„ert-ekki-að-grínast??“ mynd

The Snowman

The Snowman er byggð á samnefndum reyfara eftir norska rithöfundinn Jo Nesbø, sjöundu bókinni í röðinni um drykkfellda en fluggáfaða rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (þetta eftirnafn er víst borið fram „húle“ á móðurmálinu). Ætlunin hjá aðstandendum hefur vissulega verið sú að keyra í gang glænýja seríu í líkingu við myndirnar um Jack Reacher eða Alex Cross, en hér eltist herra Hole við fjöldamorðingja sem virðist alltaf fremja voðaverk sín þegar fyrsti snjór vetrarins fellur. Morðingi þessi gefur sér yfirleitt tíma til þess að stilla upp snjóköllum eða kasta snjóboltum til að hrella verðandi fórnarlömb sín, á meðan áhorfandinn flissar.

Þrátt fyrir að söguþráður myndarinnar eigi það til að detta í óbeinan farsa er erfitt að búast við einhverju slöku þegar svona öflugur hópur fagfólks kemur að henni. Sænski kvikmyndagerðarmaðurinn Tomas Alfredson hefur sýnt færni í smámunasemi, afbragðstök á leikurum og oftast dálæti á því að gera andrúmsloftið að heilli aukapersónu. Þetta er hinn sami og gerði t.d. Tinker Tailor Soldier Spy, Låt den rätte komma in og (ótrúlegt en satt?…) bíómyndina um Bert.

Alfredson er umkringdur öflugu samstarfsfólki, fyrir framan og aftan vélina. Meistari Martin Scorsese er einn af framleiðendunum og hefur klipparinn Thelma Schoon­maker sjaldan brugðist frekar en tökumaðurinn Dion Beebe. Þetta er allt fólk í heimsklassa, en einhvern veginn verður útkoman að svellköldum hrossaskít sem er líklegri til að vekja kjánahroll og hlátur í ómældu magni frekar en gæsahúð. Frá framvindu til samsetningar eða almenns trúverðugleika höfum við hér eitt stórmerkilegt klúður.

Liggur við að það sé aðdáunarvert (ef ekki efni í skylduáhorf) hvernig langflestar deildir missa marks; handritið, leikstjórnin, tónlistarnotkunin (hefur nokkurn tímann eins alvarleg bíómynd notast tvisvar sinnum við lag í líkingu við Popcorn með Hot Butter? Af öllum). Og meira að segja klippingin er furðu viðvaningsleg á stundum.

Flæðið er taktlaust sums staðar og til að kóróna allt eru fleiri göt í söguþræðinum heldur en telja má á fingrum beggja handa. Þetta gæti eitthvað tengst því að haugur af myndefni var klipptur úr loka­útgáfunni, af sýnishornum að dæma.

Efniviðurinn er að vísu forvitnilegur en myndina skortir alla spennu, alla dulúð og kyrrð. The Snowman er eins og afsprengi hundrað sakamálauppskrifta, íslensku myndarinnar Grimmdar og linari útgáfu af Millennium-myndinni sem David Fincher gerði. Það eru þokkaleg skot hér og þar en stemningin kemur að jafnaði út eins og mislukkað afrit af afriti. Leikararnir eru flestir áreiðanlegir á góðum degi en heftir hérna af furðulegum hreimum (þetta gerist í Noregi, sjáið til) og handriti þar sem erfitt er að sjá hvað snýr upp eða niður. Allar tilraunir til persónudýptar missa marks í svona týndri framvindu.

Þegar kemur að þjáðum, brotnum mönnum hefur Michael Fassbender margsannað sig sem einn af þessum leikurum sem gætu túlkað slíka menn í svefni, en að því sögðu þá kemur hann hér út eins og hann sé á sjálfsstýringu. Rebeccu Ferguson virðist farnast örlítið betur miðað við mótleikara sinn en hún dettur í sömu gildrur og hefur bara ekki úr sérlega miklu að moða, eða það að kolvitlausar tökur hafi verið valdar oftar en ekki.

Hérna fer nefnilega prýðisgott leikaraval til spillis, þó þurfi reyndar að sigta út krakkaleikara myndarinnar, enda hræðilegir allflestir. Annars hefði verið gaman að finna meira að gera fyrir Chloë Sevigny, James D’Arcy og Charlotte Gains­bourg svo einhverjir séu nefndir.

Síðan er Val Kilmer efni í heila umræðu út af fyrir sig. Hann fær reyndar ekki nema nokkrar stuttar senur, en eftirminnilegar eru þær. Frammistaðan er stórfurðuleg og ber merki um að ekki hafi náðst mínúta af manninum edrú á filmu. Annaðhvort það eða að maðurinn hafi verið nýstiginn úr jaxlatöku í hvert skipti.

