Gaman(með drama-)mynd

Eden

Eden er það næsta sem hefur komist því að vera finna arftaka Blossa.

Þetta er (vissulega) meint sem blússandi hrós, þrátt fyrir það að síðarnefnd næntís-dópmynd hafi ekki beinlínis verið snilldarstroka í kvikmyndagerð; þvert á móti hlægileg, þvæld, kjánaleg en á móti stútfull af orku, viðeigandi attitúdi, góðri tónlist og léttum væb sem íslenskar kvikmyndir leyfa sér sjaldan að prófa – þrátt fyrir það ógrynni af dóp-og/undirheimamyndum sem við höfum af okkur getið.

Íslensku krimmamyndirnar hafa auðvitað tekið sig misalvarlega og tæklað mál um fíkniefni eða neytendur slíkra í bobba á ólíkan máta. Hins vegar hefur verið gríðarlegt gegnumgangandi þrot hvað beitingu myndmáls eða sköpun andrúmslofts. Kvikmyndagerðarmaðurinn Snævar Sölvi Sölvason (hinn sami og gerði hina hræódýru Albatross og enn minna séðu Slay Masters) er upprennandi á indisvíðinu, en strax með einni uppgötvun á grunnstiginu er Eden komin fram úr flestum sambærilega subbulegum myndum; og sú uppgötvun snýr að litameðvitund – og jafnvel þó Eden væri rusl á öllum öðrum frontum – þá verður það aldrei tekið frá henni að hún er, sjónrænt séð, ótrúlega lifandi – ælandi og blæðandi litaskiptingum og pallettum eins og enginn sé morgundagur.

Seinast þegar mynd um neyslu náði svona vel að púlla “undir áhrifum” viðbótina með stílnum var trúlega XL frá Marteini Þórssyni, bara hér er það stílhreinna og kannski með meira pönki.

Myndin lítur vel út en græðir líka ýmislegt á einfaldri narratífu – og þarna má fara frjálslega með orðið narratífa – og fókus sem liggur allan tímann á skjáparinu, þeirra sambandi, hamagangi og hvernig gangverk þeirra magnast upp í aðstæðum. Ég get heldur ekki annað en gefið ákveðið hrós til kvikmyndar sem finnur leiðir til þess að gera Fuglastríðið í Lumbraskógi að ómissandi þemaþræði myndarinnar.

En hér segir frá parinu Ólafíu og Óliver sem lenda í kröppum dansi við ranga aðila á réttri stundu. Þá eru þau Hansel Eagle (rólegur…) og Telma Huld Jóhannesdóttir alveg frontuð og sækir leikstjórinn meira í “elskendur á flótta” undirgeirann frekar en eitthvað sveitta skilaboðasögu. Það er aðeins um víxlaða kynjadýnamík í framvindunni og samkvæmt eldri hefðum væri karlmaðurinn orkuboltinn, drífandinn og naglinn á meðan konan bara barbídúkkan í farþegasætinu (sorrí, Blossi) – þessu er snúið við og verður oft til skemmtilegur straumur á milli parsins.

Hansel stendur sig þokkalega sem nýaldarhippinn sem vill bara halda friðnum, en Telma annars vegar flytur myndina á allt annað level; hörð, framsækin, springandi af persónuleika og orku – og leikkonan selur rullu sem hefði alveg getað hrunið á andlitið með rangri tæklun. Ekki er það síst í ljósi þess að Snævar bindur sig ekki við neinn læstan tón og flakkar hann frjálslega úr flippi í alvarleika og jafnvel draumkenndan absúrdleika (komum að því) með áreynslulausum sveiflum, þó ýmsir aukaleikarar mættu alveg vera sterkari, en sleppa.

En aftur að parinu, þá skortir honum… Hansel þetta náttúrulega ó-pósandi karisma sem geislar svo áreynslulaust hér af henni Telmu, enda gædd meiri karakter og smáatriðum, þannig séð. En saman mynda þau gott and-dúó og krútta þau nægilega oft yfir sig til að manni sé ekki of drull um hvernig fyrir þeim fer. Snævar fordæmir heldur aldrei persónur sínar eða lítur bersýnilega niður til þeirra í handritinu fyrir að krauma sér jónur eða taka inn hvað annað í kammó samræðum. Það fylgir þessu líka ákveðinn ferskleiki þegar hugað er svona sterkt að því að leyfa myndinni að njóta hversdagsmómentana á milli alls trippsins sem á milli kemur.

