Gamanmynd

Once Upon a Time in Hollywood

Hér er bíómynd sem sýnir ferlega vel hvernig margt smátt og sundurslitið getur myndað eitthvað stórt, áferðarmikið og bítandi í laumi. Þó Quentin Tarantino hafi sjálfsagt átt hvassari eða frumlegri daga, þar sem kúlið og kjafturinn trompar flest, er Once Upon a Time in Hollywood trúlega hvað persónulegasta, afslappaðasta og ef til vill þroskaðasta verkið frá honum til þessa. Og líklega fyrsta pjúra gamanmyndin hans.

Á margan veg má segja að glamúrheimur Hollywood-iðnaðarins hafi tekið miklum stakkaskiptum undir lok sjöunda áratugarins, á “gullaldarskeiði” bransans. Á annan veg fjallar myndin um dag í lífi sjónvarpsleikarans Rick Dalton (Leo DiCaprio) og samband hans við dyggan áhættuleikara sinn – Cliff Booth (Brad Pitt) – atvinnutækifæri þeirra og tímamót innan umhverfis sem er þeim nú orðið sama og ókunnugt. Og ekki er „hippafaraldurinn“ að hjálpa.

Hins vegar stráir myndin líka inn sögu af Sharon Tate (Margot Robbie), lifandi lífinu til fulls á þeim tíma þegar hún átti alla framtíðina frammi fyrir sér. Myndin er ekki plottdrifin á neinn veg. Sagan lætur vel um sig fara í rólegheitunum en leikstjórinn svíkur ekki þá hefð að brjóta hefðbundnar strúktúrsreglur og föndra með frásögnina að vild, og blanda saman fantasíu og raunveruleika á mjög Tarantino-legan máta – sem er gott, en gefur kannski ekki frá sér sama högg og undanfarin skipti. Eflaust var það aldrei markmiðið en maður kemst ómögulega hjá því að bera Tarantino-verk saman við önnur Tarantino-verk.

Það er ekki óhentugt að líkja Once Upon a Time in Hollywood við eina vanmetnustu myndina hans, Jackie Brown, mynd sem hlaut milt en prýðislof á sínum tíma en hefur orðspor hennar einungis aukist með tímanum. Á meðan persónur í myndum Tarantinos eru yfirleitt háfleygar, jafnvel ýktar en þó ákveðið agressífar, eru þær ósköp jarðbundnar og viðtengjanlegar í þessari nýjustu mynd hans – en hið sama má akkúrat segja um Jackie Brown.
s
Áhorfendur í leit að klassískri A-til-B framvindu eða söguþræði í hefðbundinni merkingu orðsins eiga lítið erindi hingað. Myndin er merkilega plottlaus og virkar hreinlega stefnulaus við fyrsta áhorf, með sáran skort á ágreiningum og hefðbundna “keyrslu.” Once Upon a Time in Hollywood virkar því meira – á tíðum a.m.k. – eins og samansafn langra sena sem finna sinn kjarna undir lokin frekar en hnitmiðuð frásögn. Þetta er annars vegar ekki beinlínis hemlandi galli og vinnur með bugðóttri heildarsögunni frekar en ekki. Þetta meinta stefnuleysi verður hægt og rólega að einhverjum stærsta sjarma myndarinnar – sérstaklega í seinni áhorfum. Fyrir mitt leyti á það enn eftir að gerast að Tino-myndir verði ekki ögn betri og lagskiptari því oftar sem þær eru séðar og meltar.

Flestar ef ekki allar senurnar á über-gjafmilda sýningartíma þessarar myndar gera heilmikið fyrir prófíl karaktera og almennt andrúmsloft myndarinnar, sem sagt þetta vanafasta nostalgíurúnk leikstjórans, L.A. rætur hans, poppkúltúrsþekking, vestra- og táslublæti er hér ríkjandi fyrir allan peninginn. Tarantino hefur venjulega notast við hefndagirni, örvæntingu eða stórar peningaupphæðir til að keyra persónur sínar áfram, en ekki hér. Hér fá allir bara að njóta, læra og vera til á mikilvægum tímamótum í lífi þeirra.

