Grín

The Happytime Murders

The Happytime Murders virðist rísa og falla á einni einfaldri (og innantómri) grunnhugmynd. Hún lýsir sér þannig að það sé skilyrðislaust stórfyndið að fylgjast með leikbrúðum blóta, dópa og stunda fleiri ódönnuð dólgslæti. Handritsgerð eða hugmyndaflug með þessum tiltekna húmor fer rakleiðis í aftursætið. Þá stendur í rauninni eftir fátt annað en langdregin sketsamynd sem óskar þess að eiga roð í flugbeittu hnyttnina sem einkenndi t.d. Team America – þar sem háðsádeila og samtímagrín flutti ruddaskapinn á efra plan.

Staðreyndin er sú að The Happytime Murders hefur einfaldlega komið út röngu megin við aldamótin. Þetta er mynd sem ber 16 ára aldurstakmark en er í rauninni gerð handa 12 ára krökkum og styðst við 20 ára gamla brandara. Þá fellur ekki niðurstaðan aðeins í skuggann á ofannefndri brúðumynd, heldur líka uppátækjasemi efnis á borð við Crank Yankers sjónvarpsþættina eða Meet the Feebles frá Peter Jackson.

Það er erfitt að binda líflínuna við brúður í tómu lúalagi þegar aðstandendur eru langt frá því að vera fyrstir í mark, en ófrumlegheit má alltaf fyrirgefa þegar efniviðurinn er tenntur og heldur athygli. Hér er notast við þá hundgömlu tuggu að matreiða skopstælingu á harðsoðna „noir-geiranum“ og sárvantar skarpari eða breiðari vinkil. The Happytime Murders tekur helstu spæjaraklisjurnar fyrir (kynlíf, dóp, svik, kúgun, félagaerjur o.þ.h.) með lítilli meðvitund fyrir þeim klisjugildrum sem handritshöfundar lenda sjálfir í.

Það eina sem gerir verkið eitthvað merkilegt að lágmarki er vissulega aðkoma Brians Henson, son Prúðuleikaraföðursins Jim Henson (og þess má geta að Brian leikstýrði sömuleiðis einni bestu mynd þeirrar seríu, sem er Muppet Treasure Island). Þessari staðreynd fylgir auðvitað loforð um að brúðuvinnan sé til mikillar fyrirmyndar og hönnunin á ýmsum fígúrum skrautleg. Lengra nær það hins vegar ekki þegar persónurnar sjálfar – hvort sem þær eru handstýrðar eða af holdi og blóði – eru svona bragðlausar.

Áreynsluleysi er vanmetinn galdur í groddaragrínmyndum og það nær The Happytime Murders aldrei að mastera. Hún svitnar af rembingi og virðist Henson vera sannfærður um að kjaftagangurinn haldi merkilega bröttum sýningartíma á lofti. Myndin er rétt í kringum 70 mínútur en nær samt lítið á þeim tíma að koma með sögu, skítsæmilega persónudýnamík eða spennandi framvindu til þess að réttlæta þessa lengd sína af viti þegar hálftími hefði dugað.

Það má lengi tönglast á því sem þessi mynd nær hvergi tökum á, en það hversu ískyggilega ófyndin og fyrirsjáanleg hún er við hvert horn er hennar alvarlegasta brot. Það telst til mikils sigurs ef hálfu flissi er náð á þessum sýningartíma. Þar að auki þarf einhver loksins að flytja Melissu McCarthy þær fréttir að mikill kjaftur er ekki alltaf samasemmerki á hláturskast. Á góðum degi (og sérstaklega með efnilegt handrit) er ýmislegt hægt að gera gott við nærveru McCarthy, en þessi bíómynd dregur út hennar verri hliðar. Vonandi fær umbinn hennar vænt spark í heilaga svæðið eftir svona frussandi flopp.

 

Einkunn: Tveir dauðir Kermit’ar af tíu.

Besta senan:
Örugglega einhver throw-away lína sem ég flissaði yfir í míkrósekúndu, en gleymdi svo.
Týpískt.

Categories: Grín, Sori | Leave a comment

Deadpool 2

Það tók Ryan Reynolds heilar fjórar mislukkaðar tilraunir til þess að leika í bíómyndum byggðum á hasarblöðum (Blade Trinity, Wolverine, Green Lantern, R.I.P.D.) áður en hann loksins fann eina sem small, en leikarinn og Deadpool-fígúran fara saman eins og hnetusmjör og súkkulaði.

