Hrollvekja

Alien: Covenant

Í kvikmyndasögunni eru fáar geimverur sem eiga sér álíka goðsagnakennda hönnun og „xenomorph“ veran frá málaranum H.R. Giger heitnum, sem fyrst birtist í upprunalegu klassík Ridleys Scott frá 1979. Alien-myndabálkurinn hefur síðan þá farið í gegnum margar stökkbreytingar en ekki getið af sér neitt sem teljast mætti stórkostlegt frá því að James Cameron tók við. Þó hafa ýmsar afbrigðilegar og sérstakar tegundir hugmynda sprottið upp úr þessari seríu.

Scott hafði ekki komið að vísindaskáldsögu í áratugaraðir þegar hann snéri svo aftur til seríunnar árið 2012 með upphafssögunni Prometheus. Sú reyndist vera allt öðruvísi kvikindi en aðdáendur áttu von á; hlaðin vangaveltum um trú, guði og tengsl manneskjunnar við slíka þætti svo dæmi séu nefnd. Eftir að myndin hlaut vægast sagt umdeildar viðtökur var ljóst að bæði leikstjórinn og framleiðendur ákváðu að nálgast framhaldið með gamla vinklinum.

Í byrjun þessarar sögu vakna áhafnameðlimir nýlenduskipsins Covenant fyrir mikla tilviljun af völdum stjörnublossa og verða stuttu síðar varir við skilaboð frá óþekktri plánetu. Þessi umrædda pláneta virðist í fyrstu sýn geta boðið upp á ný heimkynni, þannig að ákveðið er að taka áhættuna og kanna umhverfið nánar. En hvað það er sem gæti þarna beðið þeirra er auðvitað bara byrjunin á gleðskapnum.

Alien: Covenant reynir að brúa bilið á milli forvera síns, Prometheus, og fyrstu Alien-myndarinnar. Hún reynir allt sem hún getur til að fylgja formúlu upprunalegu myndarinnar en í senn halda áfram að stúdera sömu hugmyndir og Prometheus gerði. Alien: Covenant spilast á margan hátt út eins og tvær bíómyndir sem hafa verið klesstar saman í eina; Prometheus framhaldið og Alien „endurgerðin“.

Margt væri hægt að nefna sem fór úrskeiðis með útkomuna á Prometheus, en myndin spurði stórar spurningar og hafði góða hugmynd um hvernig sögu hún vildi segja. Þegar Alien: Covenant leyfir sér að vera beint framhald af henni er hugað að þemum eins og sköpun, dauðanum, fjölskyldutengslum og mannlegu leitinni að eigin tilgangi. Því miður á handritið það til að rugla aðeins í samheldni mýþólógíunnar og gerir það seríuna þrefalt götóttari en hún þegar er.

Þegar gamla uppskriftin tekur við breytist þetta í staðlaða skrímslamynd, dregin niður af grunnum persónum sem taka oft á tíðum óskiljanlegar ákvarðanir. Yfirleitt er viss greindarskerðing fígúra eðlilegur fylgihlutur hryllingsmynda en í undanförnum Alien-myndum hefur þetta verið sérlega áberandi vandamál.

Subbuskapurinn er til staðar en gæsahúðin takmörkuð. Það breytir því samt ekki að Scott, sem í ár stígur á níræðisaldurinn, hefur engu tapað hvað auga og hæfileika varðar fyrir því að skapa stóra, flotta bíóheima og þrúgandi andrúmsloft.

Scott sækir auðvitað í öll brögðin sem hann kom sjálfur með við upphaf seríunnar en daðrar einnig við lífsspeki og þemu sem minna gjarnan á Blade Runner. Afþreyingargildið í heildina sér annars vegar um að bæta upp fyrir holur handritsins og aðra hnökra, þó ekki allar. Lokahlutinn er reyndar örlítið flýttur og fyrirsjáanlegur, þó segja má – án þess að spilla – að bláendirinn sé hressilega djarfur.