Tarantino flytur áhorfandann áreynslulaust til þessa tímabils, að vísu með ómetanlegri hjálp frá Robert Richardson tökumanni, rúllandi góðu sándtrakki, búninga- og sviðshönnun og öllu tilheyrandi sem heyrir undir skipun höfundarins. Umrætt tímabil er pakkað saman með hressum, björtum en hálf melankolískum lofsöng á blálok sjöunda áratugarins. Einnig var á þessum tíma þrúgandi upprisa þekktra morðingja í Bandaríkjunum og geislar harmleikur Manson-morðanna og fylgjenda hans yfir glansa skemmtanabransans eins og hann er sýndur. Pólitískur ágreiningur tímabilsins ómar annað slagið í útvarpsútsendingum í bakgrunninum og gefur í kjölfarið upp skýrari mynd af tíðarandanum. Það er ýmislegt dýpra í pípunum hérna í tengslum við stöðugildi, brostin egó, vináttu, kraft og tengingarmátt bíólistarinnar (en ekki hvað?) og kynslóðabil.

DiCaprio og Pitt eru algjörlega upp á sitt bestasta og hressasta (og líkindi Brads við Robert Redford í seinni tíð eykst stöðugt). Rick er hið fyndnasta grey á barmi taugaáfalls á meðan hann glímir við eigið mikilvægi og matsgildi, á meðan hinn sultuslaki en vafasami Cliff lætur hvorki breytingaskeið iðnaðarins né eigin skuggafortíð trufla sig. Saman eru persónur þeirra beggja litríkar, viðkunnanlegar upp að gefnu marki en alltaf ánægjulega uppteiknaðar. Samspilið og ósagða sagan á milli þessara manna er aðall myndarinnar og skilar sér 100%. Það kæmi heldur ekki á óvart ef margir mátar, helst til drengir, eigi í framtíðinni eftir að deila um það sín á milli, hvor þeirra sé meiri Rick eða Cliff í sínu vinasambandi.

Robbie er alveg á tæru fullkomin í hlutverk upprennandi leikkonunnar Sharon Tate, eða gefinnar fantasíuútgáfu af henni. Myndin er ekki síður (jafnvel meira svo) lofsöngur til hennar en tímabilsins sem þekur söguna en erfitt er að færa rök fyrir öðru en að hjarta, hlýja og sál myndarinnar skrifist á hana. Því er augljóslega sú nálgun viljandi að hafa Tate svífandi um atburðarásina í stað að vera virkur þátttakandi í sögunni sjálfri.

Þetta veldur því að hún fær ekki sérstaklega margar línur og sjáum við lítið gert við leikkonuna nema bara að sinna hinu hversdagslega. Á móti dekkri skuggum Daltons og Booth er Tate þarna algjörlega til þess að vera tákn vonar, bjartsýninnar og sakleysis. Þarna er Tarantino samt óneitanlega á hálum ís; nálgunin svínvirkar innan marka og kemur Tate oft út eins og lifandi Disney-prinsessa. Robbie hefur meira í sér en að vera skraut og hefði mátt finna sterkari milliveg og gefa Tate meira vægi í innihaldinu – og þá allra helst á lokametrunum, frekar en að salta henni inn í þematilgangi auk þess að gegna hlutverki vissrar truflunar í narratífunni.

Umfang myndarinnar býður annars upp á botnlausa stóra súpu af gestaleikurum og blasir við að hver og einn hafi einhverju við stjörnufansinn að bæta. Á meðal þeirra sem bera skilyrðislaust af eru Julia Butters, Lorenza Izzo, Margaret Qualley, Al Pacino, Kurt Russell, Timothy Olyphant, Austin Butler og Damian Lewis í hlutverki Steve McQueen. Mike Moh stelur líka hverjum ramma með eina líflegustu Bruce Lee-eftirhermu allra tíma, og stórlega umdeilda ofan á það.

Ljóst er þó að flestir áhorfendur deili ekki sama blæti fyrir “gamla” Hollywood eins og Tarantino sjálfur. Þarna er líka komin auðfengin ávísun á dóminerandi typpa- og valdafýlu hvítra karla (eins og þessi heimur var nú þá… og enn í dag að mörgu leyti) og er erfitt að vita hvort það sé viljandi gert eða ekki hvað minnihlutahópar eru óvenju fjarverandi. En þrátt fyrir að Tarantino skapi trúverðuga og raunsæja mynd af tímabili sínu gerir maðurinn lítið til að kommenta á það í nútímasamhengi, þá án nostalgíugleraugnanna.

Rétt aðeins undir lokin er leikstjórinn kominn í talsvert kunnuglegri gír og má sjálfsagt deila um það hvort klímaxinn stemmi fullkomlega við allt sem hefur á undan komið (og merkilegt að hugsa til þess að þessar mínútur séu merki um leikstjórann að hemla sig), en ánægjan sem fylgir umræddum – og sprenghlægilegum – lokasenum er hin mesta dásemd.

