„ert-ekki-að-grínast??“ mynd

Austur

Hér er hún, fyrsta íslenska „bíómyndin“ sem kalla má pyntingarklám (fyrst ekkert annað kemur til greina), nema með óvæntu tvisti þar sem hún snýr sér að áhorfandanum og sér til þess að hann verði miskunnarlaust fyrir almestu pyntingunni. Þetta gerir hún ekki með ofbeldi, heldur hreinu, ógeðfelldu stefnuleysi og glataðri, bókstaflega fókuslausri úrvinnslu.

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa.

9457466_1280x720

Austur er lauslega innblásin af hinu svokallaða Stokkseyrarmáli þegar manni var rænt og honum pyntað í sumarbústað. Atburðarásin er nákvæmlega ekkert flóknari en einmitt sú setning, og þ.a.l. gerist ekki rass í allri myndinni. Gæja er rænt af einhliða „þöggum“, þeir keyra með hann út á land, og þegar áfangastaðnum er náð pína þeir hann ítrekað… úr ramma. Punktur!

Á góðum degi mætti rúlla upp þessu innihaldi í korters-langa stuttmynd, og illa gerða að auki. Myndin er drekkhlaðin löngum, díalóg-lausum uppfyllingum, sem samanstanda af öllu frá endalausum bílasenum eða skotum af Ólafi Darra að keðjureykja eða éta snakk. Það hefði verið hægt að spila aðeins með sækólógíuna og sambönd einstaklinganna á skjánum, en slíkt er bara aldrei til umræðu.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Engin spenna, engin skilaboð, ekkert sjokk, minni tilgangur. Fórnarlambinu fáum við aldrei að kynnast af viti, baksagan er öll týnd og gleymist alveg sjónarhorn þess eftir einhverjar tuttugu mínútur. Allar aðrar tilraunir til „persónusköpunnar“ eru vanhugsaðar og ódýrar. Sá eini sem er eitthvað líklegur til að sleppa úr þessu óskaddaður er auðvitað Ólafur Darri (nota bene, nýbúinn að deila skjánum með McConaughey, Harrelson, Stiller og Neeson!), bara því hann er sá eini þarna með einhverja reynslu og getu til að skila góðu úr engu.

870ae77d2c2310133b4fc937959c42d92b5bb4e6

Það hefði jafnvel verið sniðugt að gera karakter Ólafs einhvern veginn að þungamiðju sögunnar ef áhugi hefði verið fyrir öðru en bara að rétt skima yfir hans merkilega prófíl sem góðhjartaður (?) pedófíll.

Mikilvægt er að taka það fram að handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson skrifaði m.a. svellkalda saurinn Frost fyrir fáeinum árum, og eiga þær Austur (sem er leikstjórafrumraun hans) einmitt það sameiginlegt að geta ómögulega borið frásögn í fullri – eða svo mikið sem hálfri – lengd. Kannski vildi Jón Atli keyra myndina alla á sniglahægu tensjóni, myndrænni frásögn, hráum realisma og andrúmslofti, en öll svoleiðis mótíf skolast burt þegar annað hver rammi dettur úr fókus og hver sena á eftir annarri meira ósannfærandi.

Monday_night_football_-_sensory_deprivator_1

Hljóðvinnslan er í algeru rugli. Samræður bergmála oft, en þær missa hvort eð er missa flestar marks – eins sparsamlegar og þær eru. Menn rífa aðallega bara kjaft þegar þeir eru ekki að setja upp harðan svip, fikta í kveikjara og tala um allt sem þeir ætla að gera í stað þess að gefa okkur einhverja innsýn í hvað þeir eru að gera og hvernig áhrif það hefur eða hefur ekki á þá. Ef einhvern tímann verður litið yfir flóru íslenskra drasl-indímynda þá má aldrei sú sena gleymast þar sem manni er skipað fullum hálsi að skafa af happaþrennu, eða atriðið þar sem einn fanturinn lofar dóttur sinni að fara með hana í Smáralindina.

Þegar fréttist út að hópur fólks hafið gengið út úr miðri aðstandenda- og fjölmiðlasýningu greip leikstjórinn víst til þeirra orða að sumir áhorfendur höfðu einfaldlega bara ekki magann í þetta undirheimainnlit sem hann kvikmyndaði (kjaftæði…), enda virðist myndin bera „Stranglega bönnuð innan 16 ára“ merki sitt eins og heiðursstimpil og spáir ekkert í vörusvikunum.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Merkilega lítið er um ofbeldi í Austur (mest bara fáeinar blóðslettur), alveg eins og það er lítið sem líkist súbstans almennt. Förðunin sleppur svosem en þetta er allt bara þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess. Aðeins tvisvar sinnum á ævi minni hef ég gengið út af bíói og Austur freistaði mín svo, svo mikið. Ég hefði átt að beila og vita betur, en á endanum gat ég bara ekki leyft þessum viðbjóði að sigra mig.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

 

Einn Bósi Ljósár af tíu…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), aww..., ekkert, Grín, Sori | Leave a comment

Tusk

Þetta er það sem gerist þegar útreyktur kvikmyndagerðarmaður með sterkan (…en smækkndi) aðdáendahóp ákveður að vippa sér í spontant-gír og búa til eitthvað algjörlega absúrd á engum tíma fyrir lítinn pening… bara vegna þess að hann gat það.

