Hryllingsmynd

The Neon Demon

Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn er sjaldnast þekktur fyrir að fara fínt í hlutina eða með hefðbundnum hætti. Hann hefur sýnt og staðfest með myndum eins og Valhalla Rising, Drive og Only God Forgives hvað hann fer faglega að því að móta draumakennd andrúmsloft, hneyksla með áköfu ofbeldi og ekki síður kljúfa áhorfendum í tvo hópa. Skiljanlega.

Þessa seinastnefndu er varla hægt að kalla auðmelta kvikmynd og The Neon Demon ennþá síður. Sagan í grófum dráttum segir frá hinni 16 ára Jesse sem flytur til Los Angeles með þá drauma um að gerast módel. Jesse býr yfir miklum sakleysissjarma og heillar hún hvern á eftir öðrum. Samkeppnin og öfundsýki annarra er þó ekki lengi að berja að dyrum og bráðlega kynnist Jesse því að í þessum átakanlega bransa snýst hugarfarið annað hvort um það að éta eða vera étinn.

jena-malone_0
Myndinni er bæði stillt upp sem eins konar grimmu ævintýri og óforskammaðri skilaboðaögu um útlitsdýrkun og spillingu sakleysis. Refn notar tískugeirann sem áhrifaríkan stökkpall til þess að stúdera girnd, hégóma, fegurð og hrylling, innri djöfla og ytri og margs konar táknmyndir. Prakkarinn í honum skín þó mikið í gegn og nær að örva, ögra, stöku sinnum dáleiða og kitla hinar allra svörtustu hláturtaugar.

The Neon Demon er ekki beinlínis aðgengileg, en meiriháttar rugluð er hún, djörf og sérstök. Í augum margra jaðar úrvinnslan pottþétt við hrein og bein tilgerðarlegheit. Hvort sem manni líkar það annars betur eða verr er ljóst að Refn hefur mikið að segja með þessu martraðarkennda innliti sínu í útlitsbransann. Annars er erfitt að neita því hversu óútreiknanleg og bítandi framvindan í myndinni er, eða hvað Refn hefur sterkt auga fyrir römmum sem skera sig úr og gætu staðið sem sjálfstæð listaverk. Að auki eru alnokkrar mátulega truflandi senur sem ekki eru líklegar til að yfirgefa heilabúið í bráð.

the-neon-demon-pic

Refn er allur í ýktri og draumakenndri stílíseringu og spilar með myndmál, andrúmsloft og hugmyndir frekar en að binda sig við ákveðnar handritsreglur. Kvikmyndataka, lýsing, litanotkun og almenn umgjörð er sérlega grípandi og innsiglar öfluga tónlistin frá Cliff Martinez þessa stemningu leikstjórans og gefur verkinu góðan púls. Leikkonurnar koma einnig glæsilega (Jena Malone sérstaklega!) út í heldur krefjandi hlutverkum og aldrei er leiðinlegt að hafa einn reiðan Keanu Reeves á svæðinu. Leitt hvernig hann virðist bara fjara út úr myndinni.

The Neon Demon er mynd sem þarf fyrst og fremst að upplifa frekar en að botna samstundis í. Hún veitir engin einföld svör og bjóða rammarnir upp á ýmsar klikkaðar túlkanir og umræður. Hún er erfið, súr, vægðalaus og á köflum næstum því yfirgengilega yfirdrifin, en á sama tíma vekur hún mann til umhugsunar og kemur sínum skilaboðum á framfæri á frumlegan, einkennandi hátt. Ég verð hissa ef myndin verður ekki talin vera költ-klassík eftir áratug eða svo.

 

brill

 

(Þessi grein var upphaflega birt í Fréttablaðinu þann 12. september)

 

Bestu senurnar:
– Flogaveikissjóið
– Jesse á brautarpallinum
– ‘Hreinsunin’

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "She went there" mynd, Hryllingsmynd | Leave a comment

Martyrs

Það þýðir ekkert að vanmeta Frakkana þegar kemur að „extrím“ hryllingi. Martyrs sver sig beinustu leið í ætt við aðrar ansi hreint geðveikar myndir – í bókstaflegri meiningu – eins og Inside og High Tension, sem komu út á svipuðum tíma og buðu báðar upp á væna skammta af subbuskap – í bylgjum. Það sem aðskilur samt þessa frá þeim er þolinmæðin og það að hún hefur eitthvað ansi ógeðfellt en í senn merkilegt að segja með setunni. Þeir sem meika hana út í gegn, með augun og hugann opinn, eiga skilið að lágmarki klapp á bakið, eða mjúkan bangsa.