Það er varla sjón að sjá Kilmer og hefur hann meira að segja verið illa „döbbaður“. Leikarinn og hans sérviska er þó aðeins dýrmætt brot af því sem gæti innsiglað það að The Snowman gæti átt sér langt líf framundan sem samansafn af skondnum klippum á YouTube, þar sem best má njóta vafasömu hápunktanna. Heildin hefði einmitt getað orðið æðislegt sorp ef myndin væri bara ekki svona furðuleiðinleg að mestu.

 

í rauninni á myndin skilið miklu minna, en hlátursfaktorinn þarf að virða.

 

Besta senan:
Þegar Fassi brosir óviðeigandi mikið í einum rammanum. Eða þegar hann tekur heimskulegustu ákvörðun veraldar í klímaxinum.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "Mynd", Grín, Spennuþriller | Leave a comment

The Neon Demon

Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn er sjaldnast þekktur fyrir að fara fínt í hlutina eða með hefðbundnum hætti. Hann hefur sýnt og staðfest með myndum eins og Valhalla Rising, Drive og Only God Forgives hvað hann fer faglega að því að móta draumakennd andrúmsloft, hneyksla með áköfu ofbeldi og ekki síður kljúfa áhorfendum í tvo hópa. Skiljanlega.

Þessa seinastnefndu er varla hægt að kalla auðmelta kvikmynd og The Neon Demon ennþá síður. Sagan í grófum dráttum segir frá hinni 16 ára Jesse sem flytur til Los Angeles með þá drauma um að gerast módel. Jesse býr yfir miklum sakleysissjarma og heillar hún hvern á eftir öðrum. Samkeppnin og öfundsýki annarra er þó ekki lengi að berja að dyrum og bráðlega kynnist Jesse því að í þessum átakanlega bransa snýst hugarfarið annað hvort um það að éta eða vera étinn.

jena-malone_0
Myndinni er bæði stillt upp sem eins konar grimmu ævintýri og óforskammaðri skilaboðaögu um útlitsdýrkun og spillingu sakleysis. Refn notar tískugeirann sem áhrifaríkan stökkpall til þess að stúdera girnd, hégóma, fegurð og hrylling, innri djöfla og ytri og margs konar táknmyndir. Prakkarinn í honum skín þó mikið í gegn og nær að örva, ögra, stöku sinnum dáleiða og kitla hinar allra svörtustu hláturtaugar.

The Neon Demon er ekki beinlínis aðgengileg, en meiriháttar rugluð er hún, djörf og sérstök. Í augum margra jaðar úrvinnslan pottþétt við hrein og bein tilgerðarlegheit. Hvort sem manni líkar það annars betur eða verr er ljóst að Refn hefur mikið að segja með þessu martraðarkennda innliti sínu í útlitsbransann. Annars er erfitt að neita því hversu óútreiknanleg og bítandi framvindan í myndinni er, eða hvað Refn hefur sterkt auga fyrir römmum sem skera sig úr og gætu staðið sem sjálfstæð listaverk. Að auki eru alnokkrar mátulega truflandi senur sem ekki eru líklegar til að yfirgefa heilabúið í bráð.

the-neon-demon-pic

Refn er allur í ýktri og draumakenndri stílíseringu og spilar með myndmál, andrúmsloft og hugmyndir frekar en að binda sig við ákveðnar handritsreglur. Kvikmyndataka, lýsing, litanotkun og almenn umgjörð er sérlega grípandi og innsiglar öfluga tónlistin frá Cliff Martinez þessa stemningu leikstjórans og gefur verkinu góðan púls. Leikkonurnar koma einnig glæsilega (Jena Malone sérstaklega!) út í heldur krefjandi hlutverkum og aldrei er leiðinlegt að hafa einn reiðan Keanu Reeves á svæðinu. Leitt hvernig hann virðist bara fjara út úr myndinni.

The Neon Demon er mynd sem þarf fyrst og fremst að upplifa frekar en að botna samstundis í. Hún veitir engin einföld svör og bjóða rammarnir upp á ýmsar klikkaðar túlkanir og umræður. Hún er erfið, súr, vægðalaus og á köflum næstum því yfirgengilega yfirdrifin, en á sama tíma vekur hún mann til umhugsunar og kemur sínum skilaboðum á framfæri á frumlegan, einkennandi hátt. Ég verð hissa ef myndin verður ekki talin vera költ-klassík eftir áratug eða svo.