Þó það sé mikil klisja að segja það er þetta að miklu leyti eins og bíómyndin sem ferill leikstjórans hefur lengi leitt að; úr verður þá einstakt ástarbréf og fortíðarinnlit frá manni sem blæðir hreinlega út umhyggju fyrir kvikmyndaforminu og um leið má segja að þetta sé manneskjulegasta myndin hans af öllum í þokkabót. Myndin er umdeilanlega aðeins of löng – eða það verður allavega álit almennings sem á erfitt með bíósetu án þess að glugga í símann – og má alveg finna fyrir lengdinni. Hún slær í tæpa þrjá klukkutíma en ef maður kemst inn í grúvið og trippið sem tásluóði bíómeistarinn kallar fram, er varla hægt að segja að sú lengd sé annað en gjöf. Ég hefði alveg getað góðan klukkutíma í viðbót.

Tarantino áætlar að áhorfandinn þekki til Manson-kúltsins og að sama skapi Hollywood-menningarinnar sem hún tekur fyrir og því ekki eins aðgengileg fyrir víðan almenning og margar hverjar af þekktari Tarantino-myndunum. En hún er kvikmynd sem mun að öllum líkindum eldast vel með þematíska, þrælskemmtilea afturhvarfi sínu og standa upp úr þegar heildarferill mannsins er grandskoðaður og ítarlega krufinn á seinni árum.

Besta senan:
Í stuði við sundlaugabakkann.

PS. Heba Þórisdóttir förðunarmeistari fer með lítið hlutverk sem… jú… förðunarmeistari. Gott touch þarna, og íslenski hreimurinn leynir sér ekki.

Og… bara sem nördalegur viðauki, og upp á ákveðið samhengi, þá skil ég eftir gæðaröðun á QT myndum eftir persónulegu uppáhaldi.

1. Inglourious Basterds
2. Django Unchained
3. Pulp Fiction
4. Once Upon a Time in Hollywood
5. Jackie Brown
6. Reservoir Dogs
7. The Hateful Eight
8. Kill Bill
9. Death Proof

Categories: Gamanmynd, Kryddblöndumynd | 2 Comments

Yesterday

Hvernig væri heimur án Bítlanna? 

Enn betra… Hvað ef einn maður vaknaði skyndilega í þeim heimi og tekur síðan þá ákvörðun að “semja” lögin fyrir eigin frama?

Óneitanlega er þarna komin skemmtileg hugmynd að “lyftu-pitch’i”. Það má allavega vinna ýmislegt með þetta og ekki síður þegar fínir fagmenn eins og Danny Boyle og Richard Curtis koma að verkinu. Sameining þeirra er sérstaklega merkileg í ljósi þess hvað þeir eru báðir ákaflega ólíkir; annar hrárri, hinn aðgengilegri í augum pöpulsins. Boyle er vissulega best þekktur fyrir ryþmískar, stílískar, (oft) tenntar sögur sem fljúga á góðum púlsi og góðum leikurum. Curtis er annars vegar mjúkur, væminn en geysilega heillandi rómantíkus þegar vel tekst til. Sameining þessara krafta ætti í það minnsta að vera áhugaverð, svo framarlega sem eitthvað er gert við hráefnið, eða áðurnefnt pitch – frekar en að skauta á gimmick’inu einu.

Þá skýrist að Yesterday dregur út fátt annað en verstu einkenni beggja kvikmyndagerðarmanna – og satt að segja þykir mér frekar furðulegt hvernig Boyle náði ekkert að lyfta þessu upp á neitt bitastæðara stig. Það sem hefði í besta falli getað orðið að frumlegri, hálf-súrrealískri tónlistarmynd með góða rómantík í mixinu, verður fljótt og sígandi að sjarmalausri, lafþunnri og óspennandi klisjusúpu; mynd sem skortir allt flæði, allan ágreining, almennilegan púls og líður fyrir það að bjóða áhorfendum upp á ómerkilegan pappír í formi aðalpersónunnar. 

Boyle virðist alveg kominn á sjálfsstýringu og nær litlu afli með tónlistarsenunum og kemur rómantíski kjarnaþráðurinn út eins og aðferð til að redda lokaþriðjungnum frekar en eitthvað sem var lagt út frá grunni. Curtis skrifar myndina eins og blöndu af tónlistar-biopic með klassíska vanillubragðinu og í senn fjandi hallærislega skilaboðasögu (“Bannað að ljúga, krakkar!”).

