Grín

Grimmd

Kvikmyndagerðarmaðurinn Anton Sigurðsson má eiga þann heiður að vera sá fyrsti í háa herrans tíð til að skella íslenskum sakamálatrylli upp á hvíta tjaldið, þótt fáir geti neitað því að vel hafi farið um slíka í sjónvarpsgeiranum okkar. Grimmd er önnur mynd Antons í fullri lengd en sú fyrri var hrollvekjan Grafir og bein frá 2014. Óskaplega fáir sáu hana (skiljanlega) en áhugi Antons á skuggalegu andrúmslofti og tilþrifaríkum leik var í það minnsta sýnilegur.

Nú hefur Anton óneitanlega vaðið í metnaðarfyllri kvikmynd og segir Grimmd frá tveimur ungum stúlkum sem hverfa skyndilega af leikvelli og finnast síðar látnar í Heiðmörk. Atburðarásin tengir saman líf ýmissa ólíkra persóna á meðan reyndar rannsóknarlöggur vinna hörðum höndum við að leysa málið. Þegar glitta fer í svör flækjast málin enn frekar og áhorfandinn fær að leika sér að því að giska á það hver morðinginn er næstu 90 mínúturnar.

Myndin fer því miður alls ekki vel af stað. Tónninn er strax gefinn með kjánalegri upphafssenu sem framkallaði meira að segja nokkur fliss í salnum sem ég sat í. En fljótlega fara þarna að sjást merki um óslípað flæði, gallaða hljóðvinnslu og leikstjórn þar sem ekki er haldið nægilega fast um efnistaumana.

Samtölin eru oft stirð og háfleyg, eins og þau séu stundum beinþýdd úr vondum Hollywood-trylli. Einnig er mikið af slæmum útskýringarsamtölum og ósannfærandi lausnum. Það er ýmislegt í handritinu sem bregður fyrir eða hverfur óútskýranlega eftir þörfum. Ýmsir litlir söguþræðir eru endasleppir og nokkrum persónum hefði algerlega mátt sleppa, þó ekki væri nema til að gefa öðrum meira svigrúm, þróa sambönd og persónuleika. Oft fékk ég á tilfinninguna að mikilvægar senur hefðu verið klipptar úr.

Atburðarásin snýst meira um að villa stöðugt um fyrir áhorfendum en að einbeita sér að einhverju bitastæðara. Í allri sakamálasögunni er leikið með truflandi og athyglisverð þemu en lítið verður úr þeim, giskleikurinn verður að þurrum farsa og spennubyggingin missir allan kraft þegar leikstjórinn fellur í þá gryfju að sýna stundum of mikið of snemma, eða gefa upp svör löngu eftir að þau eru orðin öllum ljós. Endirinn er líka handónýtur og sagan vekur í rauninni fleiri spurningar en hún svarar, ekki á góðan hátt.

maxresdefault

Að mestu er hér annars að finna hinn fínasta hóp leikara. Liðið getur verið mistrúverðugt eftir því hvernig samræðurnar (eða aðstæðurnar) eru skrifaðar, en Margrét Vilhjálmsdóttir, Hannes Óli, Sveinn Ólafur, Atli Rafn og Pétur Óskar standa sig nógu vel til þess að tryggja það að slök kvikmynd verði bærilegri. Sama má segja um ýmsa í aukahlutverkum sem skilja eitthvað eftir sig, til dæmis Jörund Ragnarsson, Ólafíu Hrönn eða „Jónana“ tvo, sem meira hefði mátt gera við. Salóme Gunnarsdóttir er einnig fín sem hin brotna móðir stúlknanna, þótt hún geri fátt annað en að skjóta upp kollinum reglulega og gráta úr sér augun. Gráturinn er vissulega sannfærandi, en persónan er í besta falli einhliða. Það sama á við um þær flestar.

Kvikmyndataka og klipping er í meðalgóðu standi, þótt hnökrum bregði fyrir í rennslinu og lýsingin í kvöldsenum eða dökku umhverfi sé ekki alltaf að gera sig. Einnig stemmir tónlistin ekki alveg við og dregur frekar úr andrúmsloftinu en að styrkja það. Eins og áður kom fram hefði meiri tími mátt fara í hljóðvinnuna, „döbbin“ svokölluðu voru heldur ekki alltaf vel falin. Vandræðalegt.

Segja má að Grimmd standi undir nafni, en hún er undarlega áhrifalaus miðað við umfjöllunarefnið. Með betri úrvinnslu hefði þetta mögulega getað gengið upp sem sjónvarpsmyndasería, því hér eru alltof margir boltar á lofti. Myndin reynir að gera of mikið en verður að lokum að ósköp litlu. Henni er þó ekki alls varnað og það er hæfileikaríkum leikurum að þakka, vissum áherslum í stílnum og prýðilegri förðun. En skynsamlegra væri að leita til betri sakamálasagna, innlendra eða erlendra.

bladn

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 20.10.’16)

 

Besta senan:
Salóme á svölunum, eða „Jóna“senan sem var beint stolin úr Zodiac.

