Gaman(með drama-)mynd

The Disaster Artist

Sannleikurinn er oft merkilegri en skáldskapur, ekki síður þegar átt er við um sannleikann á bakvið merkilegan skáldskap. Ef það er eitthvað sem er óskiljanlegra heldur en töfrandi samsetningin á The Room, þá er það maðurinn á bakvið hana. Tommy Wiseau er, svo vægt sé til orða tekið, einstök (mann?)vera sem fyrir mörgum árum síðan setti sér þau háu markmið að gera dramatíska sögu um svik, baktal… boltaleiki, meiri svik, handahófskennd atvik og gallalausa aðalpersónu, sögu sem kæmi beint frá hjartanu og færi vonandi á Óskarinn. Hann sá meira að segja sérstaklega til þess að myndin héldist í almennum sýningum nógu lengi til þess að eiga séns á þátttöku á hátíðinni.
Hversu dúlló…

Wiseau er svo sannarlega efni í bíómynd, og þökk sé endurminningabókinnarinnar The Disaster Artist var kominn prýðilegur grunnur að slíkri. Þessa sögu stóðst kvikmyndagerðarmaðurinn í James Franco ekki mátið að vaða í.

Reyndar, ef út í það er farið, þá eiga þeir Franco og Wiseau undarlega margt sameiginlegt (fyrir utan truflaða aðdáun á James Dean, sem Franco hefur sjálfur leikið). Báðir eru misskildir listamenn inn við beinið og með mikla þrá til þess að tengjast áhorfendum með nöktum tilfinningum sínum, blörrandi línuna á milli þess að vera óttalausir og hreint ruglaðir. Þó ferill Francos hafi verið farsæll yfir heildina þá gleymist það oft að hann hefur leikstýrt yfir 10 bíómyndum (á tólf árum – án djóks) sem fáir hafa séð, og færri kunnað að meta. Til að snúa lukkunni sér í hag kemur hann þá með sína aðgengilegustu mynd til þessa, sem hlær bæði og meðmanninum sem feilaði svo stórlega að hann breyttist í óvænta költ-fígúru.

Hér er rakin sagan af kynnum og samskiptum Wiseau við Greg Sestero, einn af aðalleikurum The Room og annan höfund bókarinnar. Við fáum að finna fyrir því hvernig var á bakvið tjöld og lokaðar dyr hjá þessum ólíku mönnum með sameiginlega drauminn: vinsældir – og hvernig óttaleysi Tommys gerði það að veruleika.

Í myndinni fáum við senu þar sem leiklistarkennari segir pent við hr. Wiseau að hann eigi ekki möguleika á öðru en að leika illmenni, eða skrímsli jafnvel. Nemendurnir hlæja að tilraunum og veruleikafirrtum draumum Wisesaus um dramaleik, sem þráir bara hvað mest að hella út sál sína á sviði, eða kameru. Sviðið er einmannalegt en á því stendur maður sem tengir það sem illa hegðun fólks þegar það hlær að öðrum, ómeðvitaður um að seinna meir myndi hann græða milljónir á fólki sem akkúrat bendir og hlær að honum – en af ást.

James Franco tekst hið ótrúlega verkefni að gera Wiseau bæði að skiljanlegum og merkilega mannlegum einstaklingi án þess að fórna dulúðinni og bjartsýnu geimveruárunni sem yfir manninum býr. Franco er gjörsamlega týndur í hlutverkinu og þar af leiðandi rætist úr þessu stórsigur, jafnvel ein besta frammistaða hans frá upphafi. Ekki er það bara vegna þess að maðurinn nær fullkomlega að fanga takta mannsins, heldur nær hann einhvern veginn að gera eitthvað svo miklu meira úr þessu en bara eftirhermu. Og eftirhermur af Wiseau hafa aldrei verið af skornum skammti, enda einn kvótanlegasti maður veraldar.