Hugmyndin að Tusk er fyrir mér alls ekki eitthvað til þess að dissa strax, því hún er eiginlega svo súr og sérstök að hún breytist ósjálfrátt í gubbandi snilld á einhverju Cronenberg-ísku stigi. Vandinn er bara að Kevin Smith hefur aldrei verið góður kvikmyndargerðarmaður og með þessa mynd þarf meira til en bara að henda út viðbjóði, mónólógum, litríkum leikurum og persónulegri útreið til að allt smelli. Á stórskringilegan hátt má segja að þetta er persónulegasta myndin hans í mörg ár… þá kómísk rostungshrollvekja, af öllu!

1409685118000-tuskÞegar Smith, vel undir áhrifum, að venju – var í miðjum SMODcast-þætti með góðvini sínum Scott Mosier las hann „auglýsingu“ um einhvern furðufugl sem leitaði að leigjanda í Kanada. Díllinn var sá að umræddur nöttari bauð upp á fría leigu framarlega sem viðkomandi bregði sér í (öö…) „rostungsbúning“ reglulega og leiki eftir dýrinu. Smith fattaði ekki fyrr en seinna að auglýsingin var grín en maðurinn var langt kominn með áhugann að kvikmynda þessa hugmynd.

Hálfsorgleg er sú hugsun hversu margir eyða mörgum mánuðum ef ekki árum í að semja sínar sögur áður en þær verða kvikmyndaðar (eða ekki) á meðan Smith kastar út úr sér næstum fullbúnu djók-trítmenti í einu hlaðvarpi og fyllir seinna upp í eyðurnar í flýtt unnu handriti. Reyndar er það minna handrit og meira hann að snara saman löngum samtölum/einræðum og teygja illa lopann úr því sem hann hefur.

n-WTFARK-CENSORED-largeNálgun Smith á atburðarás er taumhaldslaus, eins og einhver táningur sé ropandi út fyrsta uppkasti í einum rykk, haldandi að það dugi bara að henda út atburðum. Handritið á hinni vægast sagt frústrerandi Red State var byggt upp á þessari hugsun og hélst hún þess vegna engan veginn saman sem heild, að neinu leyti.

Tusk er töluvert skárri, en hún reynir að vera alltof margt í einu: body-horror að hætti Human Centipede, freðin grínmynd og eitthvað sem þykist taka persónur sínar alvarlega í nærmynd. Smith er hins vegar ófær um að jafna út þessa tóna og að mínu mati eru það mistök að setja hljóðbút af hlaðvarpsþættinum þar sem hann heyrist hlæja sig máttlausan yfir öllu þessu. Þetta stangast allt saman á við það sem myndin reynir að gera á mannlegri nótunum. Sjúki húmorinn er til skiptis æðislega ruglaður og voða þurr og bjánalegur. Förðun og… tja… „búningahönnunin“ er þó eitthvað sem fær kredit fyrir að gefa manni eitthvað sem aldrei verður hægt að afsjá… með besta hætti. Það er stærsti sigur myndarinnar. Smith hlær kannski hæst, en útvaldar litlar senur hér eru pissfyndnar.

Kaflarnir sem virka eru nógu góðir til að gera myndina, a.m.k. fyrir þá sem kunna að meta svona steikarskít, að allt öðru en tímasóun og hefði ekki verið mikið mál að gera hana talsvert einbeittari. Michael Parks er dýrmætur, skemmtilegur og ógnandi sem fríkið með rostungsblætið og Justin Long gerir heldur betur ógleymanlega hluti í sínu hlutverki. Þrátt fyrir að vera stimplaður skýrt sem über-skíthæll selur hann sannfærandi sympatíu þegar hann er orðinn að fórnarlambinu. Hann er eiginlega of góður fyrir myndina því Smith vill að við hlæjum að honum. Á annan veg er illa farið með Genesis Rodriguez, sem er extra fúlt miðað við hversu góð hún er, og Haley Joel Osment er skemmtilegt skraut en hans karakter er eintóm, einkennislaus uppfylling.

