„ert-ekki-að-grínast??“ mynd

Þorsti

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá þurfum við Íslendingar á Þorsta að halda núna, burtséð frá notagildi eða meintu ágæti lokavörunnar.

Formúla þeirra kvikmynda sem Ísland framleiðir í bílförmum er orðin skopstælingu líkust (aftur, burtséð frá gæðum) en á undanförnum þremur mánuðum höfum við til dæmis fengið þrjár íslenskar kvikmyndir sem í grunninn snúast um miðaldra hversdagsfólk utan höfuðborgarsvæðisins sem upplifir stöðnun, vonleysi og brotna fjölskyldu. Samtímasögurnar eru yfirleitt vandaðar en húðaðar svo mikilli grámyglu að áhorfendur fer þá eðlilega að þyrsta í nýtt bragð í þá flóru sem við höfum. Þar kemur Þorsti eins og kölluð, þótt lendingin sé allt önnur saga.

Þorsti er hinn undarlegasti bræðingur; „gay vampíru-geiramynd með sprautukláms- og trúarlegu ívafi“ hljómar eins og meiri brandari en lokaafraksturinn býður upp á, en með svona lýsingu er eins gott að myndin standi undir væntingum.

Útkoma Þorsta er í eðli sínu eins og risastór mótsögn; hún er ódýr en aðstandendur bera ódýra yfirbragðið með stolti. Hún er illa leikin en nógu yfirdrifin til þess að það skipti litlu máli. Hún er subbuleg en gengur sjaldan nógu langt með eigin viðbjóð til að seðja viðbjóðshungur þeirra sem sjá hana (ekki nema viðkomandi finnist það sprenghlægilegt að sjá alltaf sama afskorna gerviliminn aftur og aftur). Efnislega er allt tekið af ákveðnum klisjulager en þó hefur tekist að salta inn ýmsum bröndurum sem bragðbæta steikina.

Myndinni er leikstýrt af þeim Steinda Jr. og Gauki Úlfarssyni (sem gerði meðal annars heimildamyndina Gnarr) og má bæði sjá hana sem sjálfstætt flipp og sem lokaþátt seríunnar Góðir landsmenn, sem félagarnir unnu saman að ásamt áhugaleikhópnum X. Þættirnir eru í rauninni eins og óvenjulega bitastætt baksviðsefni (í gerviheimildarstíl) fyrir gerð Þorsta – og þar af leiðandi hluti af stóra gríninu. Skemmst er frá því að segja að viðkomandi fær eflaust meira út úr Þorsta ef hann eða hún hefur fylgst með sjónvarpsþáttunum þótt það sé ekki beinlínis skilyrði. En áhorfandi sá er þó líklegri til að fyrirgefa vankanta Þorsta öðrum fremur.

Leikhópurinn X er í besta falli misgóður, en þegar B- eða-C mynd er til umræðu er það eins og fylgihlutur ákveðins sjarma – og sennilega viljandi gert í þessu tilfelli. Það er líka eitthvað svívirðilega fyndið við það að setja reynda statista og áhugaleikhóp í burðarhlutverk og á móti leyfa reyndara fagfólki (á borð við Ingvar E. Sigurðsson, Halldóru Geirharðsdóttur og makalaust meinfyndinn Jón Jónsson) að hverfa í bakgrunninn. Þvert á það sem þó kannski mátti við búast er Hjörtur Steinason, lykilmaðurinn sjálfur, afskaplega hentugur í hlutverk samkynhneigðu vampírunnar með hjarta úr gulli og sundurslitna belli í vasanum. Hulda Lind Kristinsdóttir er líka furðu efnileg á móti honum og sýnir mestu tilþrifin á skjánum – fyrir utan Unnstein Manúel í hlutverki pylsusala, vissulega.

