Hryllingsmynd

IT: Chapter Two

Þá er komið að seinni hluta trúða- og óttaepík Stephens King, þar sem síendurtekin óttamótíf, uppgjör, minningar og fortíðardraugar eða andsettir skrípalingar ráða ríkjum. Því er ekki hæpið að segja að þessi skítþykka bók sé samansafn af öllum helstu King-formúlunum (Maine, útskúfun, vinátta, óþekkt illskuöfl, sálarhreinsun í gegnum fortíðaruppgjör, hinir hrottalegustu hrottar, rithöfundur í krísu o.fl.). Persónurnar hafa allar sinn djöful að mæta, sem tengist yfirleitt einhverju fráskildu skepnunni – t.d. samviskubit yfir fráfall persónu, martraðir úr æsku, andlegt ofbeldi o.fl.

Síðast fylgdumst við með krökkunum, nú er komið að fullorðna hópnum (þó búið sé að strá allnokkrar senur með krökkunum þar sem búið er að yngja þá aðeins með truflandi effektum). Sagan í grunninn pikkar ekki bara upp þráðinn 27 árum seinna, heldur hafa flestar persónur gleymt því sem gerðist – sem er í rauninni hin fullkomna afsökun til að gera nákvæmlega sömu mynd aftur.

Þessi sena er hilaríus! – var það… ætlunin?

Tæknilega og táknrænt séð setur Chapter risastórt stækkunargler á helstu vankanta fyrri kaflans – nánast eins og hún hafi verið stundum unnin af allt öðru aðstandendateymi. Hún er stærri, dýrari, ruglaðri, lengri, langdregnari, kjánalegri, meira þreytandi og ó-drungalegri á allan veg. Það er ágætis karaktervinna hér og þar en að sama skapi nær þessi samanlagða 5+ tíma heild ekki að gera öllum hópnum góð skil. Hún nær aðeins fínni lendingu á síðustu 40 mínútunum (sem er skondið í ljósi þess hversu oft King skýtur á það í þessum hluta hvað “rithöfundurinn” í sögunni er ömurlegur í því að skrifa enda), en tveggja tíma biðin fram að því er voðalega rykkjótt og óspennandi.

Fyrri myndin hafði sína spretti í hryllingi og múdi, á meðan þessi kemur oftar en ekki út eins og hálfbökuð Sam Raimi eftirherma í subbulega óhugnaði sínum, með slöppum brellum, klúðurslegum senubyggingum sem eru allan daginn hallærislegri frekar en skerí, illa tímasettum bröndurum og haug af litlum uppfyllingum og karakter-mómentum sem fyrri kaflinn var löngu búinn að dekka.

Bill Skarsgård er enn þrumugóður og hressandi sem Pennywise, þó gjarnan hefði mátt vera meira af honum í stað… allra þeirra skepna sem poppa upp í hans stað. Almennt er einhvern sjarma að finna í fullorðinshópnum, enda annað erfitt með svona fínt sett. Jessica Chastain og James McAvoy eru frábær þó þau séu á sjálfstýringu, talent sem fylgir víst leikurum sem eru *með’edda*. Bestur er sjálfsagt hinn ávallt hressandi Bill Hader, að gera það sem hann gerir best – að djóka yfir sig í aðstæðum og koma með sannfærandi taugaveiklun. Isaiah Mustafa (úr eldri Old Spice-auglýsingunum) er líka með góða nærveru en alveg eins og gerðist með fyrri hlutann fær persóna hans minni athygli heldur en ætti að vera sjálfsögð. Aukaplottið með svívirðilega hrottann kemur á annan veg út eins og pirrandi uppfylling, ef út í heildarhópinn er farið. Það liggur allavega strax fyrir að eldri hópurinn hefur ekki alveg tilgerðarlausu kemistríuna sem þessi yngri hafði.

Á stílísku leveli gerir Andy Muschietti ýmislegt fínt úr atmói sem minnir á hreint martaðar-karnival – í bland við grafalvarlega Beetlejuice á milli. Litapallettur- og lýsingarföndur nýtur sín á öllum þeim sviðum sem klipping, brellur eða hljóðvinnsla klikkar á. En IT: Chapter Two er góðum hálftíma allt of löng og hefði trúlega betur mátt nýta tímann sem hér er í boði. Af klippingunni að dæma er oft eins og hlunka vanti úr klippi sem hefði greinilega átt að vera lengra. Með því að brjóta upp bókastrúktúr Kings eins og þessar bíóaðlaganir (sjónvarpsmyndin þar meðtalin) hafa gert er úrvinnslan alltof mikið í endurtekningum og táknmyndum sem margbúið er að tyggja.