Katherine Waterston er sterk og sannfærandi í hlutverki sem er til þess sniðið að kalla á eftir samanburði við Sigourney Weaver, en það hefði verið fínt að fá að kynnast persónunni betur. Svipað má segja um stórgóðan Billy Crudup, eða jafnvel Danny McBride, sem kemur á óvart með mýkri, viðkunnanlegri hlið eftir að hafa sérhæft sig í hlutverki skíthæla.

Enginn kemur betur út úr þessari mynd heldur Michael Fassbender og tveir af honum eru víst betri en einn. Þetta er algjörlega hans saga og hann er stórkostlegur sem gervimennin Walter, sá hlýðni, og hinn óútreiknanlegi David.

Bestu augnablikin í Alien: Covenant eru samt ekki skrímslasenurnar, heldur þessar litlu, hljóðlátu þar sem Fassbender veltir lífinu og tilverunni fyrir sér, stundum á móti sér sjálfum. Súra sjónin að sjá einn Fassbender kenna öðrum á flautuna sína er tær hápunktur, af hæfilega tvíræðum ástæðum.

 

Besta senan:
Byrjunin. Eða þegar Fassi segir „I’ll do the fingering“.

Categories: Hrollvekja, Sci-fi, Spennuþriller | Leave a comment

Ég man þig

Íslensk kvikmyndagerð hefur margt getið af sér; spennusögur, gamanmyndir, barnamyndir, fjölskyldudrama eða þroskasögur í bílförmum, nefnið það. Þökk sé leikstjóranum Óskari Þór Axelssyni eigum við líka að minnsta kosti eina frábæra glæpamynd til á skrá. Geiramyndir eru hins vegar eitthvað sem við höfum ekki alveg náð þéttum tökum á, hvað þá hrollvekjur eða draugamyndir. En sökum slaks framboðs er öruggt að gefa Ég man þig heiðurinn af því að vera besta íslenska mynd beggja tegunda frá því að Húsið var og hét.

Eins og flestir og ömmur þeirra eflaust vita er myndin byggð á metsölubók Yrsu Sigurðardóttur. Efniviðurinn er brotinn upp í tvær sögur en önnur þeirra sækir harðar í hið yfirnáttúrulega. Sú gerist á Hesteyri og segir frá parinu Katrínu og Garðari ásamt vinkonu þeirra, sem ákveða að gera upp gamalt hús og breyta því í gistiheimili.

Draugasagan skrifar sig nánast sjálf þar sem eyðibærinn er afskekktur; þarna er kalt, dimmt og ekkert símasamband, sem á mælikvarða nútímafólks mætti flokka undir alvöru hrylling. Hinn þráðurinn er meira sakamálasaga og fylgir eftir rannsókn lögreglunnar á Ísafirði, þar sem mynstur sérkennilegra dauðsfalla er farið að segja til sín eftir að kona finnst látin í kirkju. Geðlæknirinn Freyr er fenginn til að skoða þetta mál aðeins betur, en áður en langt um líður fer það að ýfa upp gömul sár hjá honum.

Ef það er eitthvað sem sést strax á Ég man þig, er það hversu faglega gerðar umbúðirnar eru. Í tengslum við stílbrögð er Óskar Þór á hraðri leið að verða einn sá færasti sem við höfum og virðist ekki hræðast það að tækla bíóaðlögun á þekktri bók. Sem hans fyrsta mynd í fullri lengd markaði Svartur á leik frábæra innkomu hjá manninum og sýndi fram á örugg tök hans á leikurum sem og getu til að móta sterkar senur; grimmar, lifandi og löðrandi í andrúmslofti. Ég man þig nýtur hiklaust góðs af drunga Vestfjarða, sem rammar allt inn í flottan pakka. Kvikmyndatakan er líka sérstaklega flott, förðunin í lagi og klippingin skemmtilega úthugsuð á tíðum.

