Kryddblöndumynd

Deadpool 2

Það tók Ryan Reynolds heilar fjórar mislukkaðar tilraunir til þess að leika í bíómyndum byggðum á hasarblöðum (Blade Trinity, Wolverine, Green Lantern, R.I.P.D.) áður en hann loksins fann eina sem small, en leikarinn og Deadpool-fígúran fara saman eins og hnetusmjör og súkkulaði.

Árið 2016 voru umræður víða komnar á flug um að ofurhetjufaraldurinn væri orðinn eitthvað einsleitur, of „Disney-væddur“ og knúinn af leikfangasölu og þá kom Deadpool eins og kallaður; kjaftfor, sjálfmeðvitaður, taumlaus í hasarnum auk þess að reita af sér typpabrandara eins og líf hans velti á því.

Það má bæði segja að Deadpool 2 leyfi sér að fikta við breiðari og villtari striga en áður með trylltari hugmyndum og eigin reglum, eins og oft einkennir traustar viðbætur, en á sama tíma fellur hún í sömu gildrur og grínframhöld eiga til með að gera; endurvinna brandara. Myndin nær ómögulega að skáka eða jafna ferskan andblæ forvera síns, en nóg er til af sniðugum uppákomum til að myndin komist hjá því að vera of sjálfumglöð eða þreytandi, þó aldrei sé langt í það. Á ýmsum sviðum lítur myndin miklu betur út en sú fyrri; með flottari litapallettu, meiri dýnamík í hasar og klippingu. Þar kemur David Leitch (John Wick, Atomic Blonde) sterkur inn með stílbrögð sín í steypuna.

Helst fellur myndin í sundur þegar handritið hamrar á hlýju, tilfinningum og móral persóna, sem hér er oftar gert en fyrr. Sem fígúra kemst Deadpool upp með margt, eins og að rjúfa endalaust fjórða vegginn og benda á klisjur en kemst hann ekki upp með að taka sig alvarlega á sama tíma. Hins vegar er spilað skemmtilega með sjálfseyðingarhvöt andhetjunnar, því dramatískur dauðdagi hetja er víst „inn“ í dag en erfiðara fyrir karakter sem bókstaflega getur ekki dáið.

Karakterinn minnist nokkrum sinnum á „leti“ í handritsgerðinni, en þó höfundar segist vera meðvitaðir um klisjurnar afsakar það ekki tilfellin þar sem þeir falla í þær sjálfir. Á móti snýst notagildi áhorfenda eingöngu um þol hans fyrir smekkleysunni og einfalda spurningu: Hversu fyndið er þetta?

Útkoman er skondin en sjaldan sprenghlægileg. Tímasetning húmorsins var meðhöndluð af meira sjálfsöryggi aðstandenda í fyrri myndinni, sjálfsagt vegna þess að handritið var einfaldara, skarpara og hnyttnara. Deadpool 2 er jaðrandi við það vera ofpökkuð en tekur óvenjulega langan tíma að koma stemningunni (og dirfist maður að segja sögunni?) á gott ról. Síðari hlutinn verður sterkari þegar Josh Brolin og Zazie Beetz fá loksins eitthvað að gera. Hundfúlt er annars hversu lítið er gert úr frekar breiðu úrvali kvenna.

Myndin er uppfull af földum tilvísunum, einkabröndurum og skotum á dægurmenningu og myndasögur sem aðeins hnefafylli af fólki í sal mun ná. Hægri og vinstri eru tekin skot á ofurhetjugeirann eins og hann stendur í dag. Hæpið er að Deadpool myndirnar eldist vel í framtíðinni og þessi seinni þá sérstaklega, miðað við hvað tölvubrellurnar eru illa slípaðar og ljótar á tíðum.

Allir sem ypptu öxlum yfir fyrstu myndinni hafa lítið með þessa að gera. Framhaldið ætti að skemmta flestum hörðustu aðdáendum, bæði persónunnar og Ryan Reynolds. Eins er ómögulegt að smella ekki lágmarksmeðmælum á bíómynd sem blandar saman blóðsúthellingum við stórhressandi söng Dolly Parton um vinnutímann níu til fimm.

 

Besta senan:
Mid-credits kaflinn.

Categories: Grín, Kryddblöndumynd | Leave a comment

Baby Driver

Ungur og eldfær flóttabílstjóri sem kallar sig Baby situr fastur í skuld við glæpamanninn Doc og dreymir um betra líf. Það sem gerir Baby sérstaklega magnaðan undir stýri er hvernig hann leikur bókstaflega eftir eyranu og skipuleggur bæði líf sitt og akstursleiðir eftir tónlistinni sem ómar í eyrum hans.

Baby lenti í bílslysi í æsku sem olli honum sífelldu eyrnasuði og notar hann músík allar stundir lífsins til þess að drekkja út hljóðið. Þegar aðeins fer að birta til í lífinu myndar hann náin tengsl við huggulegu þjónustustúlkuna Deboru. Að losna úr krimmaheiminum er hins vegar, eðlilega, hægara sagt en gert.