Djöfull er Zodiac góð.

Categories: Drama, Grín, Spennuþriller | Leave a comment

Sausage Party

Eins mikið og ég elska Toy Story seríuna þá kemst ég ekki hjá því að hugsa um hversu niðurdrepandi líf og tilvist leikfangana er í þeim myndum. En hvað ef Toy Story hefði tekið fullorðinsleiðina og kafað meira ofan í bömmerandi og einhæfa tilgang þeirra? eða betra, tekið sambærilegan vinkil á orðljóta og hálf truflandi teiknimynd um hvernig lífið væri frá sjónarhorni fæðutegunda, auk umbúða og annarra… áhalda, gæddum mannlegum tilfinningum og öllu með‘ví. Sausage Party er sú mynd.

Svona mynd ætti varla að vera til, gerð til að spilast út eins og Pixar-mynd á súru trippi, leikur sér hresst að Disney-klisjum og býður meira að segja upp á tónlist frá sjálfum Alan Menken, sama manninum og samdi lögin fyrir Litlu hafmeyjuna, Fríðu og dýrið, Aladdín o.fl. Augljóslega er hér um að ræða teiknimynd sem í framtíðinni verður fyrirlitin víða af foreldrum sem slysast til að varpa henni fyrir framan börnin sín – og gott á þá, því þetta er ekki bara ein prakkarlegasta skrípósteik síðustu ára, heldur sennilega besta handritið sem Seth Rogen hefur hingað til komið að.

Myndin er að sjálfsögðu ósmekkleg, barnaleg út í eitt, yndislega gróf en alvöru sjokkið er hvað hún er laumulega snjöll í senn, útpæld í sinni geltandi satíru og á bestu stundum frussufyndin. Hjálpar líka mikið til hvað teiknistíllinn og grafíkin lúkkar vel, raddirnar eru skemmtilegar, karakterarnir eftirminnilega uppstilltir og orkan annaðhvort viðheldur sér eða magnast. Má alls ekki gleyma lokakafla sem verður ekki betur lýst en gapandi gulli. Seinustu 10 mínúturnar einar og sér gera myndina þess virði að horfa á.

sausage-party

Rogen er samt ekki eingöngu að gefa okkur dökkan grashausahúmor, á kafi í bíótilvísunum og tæmandi allan banka af orðabröndurum sem hann getur sem snúa að mat (sumir ódýrari en aðrir), heldur nýtir hann tækifærið til þess að skutla inn allegoríum um trúarbrögð og mismunun. Það er nákvæmlega ekkert lúmskt við stefnu og skilaboð húmorsins þegar lykilpar myndarinnar samanstendur bókstaflega af pylsu og pylsubrauði. Við vitum hvert margir djókarnir ætla – og á þessum 80 mínútum er myndin þegar daðrandi við þau hættumörk að þynnast út (sömuleiðis kemur það á óvart hvað mynd sem er svo mikið á móti trúarbrögðum skuli detta oft í litlar predikanir) – en hversu langt Rogen og félagar fara með þá er eitthvað sem reglulega sló mig út af laginu.

Sausage Party er eins og ofskynjun sem ber að fagna, enda rugluð, reykt, grilluð – allt sem hún þarf og ætlar sér að vera. Hún er ekki stanslaust fyndin en nógu oft þegar hún nær hápunktum sínum. Meira að segja ef áhorfandinn viðheldur ekki skítaglottinu yfir henni reglulega hefur handritið ýmislegt hnyttið að segja og aðstæður svo kostulegar að leiðindi á svona brattri lengd eru átakanlega erfið. En ég hló mig skammarlegan yfir sumum pörtum, og ef við miðum þessa mynd við „Hvað-í-helvítinu-var-ég-að-horfa-á?“ skalann, þá er reyndar fátt frá þessu sumri sem á séns í hana.

 
8
Besta senan:
Lokametrarnir, helst. Annars vegar ein besta notkunin á frægu þemalagi sem mig rámar í.
James Cameron yrði sáttur.

Categories: Grín, Teiknimynd | Leave a comment

The Brothers Grimsby

Augljóslega verður ekki allt að gulli sem Sacha Baron Cohen snertir, en maðurinn er án efa einn færasti og hugrakkasti grínleikari sinnar kynslóðar. Hann hefur magann í að spila með fólk og ganga þær leiðir sem flestir og ömmur þeirra myndu aldrei nokkurn tímann gera, og nánast alltaf þrætt saman ádeilu og sjokkhúmor, oftast í eftirminnilegum gervum. Oftast.