Ég er smá – eins og sagt er – „on the fence“ með hann Jens gamla Jensson og hina meðlimi áhugaleikhópsins. Þetta er tilfinning sem er gegnumgangandi út alla myndina. Á einum tímapunkti er stutt í leiftrandi kjánahroll en svo kemur augnablik sem fer hringinn og verður að gulli. Frasarnir hjá Jens eru sumir svo slæmir að þeir verða nánast frábærir. Ef markmið Þorsta var að vera drasl og snilld til skiptist, þá tókst henni það með látum.

Það verður þó seint rifið af Þorsta, þrátt fyrir takmarkað framleiðslufjármagn, hvað myndin er stílhrein á flestum sviðum. Hljóðvinnsla, myndataka og ekki síður tónlistin er dýnamísk og rammar inn gómsætan „grindhouse“-fíling. Hápunktur myndarinnar er þó undarlegur teiknimyndakafli – sem hefur nákvæmlega ekkert með afgang framvindunnar að gera – en það skrifast á þau Jón Gnarr og Andreu Björk Andrésdóttur grafíker að taka gegnsósa sýru alla leið. Í rauninni hefði myndin alveg mátt stíga oftar út fyrir „innihaldið“ og bæta ofan á ringulreiðina, því verkið sem eftir stendur er oftar en ekki örlítið þunnt og mætti vera betur tennt, ef til vill blóðugra.

En eins og áður segir bætir Þorsti við nýjum lit í bíóflóru landans. Myndin treður sér eins og óboðinn gestur í dannað sveitapartí íslenskrar kvikmyndagerðar og krefst þess að gamla fólkið á svæðinu spili konga allsbert í svartmyrkri. Það að hægt sé að skemmta sér yfir henni annað slagið er í rauninni bónus, en bókað er að myndin skapi sér eins konar „költ“-sess þegar fram í sækir hjá hópum sem sameinast í bjór- eða jónupartí til þess eins að hlæja að myndinni jafnt og með. Ekki er ólíklegt að meðlimir Leikhópsins X verði á meðal þeirra.

Besta senan:
Sögustund í Gnarrenburg.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "Mynd", Grín | Leave a comment

A Quiet Place

Að lifa án þess að mega nokkurntíma gefa frá sér hljóð er ekkert líf til að lifa. Hér skyggnumst við í dystópíuheim þar sem dularfullar verur eru allsráðandi; snöggar, blindar en gæddar ofurnæmu heyrnarskyni og hefur því eftirlifandi mannfólk lítið val um annað en að trítla gegnum tilveruna. Sögusvið myndarinnar er bóndabýli og fylgjumst við með Abbott-fjölskyldunni, sem í sameiningu reynir öll hvað sem hún getur til þess að halda lífi, sem og einhverri von. Hið minnsta brak, jafnvel eitt berfætt feilspor, smá saklaus hósti eða hlátur gæti orðið þeirra síðasti.

Hér er komið eitt afbragðsdæmi um það hvernig tekst að útfæra litla en skothelda grunnhugmynd með æpandi fínum hætti og án þess að allt sé stafað út. Hugmyndinni fylgir í raun slíkur ferskleiki og auðvelt er að spyrja sjálfan sig hvers vegna ekki hafi verið oftar gert eitthvað í líkingu við hana, enda akkúrat tilvalinn þráður í góða hryllingssögu.

Það er ráðgátu líkast hvernig leikaranum John Krasinski (sem margir hverjir þekkja úr The Office) tókst að skila frá sér svona flottum trylli. A Quiet Place er mynd þar sem allt reiðir á tón, stemmningu og tengingu leikara. Þetta er sáraeinfalt stykki en meistaralegt sjálfsöryggi ríkir yfir úrvinnslunni frá einum geysilega viðkunnanlegum leikara, nú orðinn líka að efnilegum leikstjóra.

