Hrollvekja

A Quiet Place

Að lifa án þess að mega nokkurntíma gefa frá sér hljóð er ekkert líf til að lifa. Hér skyggnumst við í dystópíuheim þar sem dularfullar verur eru allsráðandi; snöggar, blindar en gæddar ofurnæmu heyrnarskyni og hefur því eftirlifandi mannfólk lítið val um annað en að trítla gegnum tilveruna. Sögusvið myndarinnar er bóndabýli og fylgjumst við með Abbott-fjölskyldunni, sem í sameiningu reynir öll hvað sem hún getur til þess að halda lífi, sem og einhverri von. Hið minnsta brak, jafnvel eitt berfætt feilspor, smá saklaus hósti eða hlátur gæti orðið þeirra síðasti.

Hér er komið eitt afbragðsdæmi um það hvernig tekst að útfæra litla en skothelda grunnhugmynd með æpandi fínum hætti og án þess að allt sé stafað út. Hugmyndinni fylgir í raun slíkur ferskleiki og auðvelt er að spyrja sjálfan sig hvers vegna ekki hafi verið oftar gert eitthvað í líkingu við hana, enda akkúrat tilvalinn þráður í góða hryllingssögu.

Það er ráðgátu líkast hvernig leikaranum John Krasinski (sem margir hverjir þekkja úr The Office) tókst að skila frá sér svona flottum trylli. A Quiet Place er mynd þar sem allt reiðir á tón, stemmningu og tengingu leikara. Þetta er sáraeinfalt stykki en meistaralegt sjálfsöryggi ríkir yfir úrvinnslunni frá einum geysilega viðkunnanlegum leikara, nú orðinn líka að efnilegum leikstjóra.

Krasinski leikur sér að þögnum, táknmáli, hávaða og ekki síður með rassavöðvum áhorfenda, enda fá þeir nokkrar ágætar æfingar á gefnum tímapunktum. Allt þetta tekst honum með öflugu andrúmslofti og aðstoð leikaranna sem hér eru til liðs með honum (þar á meðal Emily Blunt, eiginkona leikarans). Hér hefðu sjálfsagt margir leikstjórar nýtt sér tækifærið að keyra stemninguna á ódýrum bregðuatriðum, því varla finnst hentugri grunnur til þess.

Leikstjórinn virðist í það minnsta kunna að nota brögðin rétt, eins með nýtingu á tónlist. Myndataka og hljóðvinnsla eru í toppgæðum og tölvubrellur í góðu lagi miðað við kostnað og ágætu skepnurnar aldrei mjólkaðar. Það er ekki fyrr en líður á seinni helminginn þar sem myndin fer að reyna hvað mest á trúverðugleikann og fara handritshöfundar að svindla meira með lausnum í frásögn, ekki síst þegar ákveðinn stórviðburður hefur átt sér stað í sögunni – án þess að meira sé gefið upp.

A Quiet Place snýst í rauninni meira fjölskyldutengsl heldur en skrímsli eða dystópíu; um samskiptaleysi, missi, samviskubit og ýmislegt ósagt hjá okkar nánustu frekar en bregður. Í burðarhlutverkum eru allir á skjánum tjáningarríkir og öflugir á sinn hátt, bæði hjónakornin og krakkarnir, en sannfærandi börn eru yfirleitt algjör rúlletta í hryllingsmyndum og hér er ekki feilnóta slegin.

Myndin er bæði mátulega minimalísk og aðgengileg (og hver hatar ekki að láta sussa á sig endalaust?). Má líka hafa gaman af því hvernig uppsetning myndarinnar ögrar spjall- og smjattóðum bíóáhorfendum til þess að stilla sig, og reynist m.a.s. merkilega erfitt að fylla kjaftinn af snakki eða poppi án þess að vera „sú manneskja” í salnum. Hins vegar má alveg færa rök fyrir því líka að það er áskorun út af fyrir sig að sitja út alla myndina án þess að sprengja óvart einhvern hljóðkvarða. Það verður að segjast nokkuð vel spilað af mynd sem hvetur svona mikið til þagnar.

 

 

Besta senan:
Kasinski kemur með nýja merkingu á leikstjóra sem neglir konuna sína á skjánum.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Hrollvekja, Spennuþriller | Leave a comment

Rökkur

Hingað til hefur enginn íslenskur leikstjóri sérhæft sig í hryllingsgeiranum eða markað spor sín í hann með sama hætti og Erlingur Óttar Thoroddsen. Á undarlega skömmum tíma hefur hann spreytt sig með mikilli fjölbreytni á því sviði og sýnt fram á hversu margt má gera við smátt.

