„ert-ekki-að-grínast??“ mynd

The Neon Demon

Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn er sjaldnast þekktur fyrir að fara fínt í hlutina eða með hefðbundnum hætti. Hann hefur sýnt og staðfest með myndum eins og Valhalla Rising, Drive og Only God Forgives hvað hann fer faglega að því að móta draumakennd andrúmsloft, hneyksla með áköfu ofbeldi og ekki síður kljúfa áhorfendum í tvo hópa. Skiljanlega.

Þessa seinastnefndu er varla hægt að kalla auðmelta kvikmynd og The Neon Demon ennþá síður. Sagan í grófum dráttum segir frá hinni 16 ára Jesse sem flytur til Los Angeles með þá drauma um að gerast módel. Jesse býr yfir miklum sakleysissjarma og heillar hún hvern á eftir öðrum. Samkeppnin og öfundsýki annarra er þó ekki lengi að berja að dyrum og bráðlega kynnist Jesse því að í þessum átakanlega bransa snýst hugarfarið annað hvort um það að éta eða vera étinn.

jena-malone_0
Myndinni er bæði stillt upp sem eins konar grimmu ævintýri og óforskammaðri skilaboðaögu um útlitsdýrkun og spillingu sakleysis. Refn notar tískugeirann sem áhrifaríkan stökkpall til þess að stúdera girnd, hégóma, fegurð og hrylling, innri djöfla og ytri og margs konar táknmyndir. Prakkarinn í honum skín þó mikið í gegn og nær að örva, ögra, stöku sinnum dáleiða og kitla hinar allra svörtustu hláturtaugar.

The Neon Demon er ekki beinlínis aðgengileg, en meiriháttar rugluð er hún, djörf og sérstök. Í augum margra jaðar úrvinnslan pottþétt við hrein og bein tilgerðarlegheit. Hvort sem manni líkar það annars betur eða verr er ljóst að Refn hefur mikið að segja með þessu martraðarkennda innliti sínu í útlitsbransann. Annars er erfitt að neita því hversu óútreiknanleg og bítandi framvindan í myndinni er, eða hvað Refn hefur sterkt auga fyrir römmum sem skera sig úr og gætu staðið sem sjálfstæð listaverk. Að auki eru alnokkrar mátulega truflandi senur sem ekki eru líklegar til að yfirgefa heilabúið í bráð.

the-neon-demon-pic

Refn er allur í ýktri og draumakenndri stílíseringu og spilar með myndmál, andrúmsloft og hugmyndir frekar en að binda sig við ákveðnar handritsreglur. Kvikmyndataka, lýsing, litanotkun og almenn umgjörð er sérlega grípandi og innsiglar öfluga tónlistin frá Cliff Martinez þessa stemningu leikstjórans og gefur verkinu góðan púls. Leikkonurnar koma einnig glæsilega (Jena Malone sérstaklega!) út í heldur krefjandi hlutverkum og aldrei er leiðinlegt að hafa einn reiðan Keanu Reeves á svæðinu. Leitt hvernig hann virðist bara fjara út úr myndinni.

The Neon Demon er mynd sem þarf fyrst og fremst að upplifa frekar en að botna samstundis í. Hún veitir engin einföld svör og bjóða rammarnir upp á ýmsar klikkaðar túlkanir og umræður. Hún er erfið, súr, vægðalaus og á köflum næstum því yfirgengilega yfirdrifin, en á sama tíma vekur hún mann til umhugsunar og kemur sínum skilaboðum á framfæri á frumlegan, einkennandi hátt. Ég verð hissa ef myndin verður ekki talin vera költ-klassík eftir áratug eða svo.

