Heimildarmynd

Reynir sterki

Styrkleiki er yfirleitt kenndur við öfgakenndan massa og tröllvaxna líkamsbyggingu, en þar sannaði Reynir Örn Leósson sig sem einkennilegt frávik. Reynir sterki var alla tíð utangarðsmaður í leit að viðurkenningu frá samfélaginu sem seint fékkst. Hann átti erfiða æsku og var seinna meir oft séður sem svindlari og fylliraftur.

Aflraunir mannsins voru ótrúlegar, nánast yfirnáttúrulegar, og uppfinningar hans sömuleiðis eftirtektarverðar. Eins og litlu samfélagi fylgir var nóg um kjaftasögur og getgátur, en heimsmetin þrjú sem maðurinn setti standa enn í dag óhreyfð.

Í þessari heimildarmynd Baldvins Z kynnumst við kraftakarlinum, nokkrum úr fjölskyldu hans, göllum hans (sem voru heldur betur margir og því miður hversdagslegri heldur en mætti ætla) og afrekum sem margir klóra sér enn í dag í hausnum yfir. Myndin hefur í áraraðir verið draumaverkefni leikstjórans og segir Baldvin sjálfur í upphafi myndar að hann hafi ekki hætt að hugsa um Reyni síðan í æsku, að hér hafi verið uppi eins konar íslenskt ofurmenni. Bætir hann við að ein af ástæðunum fyrir því að hann vildi gerast kvikmyndagerðarmaður hafi verið að hann vildi fræða fleira fólk um raunir Reynis.

Þótt viðfangsefnið sjálft sé umhugsunarlaust merkilegt er það aldrei sjálfsagður hlutur að heimildarmynd verði það einnig af sjálfu sér. Það eru margar leiðir til þess að segja sögur af afrekum Reynis en gullnáman sem Baldvin hefur sótt í kemur í formi myndefnis sem margt hefur ekki verið sýnt áður. Þetta reynist vera helsti burðarásinn sem skrásetur söguna á glæsilegan hátt, en uppbygging, klipping, áhugaverðir viðmælendur og taumhald leikstjórans skilar ekki bara afburða vel unnu verki, heldur skín eldmóðurinn í gegn og gefur útkomunni eitthvað smávegis auka.

Baldvin daðrar að sjálfsögðu við umræður um hið yfirnáttúrulega, en annað er varla hægt. Reynir var sagður blanda saman líkamsstyrk og aðferðafræði sjónhverfingamannsins. Að sögn Reynis velti hann sér ekkert upp úr þyngdartölum eða hindrunum í raun. Ef hann setti sér fjarstæðukennt markmið var því oft náð með viljastyrknum, og mögulega aukastuðningi frá einhverju að handan.

Áhorfandinn metur það vissulega sjálfur hvort hann kaupir allar frásagnirnar, enda hljóma sumar þeirra eins og eitthvað úr lélegum reyfara. En sönnunin fyrir því fjarstæðukennda sem hann framkvæmdi opnar í rauninni allar umræður á lygilega skondinn máta. Fjölskylda Reynis og aðrir utanaðkomandi segja athyglisverðar sögur og fylgir viðmælendum oftar en ekki mikil útgeislun sem er allt annað en sjálfsögð, sama hvaða efni tiltekin heimildarmynd tekur fyrir.

Fagmaðurinn Jóhann Máni Jóhannsson skreytir myndina með flottri kvikmyndatöku á milli eldra myndefnis og lætur fínustu tónlist frá Eberg koma sér prýðilega fyrir til að betrumbæta bratt en afslappað flæði. Inn á milli piprar Baldvin myndina með stílíseruðum myndlistarbútum sem, ef eitthvað er, hefði mátt vera meira af. Myndefnið er almennt spennandi og með ýmsum leiðum (hljóðupptökum, heimamyndböndum og öðru) öðlast áhorfandinn nánast beina tengingu við Reyni. Eitthvað er um dekkri skugga í frásögninni sem hlaupið er yfir, en Baldvin er nógu skarpur til þess að liggja ekki á hinu óþarfa og það litla sem gefið er í skyn segir meira en þúsund orð þegar upp er staðið.