Krasinski leikur sér að þögnum, táknmáli, hávaða og ekki síður með rassavöðvum áhorfenda, enda fá þeir nokkrar ágætar æfingar á gefnum tímapunktum. Allt þetta tekst honum með öflugu andrúmslofti og aðstoð leikaranna sem hér eru til liðs með honum (þar á meðal Emily Blunt, eiginkona leikarans). Hér hefðu sjálfsagt margir leikstjórar nýtt sér tækifærið að keyra stemninguna á ódýrum bregðuatriðum, því varla finnst hentugri grunnur til þess.

Leikstjórinn virðist í það minnsta kunna að nota brögðin rétt, eins með nýtingu á tónlist. Myndataka og hljóðvinnsla eru í toppgæðum og tölvubrellur í góðu lagi miðað við kostnað og ágætu skepnurnar aldrei mjólkaðar. Það er ekki fyrr en líður á seinni helminginn þar sem myndin fer að reyna hvað mest á trúverðugleikann og fara handritshöfundar að svindla meira með lausnum í frásögn, ekki síst þegar ákveðinn stórviðburður hefur átt sér stað í sögunni – án þess að meira sé gefið upp.

A Quiet Place snýst í rauninni meira fjölskyldutengsl heldur en skrímsli eða dystópíu; um samskiptaleysi, missi, samviskubit og ýmislegt ósagt hjá okkar nánustu frekar en bregður. Í burðarhlutverkum eru allir á skjánum tjáningarríkir og öflugir á sinn hátt, bæði hjónakornin og krakkarnir, en sannfærandi börn eru yfirleitt algjör rúlletta í hryllingsmyndum og hér er ekki feilnóta slegin.

Myndin er bæði mátulega minimalísk og aðgengileg (og hver hatar ekki að láta sussa á sig endalaust?). Má líka hafa gaman af því hvernig uppsetning myndarinnar ögrar spjall- og smjattóðum bíóáhorfendum til þess að stilla sig, og reynist m.a.s. merkilega erfitt að fylla kjaftinn af snakki eða poppi án þess að vera „sú manneskja” í salnum. Hins vegar má alveg færa rök fyrir því líka að það er áskorun út af fyrir sig að sitja út alla myndina án þess að sprengja óvart einhvern hljóðkvarða. Það verður að segjast nokkuð vel spilað af mynd sem hvetur svona mikið til þagnar.

 

 

Besta senan:
Kasinski kemur með nýja merkingu á leikstjóra sem neglir konuna sína á skjánum.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Hrollvekja, Spennuþriller | Leave a comment

The Killing of a Sacred Deer

Í upphafsskoti myndarinnar The Killing of a Sacred Deer sjáum við opinn skrokk í miðri skurðaðgerð. Hjarta sem slær fyllir út í rammann og með þessu skoti er ekkert verið að spara sekúndurnar. Segja má að þetta marki viðeigandi upphaf og gefi réttan tón; sýnin er undarlega dáleiðandi en í senn óþægileg til lengdar, á sinn hátt kemur þetta miklu til skila varðandi stefnu og þemu sögunnar og sýnir valdið sem skurðlæknirinn hefur yfir því lífi sem hann er bókstaflega með í höndunum.

Colin Farrell leikur Steven, fjölskylduföður og skurðlækni sem í upphafi sögunnar virðist vera sáttur við lífið og með hlutina á hreinu.
Smám saman kemst til skila að eitthvað er ekki alveg með felldu og spretta upp spurningar um forvitnileg tengsl sem Steven hefur myndað við sextán ára pilt, hinn lokaða og uppáþrengjandi Martin (leikinn af Barry Keoghan). Eftir því sem áhorfandinn fær meira að vita um ásetning og vonir þessa drengs, fer persóna Stevens að skýrast ásamt því sem hann þarf að gera upp við sig, hvað sem það mun kosta hann eða aðra sem standa honum nærri.

