Gamanmynd

Miracle

Miracle gerist í litlum bæ í Litháen í kringum upphaf tíunda áratugarins. Bærinn var áður undir kommúnistastjórn og ríkir mikil eymd meðal íbúa. Aðalpersóna myndarinnar, Irena (frábærlega leikin af Eglé Mikul­ionyté), er sjálf á barmi gjaldþrots og er eigandi svínabús sem ekki ber sig. Lífið virðist vera á hraðri leið niður á við þegar skyndilega mætir auðugur, amerískur herramaður (Vyto Ruginis) í bæinn og lætur ekki lítið fyrir sér fara.

Ameríkaninn vill kaupa svínabúið, finna nýjan flöt á rekstrinum og hefur kannski eða kannski ekki lausnina á öllum vandamálum Irenu. Er draumurinn þá að rætast eða er eitthvert smátt letur sem enn hefur ekki komið í ljós? Og er nokkuð hægt að velta sér upp úr smáu letri þegar möguleikarnir eru takmarkaðir fyrir?

Sagan fjallar með ferskum hætti um tengingu okkar við fortíðina, heimaslóðir, erfiðleikana við að horfa fram á við og hvernig lítið, hrörnandi bæjarsamfélag tekur umsvifalaust nýjan lit þegar áhrif og peningamáttur Kanans kemur og umbreytir öllu á örlagastundu. Í leikstjórasætinu sér Egle Vertelyte til þess að enginn rammi fari til spillis og heldur líflegum takti með óútreiknanlegri framvindu sem aldrei missir flugið eða yfirsýn yfir farsann eða þemun. Stíllinn minnir heilmikið á verk eftir Aki Kaurismaki en andrúmsloftið er léttgeggjað og skemmtilega þurr húmor yfirgnæfir smábæjarsöguna sem hefur ýmislegt að segja. Kaldhæðni leikur einnig mjög stórt hlutverk.

Myndin er beinskeytt og skemmtileg, lágstemmd, fyndin á köflum, ýkt í uppsetningu og framvindu en jarðbundin og trúverðug í persónusamskiptunum. Gott í þessu.

 

 

Besta senan:
Breytingar-montage’ið talaði allan sannleika.

Categories: Gamanmynd | Leave a comment

Spider-Man: Homecoming

Á fimmtán árum eru myndirnar um Kóngulóarmanninn orðnar sex að talsins (tæknilega sjö ef við teljum Captain America: Civil War með), leikararnir þrír og endurræsingarnar tvær. Þetta kemur vissulega ekki á óvart í ljósi þess að ofurhetjumyndir hafa tröllriðið öllu í Hollywood síðustu árin, en Spider-Man er nánast einstakt tilfelli því á sambærilegum tíma eiga ekki einu sinni þursar eins og Batman og Superman roð í Lóa hvað fjölda mynda varðar. En allt virðist vera þegar þrennt er í ljósi þess að hingað til hefur ekki fundist fjörugri eða passlegri leikari í titilhlutverkið heldur en Tom Holland. En er það endilega ávísun á bestu Spider-Man myndina?

Spider-Man: Homecoming markar annars vegar fyrsta skiptið þar sem við sjáum fígúruna spreyta sig í sama bíóheimi og aðrar hetjur. Eins hefur nú verið lögð meiri áhersla á að yngja hann upp, einblína á skólaárin og útkoman verður eins og unglingasaga í líkingu við John Hughes-myndir frá níunda áratugnum (og finna má bæði skýrar og duldar tilvísanir í Ferris Bueller‘s Day Off), þar sem vill svo til að aðalpersónan klæði sig upp eins og ofurhetja af og til.

Tilbreytingin er hressandi og kemur eins og ferskur andblær að aðstandendur skulu hafa látið það eiga sig að eyða púðri í baksögu Lóa enn eina ferðina, þó gengið hefur prýðilega að segja nýstárlega upphafs- og þroskasögu án þess að fara eftir dæmigerðum klisjum.

Í upphafi sögunnar Peter Parker enn að jafna sig á spennu- og sæluvímunni sem átti sér stað eftir Civil War-bardagann á flugvellinum. Tölvustýrði búningurinn frá Tony Stark hefur gert mikla lukku en tilveran er ekki alveg að smella saman hjá drengnum og þráir hann fátt meira en að stefna hærra í lífinu. Hins vegar flækjast ýmis önnur vandamál fyrir líka, eins og til dæmis að finna tíma fyrir námið, vinina og ekki síður velta mikilvægari hlutum fyrir sér eins og að finna deit fyrir lokaballið. Stóra spurning Parkers í lífinu er annars vegar sú hvort hann hafi það sem þarf til að vera fullgildur meðlimur í Avengers-hópnum. Er það búningurinn sem gerir drenginn eða öfugt?