 

brill

 

(Þessi grein var upphaflega birt í Fréttablaðinu þann 12. september)

 

Bestu senurnar:
– Flogaveikissjóið
– Jesse á brautarpallinum
– ‘Hreinsunin’

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "She went there" mynd, Hryllingsmynd | Leave a comment

Terminator Genisys

Besta aðstaðan sem Terminator Genisys er í er að geta notfært sér það hvað væntingar aðdáenda eru komnar á djók-lágar hæðir þegar ekkert almennilega gott hefur komið frá merkinu síðan árið ’91 …

Ef við horfum yfir stórar, þekktar bíóseríur, bæði í flokki hasars eða sci-fi, þá er hryllega erfitt að rekast á einn myndbálk sem hefur staðið sig eins vandræðalega í því að réttlæta tilvist sína eins og þessi. Ástæðurnar eru nokkrar, en aðallega a) hugmyndaleysi, þar meðtalið getuleysi í handritsvinnu og (kaldhæðnislega) ólæknandi fortíðarþrá. Og b) James Cameron var eiginlega búinn að slútta sögunni best sjálfur áður en allar viðbótirnar komu.

terminator-genisys-young-terminator

Fimm bíómyndir, tvær ekki bara góðar – heldur íkonískar, ein hræðileg þáttasería, sífellt flakk milli stúdíóa og rétthafa auk stöðugrar hrörnunar í greindavísitölu innihaldsins. Alveg síðan Cameron sagði skilið við þetta hafa allir arftakar hans reynt að ná hans hæðum, bara ómeðvitaðir um það hversu mikið hland óvart frussaðist yfir sígildu eintökin og allt sem þær stóðu fyrir.

Terminator Genisys fylgir þessu furðulega trendi seríumynda þar sem framleiðendur útiloka þeim framhöldum sem þeim sýnist. Genisys vill vera hin raunverulega viðbót Cameron-myndanna, en tekst samstundis að skjóta þær niður niður (eins og Ahnüld gerir persónulega við unga ’84’ módelið sitt – mjög metafórískt) með of miklu fikti og tímalínurugli ásamt mótífum sem bara hreinlega ekki virka. Það er eitt að koma með gildislausa framlengingu, en það sem þessi virðist gera er að þurrka út viðburði fyrstu myndanna (sem hún þykist heiðra) alveg út af kortinu…. bara til þess að endurtaka sambærilegt plott aftur!

_1435702305

Fyrsta myndin, sama hve illa hún eldist, er sólid, dökk og vel skrifuð spennumynd sem hefði í hvaða heimi sem er getað staðið sjálfstæð. Virkilega sterkt upphaf að ferli leikstjórans (þó við megum ekki gefa honum allt kreditið fyrir handritið fyrst að hann stal grunninum frá Harlan Ellison, snillingnum). En þegar Cameron stóðst ekki tækifærið að græða meira á nafninu og stórstjörnu sinni tókst honum, þrátt fyrir að hafa potað aukaholur í mýþólógíuna, að bæta heilmiklu við þá fyrstu með óumdeilanlega einni best heppnuðu sæ-fæ/framhalds-/hasarmynd allra tíma. Ekki vantaði heldur í hana sálina eða persónufókus. En það var síðan alltaf lykilfrasinn sem þurfti alltaf að breytast í eitthvað loforð. Tortímandinn kom alltaf aftur, með Ahnüld eða án hans.

Eins og sagan hefur þó sýnt er yfirleitt betra að hafa austurríska tröllið sjálft á svæðinu heldur en ekki. T3: Rise of the Machines, frá 2003, afritaði mestalla formúlu undanfara síns, með litlum alvarleika, töff flugeldum og veikum karakterum. Gengur alveg sem meðalgóð poppskemmtun og alla daga skárri en Terminator Salvation, sem var ekkert nema flott, flöt, löt og leiðinleg. Sömuleiðis ein af örfáum myndum þar sem Christian Bale tókst jafnvel að vera mökkleiðinlegur.

landscape-1428935780-terminator-genisys-arnold-smile

Það er kannski – bara kannski – hægt að færa rök fyrir því að Genisys sé skemmtilegasta Terminator-myndin sem hefur komið út á þessari öld, en þá bara vegna þess að hún er sett saman eins og „Best of“ rússíbani; bókstaflega púsluð saman úr tilvísunum, endurunnum plottþráðum, gömlum sögusviðum og vilja til þess að leggja teina fyrir fleiri framhöld.