 

brill

 

(Þessi grein var upphaflega birt í Fréttablaðinu þann 12. september)

 

Bestu senurnar:
– Flogaveikissjóið
– Jesse á brautarpallinum
– ‘Hreinsunin’

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "She went there" mynd, Hryllingsmynd | Leave a comment

Terminator Genisys

Besta aðstaðan sem Terminator Genisys er í er að geta notfært sér það hvað væntingar aðdáenda eru komnar á djók-lágar hæðir þegar ekkert almennilega gott hefur komið frá merkinu síðan árið ’91 …

Ef við horfum yfir stórar, þekktar bíóseríur, bæði í flokki hasars eða sci-fi, þá er hryllega erfitt að rekast á einn myndbálk sem hefur staðið sig eins vandræðalega í því að réttlæta tilvist sína eins og þessi. Ástæðurnar eru nokkrar, en aðallega a) hugmyndaleysi, þar meðtalið getuleysi í handritsvinnu og (kaldhæðnislega) ólæknandi fortíðarþrá. Og b) James Cameron var eiginlega búinn að slútta sögunni best sjálfur áður en allar viðbótirnar komu.

terminator-genisys-young-terminator

Fimm bíómyndir, tvær ekki bara góðar – heldur íkonískar, ein hræðileg þáttasería, sífellt flakk milli stúdíóa og rétthafa auk stöðugrar hrörnunar í greindavísitölu innihaldsins. Alveg síðan Cameron sagði skilið við þetta hafa allir arftakar hans reynt að ná hans hæðum, bara ómeðvitaðir um það hversu mikið hland óvart frussaðist yfir sígildu eintökin og allt sem þær stóðu fyrir.

Terminator Genisys fylgir þessu furðulega trendi seríumynda þar sem framleiðendur útiloka þeim framhöldum sem þeim sýnist. Genisys vill vera hin raunverulega viðbót Cameron-myndanna, en tekst samstundis að skjóta þær niður niður (eins og Ahnüld gerir persónulega við unga ’84’ módelið sitt – mjög metafórískt) með of miklu fikti og tímalínurugli ásamt mótífum sem bara hreinlega ekki virka. Það er eitt að koma með gildislausa framlengingu, en það sem þessi virðist gera er að þurrka út viðburði fyrstu myndanna (sem hún þykist heiðra) alveg út af kortinu…. bara til þess að endurtaka sambærilegt plott aftur!

_1435702305

Fyrsta myndin, sama hve illa hún eldist, er sólid, dökk og vel skrifuð spennumynd sem hefði í hvaða heimi sem er getað staðið sjálfstæð. Virkilega sterkt upphaf að ferli leikstjórans (þó við megum ekki gefa honum allt kreditið fyrir handritið fyrst að hann stal grunninum frá Harlan Ellison, snillingnum). En þegar Cameron stóðst ekki tækifærið að græða meira á nafninu og stórstjörnu sinni tókst honum, þrátt fyrir að hafa potað aukaholur í mýþólógíuna, að bæta heilmiklu við þá fyrstu með óumdeilanlega einni best heppnuðu sæ-fæ/framhalds-/hasarmynd allra tíma. Ekki vantaði heldur í hana sálina eða persónufókus. En það var síðan alltaf lykilfrasinn sem þurfti alltaf að breytast í eitthvað loforð. Tortímandinn kom alltaf aftur, með Ahnüld eða án hans.

Eins og sagan hefur þó sýnt er yfirleitt betra að hafa austurríska tröllið sjálft á svæðinu heldur en ekki. T3: Rise of the Machines, frá 2003, afritaði mestalla formúlu undanfara síns, með litlum alvarleika, töff flugeldum og veikum karakterum. Gengur alveg sem meðalgóð poppskemmtun og alla daga skárri en Terminator Salvation, sem var ekkert nema flott, flöt, löt og leiðinleg. Sömuleiðis ein af örfáum myndum þar sem Christian Bale tókst jafnvel að vera mökkleiðinlegur.

landscape-1428935780-terminator-genisys-arnold-smile

Það er kannski – bara kannski – hægt að færa rök fyrir því að Genisys sé skemmtilegasta Terminator-myndin sem hefur komið út á þessari öld, en þá bara vegna þess að hún er sett saman eins og „Best of“ rússíbani; bókstaflega púsluð saman úr tilvísunum, endurunnum plottþráðum, gömlum sögusviðum og vilja til þess að leggja teina fyrir fleiri framhöld.

