Grín

The Snowman

The Snowman er byggð á samnefndum reyfara eftir norska rithöfundinn Jo Nesbø, sjöundu bókinni í röðinni um drykkfellda en fluggáfaða rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (þetta eftirnafn er víst borið fram „húle“ á móðurmálinu). Ætlunin hjá aðstandendum hefur vissulega verið sú að keyra í gang glænýja seríu í líkingu við myndirnar um Jack Reacher eða Alex Cross, en hér eltist herra Hole við fjöldamorðingja sem virðist alltaf fremja voðaverk sín þegar fyrsti snjór vetrarins fellur. Morðingi þessi gefur sér yfirleitt tíma til þess að stilla upp snjóköllum eða kasta snjóboltum til að hrella verðandi fórnarlömb sín, á meðan áhorfandinn flissar.

Þrátt fyrir að söguþráður myndarinnar eigi það til að detta í óbeinan farsa er erfitt að búast við einhverju slöku þegar svona öflugur hópur fagfólks kemur að henni. Sænski kvikmyndagerðarmaðurinn Tomas Alfredson hefur sýnt færni í smámunasemi, afbragðstök á leikurum og oftast dálæti á því að gera andrúmsloftið að heilli aukapersónu. Þetta er hinn sami og gerði t.d. Tinker Tailor Soldier Spy, Låt den rätte komma in og (ótrúlegt en satt?…) bíómyndina um Bert.

Alfredson er umkringdur öflugu samstarfsfólki, fyrir framan og aftan vélina. Meistari Martin Scorsese er einn af framleiðendunum og hefur klipparinn Thelma Schoon­maker sjaldan brugðist frekar en tökumaðurinn Dion Beebe. Þetta er allt fólk í heimsklassa, en einhvern veginn verður útkoman að svellköldum hrossaskít sem er líklegri til að vekja kjánahroll og hlátur í ómældu magni frekar en gæsahúð. Frá framvindu til samsetningar eða almenns trúverðugleika höfum við hér eitt stórmerkilegt klúður.

Liggur við að það sé aðdáunarvert (ef ekki efni í skylduáhorf) hvernig langflestar deildir missa marks; handritið, leikstjórnin, tónlistarnotkunin (hefur nokkurn tímann eins alvarleg bíómynd notast tvisvar sinnum við lag í líkingu við Popcorn með Hot Butter? Af öllum). Og meira að segja klippingin er furðu viðvaningsleg á stundum.

Flæðið er taktlaust sums staðar og til að kóróna allt eru fleiri göt í söguþræðinum heldur en telja má á fingrum beggja handa. Þetta gæti eitthvað tengst því að haugur af myndefni var klipptur úr loka­útgáfunni, af sýnishornum að dæma.

Efniviðurinn er að vísu forvitnilegur en myndina skortir alla spennu, alla dulúð og kyrrð. The Snowman er eins og afsprengi hundrað sakamálauppskrifta, íslensku myndarinnar Grimmdar og linari útgáfu af Millennium-myndinni sem David Fincher gerði. Það eru þokkaleg skot hér og þar en stemningin kemur að jafnaði út eins og mislukkað afrit af afriti. Leikararnir eru flestir áreiðanlegir á góðum degi en heftir hérna af furðulegum hreimum (þetta gerist í Noregi, sjáið til) og handriti þar sem erfitt er að sjá hvað snýr upp eða niður. Allar tilraunir til persónudýptar missa marks í svona týndri framvindu.

Þegar kemur að þjáðum, brotnum mönnum hefur Michael Fassbender margsannað sig sem einn af þessum leikurum sem gætu túlkað slíka menn í svefni, en að því sögðu þá kemur hann hér út eins og hann sé á sjálfsstýringu. Rebeccu Ferguson virðist farnast örlítið betur miðað við mótleikara sinn en hún dettur í sömu gildrur og hefur bara ekki úr sérlega miklu að moða, eða það að kolvitlausar tökur hafi verið valdar oftar en ekki.

Hérna fer nefnilega prýðisgott leikaraval til spillis, þó þurfi reyndar að sigta út krakkaleikara myndarinnar, enda hræðilegir allflestir. Annars hefði verið gaman að finna meira að gera fyrir Chloë Sevigny, James D’Arcy og Charlotte Gains­bourg svo einhverjir séu nefndir.

Síðan er Val Kilmer efni í heila umræðu út af fyrir sig. Hann fær reyndar ekki nema nokkrar stuttar senur, en eftirminnilegar eru þær. Frammistaðan er stórfurðuleg og ber merki um að ekki hafi náðst mínúta af manninum edrú á filmu. Annaðhvort það eða að maðurinn hafi verið nýstiginn úr jaxlatöku í hvert skipti.