Fyrir rúmlega ári frumsýndi Erlingur indí-hrollvekjuna Child Eater. Þar sáust merki um ástríðufull vinnubrögð, þekkingu á hryllingi og áhuga á skuggalegu andrúmslofti með skvettu af súrrealisma. Þó myndin hafi verið klunnaleg, misvel leikin og þunn bætti hún það upp með bröttu rennsli og ágætis skrímsli í forgrunni.

Aftur á móti er ýmislegt sem betur tekst til með í Rökkri, sem bæði er betur skotin og leikurinn er af öllu meiri gæðum, en í þessu tvennu liggja helstu styrkleikar myndarinnar. Afgangurinn er sambland af metnaði fyrir „minimalisma“, kunnuglegum klisjum og einlægum augnablikum sem virka sem sjálfstæðar senur en hrynja innan um götótta heild þar sem myndlíkingar og þemu eru hálfbökuð. Það hefði heldur ekki veitt af því að stytta myndina um korter eða svo.

Myndin segir frá Gunnari sem nótt eina fær símtal frá fyrrverandi kærastanum sínum, Einari, sem er í miklu uppnámi. Gunnar brunar upp í afskekktan bústað þar sem Einar hefur lokað sig af og fljótlega eru drengirnir farnir að gera upp samband sitt og fortíð sína. Á meðan berja vaxandi vandamál úr öðrum áttum bókstaflega að dyrum og veröld þeirra Gunnars og hans fyrrverandi fer á hvolf, en það tekur reyndar söguna talsverðan tíma að komast þangað almennilega.

Rökkur er saga um flótta, fjarlægð og fortíðardrauga með mátulega stemmdum „draugagangi“ sem á það til að vera örlítið píndur og bitlaus. En það sem umfram allt dregur myndina niður eru samtölin sem eru oftar en ekki frekar stirð og óeðlileg.

Frammistaða beggja leikara í burðarhlutverkum er tilþrifarík. Björn Stefánsson og Sigurður Þór eru fínir saman, en betri þó hvor í sínu lagi (sérstaklega þegar þeir detta í einræður sínar), ekki síst vegna þess að ákveðinn neista vantar á milli mannanna til að gera samband þeirra trúverðugt. En ópússuðu samtölin gera það eflaust að verkum að myndin gæti betur höfðað til hópa sem skilja ekki tungumálið og finna þar af leiðandi síður fyrir tilgerðinni.

Rökkur nær sínum hæstu hæðum í kyrrðinni og flott kvikmyndataka skilar sínu einnig þó betur hefði mátt fara með klippingu og hljóðvinnslu til að sigla stemninguna inn almennt. Myndin var gerð fyrir lítið fé og fámennt var í tökuliðinu. Því má að henni dást á ýmsa vegu en innihaldið rís sjaldan upp úr meðalmennskunni hvort sem litið er á myndina sem persónudrifinn drama­trylli eða hrollvekju af gamla skólanum.

Þetta breytir því samt ekki að Erlingur er ótvírætt með forvitnilegri og meira spennandi íslenskum kvikmyndagerðarmönnum af sinni kynslóð. Af fyrra verki hans að dæma gæti þó verið ljóst að samræður á ensku séu honum auðveldari en samtal á móðurmálinu.

 

 

Besta senan:
Einar opnar sig.

Categories: Drama, Hrollvekja | Leave a comment

IT: Chapter One

Það er auðvelt að skilja hvers vegna It er ein af langlífari og þekktari sögum frá Stephen King. Það er aldeilis af nægu að taka en hér er spennuhrollur þar sem til dæmis er glímt við einelti, gróft uppeldi, vináttu, samvinnu, hormóna og ótta. Reyndar eru þetta afar algeng þemu hjá King, sem á það til að endurtaka sig, nema hér hefur vissulega hjálpað að bjóða upp á einn ógeðfelldan trúðsdjöful sem hefur verið brennimerktur í hugi fólks í áratugi. Þeir sem segja að trúðar séu ekki ógnvekjandi eru annaðhvort að segja ósatt eða með stáltaugar. Eða jafnvel atvinnutrúðar.

Hér höfum við glænýja aðlögun þar sem fyrri helmingur bókarinnar er tekinn fyrir. Við fylgjumst með sjö ungmennum í smábænum Derry í Maine, hópi sem kallar sig Aulana (The Losers Club) og þarf daglega að glíma við ofbeldi og annars konar áreiti frá hrottum eða vafasömum foreldrum. Til að bæta gráu ofan á svart hefur illkvittið trúðs­óféti sprottið upp til að nærast á ótta barna, og eftir því sem heimilisvandræði aukast og dularfullum mannshvörfum fjölgar fer „Það“ að gera líf allra krakkanna að lifandi helvíti, nema þeir standi saman og geri eitthvað sjálfir í málunum.