Árið 2016 voru umræður víða komnar á flug um að ofurhetjufaraldurinn væri orðinn eitthvað einsleitur, of „Disney-væddur“ og knúinn af leikfangasölu og þá kom Deadpool eins og kallaður; kjaftfor, sjálfmeðvitaður, taumlaus í hasarnum auk þess að reita af sér typpabrandara eins og líf hans velti á því.

Það má bæði segja að Deadpool 2 leyfi sér að fikta við breiðari og villtari striga en áður með trylltari hugmyndum og eigin reglum, eins og oft einkennir traustar viðbætur, en á sama tíma fellur hún í sömu gildrur og grínframhöld eiga til með að gera; endurvinna brandara. Myndin nær ómögulega að skáka eða jafna ferskan andblæ forvera síns, en nóg er til af sniðugum uppákomum til að myndin komist hjá því að vera of sjálfumglöð eða þreytandi, þó aldrei sé langt í það. Á ýmsum sviðum lítur myndin miklu betur út en sú fyrri; með flottari litapallettu, meiri dýnamík í hasar og klippingu. Þar kemur David Leitch (John Wick, Atomic Blonde) sterkur inn með stílbrögð sín í steypuna.

Helst fellur myndin í sundur þegar handritið hamrar á hlýju, tilfinningum og móral persóna, sem hér er oftar gert en fyrr. Sem fígúra kemst Deadpool upp með margt, eins og að rjúfa endalaust fjórða vegginn og benda á klisjur en kemst hann ekki upp með að taka sig alvarlega á sama tíma. Hins vegar er spilað skemmtilega með sjálfseyðingarhvöt andhetjunnar, því dramatískur dauðdagi hetja er víst „inn“ í dag en erfiðara fyrir karakter sem bókstaflega getur ekki dáið.

Karakterinn minnist nokkrum sinnum á „leti“ í handritsgerðinni, en þó höfundar segist vera meðvitaðir um klisjurnar afsakar það ekki tilfellin þar sem þeir falla í þær sjálfir. Á móti snýst notagildi áhorfenda eingöngu um þol hans fyrir smekkleysunni og einfalda spurningu: Hversu fyndið er þetta?

Útkoman er skondin en sjaldan sprenghlægileg. Tímasetning húmorsins var meðhöndluð af meira sjálfsöryggi aðstandenda í fyrri myndinni, sjálfsagt vegna þess að handritið var einfaldara, skarpara og hnyttnara. Deadpool 2 er jaðrandi við það vera ofpökkuð en tekur óvenjulega langan tíma að koma stemningunni (og dirfist maður að segja sögunni?) á gott ról. Síðari hlutinn verður sterkari þegar Josh Brolin og Zazie Beetz fá loksins eitthvað að gera. Hundfúlt er annars hversu lítið er gert úr frekar breiðu úrvali kvenna.

Myndin er uppfull af földum tilvísunum, einkabröndurum og skotum á dægurmenningu og myndasögur sem aðeins hnefafylli af fólki í sal mun ná. Hægri og vinstri eru tekin skot á ofurhetjugeirann eins og hann stendur í dag. Hæpið er að Deadpool myndirnar eldist vel í framtíðinni og þessi seinni þá sérstaklega, miðað við hvað tölvubrellurnar eru illa slípaðar og ljótar á tíðum.

Allir sem ypptu öxlum yfir fyrstu myndinni hafa lítið með þessa að gera. Framhaldið ætti að skemmta flestum hörðustu aðdáendum, bæði persónunnar og Ryan Reynolds. Eins er ómögulegt að smella ekki lágmarksmeðmælum á bíómynd sem blandar saman blóðsúthellingum við stórhressandi söng Dolly Parton um vinnutímann níu til fimm.

 

Besta senan:
Mid-credits kaflinn.

Categories: Grín, Kryddblöndumynd | Leave a comment

Fullir vasar

Yfirleitt er alvarleikinn allsráðandi í íslenskum glæpamyndum, sem á góðum degi getur leitt til bitastæðra verka en á versta tíma framkallað hlátursköst óviljandi, sem er því miður algengara tilfellið. Fyrir hverja Reykjavík-Rotterdam eða Svartur á leik eigum við minnsta kosti eina Kalda slóð og þrjár í líkingu við Austur.