Eins og gildir um allflestar Marvel Studios myndir þá stendur Homecoming ekki beinlínis sjálfstæð, á marga vegu virkar hún eins og enn eitt tannhjólið í samhengi stærri Marvel-heimsins og uppbygging fyrir næsta Avengers-kafla. En aftur á móti er ótalmargt sem myndin gerir rétt þegar hún metin er sem „pjúra“ Spider-Man mynd og virðist sem að myndin hafi verið unnin af mikilli virðingu fyrir Kóngulóarmanninum sem hasarblaðahetju.

Holland nær virðulega að finna jafnvægið á milli þess að vera spenntur krakki sem hefur gaman af því að vera ofurhetja og í senn ósjálfselskur þjarkur sem leggur þarfir annarra fram fyrir sínar eigin. Þó Peter Parker eigi fullt eftir ólært í tengslum við ábyrgð og forgangsröðun hefur drengurinn aldrei verið klárari á hvíta tjaldinu, þó leikarinn hefði gjarnan mátt reyna við meiri dýpt í frammistöðu sinni en það skrifast meira á lafþunnt og bitlaust handrit fremur en annað. Það hringir oft einhverjum bjöllum þegar heilir fimm einstaklingar standa á bakvið það.

Það er lítið af dökkum skuggum í þessari Spider-Man mynd og fer ekki á milli mála að þessi sé sú léttasta til þessa og meira gíruð að yngri hópum heldur en átti við um seinustu túlkanir. Á hinn bóginn þýðir það líka að dramatískur þungi er sárlega lítill og virðist myndin vera of upptekin af bröndurum og ærslagangi til þess að rista neitt djúpt með sögunni eða jafnvel huga að þáttum eins og persónusköpun eða þemun.

Afraksturinn er algjör léttvigtarafþreying; fyndin á köflum, sæmilega hress út í gegn en skilur óskaplega lítið eftir sig og kemur oftar en ekki út eins og fátt í sögunni dragi á eftir sér einhverjar almennilegar afleiðingar. Hasarinn er sömuleiðis ágætur en í senn kraftlaus oftar en ekki og sker sig lítið út frá því sem við höfum séð í fyrri myndum (hingað til hefur engin hasarsena í Spidey-mynd komist nálægt því að toppa lestaratriðið úr fyrri framhaldsmynd Sam Raimi). Á nördalegri nótum virðist þessi eina mynd einnig setja tímalínu og continuity Marvel Studios-seríunnar í dálítið rugl. Úps?

Sem betur fer virðist hver og einn einasti aukaleikari hafa einhverju við heildina að bæta (fyrir utan Zendaya, sem er bara hreint og beint pirrandi), en þar kemur t.d. sterk inn hin persónuleikaríka Laura Harrier eða jafnvel Jacob Batalon í hlutverki besta vinar Parkers. Robert Downey Jr. lætur einnig vel um sig fara og dúkkar líflega upp af og til í hlutverki Tonys Stark, sem gegnir hlutverki leiðbeinanda Lóa og græjuhönnuð.

Michael Keaton kemur síðan sterkur inn og gerir óþokkan Adrian Toomes (betur þekktur sem The Vulture) að ánægjulegri viðbót. Viðveran er extra skondin vegna tengingu mannsins við bæði gamla Leðurblökumanninn og vissulega „Fuglamanninn“ í tilvistarkreppunni. En sem illmenni er Toomes hvorki of kómískur né kjánalegur – eins og oft hefur tíðkast í þessum myndum – og kemur í staðinn mátulega mannlegur skúrkur sem gerir oft ranga hluti af réttum ástæðum. Keaton neitar að stíga í þá gildru að verða á meðal tuga óeftirminnilegra og flatra illmenna í þessum Marvel-heimi og mikið af bestu senunum koma frá samleik hans við Holland.

Myndirnar um Lóa hafa mikið sveiflast til í gæðum og ætti Homecoming að lenda öðru hvoru megin við miðjuna. Hún er skemmtileg og fersk á vissan máta en hefur litlu við að bæta sem ekki hefur verið gert áður betur, þó svo að Holland skíni hispurlaust í aðalhlutverkinu. Vonandi verður fundin bitastæðri og eftirminnilegri saga fyrir næstu lotu. Athugavert er annars hversu gildislaus undirtitillinn Homecoming reynist vera þegar ballið tekur varla upp hálfa mínútu af heildarlengdinni. En fínasta afþreying, hvorki minna né meira.

( sexa skal það vera – svona ef við viljum vera smámunasöm)

Besta senan:
Spidey í úthverfunum.
Brilljant touch.

Categories: Ævintýramynd, Gamanmynd | Leave a comment

Baby Driver

Ungur og eldfær flóttabílstjóri sem kallar sig Baby situr fastur í skuld við glæpamanninn Doc og dreymir um betra líf. Það sem gerir Baby sérstaklega magnaðan undir stýri er hvernig hann leikur bókstaflega eftir eyranu og skipuleggur bæði líf sitt og akstursleiðir eftir tónlistinni sem ómar í eyrum hans.