Það er varla sjón að sjá Kilmer og hefur hann meira að segja verið illa „döbbaður“. Leikarinn og hans sérviska er þó aðeins dýrmætt brot af því sem gæti innsiglað það að The Snowman gæti átt sér langt líf framundan sem samansafn af skondnum klippum á YouTube, þar sem best má njóta vafasömu hápunktanna. Heildin hefði einmitt getað orðið æðislegt sorp ef myndin væri bara ekki svona furðuleiðinleg að mestu.

 

í rauninni á myndin skilið miklu minna, en hlátursfaktorinn þarf að virða.

 

Besta senan:
Þegar Fassi brosir óviðeigandi mikið í einum rammanum. Eða þegar hann tekur heimskulegustu ákvörðun veraldar í klímaxinum.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "Mynd", Grín, Spennuþriller | Leave a comment

Despicable Me 3

Best er að taka það fram strax í byrjun að viðbjóðslega háar líkur eru á því að bæði markhópur þessarar myndar og allir sem hafa áður elskað þær fyrri verða líklegast ekki fyrir miklum vonbrigðum með nýja eintakið.

Að því sögðu, þá er þriðja Despicable Me myndin klárlega sú sísta í röðinni (Minions er þar meðtalin), en þó ekkert langt á eftir hinum heldur, enda engin þeirra í líkingu við það vera einhver perla. Það var eitthvað samt svo þægilega einfalt við þær en sú þriðja spilast út eins og langur sitcom-þáttur; troðin upp fyrir haus af tvístruðum, misstefnulausum plottþráðum.

Sem algjör sápukúluafþreying gengur hún alveg upp en ef gæði eru til umræðu er myndin frekar flöt og óvenjulega ofhlaðin í senn, eins og hún sé að kasta öllu út sem hún mögulega getur til að reyna að halda seríunni gangandi – þó „heildarsagan“ sem slík hafði í rauninni ekkert marga staði til þess að fara á eftir mynd númer tvö.

A-söguþráðurinn segir frá kynnum fyrrum skúrksins Gru við nýfundinn tvíburabróður sinn, Dru. Hittingurinn er vingjarnlegur en mennirnir díla við ólíka metnaði; Gru hefur sagt skilið við vondu hlið sína í þágu fjölskyldunnar, þó mikill prakkari leynist enn í honum sem berst við það að halda blíðu hlið sinni ríkjandi. Dru er hins vegar ákaflega góðhjartaður og ljúfur en þráir ekkert meira en að gerast óþokki. Erfið tilvera.

B-söguþráðurinn fókusar á Balthazar Bratt, sprellfjörugt 80s-dýrkandi varmenni; gæddur epískum axlapúðum, píanógítar, með sítt að aftan og mottu í takt, Bratt er fyrrum barnastjarna sem tók fréttunum illa þegar þættinum hans var aflýst, svo hann hefur tileinkað sér afgang ævi sinnar með því að lifa óþokkalífinu sem fígúra sín gerði. Stóra planið hjá þessum dúdda er ekki flóknara en að hefna sín á Hollywood (nei, bókstaflega – með því að eyða því frá yfirborði jarðar) fyrir að kremja drauma sína. Trey Parker úr South Park talsetur Balthazar af mikilli dásemd og gæðir þessum karakter auka persónuleika sem íslenska þýðingin kemst ekki alveg í tæru við. Illmennin í Despicable Me-seríunni hafa flest verið nokkuð hugmyndarík og skemmtilega hönnuð, og Bratt nær að skáka sjálfan El Macho úr sessi sem sá eftirminnilegasti til þessa.

En… vandinn er að síðan koma hinir söguþræðirnir. C-söguþráðurinn snýst t.d. um Skósveinanna að… tja… „skósveinast“ á fullu (hver metur við sig hvort það sé frábær hlutur eða þreytandi), í fangelsi þar að auki. D plottið fjallar svo um Lucy að finna sig í stjúpmæðrahlutverkinu, E plottið fókusar á leit yngstu stúlkunnar Agnes að alvöru einhyrningi, F þráðurinn fer létt út í elstu systrina að díla við austur-evrópskan, ágengan „ostadreng“ (??)… Mest af þessu er eins og ein, akfeit uppfylling og tapast þar af leiðandi kjarnaþráðurinn og hvaða hjartastrengi hann reynir að púlla í.

Persónurnar eru enn flestar kætandi á einhvern hátt; Gru, Lucy og stúlkurnar eru huggulegt og flippað fjölskyldukombó, skósveinarnir gera það sem þeir gera best (sem eru lítt góðar fréttir fyrir fólk sem er orðið þreytt á þeim) og illmennið er barasta snilld. Dru er hins vegar meira pirrandi heldur en heillandi, þó örk bræðrana eigi sér viðeigandi og lúmskt fullnægjandi endastöð.

Despicable Me 3 mun ekki enda á neinum topplistum yfir frambærilegar teiknimyndir ársins (og ef valið stæði á milli t.d. þessarar og Cars 3, veljið þá bílana). Samt er myndin bara svo aulalega fjörug og í þokkabót nógu hröð til þess að teiknistíllinn, hæper-ýkti skrípafílingurinn og ærslagangurinn komi skítsæmilega út – en í upprunalegu talsetningunni á Parker mjög stóran þátt í þessu líka. Án Balthazars og persónuleika hans hefði þessi mynd trúlega lamast við fæðingu.