Með Fullum vösum er spaugilegi tónninn annars vegar gefinn strax frá byrjun og ljóst er að aðstandendur vilji að þú hlæir að verkinu. Því gæti þetta vel verið fyrsta íslenska glæpakómedían í háa herrans tíð (trúlega síðan Sódóma, ef ekki Óskabörn þjóðarinnar), þar sem brandarar, sjomlar og gúmmítöffarar ganga fyrir. Fyrir leikstjórann Anton Sigurðsson er þetta mikil breyting á stíl frá fyrri verkum (Grafir & bein, Grimmd) og sækir kappinn hér í naglhörðu og léttgeggjuðu takta Guy Ritchie-mynda, Snatch og Lock, Stock svona helst, í bland við langan sketsaþátt.

Fullir vasar nær samt aldrei að komast yfir yfir einn hjalla og heilt yfir má segja að þetta sé meiri vörukynning heldur en bíómynd, með vænan tíma gefinn til þess að „plögga“ Domino’s, Vodafone og Húsasmiðjuna, sem dæmi. Myndin sjálf er innihaldsrýr og er lítið gert við karaktera sem tengist því ekki að tala út í loftið eða spinna brandara. Heppilega er ýmislegt í dýnamík drengjanna sem smellur og fyllir fínt í tómarúmið.

Myndin snýst annars um hinn lygasjúka og almennt misheppnaða Arnar (leikinn af Hjálmari Erni Jóhannessyni), sem þarf að koma sér úr skuld við glæpamann með því að ræna banka með félögum sínum, með aðeins nokkra daga til stefnu.

Áhorfandinn finnur aldrei fyrir þessari pressu og kemur út eins og vanti allt tímaskyn í framvinduna. Oft kemur líka fyrir að senur stefna hvergi og eru því yfirleitt bara til að tefja. Þetta kemur sérstaklega fyrir í auglýsingahléunum sem virðast vera byggð inn í söguna.

Fígúran Arnar er dæmigerður þöngulhaus sem talar út um rangan enda og kemur sér stöðugt í vesen. Hjálmar Örn felur annars reynsluleysið sitt vel og sinnir þessu hlutverki af miklu öryggi, en karakterinn hans er alltof háfleygur og álíka lúmskur og sleggja í nárann. Það er erfitt að hlæja að honum, eða með, og stuðningur frá áhorfandanum er enginn.

Það hefði getað orðið önnur saga ef myndin hefði þróað meira tengsl hans við dóttur sína, en hún hverfur alveg inn í bakgrunninn, eins og margt annað.

Hópurinn á skjánum er yfir heildina fjörugur og henta flestir efninu og týpum sínum vel. Strákarnir spila að mestu frekar náttúrulega hvor af öðrum – fyrir utan einn lykilmeðlim hópsins sem er áberandi stirðari en hinir. Aron Mola hefur vissa útgeislun og Egill Ploder á heiðurinn á nokkrum betri frösum myndarinnar.

Sveinn Ólafur Gunnarsson á einnig góða innkomu og Hilmir Snær Guðnason hefur masterað óborganlega drullusokkinn með glæsibrag síðan úr Fóstbræðrum. Sem kaupauki eru kostuleg gestahlutverk dreifð víða, sem bætir með naumindum upp fyrir ákaflega vannýttan Ladda, en hefði heldur ekki sakað að gefa leikkonum eitthvað til að gera.

Fyrri hlutinn er brattur á meðan seinni leysist meira eða minna upp í graut af klisjum og uppfyllingum. Það er sitt og hvað af bröndurum sem ganga upp (þar á meðal eitt kostulegt rifildi á táknmáli) og stöku sinnum er beitt eftirtektarverðum brögðum með klippingu og upptöku, þrátt fyrir að myndin detti úr fókus annað slagið og virki í heildina óslípuð. En langi þig í pitsu, glænýjan jeppa eða heitan pott að myndinni lokinni, er hún klárlega að gera eitthvað rétt.

„Týpískt íslenskt“ er þetta þó svo sannarlega ekki. Það má myndin eiga.

Besta senan:
„Domino’s þögnin“

Categories: Eitthvað annað, Grín | Leave a comment

Powered by WordPress.com.