Það er meira aksjón, meiri steypa og umtalsvert „tölvuleikjalegri“ brellur en ég hef séð áður í T-mynd, og fyrst þyngarlögmálin hafa endanlega verið kvödd og aldursstimpillinn meira gíraður að yngra fólkinu höfum við hér fengið eins konar B-eða-C flokks ‘Marvel-eftirhermu’ frá Terminator brandinu. Ef hinar myndirnar töldust til beinnar fantasíu þá er þessi hrein og bein teiknimynd, og svo epískt þvæld í framvindunni að hún kastar út fleiri spurningum en hún nær eða nennir að útskýra.

Merkilega var leikstjórinn Alan Taylor nýbúinn að brenna sig á Marvel eftir Thor: The Dark World þegar hann fékk litlu ráðið í eftirvinnslu en fullt frelsi í tökum. En bestu hliðar Taylors hafa allar komið frá sjónvarpi (Game of Thrones, Mad Men, Sopranos o.fl.) og hafa lítið skilað sér á hvíta tjaldið. Taylor er oft góður í að mappa út hasar, sérstaklega þegar margt er í gangi á sama tíma. Það sem virkar þó ekki eru karakteraugnablikin sem eiga að gefa myndinni sál í þeim örlitla hvíldartíma sem gefst áður en næsti hasar tekur við. En þetta skrifast líka á útþynnt handrit og gallað val á leikurum sem þurfa að meðhöndla oft mjög vondan díalog.

la-et-hc-imax-with-hero-complex-terminator-genisys-screening-20150623

„I’ll Be Back“ er ekki lengur aðallínan, heldur „Old, not obsolete“. Serían er kannski úrelt, en Schwarzenegger hangir á mörkunum. Hér er hann í banastuði, og bara velkomið að fá hann svona hressan og líflegan aftur – og hvað þá m.v. aldur – þegar er hvort sem er aldrei hægt að taka söguþráðinn né nokkuð alvarlega í honum. En síðan að frátöldum einum ófyrirgefanlega vannýttum J.K. Simmons (sem er æðislegur!) eru það allir hinir sem eru aðalvandamálið.

Það nægir ekki bara að setja hvaða leikara sem er í hlutverk persóna sem áður smelltu til manns. Emilia Clarke fellur svo langt í skugga Lindu Hamilton að í samanburði sé ég bara táningsstelpu veifandi byssu, svona fyrst hún á að vera stríðstýpan af Söruh Connor og selur það ekki vel. Jason Clarke, venjulega dúndurfínn, er hálfdapur og píndur sem John Connor. Og hvernig einhverjum datt í hug að Jai Courtney myndi smellpassa sem „Michael Biehn“, þ.e. Kyle Reese, mun ég aldrei skilja. Biehn leit út eins og naglharður, sveltandi, fjölhæfur hermaður. Hefði verið svo miklu sniðugri hugmynd að gera Courtney að vélmenni, einhvern veginn.

Courtney hefur síðustu árin verið misvolgur í misjafnlega góðum myndum; ekki alslæmur gaur (og það er ekki alfarið honum að kenna að Die Hard 5 var vond) en miðað við athyglina á hann helling eftir að sanna. Í Genisys hefur hann lítið breytt sínum hljómi, en ég skal gefa honum það að hann er miklu meira sannfærandi heldur en Clarke eða… Clarke. Annars geri ég ráð fyrir að Matt Smith-aðdáendur verði fyrir trylltum vonbrigðum með þessar fáeinu setningar sem hann fær í myndinni, hann er líka þarna bara til þess að vera fræ fyrir næsta framhald.

sarah-connor-terminator-genisys

Það að Terminator Genisys hafi fengið „blessun“ Camerons segir mjög lítið miðað við hversu hrikalega jákvæður hann var þegar Rise of the Machines kom út – mynd sem hann víst hundsar í dag. Terminator Genisys er klúður, og súmmar að mörgu leyti hún upp allt sem plagar framhaldsmyndagerð í Hollywood í dag, en samt… gegn öllum líkindum, er hún svo hröð, ánægjulega heimskuleg á köflum og fyndin (viljandi og óviljandi) að það er varla hægt að hata hana, eða láta sér leiðast yfir henni, þó kjánahrollurinn taki gjarnan á líka. En með tilliti til þess að reglurnar með þessa seríu eru langt komnar á kaf og í óreiðu er heldur ekki við öðru að búast en nostalgíu- og brelludrifna sjálfsparódíu.

fimm


PS.
Það hefur aldrei verið nýtt að spoila helstu ‘tvistum’ allra Terminator-mynda í markaðssetningunni, en Paramount drullaði hér sögulega mikið upp á bak með því að klessa því á alla póstera og æpa það út í öllum sýnishornum hvaða stefnu sagan tekur í seinni helmingnum.