Að erfa galla bókarinnar er eitt, en fyrir aðstandendur að takast því furðulega verki að gera býsna leiðinlega og áhrifalausa hryllingsmynd um SNARKLIKKAÐAN TRÚÐADJÖFUL er eitthvað allt, allt annað skammarstig.Besta senan:

McAvoy í karnivali.

Categories: Drama(tripp), Hryllingsmynd | Leave a comment

The Neon Demon

Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn er sjaldnast þekktur fyrir að fara fínt í hlutina eða með hefðbundnum hætti. Hann hefur sýnt og staðfest með myndum eins og Valhalla Rising, Drive og Only God Forgives hvað hann fer faglega að því að móta draumakennd andrúmsloft, hneyksla með áköfu ofbeldi og ekki síður kljúfa áhorfendum í tvo hópa. Skiljanlega.

Þessa seinastnefndu er varla hægt að kalla auðmelta kvikmynd og The Neon Demon ennþá síður. Sagan í grófum dráttum segir frá hinni 16 ára Jesse sem flytur til Los Angeles með þá drauma um að gerast módel. Jesse býr yfir miklum sakleysissjarma og heillar hún hvern á eftir öðrum. Samkeppnin og öfundsýki annarra er þó ekki lengi að berja að dyrum og bráðlega kynnist Jesse því að í þessum átakanlega bransa snýst hugarfarið annað hvort um það að éta eða vera étinn.

jena-malone_0
Myndinni er bæði stillt upp sem eins konar grimmu ævintýri og óforskammaðri skilaboðaögu um útlitsdýrkun og spillingu sakleysis. Refn notar tískugeirann sem áhrifaríkan stökkpall til þess að stúdera girnd, hégóma, fegurð og hrylling, innri djöfla og ytri og margs konar táknmyndir. Prakkarinn í honum skín þó mikið í gegn og nær að örva, ögra, stöku sinnum dáleiða og kitla hinar allra svörtustu hláturtaugar.

The Neon Demon er ekki beinlínis aðgengileg, en meiriháttar rugluð er hún, djörf og sérstök. Í augum margra jaðar úrvinnslan pottþétt við hrein og bein tilgerðarlegheit. Hvort sem manni líkar það annars betur eða verr er ljóst að Refn hefur mikið að segja með þessu martraðarkennda innliti sínu í útlitsbransann. Annars er erfitt að neita því hversu óútreiknanleg og bítandi framvindan í myndinni er, eða hvað Refn hefur sterkt auga fyrir römmum sem skera sig úr og gætu staðið sem sjálfstæð listaverk. Að auki eru alnokkrar mátulega truflandi senur sem ekki eru líklegar til að yfirgefa heilabúið í bráð.

the-neon-demon-pic

Refn er allur í ýktri og draumakenndri stílíseringu og spilar með myndmál, andrúmsloft og hugmyndir frekar en að binda sig við ákveðnar handritsreglur. Kvikmyndataka, lýsing, litanotkun og almenn umgjörð er sérlega grípandi og innsiglar öfluga tónlistin frá Cliff Martinez þessa stemningu leikstjórans og gefur verkinu góðan púls. Leikkonurnar koma einnig glæsilega (Jena Malone sérstaklega!) út í heldur krefjandi hlutverkum og aldrei er leiðinlegt að hafa einn reiðan Keanu Reeves á svæðinu. Leitt hvernig hann virðist bara fjara út úr myndinni.

The Neon Demon er mynd sem þarf fyrst og fremst að upplifa frekar en að botna samstundis í. Hún veitir engin einföld svör og bjóða rammarnir upp á ýmsar klikkaðar túlkanir og umræður. Hún er erfið, súr, vægðalaus og á köflum næstum því yfirgengilega yfirdrifin, en á sama tíma vekur hún mann til umhugsunar og kemur sínum skilaboðum á framfæri á frumlegan, einkennandi hátt. Ég verð hissa ef myndin verður ekki talin vera költ-klassík eftir áratug eða svo.