Að öðru leyti er The Disaster Artist tveggja Franco-bræðra díll. Yngri bróðirinn, Dave, er ágætur og viðkunnanlegur á sinn máta en samt kolvitlaus maður í hlutverki Gregs, nærfatamódelsins með leikgetu sápuóperustjörnu. Það er líka stundum truflandi, vitandi það að bræðurnir eru bara að grilla hvorn annan, frekar en að hægt sé að taka þá fyllilega alvarlega sem persónur. James selur þetta annars vegar betur, með mikilli aðstoð góðrar förðunar, og telst það til mikils afreks að Wiseau reynist vera dýpri karakterinn af þessum tveimur.

Nóg er af góðu fólki til að fylla upp í tiltölulega bratta framvindu myndarinnar, hvort sem það eru skemmtilegar gestainnkomur (Sharon Stone??) eða mikilvæg aukahlutverk, eins og Alison Brie, Paul Scheer, Josh Hutcherson, Nathan Fielder og fleiri. Bestur úr hópnum er Seth Rogen í hlutverki Sandy Schklair, manns sem var upphaflega ráðinn sem umsjónarmaður handrits á setti en endaði með því að yfirsjá stóran hluta framleiðslunnar – svo fólk yrði ekki í hálfa öld í tökum miðað við vinnubrögð og reynslu Wiseau. Hægt og rólega fer Schklair að hætta að láta sérvisku leikstjórans koma sér á óvart.

The Disaster Artist hefði alveg mátt slútta því að opna myndina með því að sýna viðtalsbúta með frægum leikstjórum og leikurum, sem ausa lofi sínu yfir The Room, og rammar Franco hana þannig inn, sem festir myndina svolítið við núið meira en þarf. Samanburðar-vídeóið í lokin var sömuleiðis óþarft, en þar montar Franco sig verulega af því hversu mikil nákvæmnisvinna fór í að kvikmynda senur beint eftir The Room. Þetta er ekkert nema skondin viðbót sem ætti heima sem hluti af aukaefni myndarinnar. Þar fyrir utan er einn partur sem viðkemur Bryan Cranston sem gefur myndinni mjög falska og þvingaða tilfinningaspennu, þegar hún er þegar uppfull af slíkri spennu fólks og tækifærum til annarra ágreininga.

Myndin virkar best sem furðuleg (en á tíðum pínlega klisjukennd) saga af ólíkum félögum sem vilja ofar öllu sjá drauma sína rætast, þó Wiseau sé oftar þannig spilaður eins og hann vilji bara góðan félaga. Ég keypti ekki alltaf vináttuþráðinn á milli Francos og… Francos, en það er aldrei leiðinlegt að fylgjast með því hvernig Greg reynir að hemla á allri skynsemi til að elta þennan bjartsýna furðufugl sem hefur peningalausnina við öllu, og gæti mögulega orðið lykill hans að frægðinni sem hann vill.

Við stjórnvölinn sér eldri Franco vel um að meðhöndla tóna og rennsli og hræðist þess ekki að gæða sál og hvetjandi straumum í verkið. The Disaster Artist er samt engin Ed Wood, og Franco kemst ekki 100% upp með það að finna mikilveginn á mynd sem bæði vill gefa okkur innsýn í líf, þjáningu og karakter þessa manns og gera grín að honum á sama tíma. Eitthvað er aðeins skautað yfir það hvað Wiseau var raunverulega mikið fífl á settinu og það eru ýmsir litlir tengipunktar í frásögninni sem lykta hreinlega af orðinu “skáldaleyfi!”

En hvað um það, hvernig er kynlífið hjá þér?

 

Besta senan:
Frummarinn.