Að kalla Martyrs vægðalausa, brútal og hreint út sagt illgjarna mynd virðist ekki alveg gera því réttlæti hvað hugtökin þýða. Truflandi er hún með stóru, feitu T-i, en ekki bara vegna þess að hún fellur undir einfaldaða lýsingu eins og pyntingarklám í hágír (sem hún gerir, en þó ekki…), heldur líka vegna þess að hún er brenglað vel gerð, viðbjóðslega sannfærandi í leiknum auk því að vekja mann í alvörunni til umhugsunar. Það kemur hins vegar eftir áhorfið, eða þegar maður reynir að koma sér á það stig að vera ónæmur gegn sjálfspyntingunum og ekki síður þeirri stjórnlausu misþyrmingu sem sést gegn kvenfólki. Eitthvað segir mér að gæi eins og Lars von Trier hljóti að horfa hlæjandi á þessa mynd, og með hann blýstífan í þokkabót.

En sem „horror“ mynd (gleymum því ekki hvað geirinn skiptir sér í margar áttir) er alveg klárt mál að hún nær seint að hverfa úr andskotans heilabúinu. Sjálfur tel ég mig vera með ágætlega háan þröskuld fyrir svona bíói og á réttum degi skal ég með ánægju (kannski 5% mótspyrnu) skófla nokkrum svona titlum í mig fyrir hádegi á þriðjudegi, en grunnhugmyndin og almennt „tilgangur“ Martyrs er kveikiþráðurinn á því að hún kemst upp á hæðir sem t.d. Eli Roth eða fleiri hafa lengi látið sig dreyma um.

Gallinn samt við Martyrs, þ.e.a.s fyrir utan kátínuna sem hún vekur með svo miklu stolti, er að hún er vel farin að þynnast út og smátt og smátt bjóðandi upp á að þú aflífir sjálfan þig, vel áður en hún haltrar að lokasenunni. Sagan snýst öll í kringum tvær stórskemmdar stúlkur, Lucie og Önnu (sem Myléne Jampanoï og Morjana Alaoui leika af rugluðu hugrekki) og raðast sitthvor helmingurinn upp með því að einblína á aðra í einu. Í fyrri hlutanum er leikstjórinn Pascal Laugier á geðbiluðu róli og tekst reglulega að koma á óvart og flétta ýmsu af sögunni á mjög litlum tíma, sem er ekkert ómerkilegra þegar myndin gerist öll í einu húsi.

mart
Handritið tekur af stað á hörðum spretti þegar Lucie er formlega kynnt til sögunnar með tryllingi og leynast áhugaverðar stúderingar á ímyndunarveiki og skaða gegn geðheilsunni sem lífsreynsla hennar draga með sér. Þegar myndin skiptir síðan yfir í Önnu er flæðið komið á rólegra, pínlegra stig, með sérstakt markmið í huga, en „sýnum allt!“ nálgunin verður ekkert alltaf styrkjandi til lengdar. Endirinn er ein allsherjar klessa af níhilisma en hefði ekkert virkað síður kröftugur ef Laugier hefði skilið aðeins meira eftir fyrir sadistakennda ímyndunaraflið og sett örlítið meiri súbstans í seinni helminginn.

Martyrs er óumdeilanlega fullmikið, en þar liggur furðulegi styrkleikur hennar líka. Hún grátbiður um að láta slökkva á sér en ef maður skoðar grannt undir yfirborðið henni skilur hún talsvert meira eftir sig en bara ljóta ramma og langdregnar senur. Skömmustulega er hún útpældari en flestar, kemur áhugaverðum punkti til skila í samantektinni sinni og Laugier má eiga það að honum tókst sínu ætlunarverki, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

thessi

Besta senan:
Lucie gengur berserksgang í byrjun. Púlsinn fór á milljón.

Categories: aww..., Hryllingsmynd | Leave a comment

Dead Snow 2

Það er afskaplega erfitt að koma út af ræmu eins og Dead Snow 2 og segja að hún gerði ekki meira eða minna allt sem er til ætlast af henni, geiranum sem hún tilheyrir og fyrst og fremst hugmyndinni. Vandinn er bara sá að extrím splatter-geðveiki er eitthvað sem hver áhorfandi annaðhvort rúllar með eða ekki.

Tæknilega séð ætti engin heilvita manneskja að slysast til að horfa á mynd sem heitir Dead Snow 2 (með áherslu á töluna) þegar hún fjallar um nasista-zombía sem seinna komast í enn blóðugri slag við Sovét-zombía. Hún er gerð fyrir þá sem vita hvað þeir eru að sækjast í og markmiðið er að launa þeim með limlestingarnammi og öðru endalausu rugli.

