárkolludruslan á (annars fyrirsjáanlega frábærum) Paul Giamatti.

Þunna línan sem myndast milli sannleiks og skáldskaps á ekki að skipta neinu – myndin á að standa sjálfstæð, en gerir það samt smávegis þegar hún hoppar úr takt við stórfrægu, filterslausu hreinskilni drengjanna sem fjallað er um. Það fúla er líka hve miklu handritið reynir að kremja fyrir á litlum tíma (þó tveir og hálfur tími sé ekki alveg brött seta) og daðrar á köflum við stífar gubbklisjur í samtölunum.

Straight-Outta-Compton-Movie-Recording-Boyz-N-tha-Hood-Scene

Lógískt séð hefði virkað betur að gera míní-seríu, en fyrst það var aldrei í boði mátti alveg valhoppa minna yfir helstu atburði og punkta og gera meira úr tengslum og forsögu grúppunnar, með meira rými fyrir fleirum en þessum þremur. Baksviðs hafa Dre og Cube sérstaklega fundið sér  leiðir til að blása í sín eigin gjallarhorn. En um leið og E byrjar að hósta í seinni helmingnum vitum við hvert restin fer og hvernig mynd þetta verður, þ.e.a.s. ögn dæmigerðari, hægari og sækist stundum í tilfinningalega hápunkta sem hún hefur ekki fyllilega unnið sér fyrir. Myndin hefur ekki einu sinni propper endi. Hún bara hættir. Alltaf jákvæður hlutur að vilja meira þegar átt er við 140 mínútna mynd nema þegar kemur út eins og fullt vanti. En þessi hefði alveg mátt vera lengri.

Leikstjórinn F. Gary Gray á nokkrar ágætar myndir að baki (þar helst The Negotiator og Italian Job…) og hárrétti gæinn fyrir einmitt þessa mynd, m.v. hans perspektív fyrir efninu, tímabilinu og persónulegum tengslum við Cube. Gray m.a. leikstýrði eitthvað af sóló-myndböndum hans að ógleymdri stónerperlunni Friday (’95) sem hann átti hlut í að skrifa – og tvisvar sinnum er vitnað í þá mynd hérna.

Gray varpar upp orkuríka og vandaða mynd af tímabilinu og virðist hafa mikið lagt upp úr smáatriðum, þess vegna vantar ekki að manni líði eins og períódan gleypi mann heilan. Gray heldur afþreyingargildinu gangandi og finnur fínan balans milli drama og húmors, harðákveðinn í að koma í veg fyrir of mikinn ‘Hollívúdd-glans’ með nálgunina og leikinn. Bætist svo ofan á það geggjuð myndataka (snillingurinn Matthew Libatique beitir enn og aftur sínum hráu töfrum) og ansi mögnuð hljóðvinnan.

comp

Það er varla út á einn punkt að setja við neina frammistöðu… og eftirhermu. Leikstjórar mega kalla sig heppna í biopic-myndum þegar leikarar ná að fanga réttu takta og stíleinkenni viðkomandi aðila en það er helbert kraftaverk ef þeir eru útlitslega svipaðir líka… eða eins og í þessu tilfelli með hárréttu raddirnar í kaupbæti. Það hversu lengi Straight Outta Compton sat í framleiðslu-limbói virðist líka að hafa margborgað sig í mögnuðu vali á leikurum, og það virðist vera einhverjum stórkostlegum cast-leikstjóra að þakka myndi ég giska.

Corey Hawkins og Jason Mitchell breytast áreynslulaust báðir tveir í Dre og E, trúverðugir, áhrifaríkir jafnvel, og O’Shea Jackson fékk greinilega, og heppilega, hlutverkið sitt út á meira en bara að vera djók-líkur pabba sínum. Ég get ekki horft á þennan dreng í myndinni án þess að sjá Cube-klóninn allan tímann en það hversu mikið hannþe týnir sér í fótsporum föðursins eykur þann styrkleika. Hann er e.t.v. betri sem Ice Cube heldur en öll skiptin þar sem Ice Cube sjálfur leikur einhvern annan en sjálfan sig í bíómyndum. Glittir einnig mjög svo sannfærandi í Snoop Dogg og Tupac eftirhermur, og miklu fleiri þekkta.