 

brill

 

(Þessi grein var upphaflega birt í Fréttablaðinu þann 12. september)

 

Bestu senurnar:
– Flogaveikissjóið
– Jesse á brautarpallinum
– ‘Hreinsunin’

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "She went there" mynd, Hryllingsmynd | Leave a comment

Martyrs

Það þýðir ekkert að vanmeta Frakkana þegar kemur að „extrím“ hryllingi. Martyrs sver sig beinustu leið í ætt við aðrar ansi hreint geðveikar myndir – í bókstaflegri meiningu – eins og Inside og High Tension, sem komu út á svipuðum tíma og buðu báðar upp á væna skammta af subbuskap – í bylgjum. Það sem aðskilur samt þessa frá þeim er þolinmæðin og það að hún hefur eitthvað ansi ógeðfellt en í senn merkilegt að segja með setunni. Þeir sem meika hana út í gegn, með augun og hugann opinn, eiga skilið að lágmarki klapp á bakið, eða mjúkan bangsa.


Að kalla Martyrs vægðalausa, brútal og hreint út sagt illgjarna mynd virðist ekki alveg gera því réttlæti hvað hugtökin þýða. Truflandi er hún með stóru, feitu T-i, en ekki bara vegna þess að hún fellur undir einfaldaða lýsingu eins og pyntingarklám í hágír (sem hún gerir, en þó ekki…), heldur líka vegna þess að hún er brenglað vel gerð, viðbjóðslega sannfærandi í leiknum auk því að vekja mann í alvörunni til umhugsunar. Það kemur hins vegar eftir áhorfið, eða þegar maður reynir að koma sér á það stig að vera ónæmur gegn sjálfspyntingunum og ekki síður þeirri stjórnlausu misþyrmingu sem sést gegn kvenfólki. Eitthvað segir mér að gæi eins og Lars von Trier hljóti að horfa hlæjandi á þessa mynd, og með hann blýstífan í þokkabót.

En sem „horror“ mynd (gleymum því ekki hvað geirinn skiptir sér í margar áttir) er alveg klárt mál að hún nær seint að hverfa úr andskotans heilabúinu. Sjálfur tel ég mig vera með ágætlega háan þröskuld fyrir svona bíói og á réttum degi skal ég með ánægju (kannski 5% mótspyrnu) skófla nokkrum svona titlum í mig fyrir hádegi á þriðjudegi, en grunnhugmyndin og almennt „tilgangur“ Martyrs er kveikiþráðurinn á því að hún kemst upp á hæðir sem t.d. Eli Roth eða fleiri hafa lengi látið sig dreyma um.

Gallinn samt við Martyrs, þ.e.a.s fyrir utan kátínuna sem hún vekur með svo miklu stolti, er að hún er vel farin að þynnast út og smátt og smátt bjóðandi upp á að þú aflífir sjálfan þig, vel áður en hún haltrar að lokasenunni. Sagan snýst öll í kringum tvær stórskemmdar stúlkur, Lucie og Önnu (sem Myléne Jampanoï og Morjana Alaoui leika af rugluðu hugrekki) og raðast sitthvor helmingurinn upp með því að einblína á aðra í einu. Í fyrri hlutanum er leikstjórinn Pascal Laugier á geðbiluðu róli og tekst reglulega að koma á óvart og flétta ýmsu af sögunni á mjög litlum tíma, sem er ekkert ómerkilegra þegar myndin gerist öll í einu húsi.

mart
Handritið tekur af stað á hörðum spretti þegar Lucie er formlega kynnt til sögunnar með tryllingi og leynast áhugaverðar stúderingar á ímyndunarveiki og skaða gegn geðheilsunni sem lífsreynsla hennar draga með sér. Þegar myndin skiptir síðan yfir í Önnu er flæðið komið á rólegra, pínlegra stig, með sérstakt markmið í huga, en „sýnum allt!“ nálgunin verður ekkert alltaf styrkjandi til lengdar. Endirinn er ein allsherjar klessa af níhilisma en hefði ekkert virkað síður kröftugur ef Laugier hefði skilið aðeins meira eftir fyrir sadistakennda ímyndunaraflið og sett örlítið meiri súbstans í seinni helminginn.

Martyrs er óumdeilanlega fullmikið, en þar liggur furðulegi styrkleikur hennar líka. Hún grátbiður um að láta slökkva á sér en ef maður skoðar grannt undir yfirborðið henni skilur hún talsvert meira eftir sig en bara ljóta ramma og langdregnar senur. Skömmustulega er hún útpældari en flestar, kemur áhugaverðum punkti til skila í samantektinni sinni og Laugier má eiga það að honum tókst sínu ætlunarverki, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

thessi

Besta senan:
Lucie gengur berserksgang í byrjun. Púlsinn fór á milljón.

Categories: aww..., Hryllingsmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.