Gríski leikstjórinn og handritshöfundurinn Yorgos Lanthimos (Dogtooth, The Lobster) fer ekki í felur með sérvisku sína frekar en fyrri daginn. Lanthimos er einkennilegur en mikill fagmaður; ögrandi, súr en frumlegur, eins og fyrri myndir hans hafa sýnt. The Killing of a Sacred Deer er ýkt saga þar sem glímt er við truflandi og manneskjuleg málefni, en á bak við þetta allt saman liggur sótsvört kómík, sem gerir heildina í rauninni ruglaðri og fyrir vikið bitastæðari. Rétt eins og í öðrum myndum leikstjórans er tilfinningalaus stemning allsráðandi. Andrúmsloftið er lágstemmt, á mörkum þess að vera svellkalt, og viðbrögð persóna eru merkilega dauf, en þetta mótar oft skemmtilega hliðstæðu við yfirdrifnari þætti sögunnar og styrkir þá.

Það tekur framvinduna sinn tíma að fletta af lögunum og kannski fulllangan tíma að koma sér að efninu, en á heildina litið er handritið vel skrifað og veit Lanthimos oftar en ekki hvenær best er að veita réttu svörin. Notkunin á útvöldum klassískum stefjum gefur líka tóninn fyrir rísandi óþægindin og að sama skapi er kvikmyndatakan sérlega eftirtektarverð að því leyti hvernig áhorfandinn lokast inni í veröld Stevens sem smátt og smátt skreppur saman. Myndavélin svífur í kringum hann eins og guðleg vera á stundum, sem er bara viðeigandi í samhengi sögunnar.

Myndin skartar meistaralegum leik frá öllum hliðum. Oft er sagt að því ódýrari sem bíómyndin er, því áreiðanlegri verði Colin Farrell. Í Hollywood-myndum tekst honum örsjaldan að skilja eitthvað eftir sig en í myndum eins og The Lobster og In Bruges er hann aftur á móti framúrskarandi. Í þessari er hann frábær sem hinn ræfilslegi en kyrrláti Steven og fetar glæsilega einstigið á milli þess að vera annars vegar viðkunnanlegur og týpískur en hins vegar ávallt með einhverja dekkri skugga sýnilega. Nicole Kidman vinnur einnig kyrrlátan leiksigur og Barry Keoghan er ógleymanlegur sem hinn ungi Martin.

Lanthimos leikur sér taumlaust að myndlíkingum og þemum, og fjallar myndin um eftirsjá, flótta undan ábyrgð og gjörðum og ekki síður hvað það er sem skapar fullkomið fjölskyldumynstur. Til gamans má geta þess að nóg er af tilvísunum í harmsögur Biblíunnar og grískrar goðafræði til að vekja umræður. Titillinn vísar einmitt í söguna af Agamemnon konungi, þegar hann drap fyrir slysni hjartar­dýr á heilögum velli og þurfti að gjalda fyrir það með blóðtolli. Satt að segja er ýmislegt sem þessi kvikmynd á sameiginlegt með nýjustu mynd Darrens Aron­ofsky, Mother! Lathimos fer aftur á móti aðeins fínlegar í hlutina heldur en Aronofsky gerði. Sérviska leikstjórans og þessi „tónabræðingur“ hans getur stundum leitt til hallærislegra kafla, en myndin gengur bæði upp í flestu sem hún sýnir og segir frá en sömuleiðis með því sem haldið er óljósu og óræðu.

Það finnst sjálfsagt ekki öllum skemmtilegt að horfa á myndir sem eru gerðar til þess að skapa ákveðin óþægindi, en The Killing of a Sacred Deer er markviss, beitt, úthugsuð saga sem kemur sífellt á óvart. Þetta er mynd sem mun fara öfugt í suma á meðan aðrir munu dást að lágstemmdri geðveiki hennar og mögulega glotta yfir henni í fáein skipti.

 

 

Besta senan:
„Hringekjan.“

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, aww..., Drama, Svört gamanmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.