Straight Outta Compton er umdeilanlega heldur áhættulaus og ‘snyrtileg’ miðað við umfjöllunarefni sem setur hvað hvössustu rappara síns tíma undir smásjánna, en þó… leikararnir eru góðir, skilaboðin sterk, tónlistin ‘dóp’ og myndin heldur fokk-fínum dampi. Hljómar ekki illa.

7

Besta senan:
Löggan pirrast á tónleikum í Detroit.
Categories: Drama, Epík | Leave a comment

Mad Max: Fury Road

Vó…

Eitt sem er endalaust pirrandi við flestar nútímahasarmyndir er hversu auðveldlega þú sérð hvað þær munu eldast fljótt illa. Það er takmarkaður áþreifanleiki, tilfinning fyrir þyngdarafli og minni sannfæring þegar t.d. eltingarleikir í flestum tilfellum skotnir innandyra og fyrir framan græn tjöld. Á einmitt tímum þegar þar sem maður dáist þvílíkt að og verður samtímis ónæmur fyrir vinnunni sem fleiri hundruð tölvusnillingar leggja í smáatriði á útúrtroðnum pixlarömmum í hasarmyndum gæti þessi skepna, Mad Max: Fury Road, ekki brunað inn á betri stundu. Hún er allt það sem hasarmyndir í dag eru vanalega ekki.

Það er næstum því skammarlegt en samt svo tignarlegt að sjá hinn sjötuga George Miller, endalaust óttalausan og oft ruglaðan fagmann, sýna kvikmyndagerðarmönnum og áhorfendum í eitt skipti fyrir öll – árið 2015, með mikla stúdíópeninga – hvernig best skal gera stanslausa, vægast sagt tilkomumikla hasarveislu sem hittir á allar hörðu nótur og býður upp á einfalda en spennandi sögu með nokkrum súbtextum í þokkabót.

Miller er grínlaust maðurinn sem hér um bil fann upp á þessari rokkuðu heimsendar- og áhættubrenglun, ef við miðum t.d. aðeins við það hvað The Road Warrior (oftast og réttlætanlega talin ein besta ræma sinnar tegundar) hefur markað spor sín vel í kvikmyndasögunni og haft áhrif á kynslóðirnar fyrir neðan sig.

FURYROAD

Eftir þrjátíu ára fjarveru stendur Mad Max enn fyllilega undir nafni. Magnað er að sjá skaparann Miller sjálfan slíta sig frá súrum, syngjandi mörgæsum og skella sér aftur í sandinn þar sem sköpunargleði gamlingjans er orðin túrbóhlaðin í miðjum tólfta gír… og á hestasterum! Allt í tilraun til þess að toppa sjálfan sig og byggja á það sem hann áður lagði blóð, hitasvita og tár í. Sem… tókst.

Ég hef alltaf verið hrifinn af gömlu Mad Max-þrennunni og kannski með betra þol fyrir Beyond Thunderdome en flestir. Fyrir utan hræódýru, költuðu frummyndina hefur Miller í rauninni þrisvar sinnum gert núna sömu myndina, í einu formi eða öðru, bara með gjörbreyttum tón, sniði, fjármagni og skilaboðum (sú fyrsta einbeitti sér að tengslum Max við eiginkonu sína, nr. 2 fjallaði um einstaklinga og samfélög og sú þriðja um börn. Fury Road hefur kærkominn og harðan stans á jafngildi kynjanna í sinni sögu).

Fury Road stendur alveg á eigin fótum án þess að nokkur þurfi að þekkja til trílógíunnar, en hún er samt hér um bil fordæmislaus úrvinnsla á hvernig blanda af sjálfstæðu framhaldi og ríbútti getur smollið glæsilega saman. Þetta er virðingafull uppfærsla en uppfærsla í öllum skilningi sem neitar að halla sér aftur og leyfa tölvubrellum að hljóta allt fjörið. Og með fullri virðingu fyrir góðri pixladýrð er það bara svo margfalt betra að sjá allt í kameru auk margra snargeðveikra áhættumanna hætta lífi sínu á filmu. Það ná ekki einu sinni sjö Fast & Furious myndir samanlagðar að jafna adrenalínið, kjálkadeyfandi sturlunina og praktísku fagmennskuna og er í einni Fury Road. Og hér eru tölvubrellur notaðar sem aukapunt, oftast í bakgrunni.