Framvinda myndarinnar er lágstemmd og tekur sinn tíma en keyrslan er nógu brött til þess að tryggja fitusnauða heild, en á móti leiðir þetta til þess að persónusköpunin ristir aldrei neitt djúpt. Meira er lagt upp úr dulúð ráðgátunnar heldur en því sem er að gerast í kolli persónanna, þó myndina skorti ekki krefjandi eða tilþrifaríkan leik.

Jóhannes Haukur ber sig vel og túlkar Frey sem afar sympatískan og viðkunnanlegan mann með holu í hjartanu. Anna Gunndís Guðmundsdóttir gæti þó vel verið sú sterkasta á tjaldinu í hlutverki Katrínar, en hún upplifir einnig vænan skammt af volæði og áföllum af miklum trúverðugleika. Þorvaldur Davíð og Ágústa Eva eru einnig sannfærandi en furðu vannýtt í sínum lykilhlutverkum, eins með Söru Dögg Ásgeirsdóttur í hlutverki rannsóknarlöggunnar Dagnýjar sem virðist eingöngu gegna því hlutverki að útskýra söguþráðinn fyrir áhorfendum.

Ég man þig er án efa besta íslenska hrollvekjan eða draugamyndin frá því að Húsið var og hét.
Aukaleikarar eru flestir þokkalegir og verður að hrósa Sveini Geirssyni fyrir að ná að halda andliti í eflaust hallærislegustu senu myndarinnar, þar sem hann leggur fyrir okkur reglur og eðli afturgangna. Atriðið gegnir vissum tilgangi en passar illa inn. Það sem kemur þó mest á óvart er hvað draugagangurinn virðist hafa litlu við heildina að bæta og kemur næstum því út eins og uppfylling. Hér er frábær þemagrunnur til staðar í sögunni til þess að stúdera sorg, missi, geðtap og falin leyndarmál hjá helstu persónum myndarinnar en meirihlutinn af því þarf að víkja fyrir dæmigerðari formúlum.

Það er ýmislegt langsótt sem handritið biður áhorfandann um að kaupa, ekkert af því kemur afturgöngum endilega við. Stundum er gripið til ódýrra trixa til þess að keyra framvinduna áfram, hvort sem þau varða súrar tilviljanir, sérkennilegar ákvarðanir karaktera eða holur í frásögninni.

Spennan næst því aldrei almennilega upp og hryllingurinn er takmarkaður ef ekki pínu flatur. Samtölin eru mörg ópússuð og oft í formi stirðra útskýringarsamræðna. Bestu kaflarnir eru einmitt þegar spilað er með þagnir eða umhverfi.

Óskar fær reyndar aukaplús fyrir að styðjast sem minnst við bregðuatriði. Gerist alveg einu sinni eða tvisvar að „sjokk-fakt­orinn“ hitti í mark en ákvörðunin að drekkja myndina með hávaða og djúpri bassatónlist dregur úr stemningunni frekar en að styrkja hana. Mynd eins og Ég man þig stendur svolítið og fellur með andrúmsloftinu, einnig trúðverðugleika og gripi sögunnar.

Það er ýmislegt sem gengur upp í þessari útkomu, þó tómleg sé, og það sem meira máli skiptir er að fólk sem er ekki vant því að horfa á hrollvekjur er líklegra til að spenna rassvöðvana og hanga á sætisbrúninni á einhverjum tímapunkti.

Besta senan:
Leitin að símasambandi.

 

(birt upphaflega á Vísi og í Fréttablaðinu þann 11. maí)

Categories: Drama, Hrollvekja, Spennuþriller | Leave a comment

Child Eater

Seint má segja að Child Eater styðjist við frumlegan efnivið en hérna skín það algjörlega í gegn að kvikmyndagerðarmaðurinn Erlingur Óttar Thoroddsen hefur mikla ástríðu fyrir hrollvekjugeiranum. Þetta er fyrsta kvikmyndin hans í fullri lengd (sem á rætur sínar að rekja til samnefndrar stuttmyndar eftir hann), gerð fyrir lítið fjármagn en hún nýtir hvern aur til þess að segja dökka, litla „ævintýrasögu“ sem leikur sér að kunnuglegum formúlum annað slagið.