 

Fagmaðurinn Edgar Wright, sem er þekktastur fyrir Cornetto-þríleikinn svokallaða (Shaun of the Dead, Hot Fuzz og World’s End), notast við kunnuglega uppskrift en finnur upp glænýja eldunaraðferð. Hér er hugað að púlsinum og sálinni á sama tíma í léttum og spennandi glæpatrylli. Það sem límir saman herlegheitin eru hnyttið handrit, rokkandi orka, meiriháttar tónlistarnotkun, flottir leikarar og brakandi fersk stemning alla leið.

Það eitt hvernig leikstjórinn vefur saman flóttasenur, adrenalín og músík setur myndina í eins konar sérflokk sem frumlegan, naglharðan en blíðan „eltinga(söng)leik“ sem heldur dampi og keyrslu allan tímann. Samsetningin og sér í lagi klippingin er helber snilld, en aldrei myndi þetta virka ef Ansel Elgort væri ekki að brillera svona í aðalhlutverkinu. Án sýnilegs erfiðis tekst honum að gera hinn fámála Baby að þeim silkimjúka töffara sem hann á að vera. Hann er viðkunnanlegur, berskjaldaður en í senn klár, sjarmerandi og svo gott sem óstöðvandi þegar heyrnartólin eru komin á kollinn.

Baby notar tónlist sem ákveðna flóttaleið, bæði andlega sem og í mjög bókstaflegri merkingu. Út söguna fylgjumst við með piltinum neyðast til þess að taka fullorðinslegar ákvarðanir þegar haldið er aftur af honum, á sama tíma og hann þráir fátt heitar en að láta sig hverfa út í buskann með Deboru. Óútreiknanlegu og glæpsamlega þenkjandi samstarfsfélagarnir þrengja að tilverunni og þá reynir á hversu fljótur hann er að hugsa.

Með hlutverk Deboru fer Lily James og fer hún létt með að bræða áhorfandann með mikilli útgeislun og heillandi karakter. Ef eitthvað skyldi setja út á er að það mættu vera ögn fleiri senur með henni. Engu að síður smella þau Elgort nógu krúttlega saman til að áhorfandinn vonast til þess að þau muni að lokum finna hamingjuna. Raunar hefur hver og einn einasti leikari í myndinni eitthvað bitastætt við heildina að bæta.

Persónurnar eru flestar erkitýpur en alls engar pappafígúrur fyrir það. Það sakar heldur ekki þegar sést að flestir leikararnir eru að njóta sín í botn. Að öðrum ólöstuðum virðist þó enginn skemmta sér meira en Kevin Spacey, þó þau Jamie Foxx, Eiza González og Jon Hamm séu líka öll í dúndurgóðum fíling.

Wright setur brandara og húmor ekki eins mikið í forgrunninn hér og hann hefur yfirleitt gert í fyrri myndum sínum, en heildarferill hans sýnir þó að hann hefur náð afbragðstökum á því að setja þroskasögur (sem í flestum tilfellum fela ástarsögu í sér) í poppaðan búning. Baby Driver er þar engin undantekning.

Fyrir utan byrjendaverk sitt (“A Fistful of Fingers” sem fáir hafa séð) hefur Wright aldrei gert slaka kvikmynd og með aldrinum hefur hann sýnt fram á aukna hæfileika á að kvikmynda fjölbreyttan hasar, oftar en ekki af gamla skólanum (lesist: án áberandi tölvubrellna). Wright og hans teymi útfæra hér glæsilega eltingarleiki sem sækja í brunn klassíkera eins og The Driver, The French Connection og meira að segja Blúsbræðurnir eru ekki lausir allra mála.

Myndin leikur sér auðvitað helling að hraða og byssuhvellum en varpar einnig ljósi á afleiðingarnar sem fylgja lífsstílnum sem er svo oft er varpað rómantísku ljósi á í bíómyndum.

Baby Driver ristir kannski ekki þematískt djúpt en það er með ólíkindum hvað stílbrögð og frásögn Wrights ná að pakka miklum upplýsingum í myndmálið. Það fer hvergi rammi til spillis á hnitmiðuðum, snyrtilegum lengdartíma. Þetta er mynd sem kallar á eftir mun fleiri en einu glápi. Heildin er ekki gallalaus en þessa flippuðu þeysireið er bara of erfitt að standast, sérstaklega af því að dæma hvernig ræman rýkur svoleiðis í gang í lokaþriðjungnum sem pakkar þessu öllu saman glæsilega. Ferskari mynd verður erfitt að finna í sumar.

 

 

Besta senan:
Margar, en þegar Focus með Hocus Pocus fer í gang fór hjartað á milljón. Blur-parturinn er líka dásemd.

 

Categories: Gamanmynd, já takk!, Kryddblöndumynd, Spennuþriller | Leave a comment

Guardians of the Galaxy Vol. 2

Þegar Guardians of the Galaxy kom út fyrir þremur árum þótti Marvel-stúdíóið taka mikla áhættu með myndinni, enda könnuðust fáir við hetjurnar fyrirfram og þá var óvíst hvort almenningur myndi tengja sig við súran og ærslafullan tón hennar. Þess vegna sló það marga út af laginu hvað útkoman reyndist vera þrusuvel heppnuð og náði leikstjórinn, sérvitringurinn og atvinnu­nördið James Gunn að stuða heljarinnar ferskleika, gríni og slettu af sál í létta og óvenjulega geim­óperu. Eðlilega er þá staðallinn fyrir framhaldsmyndina nokkuð hár.