Undanfarin misseri hefur allt verið morandi í „eitís“ stemningum í kvikmyndum og sjónvarpi (sem er að hluta til Stranger Things að þakka, eða kenna) og því kom ekki annað til greina en að færa tímabil krakkanna af sjötta áratugnum yfir á þann níunda og sömuleiðis hrista upp í frásögninni, bæta við nýjungum og vissulega fjarlægja einhverja umdeildustu orgíu bókmenntanna. Í besta falli er þessi aðlögun þó sterk áminning um það hvað gömlu sjónvarpsmyndirnar frá 1990 voru hræðilegar, og eldast illa.

Ýmislegt er það sem svínvirkar í þessari It. Leikarar myndarinnar, ungir og eldri, eru allir frábærir. Það er hressilegt, tilgerðarlaust og trúverðugt samspil sem einkennir allan hópinn og krakkarnir sem leika kröfuharðari hlutverk „aulanna“ eru endalaust sannfærandi. Bill Skarsgård er sömuleiðis ógleymanlega ógeðfelldur í titilhlutverkinu.

Með aðstoð magnaðrar förðunar kemur hann með prakkaralega og fjöllaga takta sem gera hann að geggjuðum Pennywise, miklu betri en þeim sem Tim Curry túlkaði á sínum tíma. Tvímælalaust. Myndin erfir þó eitthvað af göllum bókarinnar líka, misstóra að vísu.

En upp úr standa þar ýmsar endurtekningar og flatur endasprettur. Þar bregður fyrir ákveðinni úrlausn sem er afar ódýr. Einnig er leiðinlegt hvað Beverly Marsh, ein áhugaverðasta persóna sögunnar, fær lítið að gera í lokahlutanum miðað við drengina. Annars er miklu lofað með bitastæðri upphafssenu, sem undirbyggir stemninguna vel, í rauninni svo vel að söguþráðurinn nær varla að toppa hana, þó einni senu á baðherbergi og annarri sem tengist skjávarpa hafi næstum því tekist að fá undirritaðan til að hrökkva hressilega við.

Óhugnaðurinn gengur samt ekki alveg fullkomlega upp og eins og í mörgum hrollvekjum taka persónur (þar á meðal hann Pennywise) oft óskiljanlegar ákvarðanir, sem hér koma yfirleitt út eins og lélegar reddingar í handritinu. Það virðist líka vera mikið forgangsatriði hjá aðstandendum myndarinnar að dæla sífellt út bröndurum, í jafn miklu magni og hryllingnum, og það veldur því að tónarnir stangast á og dregur það talsvert úr drunganum á sumum stöðum. En að því sögðu, þá er myndin býsna fyndin líka.

Leikstjórinn Andy Muschietti sýndi með fyrri mynd sinni, tannlausa hrollinum Mama, að hann getur unnið vel með drungalegan stíl og hefur góð tök á ungum leikurum, en með It fellur leikstjórinn oft í þá gryfju að hugsa að meira þýði meira, og ofgera þar af leiðandi sumum stílbrögðum. Til að mynda treystir hann allt of mikið á háhraðaskot, hávaða í hljóðvinnslunni, yfirdrifna tónlist og misgóðar tölvubrellur.

Andrúmsloftið er til staðar, en það virkar ekki til fulls nema í skömmtum. Myndin nær sínum hæstu hæðum í hljóðlátari augnablikunum hjá ungu leikurunum, þegar persónusköpunin og afslappað rennslið nýtur sín hvað best.

Fyrir hverja frábæra Stephen King-aðlögun (eins og Stand By Me, Misery, The Mist o.fl.) fylgja svona tuttugu misheppnaðar og sökum slíks framboðs er þessi fyrri It-kafli með þeim flottari, sérstaklega hvað kvikmyndaðar hryllingssögur Kings varðar. Í versta falli er þetta fínasta millistopp á meðan beðið er eftir næstu Stranger Things seríu, enda virðist vera einhver sjarmi yfir því að fylgjast með svölum „eitís“ krökkum hjóla saman í hópum og berjast við skrímsli.

 

(há sexa)

Besta senan:
Öll opnunin, skjávarpinn og alflestar senur með Bev, satt að segja.

Categories: Hrollvekja | Leave a comment

Powered by WordPress.com.