Categories: Gaman(með drama-)mynd | Leave a comment

Soldiers: Story from Ferentari

Mannfræðingurinn Adi flytur í fátækasta hverfi Búkarest til að skrifa um manele-tónlist eftir að kærasta hans yfirgefur hann. Í hverfinu kynnist hann fyrrverandi fanga, Alberto, og eftir að óvænt tengsl myndast þeirra á milli eru mennirnir komnir í ástarsamband, og sambúð seinna meir. Adi er sannfærður um að þetta verði bara fínasta tilbreyting en Alberto er óskaplega krefjandi, ókurteis og ósjálfstæður einstaklingur. Adi gæti hafa gert stór mistök og finnur fyrir því á ný hvað ástin er erfið, og enn erfiðari þegar ómögulegt er að hafa nokkurn hemil á elskhuganum.

Soldiers er í fyrsta lagi ljúfsár og mynd, full af hreinskilni, þar sem gallalaus frammistaða aðalleikaranna mótar mjög náttúrulegt andrúmsloft, jafnvel þótt persónurnar séu ekkert sérstaklega eftirminnilegar (Adi þá aðallega). Áhorfandinn gerist fluga á vegg og tengir sig við stefnu sambandsins hjá mönnunum. Ef tengslin hefðu ekki gengið upp væri myndin fljót að gliðna í sundur, en trúverðugleikinn heldur öllu saman. Alberto er athyglisverður á sinn hátt á meðan Adi er töluvert flatari, en hann er líka hljóðlátari týpan sem lætur margt yfir sig ganga.

Myndin veitir örlitla innsýn í tónlistarsenu Rómafólks (sem er tengt sérstaklega við manele-poppið) en hefur litlu við að bæta í þeim málum nema fyrir þá sem þekkja menn­ingar­heiminn betur fyrir. Myndin á það til að dragast á langinn með skotum af bæjarsamfélaginu og löngum tökum sem koma á tíðum út eins og myndin sé að leggjast í einhvern dvala. Á tæknilegu stigi er lítið til að hrópa húrra fyrir en Soldiers flæðir pollrólega með sannfæringarkraftinn að vopni. Fínasta mynd yfir heildina sem hefði þó getað orðið frábær ef svona tuttugu mínútur hefðu verið klipptar af heildarlengdinni.

 


Létt sjöa

Besta senan:
Matarboðið.

Categories: Gaman(með drama-)mynd | Leave a comment

Snjór og Salóme

Við kynnumst hinni ungu og viðkunnanlegu Salóme. Hún vinnur á útvarpsstöð og býr með fyrrverandi kærasta sínum, Hrafni, sem hún heldur góðu sambandi við. Lífið virðist vera nokkuð venjulegt og átakalaust þangað til að Hrafn byrjar að hitta nýja stelpu – og fljótlega barnar hana. Eins og sannur herramaður ákveður hann auðvitað að það sé fín hugmynd að leyfa barnsmóðurinni, henni Ríkeyju – sem ber tvíbura undir belti, að flytja inn með þeim. Skiljanlega setur þetta veröld Salóme á hliðina, en stóra spurningin reynist vera hvort þetta sé upphafið að algjörri martröð eða einhverju töluvert ljúfara.

Íslenskar kvikmyndir um ungt fólk eru ekki af hverju strái og hingað til hefur hin svokallaða aldamótakynslóð aðallega fengið að halda sér í vissum „indí“ (jaðandi við „míkró-budget“-)geira. Tilbreytingin er ávallt góð og í stað þess að hæla Snjór og Salóme fyrir það hvað hún hefur, þá liggur við að sé meira jákvætt að finna í því sem hún hefur ekki; hér er enginn sveitabær í forgrunni, litlar sem engar fjölskyldudeilur, enginn drykkjuvandi eða linnulaus eymd.

Snjór og Salóme hefur vissan ferskleika sér til vopns og er í eðli sínu jákvæð og hjartahlý. En góður ásetningur og sterkur áhugi aðstandenda getur bara flutt eina kvikmynd ákveðið langt. Restin hvílir náttúrulega á sjarmanum, almennri úrvinnslu og ekki síður tæknivinnslu. Mikill sjarmi getur léttilega breitt yfir viðvaningslegt útlit en snyrtilegur stíll getur aftur á móti sjaldnast bætt upp fyrir sjarmaleysi. Þessi mynd líður fyrir að klikka á hvoru tveggja. Það er ódýr bragur á henni, oftar en ekki tilgerð í dramanu og, það sem verra er, einn af hverjum tuttugu bröndurum hittir í mark.