Besta senan:
Upptrekktur J.K.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Sci-fi, Spennumynd | Leave a comment

Mad Max: Fury Road

Vó…

Eitt sem er endalaust pirrandi við flestar nútímahasarmyndir er hversu auðveldlega þú sérð hvað þær munu eldast fljótt illa. Það er takmarkaður áþreifanleiki, tilfinning fyrir þyngdarafli og minni sannfæring þegar t.d. eltingarleikir í flestum tilfellum skotnir innandyra og fyrir framan græn tjöld. Á einmitt tímum þegar þar sem maður dáist þvílíkt að og verður samtímis ónæmur fyrir vinnunni sem fleiri hundruð tölvusnillingar leggja í smáatriði á útúrtroðnum pixlarömmum í hasarmyndum gæti þessi skepna, Mad Max: Fury Road, ekki brunað inn á betri stundu. Hún er allt það sem hasarmyndir í dag eru vanalega ekki.

Það er næstum því skammarlegt en samt svo tignarlegt að sjá hinn sjötuga George Miller, endalaust óttalausan og oft ruglaðan fagmann, sýna kvikmyndagerðarmönnum og áhorfendum í eitt skipti fyrir öll – árið 2015, með mikla stúdíópeninga – hvernig best skal gera stanslausa, vægast sagt tilkomumikla hasarveislu sem hittir á allar hörðu nótur og býður upp á einfalda en spennandi sögu með nokkrum súbtextum í þokkabót.

Miller er grínlaust maðurinn sem hér um bil fann upp á þessari rokkuðu heimsendar- og áhættubrenglun, ef við miðum t.d. aðeins við það hvað The Road Warrior (oftast og réttlætanlega talin ein besta ræma sinnar tegundar) hefur markað spor sín vel í kvikmyndasögunni og haft áhrif á kynslóðirnar fyrir neðan sig.

FURYROAD

Eftir þrjátíu ára fjarveru stendur Mad Max enn fyllilega undir nafni. Magnað er að sjá skaparann Miller sjálfan slíta sig frá súrum, syngjandi mörgæsum og skella sér aftur í sandinn þar sem sköpunargleði gamlingjans er orðin túrbóhlaðin í miðjum tólfta gír… og á hestasterum! Allt í tilraun til þess að toppa sjálfan sig og byggja á það sem hann áður lagði blóð, hitasvita og tár í. Sem… tókst.

Ég hef alltaf verið hrifinn af gömlu Mad Max-þrennunni og kannski með betra þol fyrir Beyond Thunderdome en flestir. Fyrir utan hræódýru, költuðu frummyndina hefur Miller í rauninni þrisvar sinnum gert núna sömu myndina, í einu formi eða öðru, bara með gjörbreyttum tón, sniði, fjármagni og skilaboðum (sú fyrsta einbeitti sér að tengslum Max við eiginkonu sína, nr. 2 fjallaði um einstaklinga og samfélög og sú þriðja um börn. Fury Road hefur kærkominn og harðan stans á jafngildi kynjanna í sinni sögu).

Fury Road stendur alveg á eigin fótum án þess að nokkur þurfi að þekkja til trílógíunnar, en hún er samt hér um bil fordæmislaus úrvinnsla á hvernig blanda af sjálfstæðu framhaldi og ríbútti getur smollið glæsilega saman. Þetta er virðingafull uppfærsla en uppfærsla í öllum skilningi sem neitar að halla sér aftur og leyfa tölvubrellum að hljóta allt fjörið. Og með fullri virðingu fyrir góðri pixladýrð er það bara svo margfalt betra að sjá allt í kameru auk margra snargeðveikra áhættumanna hætta lífi sínu á filmu. Það ná ekki einu sinni sjö Fast & Furious myndir samanlagðar að jafna adrenalínið, kjálkadeyfandi sturlunina og praktísku fagmennskuna og er í einni Fury Road. Og hér eru tölvubrellur notaðar sem aukapunt, oftast í bakgrunni.