Samtölin eru stundum eins og beint upp úr myndastrípu og það steikir raunverulega á manni hausinn hvað Arnar Jónsson er fyndinn sem óstereótýpískur krimmaforingi. Þá komum við að hinu enn furðulegra, eða eins og einhverjir munu eflaust segja: “virkilega fokkt-opp kaflanum”. Án þess að segja of mikið má tengja hið yfirnáttúrulega við söguna og allegóríum sem stafa það út að titilinn sé meira en bara skraut og tilviljun.

Hvort metafórurnar og aukni absúrdisminn gangi almennilega upp er erfitt að segja, en hann gefur myndinni visst krydd sem bætist bara við þá dramakómedíuklípusúpu sem hún er fyrir – þannig að það er ekki beinlínis úr takt þó áhrifin skili merkilega litlu. Almennt séð á tilfinningaleveli hefur þessi mynd ekki afar margt af gefa frá sér, þó hún reyni það vissulega. En eins og áður nefndi eru það einhverjir óséðir töfrar sem sumir leikararnir gæða því sem hefur á pappírnum verið.

Að öllum samanburði við Blossa slepptum, er Eden einfaldlega bara rokkandi fín lítil klakamynd; unnin á hnefanum, en brött, hressilega ýkt, sóðalega skemmtileg á köflum og rúllar á sterkum performans frá svakalega efnilegri leikkonu. Hún er mynd sem á örugglega eftir að lifa góðu költ-lífi á klakanum á ókomnum árum (sérstaklega í ljósi þess einnig að hún er JÓLAmynd!) og ljóst er einnig að Snævar Sölvi er ekki fastur innan ramma einhvers eins geira þar sem tök hans á fjölbreytni hafa tekið sýnilegan (lita)kipp. Í heildina yfir, fínasta tripp.

Ábyggilega sexí sexa á góðum degi en þrumandi sjöa undir áhrifum.

Besta senan:
Arnar og Litla hafmeyjan.

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka), Gaman(með drama-)mynd, Spennumynd | Leave a comment

Kona fer í stríð

Segja má að frumraun Benedikts Erlingssonar í kvikmyndagerð, Hross í oss, hafi alls ekki verið allra. Sumir áhorfendur sáu í henni frumlegt, séríslenskt listaverk, aðrir samansafn flottra en flatra stuttmynda. Hins vegar hefur tilraunasemi Benedikts verið minnisverð og áhugi hans fyrir nýjum vinklum í frásagnarformi og tengsl manneskjunnar við náttúru og eðli. Kona fer í stríð kemur aðeins inn á þann hluta, með skelmislegum og hádramatískum brag, fínum boðskap, firnasterkri lykilpersónu og breiðu úrvali gamanleikara í kaupbæti.

Auga leikstjórans fyrir grípandi uppsetningum og landslagsrömmum skrifast að mörgu leyti á tökumanninn Bergstein Björgúlfsson, en vinnubrögð hans marka eitt beittasta vopnið sem leikstjórinn hefur. En að sinni deilir hann þeim heiðri með kjarnaleik Halldóru Geirharðsdóttur.

Hugmyndin um fjallkonuna sem þjóðartákn íslendinga tengist rómantísku stefnunni og hugmyndinni um móður jörð. Halldóra leikur hina viðkunnanlegu Höllu, kórstjóra og laumulegan aðgerðarsinna sem í upphafi sögu fremur skemmdir á raflínum sem leiða að álverinu í Straumsvík. Brögð hennar hafa skapað mikinn usla í innlendri og erlendri pressu en hingað til hefur enginn grunað hana. Spennan og gæslan magnast með hverri aðgerð og í miðju alls þess kemst hún að tilvist munaðarlausrar stúlku í Úkraínu. Þá stendur hún frammi fyrir því að bjarga annaðhvort stúlkunni og tileinka sér það sem hún þráir eða berjast áfram nafnlaust fyrir sínu réttlæti gagnvart framkomu stóriðja við náttúruna. En ætli sé val um hvort tveggja, móðurhlutverkið og náttúruna?