Einkunnin slefar í gjafmilda sexu.

Mjög gjafmilda.

Besta senan:
Upphafsránið. Sami kafli og heill tíser sýndi frá.
Bögg.

Categories: Grín, Teiknimynd | Leave a comment

Fifty Shades Darker

Fifty Shades-bækurnar eftir E.L. James munu seint teljast til menningarlegra eða vandaðra bókmennta, en einhverja ánægju virðist markhópurinn fá út úr þeim. Skemmst er frá því að segja að það sama á við um bíómyndirnar, þessar tvær sem nú eru komnar út. Af báðum að dæma hefur verið óskaplega lítið innihald til staðar til þess að bera örlátan sýningartíma uppi. Einnig hefur lítið gagnast að brjóta upp efniviðinn með sveittum athöfnum þegar persónurnar eru svona óspennandi og kemistrían á milli þeirra er sama og steindauð.

Í Fifty Shades Darker er þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið. Anastasia Steele er á uppleið í lífinu eftir að hafa losað sig við vafasama auðkýfinginn Christian Grey. En það líður ekki langur tími þar til Grey kallinn er farinn að betla sig aftur inn í líf hennar, með því loforði að verða stilltur strákur. Af óskiljanlegum orsökum ákveður Anastasia að slá til og prófa hvernig gangi að þróa „vanillu“-samband með honum, eins og hún kallar það; engar bindingar, engin leikherbergi og lítið um flengingar. Á meðan Christian gerir sitt besta til að halda aftur af sér birtast einstaklingar úr fortíð hans sem þykja líklegir til að velta öllu um koll, þar á meðal snargeðveikur, fyrrverandi „skjólstæðingur“ hans og eldri kona sem kenndi honum allt sem hann kann á sviði BDSM.

Aðalleikararnir, þau Dakota Johnson og Jamie Dornan, líta kannski ágætlega út og það að þau geti flutt línurnar sínar án þess að bíta í vör eða óvart springa úr hlátri er vissulega afrek í sjálfu sér. Hins vegar er enginn hiti á milli þeirra og kemur þetta fyrir vikið út eins og að horfa á systkini para sig. Ekki fallegt. Framvindan er líka svo þunn, uppfull af endurtekningum og ómeðvituðum aulahrolli að öflugra samspil á milli þeirra hefði litlu bjargað.

E.L. James vill meina að þetta séu ástarsögur en þetta spilast meira eins og harmleikur. Skilaboð þessara Fifty Shades-mynda virðast stafa það út að fullkomlega sé í lagi að vera í sambandi með heimtufrekum, afskiptasömum, köldum og ógeðfelldum manni svo lengi sem hann er heitur í rúminu annað slagið (sérstaklega ef hann er ríkur og gefur þér fartölvu stöku sinnum ef þú ert þæg). Ég hugsaði oft um hversu miklu betra efni þetta væri ef handritið færi bara alla leið með Christian Grey og breytti honum í fjöldamorðingja sem Ana væri að reyna að sleppa frá. Hann ber sig oft eins og hann eigi betur heima í American Psycho.

Að kalla Fifty ­Shades Darker eins konar pyntingu er of auðvelt skotmark. Allir sem berja þessa sandpappírsþunnu lostasögu augum vita fullvel hvað þeir eru að fara út í, en kallast það þá ekki ákveðin vörusvik þegar þú færð hvorki áherslu á losta né almennilega sögu? Þú færð bara stefnulaust sápuóperudrama og væl í fólki sem fer greinilega ekki vel saman. Kynlífssenurnar eru flestar smekklega gerðar, en stuttar, hálfkjánalegar og í besta falli á pari við það sem sést reglulega í HBO-þáttum, sem hljóta að vera talsverð vonbrigði miðað við það sem bækurnar eru þekktar fyrir.

Að auki eru u.þ.b. þrír litlir söguþræðir hér í gangi sem stefna hvergi og ekkert er gert við (Kim Basinger fær t.d. sama og ekkert að gera). Myndin hefur ekki einu sinni almennilegan endi. Hún bara … klárast. Undirritaður getur samviskusamlega sagt að fyrri myndin sé ögn betri því í henni gerðist eitthvað að minnsta kosti – eða stefndu hlutir eitthvert! Fifty Shades Darker er ekki einu sinni svo slæm að hún verði ánægjuleg, því hvet ég alla sem slysast á hana til þess að mæta með góðan kodda.

 

Gef henni tvær rassakúlur af tíu:

61rmqnlsbbl-_sx355_-e1487335434364
(þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 16. feb)

Categories: "She went there" mynd, Drama, Grín, Sori | Leave a comment

Powered by WordPress.com.