FURY ROAD

Tom Hardy er flottur Max. Fyrirsjáanlega er lurkurinn með villidýrið á hreinu en einnig viðkunnanlegan sjarma í augunum sem leyfa sálinni hans að skína í gegn, og bætir að mörgu leyti upp fyrir það að Hardy virðist ekki alveg vera með tök á því hvaða hreim hann hefur tileinkað sér. Samanburður við Gibson’inn gamla er kannski ekki sanngjarn en óumflýjanlegur. Hardy hefur ekki alveg þetta sama karisma og Mel bjó yfir á bestu dögum sínum en selur karakterinn og meira, fámáll og í toppformi.

Enn betri er annars vegar Charlize Theron sem baráttukvendið Furiosa, þegar orðin að einni eftirminnilegustu persónu seríunnar. Harðhaus á eigin spýtum auk þess hvað samband hennar við Max kemur þrælskemmilega út, og lítið en nóg er gert úr því hvernig þau tengjast í gegnum sameiginleg markmið að syndaaflausnum. Eins nær Nicholas Hoult nær að skilja slatta eftir sig sem krúttlegur stríðsgutti sem upplifir veröld sína hringsnúast þegar hann dregur tilgang sinn og trú sína í efa. Nýsjálendingurinn Hugh Keays-Byrne, sem lék kvikindið Toecutter í fyrstu myndinni, er kvikindislega flottur hérna sem gamall fasistaviðbjóður að nafni Immortan Joe. Yfirdrifinn, ljótur og kjánalegur með besta hætti – æðislegur skúrkur.

FURY ROAD

Þegar upp er staðið er það þó tvímælalaust Miller sem aðalstjarna Fury Road og stýrir hann þessari manísku eyðileggingarríku dómsdagsorkestru eins og fátt sé manninum eðlilegra á þessum aldri. Settin, hönnunin (hvort sem þar varða dýnamískar tryllitækjahannanir, búninga eða litaskemað í andrúmsloftinu), tónlistin, myndatakan, klippingin, þar ekki síður samsetningin og hraðinn sem passar ávallt upp á það að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir öllum radíusi og skilji hvað er í gangi allan tímann (ath. samt – myndin er mun flottari í 2D). Stabíl myndavél í svona mikilli keyrslu er allt annað en sjálfsagður hlutur en afi allra díselpönk-eltingarleikja þarf vissulega enga kennslu um það.

Sem hreinræktuð hasarmynd er þessi mynd næstum gallalaus. Hún er ekki og þarf ekki að vera djúp eða ýtarlega lagskipt en hún er dýnamískt töff, agressív og á kafi í litlum trúarádeilum, allegoríum, undirtónum og samfélagskrítík og eru helstu persónur strípaðar niður í sín skepnulegustu grunneðli: drepa, lifa af, rotna að innan eða hanga á hinni smæstu von. Menn þarna og konur eru heppnar ef þeir sitja uppi með tvennt af þessu.

FURY ROAD

U.þ.b. 80% af myndinni er bókstaflega á ferð en samt er hún svo margt meira en bara linnulaus, stílíseraður eltingaleikur með nokkrum stoppum sökum þess að hafa masterað einbeitta og effektíva leið til þess að þróa plottið sitt og fáein mikilvæg persónumóment með hasarnum. Beinþunn saga en afhjúpast skemmtilega í gegnum kaótíkina. Leikstjórinn er allavega nógu skarpur til að gæta að fjölbreytni svo urrið í vélunum, dekkjaspólið í sandinum og dauðastökkin síist ekki í eina minningu. Smærri atriðin eru að auki oft þau sterkustu.

Fury Road er, frá byrjun til enda, hreint MEIRIHÁTTAR kvikmyndagerð, ein af örfáum stóru hasarmyndum síðastliðinna ára sem á tímalausan séns á löngu lífi framundan. Aksjón-fíklar sem vilja smávegis auka finna sér varla betri, pjúra afþreyingarupplifun á öllu árinu.

brill

Besta senan:
Eltingarleikurinn…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Epík, já takk!, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.