Framhaldsmyndin er sú betri að mínu mati því hún er fjörugri og strax með athyglina á því sem hún vill vera frá byrjun. Sú fyrri fannst mér á tíðum breytast í það sem hún ætlaði sér að gera grín að. Þessi heldur betri dampi, hún er meira samkvæm sér sjálfri og fær að leika sér talsvert meira, enda fjölbreyttari sögusvið og þrjúhundruð sinnum fleiri fórnarlömb í boði. Kominn er líka meiri persónuleiki í uppvakninganna, væntanlega tengt því að þeir eru skyndilega farnir að tala við hvorn annan. En skyldi það samt gerast að “splat-stick“ unnandi (eða einhver sem kemur bara til að skoða landslagið eða statista sem hann þekkir) ætli sér að vaða beint í þessa án þess að hafa séð hina þá er þægilega vel séð um að rifja hana upp á örskömmum tíma, með öllum bestu skotunum í þokkabót.

Leikstjóranum Tommy Wirkola er sannarlega ekkert heilagt þegar kemur að ógeðinu og í Dead Snow 2 er verulega haldið utan um þær framhaldsreglur að gera allt stærra og meira yfirdrifið. Það væri ávísun á overkill, sem myndin er kannski nú þegar, ef Wirkola hefði ekki sömuleiðis ákveðið að halda í Evil Dead-hefðina og keyra upp allan húmor og grípa í sadistakennda subbufarsann við hvert tækifæri. Og props til aðstandenda fyrir að breyta Eyrarbakka í vígvöll fyrir eitt hugmyndaríkasta blóðpartí ársins. Það er hins vegar undir öðrum en Íslendingum komið að meta hvort landið standi sig til fulls í hlutverki Noregs. Kópavogsturninn og Bónus drápu þarna svolítið galdurinn fyrir mér.

Það kemur á óvart hvað margir leikararnir gera sig hérna. Sést því miður aðeins á aðalleikaranum Vegar Hoel að liðin eru fimm ár síðan sú fyrsta var gerð þó svo að atburðarásin hér tekur við bókstaflega sekúndu síðar. Skiptir samt engu máli, þetta er ekki rétti staðurinn til að spá í svoleiðis hluti. Maðurinn er farinn að sýna meiri lit, meiri húmor og breytist í dásamlega fyndna aulahetju, umdeilanlega norska svarið við Ash.

Martin Starr kemur líka prýðilega út og sér til þess að gera myndina aðgengilegri fyrir Bandaríkjamenn en stelpurnar sem fylgja með honum eru að nærri öllu leyti pirrandi og draga alltof mikið af senum niður með ofleik og rembingi. Fljótlega var ég farinn að vonast innilega að þær dræpist sem fyrst, en fyrir hvert skipti sem þær gera myndina aðeins verri, þá kemur Hallvard Holmen henni beint aftur á sporið. Hann stelur bæði öllum sínum senum og sennilega allri myndinni („Sleik meg langt inni gutte fitta mi!“ <— BEST!) sem kærulaus lögreglustjóri sem er svo innilega ekki nenna djobbinu sínu, og Amrita Acharia, mesta augnakonfekt myndarinnar, er ómissandi við hans hlið. Erfitt er að setja út á aðra því þeir virðast gera nákvæmlega það sem þeir eiga að gera, en Kristoffer Joner fær extra kredit sem varnarlaus ‘krútt’-uppvakningur.

Ef það er eitthvað sem þarf að viðurkennast, sama hvort sem maður fílar þessa mynd eða ekki, það er hversu fáránlega vönduð hún er… innan sinna marka. Ef fólki býður við henni er það að hluta til vegna þess að förðunin og er – sem fyrr – ógeðslega sannfærandi, eins með búninga og flestar brellur. Wirkola nýtir sér líka aukna fjármagnið sem hann hefur með betri kvikmyndatöku og stærra tónlistarscore-i (með orkestru og læti!) sem gefur þessu öllu réttan tón. Gríntónlistin heldur sér líka alltaf í höfn svo myndin verði aldrei of alvarleg, og ef út í það er farið get ég varla ímyndað mér að nokkur bíómynd finni sér betri nýtingu á laginu Total Eclipse of the Heart. Ég held að eitthvað í mér hafi dáið smávegis úr hlátri.

Það að enginn skuli hafa nálgast þennan leikstjóra fyrir misheppnuðu Evil Dead “endurgerðina“ er mér algjör ráðgáta. Dead Snow 2 er yfirhöfuð á meðal metnaðarfyllri og skemmtilegri splatt-veislum sem hafa komið út lengi og viðbjóðslega fyndin á réttum stöðum, sem hlýtur að senda mér skilaboð um hversu sjúkur andskoti ég er. Hvort hún eigi erindi á meðal þeirra klassíkera sem hún sækir mestan innblástur í er mjög hæpið en ég er nokkuð öruggur um að Wirkola nái að gleðja fyrirmyndirnar sínar, hvort sem það er Sam Raimi, Peter Jackson eða Romero. Bókaður ‘költari,’ og möst að sjá í réttum félagsskap.

thessiBesta senan:
Misheppnað hjartahnoð.

Categories: Hryllingsmynd, Svört gamanmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.