Eins og áhorfendur vita margir samanstendur hetjuhópurinn af viðkunnanlega leiðtoganum Peter Quill, hinni stálhörðu Gamoru, stríðskappanum einfalda Drax, byssuóða þvottabirninum Rocket og Groot litla, manngerða trénu sem ætlar sér öllu að drekkja með sakleysi sínu og dúllulegheitum.

Seinast voru þessir vitleysingar miklir einfarar sem komu saman og urðu að náinni liðsheild. Í Guardians of the Galaxy Vol. 2 er reynt á tengsl teymisins með ósögðum tilfinningum og togstreitu, kenndum við hvaða fjölskyldumynstur sem er. Eins og þetta sé ekki nóg glímir Quill núna við tvær ólíkar föðurímyndir sem hann á margt óuppgert við. Það er erfitt að eiga ekki við nokkur vandamál að stríða þegar uppeldisfaðir þinn er villimaður og líffaðir þinn hvergi viðstaddur út æskuna – og lifandi pláneta þar að auki!

Með Guardians of the Galaxy Vol. 2 er tekið meira eða minna allt sem fólk elskaði við fyrri myndina og það fjölfaldað; fleiri brandarar, stærri hasar, aukin krúttlegheit og almennt hærri kvóti af rugli og skrípalegum súrrealisma. Sem betur fer gefur hún samt forvera sínum lítið eftir og er varla dauða mínútu að finna. Heilt yfir má segja að fyrri myndin sé aðeins hnitmiðaðri í frásögninni en það er ýmislegt sem seinni myndin gerir betur. Skúrkurinn er eftirminnilegri, hasarinn flottari, tilfinningakjarninn sterkari og áhersla á persónurnar aðeins meiri.

Í framhaldssögum Marvel hefur venjan oft verið sú að ofhlaða sögur með nýjum persónum og uppstillingum fyrir komandi ævintýri. Gunn gengur prýðilega að forðast þessar gryfjur og reynir að segja í staðinn heldur einfalda og persónulega sögu og einbeitir sér að gildum og gangverkum fjölskyldubanda.

Í handritinu skilur Gunn ekkert eftir til að lesa á milli línanna með samtölunum, heldur eru allar tilfinningar sagðar upphátt eða stafaðar út hjá persónum. Þetta er þó ekki beinlínis galli því yfirdrifni tónninn gengur enn upp og karakterarnir eftirminnilegir og skemmtilegir. Það rignir líka bröndurum í handritinu og ef einn hittir ekki í mark er alltaf stutt í annan sem gerir það áreynslulaust.

Eins og síðast eiga leikararnir kostulega dýnamík, sem í þessari lotu er bara öflugri ef eitthvað er. Allir eru miklu öruggari í hlutverkum sínum. Hver og einn finnur nýjar stillingar á sér (þar á meðal hinir tölvugerðu Rocket og Groot) og dýpkar karakter sinn á einn eða annan hátt. Michael Rooker er á góðri leið með að stela myndinni sem geimsjóræninginn Yondu og ný andlit fara létt með að krydda allt partíið, þar á meðal Pom Klementieff og Sylvester Stallone í gestahlutverki. Kurt Russell kemur líka sterkur inn í hlutverki hins forvitnilega Ego.

Útlitslega og í almennum fíling virkar myndin eins og hasarblað sem hefur verið vakið til lífs. Stíll, hönnun og tæknibrellur eru til fyrirmyndar. Tónlistarvalið leikur líka, eins og síðast, ekki bara svakalegt hlutverk í stemningunni heldur er það gjörsamlega grafið inn í DNA myndarinnar. Gömlu popp­slagararnir eru ekki eins þekktir og þeir sem fylgdu listanum síðast en lögin öll smellpassa við senurnar og gefa þeim fínan púls. Grípandi hápunktum er náð með tónlist frá t.d. Fleetwood Mac, Glen Campbell, Jay and the Americans, Cat Stevens, ELO og fleirum. Mixið er geggjað, vissulega, en annað hefði verið vonbrigði.

„Það eru tvenns konar verur í alheiminum; þessar sem dansa og þær sem gera það ekki,“ mælir hinn óborganlegi Drax á einum tímapunkti. Á marga vegu innsiglar þetta hugarfarið sem Guardians of the Galaxy Vol. 2 er ætlað að smita áhorfandann með. Hún er mynd sem gengur út á það að grínast, tjútta og njóta sín í brellu- og tilraunagleðinni, bara hafa gaman. Ekki flóknara en það. Tjúttaðu bara með.

Besta senan:
Tilfinningarík þögn milli Mantis og Drax.

(upphaflega birt á Vísi þann 4. maí)

Categories: Ævintýramynd, Kryddblöndumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.