Myndin kemur frá sömu aðstandendum og gáfu út greddukómedíuna Webcam fyrir nokkrum árum, sem betur mátti líkja við krúttlega tilraun frekar en kvikmynd, af stílbrögðum, hljóðvinnslu og frásögn að dæma. Leikstjóri og handritshöfundur beggja mynda, Sigurður Anton, hefur greinilega ómældan áhuga á léttgeggjuðum persónum, eðlilega óeðlilegum samböndum þeirra og mikilli spunagleði en þarf betur að vanda sig í listinni að púsla slíkum þáttum saman í ásættanlegan heildarpakka.

Snjór og Salóme er annars vegar metnaðarfyllri og einlægari saga heldur en Webcam. Myndin fiktar við þemu um vináttu og erfiðin við það að horfa fram á við í lífinu en það verður þó fljótlega áberandi að leikstjórinn er ekki viss um það hvernig mynd þetta á að vera (Webcam átti við sams konar vandamál að stríða), eða hvað það sem hún ætlar sér að segja. Myndin styðst eina stundina við aðstæðubundna kómík, eins og hún óbeint sé kallandi eftir dósahlátri, en reynir að kreista út einlægu drama inn á milli í togstreitu titilpersónunnar.

Í hlutverki Salóme sýnir Anna Hafþórsdóttir hvað hún er efnileg leikkona, sem gæðir Salóme miklu lífi heldur en pappírinn hefur boðið upp á. Telma Huld Jóhannesdóttir hefur sömuleiðis mikla útgeislun og er sannfærandi að flestu leyti, þrátt fyrir að Ríkey sé líkari ýktri skopmynd þegar hún er kynnt til sögunnar áður en hún þróast hægt og
rólega í bitastæðari karakter. Húmorinn í myndinni er kannski að megnu til pínlegur en þegar reynt er að hamra á alvarlegri dýnamík á milli Salóme og Ríkeyjar laumast eitthvað trúverðugra í gegn. Því miður er þó langt á milli slíkra augnablika, en þessar tvær draga myndina þangað sem hún kemst og gera það með aðdáunarverðum sóma.

Vigfús Þormar Gunnarsson er ekki upp á marga fiska í hlutverki Hrafns, heldur bara einkennilega flatur. Maður skilur varla hvers vegna stelpurnar eru báðar svona helteknar yfir manninum, en hann er hvort sem er illa skrifuð persóna sem gefst lítið tækifæri til að þróa og hann hverfur reglulega úr myndinni eftir þörfum handritsins. Það kemur reglulega fyrir að tvívíðar og skrípalegar persónur skjóti upp kollinum, yfirleitt til þess að fylla upp í tímarammann, þótt það verði að segjast að þau Ólafía Hrönn, Júlí Heiðar, Ævar Már Ágústsson og ástralski grínarinn Jonathan Duffy bæti miklu við með hressleika sínum.

Það eru ýmsir sögupunktar sem eru ekki nægilega vel þróaðir, til dæmis skandall sem kemur upp hjá samstarfsmanni Salóme, leikinn af furðulega vannýttum Góa. Handritið hefði almennt þurft að fínpússa og samantektin hefði líklega skilað einhverju ef afgangurinn drægist ekki svona á langinn á röngum stöðum – oftast á tímapunktum þar sem lopi brandaranna er teygður upp að slitmörkum. Ég er viss um að það sé einhvers staðar hress, mannleg og eflaust hugguleg mynd til hjá Sigurði Antoni. En þetta er ekki hún.

 

 

Besta senan:
Vælubekkurinn.

 

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 13. apríl)

Categories: Gaman(með drama-)mynd | 2 Comments

Powered by WordPress.com.