Cohen er þó yfirleitt sterkastur þegar hann leyfir fólki í raunverulegum aðstæðum að falla fyrir gríninu hans, en alltaf hefur maðurinn eitthvað að segja, sama hversu lág plön hann leggst til að koma því til skila. The Dictator sannaði það, en úr því kom samt fínasta sprell með semí-eftirminnilegum karakter. The Brothers Grimsby (sem er fyrsta bíómyndin síðan Ali G Indahouse þar sem hann vinnur ekki með Larry Charles) er aftur á móti frekar gjaldþrota í hugmyndabankanum. Hún keyrir sig meira á yfirdrifna sjokkgildinu og bömmerandi klisjum fram yfir bítandi kommenteríu eða óútreiknanleika. Stærsti vandinn er þó að fígúran sem Cohen hefur skapað sér nú, þ.e. nautheimskt bulluhyski með gott hjarta og veikleika fyrir bústnum dömum – Nobby að nafni – er bara ekkert sterkur eða minnisstæður karakter. Skrautlegur, já, og hefði best átt heima í styttra sketsaformi.

download (1)

Grínarinn hverfur ekki eins mikið í gervi sitt og hann hefur áður gert upp á sitt besta. Nobby stimplaðist fyllilega aldrei inn hjá mér sem fyndinn karakter heldur meira bara Cohen að reyna meira á sig en venjulega. Verður líka að segjast að subbulegu áskoranirnar sem hann leggur á greyið Mark Strong, og hann tekur þarna nokkrar hressilegar refsingar í ljótum nærmyndum, eru eitthvað sem ferill hans fær aldrei að gleyma. Hrós fær hann samt fyrir að viðhalda stóíska alvarleika sínum í atriðum sem myndu fá John Waters til að órga af gleði.

The Brothers Grimsby velur dæmigerðan flöt til þess að snara saman misfyndnar uppákomur. Plottið spyr spurninguna um hvernig það væri ef stælgæi í anda Bond ætti hálfþroskaheftan bróður sem flækist óvart með í hasarinn. Uppákomurnar eru eins „ofan-í-andlitið-á-þér“ ruddalegar og maður býst við af Cohen (og alræmdasta senan verður seinna meir eflaust þekktari en myndin sjálf) og missir þess vegna gjörsamlega marks þegar hún reynir að taka samband bræðrana alvarlega. Ekki það að sé ómögulegt að troða smá hlýju inn í mynd sem er stöðugt áskrifandi að typpa- og skitubröndurum, en þá þarf myndin svolítið að selja þér einlægni sína frekar en að troða því inn eins og hvert annað efni til að haka við af tékklistanum.

thumbnail_23719

Það virðist vera hjarta í handritinu og Cohen og Strong eru nógu miklir fagmenn til að halda uppi einhverri orku (og hasarleikstjórinn Louis Leterrier (Transporter 2, Clash of the Titans o.fl.) gætir þess líka grimmt að halda öllu bröttu og stöðugt á hreyfingu). Leitt þó hversu lítið finnst að gera fyrir Ian McShane, Penélope Cruz, Rebel Wilson og fleiri, en á móti sleppa þau við alla niðurlæginguna sem hleðst yfir á Strong – og Gabourey Sidibe býst ég við líka, þó hún sé greinilega með mikinn húmor fyrir þyngd sinni. Stóra, ónefnda cameo-ið í myndinni er annars massíft klúður. Stöðugt er yrt frægan leikara á nafn þegar fenginn var gaur sem var bara nákvæmlega ekkert líkur honum. Leim…

The Brothers Grimsby er ærslafull, smekklaus og með mikinn áhuga að testa þolmörk þín en um leið segja sitt um mikilvægi rasshausanna í samfélaginu (köllum þetta agressíft en sykursætt ástarbréf til lágstéttarhyskisins), og get ég a.m.k. sagt að úr því komi eitt alfyndnasta skot á Fast & Furious seríuna sem minnið rámar í. Þetta væri allt til þess að fagna ef rembingurinn og stereótýpufrussið kæmi ekki svona oft upp á móti, eða væri meira til að elska við Nobby eða bróður hans, en efniviðurinn rís aldrei upp úr sínum eigin athyglisbresti og sýniþörf. Þetta er svipað og að lenda á hrollvekju sem reiðir eingöngu á bregðuatriði. Grófir djókar eru auðveld leið til að fá viðbrögð úr stórum sal, en hvað stendur þá eftir? Fyndnustu brandararnir koma yfirleitt á milli stóru sjokk-atriðana, ef ekki beint eftirá. Og jú, ókei, ég hló reyndar þegar Nobby byrjar að fatta hversu gaman er að beita skotvopni í fyrsta sinn. Það byggir líka upp albesta djókinn, sem kemur rétt eftir að kreditlistinn byrjar að rúlla.

Fáeinir sprettir hér og þar bjarga þó ekki miklu, en rétt slá einkuninni upp í meðallagið. Cohen getur betur, og hvað sem Strong fékk greitt fyrir þessa mynd, það hefur alls ekki verið nóg.

mehh

Besta senan:
Stóra „idjót-„ræðan á heiðurinn.

Categories: Grín | Leave a comment

Powered by WordPress.com.