51377230Hvað andrúmsloft varðar lítur myndin betur út en flestar aðrar Smith-myndir. Andrúmsloftið gengur en eitthvað flatt á sama tíma, og margar senur eru hreinlega bara illa lýstar. Með betri klippingu hefði líka verið hægt að bjarga miklu. Flæðið er rykkjót en bærilegt. Atburðarásin heldur þó athygli að mestu. Kanada-grínið verður fljótt úldið en Long og Parks halda mestum dampi uppi með því einu hvað þeir virðast vera til í allt og með botnlausu afli.

Síðan gerist hið ótrúlega að myndin skransar samstundis þegar ákveðinn „leynigestur“ treður sér inn og virðist sem stiginn úr allt, allt annarri bíómynd. Sá ónefndi (og næstum því óþekkjanlegi) stórleikari virðist njóta sín en er voða máttlaus, ófyndinn og gerir ekkert nema að tefja og bætir voða litlu við. Smith hefur verið alltof ánægður að fá hinn aðilann til þess að pæla í hlutum eins og byggingu eða flæði, frekar en venjulega.

Tusk rétt nær að hífa sig upp með endaspretti sem þarf bókstaflega að sjá til þess að trúa. Á þeim nótum er ég forvitinn að vita hvort fólk fíli almennt myndina betur eða verr þegar það hefur fyrirfram hlustað á podcastið eða komi blákalt að henni. Hugmyndin er því miður bara mun fyndnari en framkvæmdin í heildina, en ógleymanleg þó og í réttu stemmningunni er alveg þess virði að sjá myndina, allavega einu sinni, þar sem menn eru ólíklegri til að finna betri pyntingar(grín)mynd með svona miklu dálæti á rostungum.

fimm

Einhvern veginn get ég samt ómögulega sett mér háar vonir fyrir næstu mynd Smiths í þessum Kanada-bálki þar sem hún á víst að snúast mest í kringum þá tilteknu aðila sem voru þeir allra verstu í þessari mynd; dóttir leikstjórans, leynigesturinn og dóttir hans. Vei…


Besta senan:
Við matarborðið.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Eitthvað annað, Grín, Hrollvekja, Svört gamanmynd | Leave a comment

Dumb & Dumber To

Í æsku horfði ég á Dumb & Dumber ábyggilega svona 3,082 sinnum. Enn í dag stendur hún fyllilega undir nafni sínu jafnt og prinsippum sem algjört barn síns tíma. Mökkfyndin og aðalleikararnir tveir áttu nákvæmlega allan þátt í öllu skemmtanagildinu. Gott dæmi um það hvernig á að gera vel heppnaðan aulahúmor án þess að þér líði sjálfum heimskari eftirá. Nú hef ég aðeins einu sinni séð (varla langþráða?) framhaldið, og mun út restina af mínu æviskeiði reyna að halda því þannig.

Þó það sé löngu orðin venja finnst mér varla vera hægt að biðja um pínlegri framhaldsgrínmynd – hvað þá þegar hún mætir tuttugu árum seinna – ef það eina sem hún hefur áhuga á er að endurgera þá fyrstu, og verra er þegar hún hangir saman á gömlu bröndurunum án þess að finna upp á mörgum nýjum. En hér er absolút enginn skilningur er á því hvað er úrelt, ósmekklega barnalegt eða alltof fyrirsjáanlega aulalegt til þess að kveikja ekki á þreföldum kjánahrolli.

dumb-and-dumber-to-jim-carrey-jeff-daniels2

Aulastillingin var áður mátulega yfirdrifin en Dumb & Dumber ‘To’ stendur við þau hættumörk að breytast í beinan teiknimyndafarsa. Þegar Farrelly-bræðurnir gerðu fyrstu myndina voru þeir augljóslega allt aðrir kvikmyndagerðarmenn en þeir eru í dag, eins mikið og þeir virðast halda annað. Allt „edge-ið“ þeirra er langt að baki og hér fylgir með smá Three Stooges-eftirbragð frá þeim auk þessarar þvílíkt despó þarfar fyrir því að feta í fyrstu sporin sín aftur, líklegast eftir að hafa hrasað svona oft eftir aldamótin.

Fyrir utan aðkomu Peters Farrelly að ógeðinu sem kallaði sig Movie 43 er þetta það versta sem komið hefur frá bræðrunum, en það segir sig líka sjálft að svona hugmyndaleysi og flóð endurtekninga hindri allan möguleika á því að ná sambærilegri orku og áður. Sumum bröndurum er viðbjargandi en til þess að fá þessa góðu þarf að þola hryllilegt hlass af uppfyllingarefni. Bræðurnir nota ekki bara sömu atriði og brandara heldur oft lög, frasa, þvingaðar tilvísanir eins og þeir séu hnippandi í öxl þína spyrjandi hvort þú munir ekki örugglega eftir þessu eða þessu mómenti… en hætta svo aldrei að hnippa!