Yesterday hefði getað dansað við svo margt spennandi, og það er frústrerandi hvað hún kemur inn á marga spennandi vinkla án þess að gera nokkuð af viti við þá. Til dæmis hvernig súrrealismi Bítlanna og ýmsar tónlistarákvarðanir fúnkera í nútímanum þegar tónlist er svo víða átótjúnuð, dæld út af færibandi og undir stjórn framleiðenda sem einbeita sér meira að almenningsaðgengi og markaðsrannsóknum frekar en tilfinningum og list. Líka koma reglulega upp spurningar eins og: “Ef Bítlarnir eru ekki til, hvað fleira ætli sé fjarverandi einnig?“ Eru meðlimir Bítlanna einu sinni til í þessum heimi? Eru fleiri sem muna eftir hljómsveitinni eða er það bara aðalpersónan? Nær sá karakter einu sinni að muna orðrétt eftir hverjum og einum texta? 

Allt ofantalið tilheyrir tékklista af hugmyndum og pælingum sem framvindan hefur sáralítinn áhuga á að grandskoða, en þá tekur í staðinn við þessi spurning: Hvernig ætli það sé að horfa á Ed Sheeran með bullandi minnimáttarkennd? 

Sheeran er fjarri því að vera lekandi af skjá-karisma – og er satt að segja best geymdur í smáskömmtum (a la Bridget Jones’s Baby). Himesh Patel er fínasti leikari en vinnur úr óskaplega óspennandi karakter, sem erfitt er að veita samúð eða stuðning – þó svo að hann fái leiðinlega foreldra sem eru beint teknir af nýskipaða lager Bohemian Rhapsody. Stórfínu fólki í aukahlutverkum er annars vegar sóað alveg til tunglsins. Meira að segja Lily James, sem venjulega springur af útgeislun og talenti, er frekar vannýtt, persónuleikalaus og gegnir meira hlutverki plottpunkts frekar en manneskju. 

Myndin kemur líka með ákveðið “tvist” undir lokin sem trúlega á að vera upplífgandi og fallegt, en sjálfur fékk ég bara mígreni yfir ranghvolfuðum augum. Það eru ágætis brandarar pipraðir inn hér og þar, en þegar svona pitch-saga er til umræðu væri annað argasta sóun. 

Yesterday stenst ákveðnar lágmarkskröfur í tengslum við áhorfanleikagildi – hún lúkkar vel, hljómar vel og fær nokkur aukastig fyrir fína klippingu, en tæknivinnsla og samsetning gagnast holóttri heild afskaplega lítið. Það er umdeilanlegt hvort Boyle hafi átt verri daga, en þessi mynd undirstrikar það ennfremur að það fari honum ekki að vera svona sykraður. Alveg eins og Curtis þarf sjálfur að herða á eigin getu og hætta að endurtaka sig. 

Fyrir hinn kröfulitla áhorfanda er örugglega fína einnota afþreyingu að finna í þessu – og saklausa sem slíka. En undirritaður sér bara þreytulega og gildislausa ástar-konsept-kómedíu sem tekur góðar pælingar og snýtir sér með þeim.

Besta senan:
Oasis-djókurinn.

Categories: Gamanmynd | Leave a comment

John Wick: Chapter 3 – Parabellum

Stundum má velta því fyrir sér hvort John Wick myndirnar séu eða verði afskrifaðar af mörgum í framtíðinni sem taumlaust ofbeldisklám (sem sérstaklega daðrar við innbyggt byssublæti). Að þær séu fátt meira en sundurteygðar afsakanir til að snillingar monti sig af koríógraffi, látum og typpakeppnum – og sé raunverulega engin saga eða þýðing á bakvið þetta allt.

Þarna kem ég inn, sem bæði skammarlaus Keanu-aðdáandi og klappstýra fyrir þessa seríu, og berst dyggðarlega fyrir því að segja að þessar myndir hafa næstum því skapað eigin sérflokk hvað meint ofbeldisklám varðar – þess vegna hef ég alltaf verið hrifinn af lýsingunni “ofbeldisballett”.

John Wick-myndirnar hafa fótað sig upp í það að vera ekkert annað en masterklassa-hasarveislur, þar sem saga og örk eitursvalrar hetju mótast í gegnum magnandi hasarinn þar sem hann bókstaflega lemur djöfla sína frá sér í leit að endurlausn, og sjálfum sér í raun. Það er eitt að segja sögu sem reglulega kallar fram eftir slagsmálum og eltingarleikjum, en að segja söguna með slagsmálunum, hnífakeppnunum, hestareiðunum og byssuhvellunum er snúinn galdur. Mad Max: Fury Road er til dæmis hið fullkomna dæmi um það hvernig hasarmynd leggur út framvindu og sýnir persónusköpunina mest megnis þögult og með gjörðum án þess að missa nokkur tök á adrenalíninu.