Hingað til hefur Halldóra aldrei eignað sér kvikmynd með þessum hætti en hér leikur hún einnig tvíburasystur Höllu. Samspil þeirra systra kemur vel út en þessi aukapersóna jaðrar oft við það að vera ódýr „handritslausn“ og hefði mátt spinna meira með hana. Hið sama á við um Juan Camillo Estrada, en hannn vefst reyndar skemmtilega í bratt og þægilegt rennsli sögunnar. Ef út í það er farið er lokasena myndarinnar, þó hún sé táknræn á sinn máta, sama og óþörf.

Myndin fær plússtig fyrir frábæra tónlist en stíllinn gengur stundum fulllangt í því að sýna hljómsveitina eða kórsöngvara í ramma (ekki ósvipað því sem var nýlega gert í báðum Paddington-myndunum). Þetta er hressandi mótíf en verður fljótlega þreytandi, bætir í rauninni engu við nema skrauti og stelur á köflum þrumunni frá öllum þunga.

Jóhann Sigurðarson stelur hverri senu sem skilningsríkur bóndi sem þekkir sína arfleifð. Svo má sjá heilan haug grínleikara dúkka upp í gestahlutverkum. Þetta ýtir enn meira undir kómískan brag myndarinnar fyrir okkur landsmenn á meðan áhorfendur erlendis finna sjálfsagt ekkert fyrir því. Myndin er reyndar cirka tveimur leikurum frá því að teljast sem óbein en dásamleg laumusamkoma Fóstbræðra.

Kona fer í stríð snýst á yfirborðinu um innri baráttu sem ytri, flótta, fórnir, litla sigra og viljann til að þiggja hjálp eða veita. Með frásögnina veður Benedikt í einlægt drama, léttan þriller og gamanfarsa til skiptis og tekst sæmilega til með samsuðunni þegar á heildina er litið. Benedikt og Ólafur Egilsson salta handritið með nokkrum bráðfyndnum uppákomum, vænum predikunum en það er umfram allt mannúðleiki sögunnar og hinn hetjulegi stuðningur sem áhorfandinn sýnir baráttu og togstreitu Höllu sem heldur öllu gangandi.

Besta senan:
Halla vs. dróni

Categories: Gaman(með drama-)mynd | Leave a comment

Víti í Vestmannaeyjum

Það má oft spyrja sig hvers vegna við framleiðum ekki meira af alíslenskum barna- og fjölskyldumyndum með krökkum í aðalhlutverki, fyrst við höfum sýnt fram á fína getu með fáeinum sigurvegurum í gegnum árin. Þar stekkur auðvitað nokkur Benjamín dúfa upp í hugann, Stikkfrí líka, Jón Oddur og Jón Bjarni og kannski einn Pappírs Pési.

Að sama skapi hefur heldur ekki verið gerð íslensk mynd um fótbolta eða íþróttir almennt handa yngri kynslóðinni sem skoðar þann heim með augum hennar. Víti í Vestmannaeyjum svarar kallinu, þessi ágæta aðlögun fyrstu bókarinnar í kunnugri seríu Gunnars Helgasonar og leynir hún á sér sprækan pakka, sem mun líklega oft um ókominn tíma rata í tækið hjá hópnum sem hún er ætluð.

Í dag virðist sem að Bragi Þór Hinriksson sé orðinn að eins konar fyrirliði íslenskra leikstjóra í gerð barna- og fjölskyldumynda, hvað afköst og tíma varðar. Með fjórar heilar Sveppamyndir undir beltinu – og eina prýðisheppnaða þvælu um Harry og Heimi – hefur Bragi fundið sig í barnavænna efni með því að taka sæll á móti hinu ýkta og verið duglegur að græja alls konar tilvísanir í stórmeistara og sækja í amerískar klisjur og staðalmyndir af og til.