Nálgun Baldvins er ekki eins og eintóm froða með linnulausum lofsöng eða upptalning á hápunktum. Í staðinn pakkar hann þessu saman í snyrtilega, fræðandi og þrælskemmtilega samantekt um mann sem reyndist vera lifandi dæmi um að allt sé svo sannarlega hægt ef viljinn er fyrir hendi. Slíkt hið sama má segja um hvernig leikstjóranum tókst að þrjóskast áfram til að koma þessu í verk og hafa uppi á myndefninu, sem hefur varla verið áreynslulaust.

Besta senan:
Fangaklefinn.

Categories: Heimildarmynd | Leave a comment

InnSæi – The Power of Intuition

Stórt er spurt. Er stressið að fara með okkur? Er tæknin að sundra okkur? Hversu miklu getum við breytt með því að stilla aðeins hugarfarið? Í heimildarmyndinni InnSæi er fjallað um leitina inn á við og lögð er áhersla á tengingu okkar við vísindi og náttúruna, hvernig við skynjum heiminn og notum heilann. Rætt er við leiðtoga, listamenn og hugsuði frá ýmsum löndum um hugmyndir um hvernig má endurskoða hugsun okkar í hraða samtímans og hver lykillinn er að sköpunarkraftinum.

Það er krefjandi verk að útbúa heimildarmynd í fullri lengd um eitthvað jafn óáþreifanlegt og innsæið og með verri úrvinnslu hefði getað orðið hávær predikun úr þessu. InnSæi er á tíðum nálægt því að stíga í þá gryfju en það er mikil einlægni í nálgun leikstjóranna Hrundar Gunnsteinsdóttur og Kristínar Ólafsdóttur á efninu. Þær koma inn á mikilvægar og oft alvarlegar umræður frá ólíkum sjónarhornum en það svífur alltaf jákvæð orka yfir heildinni sem og skilaboðunum. Leikstjórarnir fylla líka upp í brattan 70 mínútna sýningartíma með líflegu myndefni, þar sem fiktað er við ólíkar tegundir af myndlist og teiknistíla. Einnig er laumað inn skotum af íslensku landslagi við hvert tækifæri, en annað er varla í boði þegar svona mikil áhersla er lögð á náttúruna.

innsaei-trailer-1-goldposter_com

Hrund er prýðisgóð þula, um leið og þú venst hreimnum hennar. Hún er óhrædd við að opna sig og leyfa persónuleika sínum að skína aðeins. Hún segir frá því þegar hún sinnti mannúðarstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna og þekkti ekki sín takmörk að eigin sögn. Vinnuálagið varð á endanum yfirþyrmandi og klessti hún andlega á vegg, sem leiddi til gjörbreyttrar hugsunar. Þessi reynslusaga Hrundar er inngangspunkturinn sem leiðir inn í skoðun á innsæi, heilaþjálfun og hvert næsta kynslóð stefnir, svo dæmi séu tekin. Viðfangsefnið er forvitnilegt en niðurstaðan ætlast meira til þess að spyrja fleiri spurningar og vekja til umhugsunar frekar en að gefa einhver svör.

Myndinni gengur ágætlega með að flakka á milli merkilegra málefna og eftirminnilegra heimsókna, frá heilarannsóknum til heillandi listakonunnar Marinu Abramović og hugmyndum hennar um lífsmynstur, tengingar fólks og áhættu. Leikstjórarnir einbeita sér líka talsvert í seinni hlutanum að skólabörnum í Bretlandi sem er kennt að takast á við streitu og aukið upplýsingaflæði. Punktarnir eru flestir áhugaverðir en samantektin verður örlítið klúðursleg, sérstaklega þegar sumt efnið er farið að endurtaka sig. Myndin kemur uppbyggjandi skilaboðum á framfæri en skilar þeim út með fullmiklum sykri.

Úlfur Eldjárn styrkir annars heildarverkið töluvert með áhrifaríkri tónlist og skrifast snyrtilega samsetningin að mestu leyti á klipparana. Kaflinn með Högna Egilssyni, syngjandi í helli, passaði reyndar alls ekki inn í myndina, þó kvikmyndatakan hafi verið falleg. Þegar á heildina er litið er margt fallegt við InnSæi og ljóst er að sumir eigi eftir að líta á hana sem vitundarvakningu eða meðal í sálina, á meðan aðrir sjái hana eflaust sem langan fyrirlestur sem hefði getað kafað dýpra ofan í málefnin. En hvetjandi kraft myndarinnar er erfitt að neita.
fin

(þessi umfjöllun birtist upphaflega í Fréttablaðinu 8. október)
Besta senan:
Kaflinn með Marinu.