Það er meira aksjón, meiri steypa og umtalsvert „tölvuleikjalegri“ brellur en ég hef séð áður í T-mynd, og fyrst þyngarlögmálin hafa endanlega verið kvödd og aldursstimpillinn meira gíraður að yngra fólkinu höfum við hér fengið eins konar B-eða-C flokks ‘Marvel-eftirhermu’ frá Terminator brandinu. Ef hinar myndirnar töldust til beinnar fantasíu þá er þessi hrein og bein teiknimynd, og svo epískt þvæld í framvindunni að hún kastar út fleiri spurningum en hún nær eða nennir að útskýra.

Merkilega var leikstjórinn Alan Taylor nýbúinn að brenna sig á Marvel eftir Thor: The Dark World þegar hann fékk litlu ráðið í eftirvinnslu en fullt frelsi í tökum. En bestu hliðar Taylors hafa allar komið frá sjónvarpi (Game of Thrones, Mad Men, Sopranos o.fl.) og hafa lítið skilað sér á hvíta tjaldið. Taylor er oft góður í að mappa út hasar, sérstaklega þegar margt er í gangi á sama tíma. Það sem virkar þó ekki eru karakteraugnablikin sem eiga að gefa myndinni sál í þeim örlitla hvíldartíma sem gefst áður en næsti hasar tekur við. En þetta skrifast líka á útþynnt handrit og gallað val á leikurum sem þurfa að meðhöndla oft mjög vondan díalog.

la-et-hc-imax-with-hero-complex-terminator-genisys-screening-20150623

„I’ll Be Back“ er ekki lengur aðallínan, heldur „Old, not obsolete“. Serían er kannski úrelt, en Schwarzenegger hangir á mörkunum. Hér er hann í banastuði, og bara velkomið að fá hann svona hressan og líflegan aftur – og hvað þá m.v. aldur – þegar er hvort sem er aldrei hægt að taka söguþráðinn né nokkuð alvarlega í honum. En síðan að frátöldum einum ófyrirgefanlega vannýttum J.K. Simmons (sem er æðislegur!) eru það allir hinir sem eru aðalvandamálið.

Það nægir ekki bara að setja hvaða leikara sem er í hlutverk persóna sem áður smelltu til manns. Emilia Clarke fellur svo langt í skugga Lindu Hamilton að í samanburði sé ég bara táningsstelpu veifandi byssu, svona fyrst hún á að vera stríðstýpan af Söruh Connor og selur það ekki vel. Jason Clarke, venjulega dúndurfínn, er hálfdapur og píndur sem John Connor. Og hvernig einhverjum datt í hug að Jai Courtney myndi smellpassa sem „Michael Biehn“, þ.e. Kyle Reese, mun ég aldrei skilja. Biehn leit út eins og naglharður, sveltandi, fjölhæfur hermaður. Hefði verið svo miklu sniðugri hugmynd að gera Courtney að vélmenni, einhvern veginn.

Courtney hefur síðustu árin verið misvolgur í misjafnlega góðum myndum; ekki alslæmur gaur (og það er ekki alfarið honum að kenna að Die Hard 5 var vond) en miðað við athyglina á hann helling eftir að sanna. Í Genisys hefur hann lítið breytt sínum hljómi, en ég skal gefa honum það að hann er miklu meira sannfærandi heldur en Clarke eða… Clarke. Annars geri ég ráð fyrir að Matt Smith-aðdáendur verði fyrir trylltum vonbrigðum með þessar fáeinu setningar sem hann fær í myndinni, hann er líka þarna bara til þess að vera fræ fyrir næsta framhald.

sarah-connor-terminator-genisys

Það að Terminator Genisys hafi fengið „blessun“ Camerons segir mjög lítið miðað við hversu hrikalega jákvæður hann var þegar Rise of the Machines kom út – mynd sem hann víst hundsar í dag. Terminator Genisys er klúður, og súmmar að mörgu leyti hún upp allt sem plagar framhaldsmyndagerð í Hollywood í dag, en samt… gegn öllum líkindum, er hún svo hröð, ánægjulega heimskuleg á köflum og fyndin (viljandi og óviljandi) að það er varla hægt að hata hana, eða láta sér leiðast yfir henni, þó kjánahrollurinn taki gjarnan á líka. En með tilliti til þess að reglurnar með þessa seríu eru langt komnar á kaf og í óreiðu er heldur ekki við öðru að búast en nostalgíu- og brelludrifna sjálfsparódíu.

fimm


PS.
Það hefur aldrei verið nýtt að spoila helstu ‘tvistum’ allra Terminator-mynda í markaðssetningunni, en Paramount drullaði hér sögulega mikið upp á bak með því að klessa því á alla póstera og æpa það út í öllum sýnishornum hvaða stefnu sagan tekur í seinni helmingnum.

Besta senan:
Upptrekktur J.K.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Sci-fi, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.