dumb-and-dumber-to-jeff-daniels-jim-carrey

Í fyrri myndinni var krakkaskapurinn í mátulegu hámarki, og eins miklir apar og Harry Dunne og Lloyd Christmas gátu verið fann maður samt stundum fyrir votti af næstum-því-trúverðugum fígúrum, sumsé ekki alfarið sálarlausum. Því getur maður öllu GLEYMT í þessari og fyrir mér er ómeðvitað rekið ófyrirgefanlegum miðfingri framan í áhorfendur þegar í ljós kemur hvað erkiaularnir hafa brallað seinustu 20 árin. Bæði er djókurinn sársaukafullt ófyndinn, í takt við alla framleiðsluna og heldur í engu samræmi við endi síðustu myndar. Auk þess er hver setningin eða ákvörðunin á eftir annarri nóg til að skapa þungar pælingar um hvernig þeim tókst óútskýranlega að hverfa 40 ár aftur í þroska. Áður en kreditlistinn kom (og nuddar hann aldeilis salti í sárið með því að sýna klippur úr nr. 1) var ég löngu hættur að skilja hvernig og hvers vegna þessir menn væru með svo mikið sem ökuréttindi, eða göngugetu.

Einu sinni var tíð þar sem Jim Carrey tók harðan stans gegn því að leika í framhaldsmyndum. Ace Ventura 2 var undantekning því hún fór bókstaflega í allt aðra átt en sú sem á undan kom. En nú, tveimur áratugum, fáeinum mögnuðum leiksigrum en ýmsum feitum floppum síðar hefur hann skipt um skoðun og styður þessa nostalgíusprengju hvað mest. Og ég hristi algjörlega hausinn yfir því hvernig hann getur afneitað mynd eins og Kick-Ass 2 en vaðið í Dumb & Dumber To af góðu geði, og ég man ekki einu sinni hvenær hann var seinast svona óþolandi eða fyrirlítanlegur. Samúð mín fer hins vegar til Jeff Daniels, hann sem er nýbúinn að brillera með flugbeittan Aaron Sorkin-díalog í The Newsroom og tætir síðan í sig svona skítlélegum hamagangi sem sækist eingöngu eftir aurnum og gömlum minningum.

Sakleysislega einlægu viðbrögð Daniels geta verið skemmtileg og sama hvernig maður tekur í húmorinn er auðsjáanlegt að þeir Carrey hafi skemmt sér mikið í tökum við að spila hvor af öðrum. Ég efa ekki um góða móralinn á settinu, sama hversu mikið hann hefur ofmetið sig, en mér líður samt eins og flestum hafi leiðst þarna í aukahlutverkum. Ef einhver kemur best út úr myndinni er það að vísu óþekkt pía að nafni Rachel Melvin sem meintur afkomandi Harrys. Trúlega er samt Bill Murray bestur á skjánum, og nógu skarpur til að passa að hann þekkist ekki þessa hálfu mínútu sem hann fær.

Dumb And Dumber To

Persónulega hefði ég haldið að betra væri að fá lélegt framhald af Jim Carrey-mynd með honum á svæðinu en án hans, og þrátt fyrir að það sé í flestum tilfellum satt er ég ekki svo viss um að Dumb & Dumberer: When Harry Met Lloyd sé eitthvað verri bíómynd en ‘To’. Hún átti allavega ekki kost á öðru en að prufa eitthvað öðruvísi þó hún greinilega elskaði að of mikinn innblástur í frummyndina, en tengdist henni ekki nógu beint til að saurga fínu minningarnar af henni.

„Comedy is all about timing“ segir Lloyd snemma í myndinni, og það þykir mér fyndnara í kaldhæðninni heldur en margt, margt annað. Auðvitað er Dumb & Dumber To ekkert nema einfaldur prumpfögnuður inn við beinið. Köllum þetta óð til groddaralega einfaldleikans sem ber sig eins og eldmóðurinn sé þarna en velur ódýrustu leiðina til þess að gefa nútíma áhorfendum ástæðu til þess að fíla þessa aula í botn á ný í allt öðrum aðstæðum. Vandræðalegt er líka að sjá hvernig mynd eins og 22 Jump Street tókst stórkostlega að gera grín að formúluletinni sem fylgir akkúrat mynd eins og þessari.

Varla má svosem útiloka það að myndin gæti eitthvað hitt í mark hjá þeim sem finnst nr. 1 vera grín-meistaraverk og finnst ekkert að því að sjá sömu myndina aftur, hrukkóttari og helmingi örvæntingarfyllri. Jafnvel þó svo að aðalpersónurnar þurfi ekki að vera með margt annað en loft á milli eyranna þýðir það ekki að aðstandendur eigi að komast upp með það sama.

thrir

PS. Meira að segja plakatið er ein stór nostalgíublekking. Hundabíllinn sést í mesta lagi í eina mínútu samtals.

Besta senan:
„Áfangastaðnum“ náð.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Gamanmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.