Í stuttu máli segir sagan frá ungum dreng að nafni Lucas og barnapíunni hans, Helen. Kvöldið þeirra virðist í fyrstu vera ósköp viðburðarlítið en þegar líður að háttartímanum byrjar Lucas að kvarta undan drungalegum hljóðum í fataskápnum sínum. Þegar hann er skyndilega horfinn fer Helen að velta fyrir sér hvort sögusagnir bæjarins séu sannar; að það gangi laus geðbilaður maður sem gæðir sér að augum ungra barna. Þeirra nótt – og martröð – er bara rétt að byrja.

Ef það er eitthvað sem einkennir sterka hrollvekju, þá er það grípandi andrúmsloft. Það skaðar að sjálfsögðu ekki ef leikarar eru upp á sitt besta, þemun athyglisverð og hryllingurinn vekur gæsahúð. Í ódýrari geiramyndunum má fyrirgefa margt ef þær ganga upp á þessum sviðum. Child Eater gerir það næstum því, en heldur lífi í sér með því að spila með einfaldleikann og bjóða upp á hressandi nýtt „bíóskrímsli.“

ce-promo2-800x500

Erlingur fiktar við skemmtilegar pælingar með myndmálinu og sýnir að hann hefur örugg tök á bæði hljóðlátum hryllingsstíl og subbulegum hlaupagangi. Kvikmyndatakan og tónlistin gerir líka heilmikið fyrir óhuggulegu stemninguna sem sóst er eftir. Í þokkabót heldur myndin beinskeyttri keyrslu án þess að hægjað sé of mikið á. Heildarlengdin rétt slær upp í 80 mínútur og hefði varla þolað það að vera mínútu lengri, þrátt fyrir að hún hefði mátt gera aðeins meira við persónurnar á tímaramma sínum.

Umgjörðin er í lagi (sömuleiðis förðunarvinnan, hún er geggjuð) og „ódýri“ bragurinn hefur vissan sjarma, nema þegar kemur að t.d. óslípaðri hljóðvinnslu, sem hér hefði mátt betur fara yfir í lykilatriðum.

a6f04b31e737fa7e1b4b90cc22460821_original

Almennt séð eru leikararnir fantafínir, þó það komi stöku sinnum fyrir að viðbrögð persóna séu óvenju róleg miðað við hryllilegustu aðstæður. En Cait Bliss kemur þokkalegum persónuleika til skila í hlutverki Helen og Colin Critchley gæti varla verið viðkunnanlegri í hlutverki Lucasar litla. Aðrir leikarar fylla ásættanlega upp í aðra íbúa bæjarins en skilja ekkert eftir sig, annað en Jason Martin, sem er æðislega ógeðfelldur sem skúrkurinn sjálfur. Myndin sýnir aldrei of mikið af honum en gervið og útlitið er nógu minnisstætt til þess að selja óhugnaðinn og nærveruna, ef andardrátturinn er ekki þegar búinn að því.

Það leynir sér kannski ekki að framleiðslufjármagnið hefur verið takmarkað en Child Eater miðar hátt og ætti engu að síður að geta fundið sinn aðdáendahóp. Þó svo að innihaldið risti ekki djúpt þykir líklegt að titilpersónan sjái til þess að einhverjir áhorfendur eigi ekki mjög ljúfan svefn að henni lokinni. Ágætis stöff, segjum rúmlega ‘meh’
fin

 

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann )
Besta senan:
Lokauppgjörið.

Categories: Hrollvekja | Leave a comment

Powered by WordPress.com.