Víti í Vestmannaeyjum er full af formúlum en hress og með nægilega stórt og opið hjarta til að tala til eldri hópa með sinni krúttuðu rödd. Myndin er keyrð á jákvæðum boðskap, aðgengilegri sögu og skemmtilega flippuðum taumi.

Sagan segir annars frá hinum unga Jóni sem fer til Vestmannaeyja til að keppa á Peyjamótinu í fótbolta. Í eyjum kynnist hann Ívari, jafnaldra sínum úr ÍBV sem hefur einhverja djöfla að fela, og verður þá skýrt að átökin finnast utan vallarins sem innan. Í millitíðinni kemur Veðurstofan reglulega með viðvaranir um eitthvað sé farið að krauma, en hvaða eldfjall það er reynist vera svolítið sérstakt, eiginlega frekar ódýrt.

En myndin snýst heppilega ekki eingöngu um pollabolta, flippaðar leikjalýsingar, sprang og gos í aðsigi, heldur bætist við hliðarsaga um heimilisofbeldi og flókin samskipti barna við foreldra sína. Heildin kemur út eins og blanda af íslensku sorgardrama handa börnum og lítilmagnasögu í Hollywood stíl, en umfram allt kemst hún upp með að vera smekklega sögð saga um erfiðleika, skilning, keppnisanda og sameiningu.

Reglan er yfirleitt sú að ungir og óreyndir leikarar reyni oftar á taugarnar heldur en ekki, en Bragi virðist alveg vita hvers konar dýnamík hann sækist eftir og hittir á flottan hóp, eldri sem yngri. Söguhetjan Jón er ágætlega túlkaður af Lúkasi Emil Johansen en stundum er eins og handritið geri hann að aukapersónu í sinni eigin mynd. Samleikur strákanna er þó í heildina í takt við tóninn; sem er aldrei of ýktur en heldur ekki svo alvarlegur að mýkri atriðin verði of sykruð. Lúkas og Viktor Benóný Benediktsson eru engu að síður sterkir þegar þeir fá að skína.

Stórgallaði pabbi Ívars, karakterinn sem sér hvað mest um að minna okkur á alvarlegri undirtóna myndarinnar, er leikinn af Jóa G. Jóhannessyni af þvílíkri prýði. Siggi Sigurjóns stelur annars allri myndinni sem hlýr, ágengur og fyndinn skipstjóri og Gunni Helga lífgar upp á fótboltasenurnar með látum sem ósýnilegi íþróttafréttamaðurinn, jafnvel þótt áhorfandinn hafi ekki hugmynd um hvaðan þessi rödd kemur. Á lokametrunum á Auddi Blö góða spretti. Því miður kemur þó hér enn eitt dæmið þar sem kvenhlutverkin eru skilin eftir á hliðarlínunni, og bitnar þetta sérstaklega á móður Jóns (sem Nanna Kristín Magnúsdóttir leikur), sem er nánast alveg persónuleikalaus.

Sem leikstjóri hefur Bragi yfirleitt mátað ýmsar tegundir skrautlegra stílbragða, en fjármagnið hefur ekki alltaf náð að gera hugmyndafluginu réttlæti. Víti í Vestmannaeyjum á það sameiginlegt með flestum Sveppamyndunum að líða fyrir óslípaða tölvueffekta en fær samt einhver prik fyrir metnaðinn.

Myndin er laglega skotin, litrík og lífleg í framsetningu, ef við horfum framhjá hnökrum í klippingunni og mögulegri ofnotkun „slow-mo“ ramma. En það að heildin virki á sinn kjarnahóp er lykilatriði og hún fær aukastig fyrir að miða aðeins hærra en það. Ungir fótboltaunnendur láta sennilegast hæst heyra í sér, og það hvort dramatíski hápunkturinn yfir höfuð virki á áhorfandann veltur svolítið líka á hans þoli fyrir víkingaklappinu þessa dagana.

 

Há sexa

Besta senan:
Allt með Sigga.

Categories: aww..., Ævintýramynd, Gaman(með drama-)mynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.