Ekki ósvipað má segja um John Wick: Chapter 3 – Parabellum; lengstu, hörðustu, ýktustu og trúlega fyndnustu mynd seríunnar hingað til. Fyrir utan snargeðveika bardagahönnun og stönt, sem veldur því að áhorfandinn finnur fyrir hverju höggi nánast og missi tennur, þá er Keanu einfaldlega bara fæddur í rullu stóíska, fámála bardagamannsins. Örk persónunnar er líka gegnumgangandi í þróun þar sem hverju sinni er skoðað hvernig maður hann vill vera – og hvað sé næst. En svo má bara ekki gleyma því hversu viðbjóðslega auðvelt er að halda með manninum, sérstaklega í heimi þar sem þriðji hver maður er leigumorðingi.

Parabellum fer af stað eins og raketta – og réttilega! Einn af mörgum hápunktum seinustu myndar var þessi ljúffengi “Ó, fokk!” endir og gegnir hann hlutverki fullkomins stökkpalls fyrir dramatíska klípu hjá titilhetjunni góðu. Þegar við sáum hann síðast hafði hann brotið reglur síns samfélags og fengið á sig 14 milljón dollara prís á sig, eða boð í opið hlaðborð hjá öllum til að reyna sitt besta á manninum, oft í bílflotum. John Wick var þó heppinn maður og frá upphafi þessarar myndar á hann enn tæpan klukkutíma til stefnu (mikið óskaplega breyttist birtan hratt frá endi síðustu myndar) áður en allt kaosið byrjar.

Hvert lofofð sem forverinn eða þessi mynd leggur út er efnt. Parabellum er á kafi í flottum bardögum, einvígum, skothríðum og almennri “ég-trúi-ekki-að-hann-drap-manneskju-með-þessum-hlut” maníu – á besta máta. Myndin heldur flæði og kætir stanslaust augað með stílíseringu úthugsaðra lita og klippingar sem aldrei flækist fyrir. Það ríkir líka svo mikið texture í þessum heimi, sem lífgar auðvitað enn meira upp þegar gúrme sarpur af aukaleikurum fylgir með, þar sem allir hafa einhverju bitastæðu við að bæta.

Bardagalistamaðurinn og B-hasarkóngurinn Mark Dacascos er til dæmis á algerum heimavelli hér og stelur þónokkrum senum með drepfyndnum karakter. Ég kemst heldur ekki yfir það hvað Anjelica Huston, Ian McShane, Halle Berry, Asia Kate Dillon og Lance (fokking) Reddick eru öll grjóthörð á sinn hátt.

En missmekkleg dráp, adrenalín og saltaður slagsmálafarsi er auðvitað ekki handa öllum og ömmum þeirra, en það er gefið að fólk á ekkert erindi til þessara mynda ef sú fyrsta hitti ekki í mark. Ég myndi sjálfur færa rök fyrir því að hverju framhaldi hefur hingað til rétt tekist að toppa þó sterkan undanfara og það fylgja því mörg bónusstig hvað þessi yfirdrifni launmorðingja(bíó)heimur er úthugsaður, vel víkkaður og barasta stórskemmtilegur. Það er líka endalaust hressandi hvað aðstandendur eru sífellt meðvitaðir um absúrdleika þessara mynda og nýta sér viðeigandi tækifæri til að gera grín að því.

Það helsta sem mætti saka myndina um væri að vera fimm til tíu mínútum of löng og kemur út eins og eitthvað af þeim tíma fari í persónur sem er mögulega að geyma til næsta kafla, eða hasarinn fer að jaðra við endurtekningar á lokametrunum. Trúlega er það viljandi gert, því undir lokin eru áhorfendur orðnir næstum því jafn úrvinda og þungt andandi og aðalpersónan. En Reeves er í banastuði eins og hann kann og er þol mannsins á sextugsaldrinum okkur öllum til skammar.

Væri kúl að enda þetta hér?

En vil ég sjá annan Wick?

ENGIN SPURNING.

Besta senan:
Bók. Hnífar. Hestur. Umsátrið. Allt.

Categories: "Djöfull-ætla-ég-að-drepa-þig!" mynd, Ævintýramynd, Dansmynd, Eitthvað annað, Gamanmynd, _ | Leave a comment

Powered by WordPress.com.