Baby lenti í bílslysi í æsku sem olli honum sífelldu eyrnasuði og notar hann músík allar stundir lífsins til þess að drekkja út hljóðið. Þegar aðeins fer að birta til í lífinu myndar hann náin tengsl við huggulegu þjónustustúlkuna Deboru. Að losna úr krimmaheiminum er hins vegar, eðlilega, hægara sagt en gert.

 

Fagmaðurinn Edgar Wright, sem er þekktastur fyrir Cornetto-þríleikinn svokallaða (Shaun of the Dead, Hot Fuzz og World’s End), notast við kunnuglega uppskrift en finnur upp glænýja eldunaraðferð. Hér er hugað að púlsinum og sálinni á sama tíma í léttum og spennandi glæpatrylli. Það sem límir saman herlegheitin eru hnyttið handrit, rokkandi orka, meiriháttar tónlistarnotkun, flottir leikarar og brakandi fersk stemning alla leið.

Það eitt hvernig leikstjórinn vefur saman flóttasenur, adrenalín og músík setur myndina í eins konar sérflokk sem frumlegan, naglharðan en blíðan „eltinga(söng)leik“ sem heldur dampi og keyrslu allan tímann. Samsetningin og sér í lagi klippingin er helber snilld, en aldrei myndi þetta virka ef Ansel Elgort væri ekki að brillera svona í aðalhlutverkinu. Án sýnilegs erfiðis tekst honum að gera hinn fámála Baby að þeim silkimjúka töffara sem hann á að vera. Hann er viðkunnanlegur, berskjaldaður en í senn klár, sjarmerandi og svo gott sem óstöðvandi þegar heyrnartólin eru komin á kollinn.

Baby notar tónlist sem ákveðna flóttaleið, bæði andlega sem og í mjög bókstaflegri merkingu. Út söguna fylgjumst við með piltinum neyðast til þess að taka fullorðinslegar ákvarðanir þegar haldið er aftur af honum, á sama tíma og hann þráir fátt heitar en að láta sig hverfa út í buskann með Deboru. Óútreiknanlegu og glæpsamlega þenkjandi samstarfsfélagarnir þrengja að tilverunni og þá reynir á hversu fljótur hann er að hugsa.

Með hlutverk Deboru fer Lily James og fer hún létt með að bræða áhorfandann með mikilli útgeislun og heillandi karakter. Ef eitthvað skyldi setja út á er að það mættu vera ögn fleiri senur með henni. Engu að síður smella þau Elgort nógu krúttlega saman til að áhorfandinn vonast til þess að þau muni að lokum finna hamingjuna. Raunar hefur hver og einn einasti leikari í myndinni eitthvað bitastætt við heildina að bæta.

Persónurnar eru flestar erkitýpur en alls engar pappafígúrur fyrir það. Það sakar heldur ekki þegar sést að flestir leikararnir eru að njóta sín í botn. Að öðrum ólöstuðum virðist þó enginn skemmta sér meira en Kevin Spacey, þó þau Jamie Foxx, Eiza González og Jon Hamm séu líka öll í dúndurgóðum fíling.

Wright setur brandara og húmor ekki eins mikið í forgrunninn hér og hann hefur yfirleitt gert í fyrri myndum sínum, en heildarferill hans sýnir þó að hann hefur náð afbragðstökum á því að setja þroskasögur (sem í flestum tilfellum fela ástarsögu í sér) í poppaðan búning. Baby Driver er þar engin undantekning.

Fyrir utan byrjendaverk sitt (“A Fistful of Fingers” sem fáir hafa séð) hefur Wright aldrei gert slaka kvikmynd og með aldrinum hefur hann sýnt fram á aukna hæfileika á að kvikmynda fjölbreyttan hasar, oftar en ekki af gamla skólanum (lesist: án áberandi tölvubrellna). Wright og hans teymi útfæra hér glæsilega eltingarleiki sem sækja í brunn klassíkera eins og The Driver, The French Connection og meira að segja Blúsbræðurnir eru ekki lausir allra mála.

Myndin leikur sér auðvitað helling að hraða og byssuhvellum en varpar einnig ljósi á afleiðingarnar sem fylgja lífsstílnum sem er svo oft er varpað rómantísku ljósi á í bíómyndum.

Baby Driver ristir kannski ekki þematískt djúpt en það er með ólíkindum hvað stílbrögð og frásögn Wrights ná að pakka miklum upplýsingum í myndmálið. Það fer hvergi rammi til spillis á hnitmiðuðum, snyrtilegum lengdartíma. Þetta er mynd sem kallar á eftir mun fleiri en einu glápi. Heildin er ekki gallalaus en þessa flippuðu þeysireið er bara of erfitt að standast, sérstaklega af því að dæma hvernig ræman rýkur svoleiðis í gang í lokaþriðjungnum sem pakkar þessu öllu saman glæsilega. Ferskari mynd verður erfitt að finna í sumar.

 

 

Besta senan:
Margar, en þegar Focus með Hocus Pocus fer í gang fór hjartað á milljón. Blur-parturinn er líka dásemd.

 

Categories: Gamanmynd, já takk!, Kryddblöndumynd, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.