Categories: Heimildarmynd | Leave a comment

Jodorowsky’s Dune

Margt og mikið má segja um listamanninn Alejandro Jodorowsky: súrt, gott, slæmt og allt þar sem laumar sér á milli, en aldrei verður það tekið frá honum að hann er einstaklega áhugaverður og opinn náungi.

Rödd hans rómar í dag alls staðar í kvikmyndagerð og hefur gert það í áratugaraðir, og ekki bara með költ-myndum eins og Fando y Lis, El Topo og The Holy Mountain. Allt þetta eru myndir sem þarf eiginlega að sjá í heild sinni til að trúa, ekki endilega á góðan hátt, en mikið óskaplega hefur maðurinn sett sér skýr og sérkennileg markmið.

jodorowsky-dune-600x470

Jodorowsky’s Dune er ábyggilega mín uppáhalds heimildarmynd í alnokkur ár. Ég get persónulega ekki með neinu móti trúað því að manneskja sem er mikið í kvikmyndum eða kvikmyndagerð hafi ekki viðbjóðslega gaman af henni, því fyrir alla sem falla undir þá lýsingu er hún gargandi skylduáhorf. Á það við hvort sem maður hefur ekki hugmynd um hver Jodorowsky er eða hvað gerðist í kringum þessa ofurútpældu sci-fi epík hans sem aldrei var gerð, en þó næstum því.

Hvað hefði eiginlega ræst þarna úr öllum geiranum ef þessi mega-metnaðarfulla en (hvað skal segja…?) ‘frjálsa’ aðlögun á hinni virtu fantasíuskáldsögu Dune e. Frank Herbert yrði sú fyrsta í mark í kvikmyndasögunni, en ekki Star Wars? Hvernig tókst einum hálfgeðveikum snillingi að marka endalaust spor sín í kvikmyndasögunni með einu óséðu „meistaraverki?“

Þessu og milljón öðru er svarað í þessari vel skipulögðu, lúmskt þýðingarmikilu og vægast sagt bráðfyndnu yfirlitsmynd. Mest allt hefur með það að gera hversu athyglisverður og einstakur Jodorowsky er og hve stórir draumar hans voru, hann með sinn óstöðvandi metnað, listræna auga, og sannfæringarkrafta. Hegðun hans jaðaði margoft klikkun, en myndin segir sjálf að alvöru meistarastykkin verða sjaldan til án hennar. Er nokkur að fara að mótmæla því?

jodorowsky-dune-1-600x424Það eru óteljandi baksviðsinnlit sem væri gaman að sjá svona prýðilega pakkað saman í góða heimildarmynd en Jodorowsky og þessi tiltekna saga hans skarar eitthvað þarna aðeins fram úr. Einnig er auðvelt fyrir hörðustu bíónöttara að tengja sig við fílósófíur hans um gildi og mikilvægi kvikmyndamiðilsins, hjarta hans, sál og tjáningargetu.

Heiðarleiki mannsins opnar einnig fyrir alveg kúfullt magn af stórkostlegum setningum frá honum sem verður lengi hægt að kvóta í. Til dæmis, í tengslum við það hvernig hann tætti sígildu Dune-bókina í sig – sem hann hafði ekki einu sinni lesið áður en hann lét vaða í verkefnið – og breytti gjörsamlega endi, merkingu og atburðarás hennar, viðurkennir Jodo beint að hann hafi verið að „nauðga“ Frank Herbert, „…en af umhyggju.“

Með fylgir síðan stutt en dýnamísk endursögn á endurlitinu þegar Jodo gerðist svo djarfur að leggja í hina margslátruðu Dune-útgáfu sem David Lynch reyndi að halda utan um. Kannski sér maður þá mynd í öðruvísi ljósi eftir heimildarmyndina, en allar þær tilraunir sem ég hef lagt í þá mynd í gegnum árin hafa aldrei verið ofurjákvæðar. En hvernig hefðu áhorfendur svosem tekið í Jodorowsky-frásögnina í staðinn? Það er allt annað en sjálfsagður hlutur að spiritúalísk, existensíalísk (- allt á barmi ofsatilgerðar) sci-fi ræma hefði togað allan meginstrauminn til sín, en hugmyndaflugið var svoleiðis ljósárum á undan sinni samtíð að þetta hefði umhugsunarlaust orðið að einhverju sem enn yrði rætt um og stúderað í dag, á hvaða hátt sem er.