FURY ROAD

Tom Hardy er flottur Max. Fyrirsjáanlega er lurkurinn með villidýrið á hreinu en einnig viðkunnanlegan sjarma í augunum sem leyfa sálinni hans að skína í gegn, og bætir að mörgu leyti upp fyrir það að Hardy virðist ekki alveg vera með tök á því hvaða hreim hann hefur tileinkað sér. Samanburður við Gibson’inn gamla er kannski ekki sanngjarn en óumflýjanlegur. Hardy hefur ekki alveg þetta sama karisma og Mel bjó yfir á bestu dögum sínum en selur karakterinn og meira, fámáll og í toppformi.

Enn betri er annars vegar Charlize Theron sem baráttukvendið Furiosa, þegar orðin að einni eftirminnilegustu persónu seríunnar. Harðhaus á eigin spýtum auk þess hvað samband hennar við Max kemur þrælskemmilega út, og lítið en nóg er gert úr því hvernig þau tengjast í gegnum sameiginleg markmið að syndaaflausnum. Eins nær Nicholas Hoult nær að skilja slatta eftir sig sem krúttlegur stríðsgutti sem upplifir veröld sína hringsnúast þegar hann dregur tilgang sinn og trú sína í efa. Nýsjálendingurinn Hugh Keays-Byrne, sem lék kvikindið Toecutter í fyrstu myndinni, er kvikindislega flottur hérna sem gamall fasistaviðbjóður að nafni Immortan Joe. Yfirdrifinn, ljótur og kjánalegur með besta hætti – æðislegur skúrkur.

FURY ROAD

Þegar upp er staðið er það þó tvímælalaust Miller sem aðalstjarna Fury Road og stýrir hann þessari manísku eyðileggingarríku dómsdagsorkestru eins og fátt sé manninum eðlilegra á þessum aldri. Settin, hönnunin (hvort sem þar varða dýnamískar tryllitækjahannanir, búninga eða litaskemað í andrúmsloftinu), tónlistin, myndatakan, klippingin, þar ekki síður samsetningin og hraðinn sem passar ávallt upp á það að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir öllum radíusi og skilji hvað er í gangi allan tímann (ath. samt – myndin er mun flottari í 2D). Stabíl myndavél í svona mikilli keyrslu er allt annað en sjálfsagður hlutur en afi allra díselpönk-eltingarleikja þarf vissulega enga kennslu um það.

Sem hreinræktuð hasarmynd er þessi mynd næstum gallalaus. Hún er ekki og þarf ekki að vera djúp eða ýtarlega lagskipt en hún er dýnamískt töff, agressív og á kafi í litlum trúarádeilum, allegoríum, undirtónum og samfélagskrítík og eru helstu persónur strípaðar niður í sín skepnulegustu grunneðli: drepa, lifa af, rotna að innan eða hanga á hinni smæstu von. Menn þarna og konur eru heppnar ef þeir sitja uppi með tvennt af þessu.

FURY ROAD

U.þ.b. 80% af myndinni er bókstaflega á ferð en samt er hún svo margt meira en bara linnulaus, stílíseraður eltingaleikur með nokkrum stoppum sökum þess að hafa masterað einbeitta og effektíva leið til þess að þróa plottið sitt og fáein mikilvæg persónumóment með hasarnum. Beinþunn saga en afhjúpast skemmtilega í gegnum kaótíkina. Leikstjórinn er allavega nógu skarpur til að gæta að fjölbreytni svo urrið í vélunum, dekkjaspólið í sandinum og dauðastökkin síist ekki í eina minningu. Smærri atriðin eru að auki oft þau sterkustu.

Fury Road er, frá byrjun til enda, hreint MEIRIHÁTTAR kvikmyndagerð, ein af örfáum stóru hasarmyndum síðastliðinna ára sem á tímalausan séns á löngu lífi framundan. Aksjón-fíklar sem vilja smávegis auka finna sér varla betri, pjúra afþreyingarupplifun á öllu árinu.

brill

Besta senan:
Eltingarleikurinn…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Epík, já takk!, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.