Jodorowsky var algjör andstæða við Hollywood-senuna en þegar hann var kominn með réttu strengina í bransanum er hreinlega með ólíkindum – nánast ævintýralegt – hvernig hann smalaði til sín vægast sagt skotheldu liði skapandi krafta; þekkta sem óþekkta, frá því að negla niður þátttöku Pink Floyd, Orson Wells, Salvador Dali og ýmsa aðra sem komu aldrei áður að kvikmyndagerð en áttu svo fínan feril (eins og Jean Giraud/Moebius, H.R. Giger, Dan O’Bannon og fleiri). En að kafa nokkuð nánar út í það hvernig honum tókst að fá þetta lið með sér myndi vera tilgangslaust því enginn segir sínar eigin sögur betur en gamla brýnið.

gigerAð gramsa í gegnum þessar upplýsingar um hvernig þetta allt varð til (og bæta skal við að menn eins og Nicholas Winding Refn, Richard Stanley, Gary Kurtz, Drew McWeeny og Devin Faraci bæta heilmiklu við umræðuna, og helst í þessari röð) er eins og að fylgjast með mögnuðu aukaefni á Blu-Ray disk fyrir bíómynd sem er ekki til nema í anda. Það er meiriháttar að sjá þarna allt samansafnið af býsna klikkuðu concept art-i og þó svo að valdar „senur“ úr myndinni eru sýndar og útskýrðar í gegnum storyboard-ramma, þá kemst það til skila að sumt þarna hefði gjörsamlega lamað kjálkann á þessum tíma, og e.t.v. enn í dag!

Ef það er eitthvað sem vantar upp á þá er það fókusinn á þessar óneitanlega óraunsæju væntingar Jodorowsky gerði sér þegar uppi er staðið, sérstaklega hvað snertir lengd og fjármagn og annað. Myndin fer merkilega lítið út í hlið framleiðenda og stekkur hún kannski aðeins of barnalega til varnar með aðeins þau skilaboð að bransinn hafi einfaldlega verið of hræddur við títanísku og djúpu sýn þessa manns. Vissulega var hann það, en ef það væri aðeins svo grunnt…

00001.m2ts_snapshot_01.24.17_2014.07.07_14.50.54_originalÍ samantektinni skín annars í gegn gagnlegri tilgangur hennar í hreinskilnum hvatningarskilaboðum sem pressa á það að alltaf er þess virði að reyna, sama hversu há markmiðin eru. Hefði Jodo aldrei lagt í þessa framleiðslu, og gengið svona langt með hana hefði (fyrst og fremst) Alien, Star Wars, Predator, Flash Gordon, Contact og haugur af fleiri sci-fi myndum komið allt öðruvísi út.

Draumurinn kannski splúndraðist en svo sterkur var hann að honum tókst samt sem áður að gefa vissan tón fyrir þær stefnur sem geirinn tók í gegnum söguna af honum. Að vísu verður því heldur ekki neitað að í textainnslaginu kemur myndin svolítið út eins og eðalplögg fyrir nýjustu mynd leikstjórans, The Dance of Reality. Auglýsingin virkar að sjálfsögðu, þó óþörf, og hefði mátt jafna þetta kannski snöggt með því að renna meira yfir allt sem leikstjórinn gerði eftir Dune.

Fræðslugildið er engu að síður ómetanlegt fyrir réttan aðila og afþreyingargildið meira svo. Ég gæti fylgst með Jodorowsky og þáverandi samstarfs(stríðs!)mönnum hans deila sögum sínum í fleiri klukkutíma, en þessar bröttu 90 mínútur duga bara meira en fínt.

atta

Besta senan:
Ég drapst næstum úr hlátri yfir ‘Special Marijuana’ kaflanum. Og Wells.

Categories: Heimildarmynd, já takk! | Leave a comment

Powered by WordPress.com.