Kryddblöndumynd

Guardians of the Galaxy Vol. 2

Þegar Guardians of the Galaxy kom út fyrir þremur árum þótti Marvel-stúdíóið taka mikla áhættu með myndinni, enda könnuðust fáir við hetjurnar fyrirfram og þá var óvíst hvort almenningur myndi tengja sig við súran og ærslafullan tón hennar. Þess vegna sló það marga út af laginu hvað útkoman reyndist vera þrusuvel heppnuð og náði leikstjórinn, sérvitringurinn og atvinnu­nördið James Gunn að stuða heljarinnar ferskleika, gríni og slettu af sál í létta og óvenjulega geim­óperu. Eðlilega er þá staðallinn fyrir framhaldsmyndina nokkuð hár.

Eins og áhorfendur vita margir samanstendur hetjuhópurinn af viðkunnanlega leiðtoganum Peter Quill, hinni stálhörðu Gamoru, stríðskappanum einfalda Drax, byssuóða þvottabirninum Rocket og Groot litla, manngerða trénu sem ætlar sér öllu að drekkja með sakleysi sínu og dúllulegheitum.

Seinast voru þessir vitleysingar miklir einfarar sem komu saman og urðu að náinni liðsheild. Í Guardians of the Galaxy Vol. 2 er reynt á tengsl teymisins með ósögðum tilfinningum og togstreitu, kenndum við hvaða fjölskyldumynstur sem er. Eins og þetta sé ekki nóg glímir Quill núna við tvær ólíkar föðurímyndir sem hann á margt óuppgert við. Það er erfitt að eiga ekki við nokkur vandamál að stríða þegar uppeldisfaðir þinn er villimaður og líffaðir þinn hvergi viðstaddur út æskuna – og lifandi pláneta þar að auki!

Með Guardians of the Galaxy Vol. 2 er tekið meira eða minna allt sem fólk elskaði við fyrri myndina og það fjölfaldað; fleiri brandarar, stærri hasar, aukin krúttlegheit og almennt hærri kvóti af rugli og skrípalegum súrrealisma. Sem betur fer gefur hún samt forvera sínum lítið eftir og er varla dauða mínútu að finna. Heilt yfir má segja að fyrri myndin sé aðeins hnitmiðaðri í frásögninni en það er ýmislegt sem seinni myndin gerir betur. Skúrkurinn er eftirminnilegri, hasarinn flottari, tilfinningakjarninn sterkari og áhersla á persónurnar aðeins meiri.

Í framhaldssögum Marvel hefur venjan oft verið sú að ofhlaða sögur með nýjum persónum og uppstillingum fyrir komandi ævintýri. Gunn gengur prýðilega að forðast þessar gryfjur og reynir að segja í staðinn heldur einfalda og persónulega sögu og einbeitir sér að gildum og gangverkum fjölskyldubanda.

Í handritinu skilur Gunn ekkert eftir til að lesa á milli línanna með samtölunum, heldur eru allar tilfinningar sagðar upphátt eða stafaðar út hjá persónum. Þetta er þó ekki beinlínis galli því yfirdrifni tónninn gengur enn upp og karakterarnir eftirminnilegir og skemmtilegir. Það rignir líka bröndurum í handritinu og ef einn hittir ekki í mark er alltaf stutt í annan sem gerir það áreynslulaust.

Eins og síðast eiga leikararnir kostulega dýnamík, sem í þessari lotu er bara öflugri ef eitthvað er. Allir eru miklu öruggari í hlutverkum sínum. Hver og einn finnur nýjar stillingar á sér (þar á meðal hinir tölvugerðu Rocket og Groot) og dýpkar karakter sinn á einn eða annan hátt. Michael Rooker er á góðri leið með að stela myndinni sem geimsjóræninginn Yondu og ný andlit fara létt með að krydda allt partíið, þar á meðal Pom Klementieff og Sylvester Stallone í gestahlutverki. Kurt Russell kemur líka sterkur inn í hlutverki hins forvitnilega Ego.

Útlitslega og í almennum fíling virkar myndin eins og hasarblað sem hefur verið vakið til lífs. Stíll, hönnun og tæknibrellur eru til fyrirmyndar. Tónlistarvalið leikur líka, eins og síðast, ekki bara svakalegt hlutverk í stemningunni heldur er það gjörsamlega grafið inn í DNA myndarinnar. Gömlu popp­slagararnir eru ekki eins þekktir og þeir sem fylgdu listanum síðast en lögin öll smellpassa við senurnar og gefa þeim fínan púls. Grípandi hápunktum er náð með tónlist frá t.d. Fleetwood Mac, Glen Campbell, Jay and the Americans, Cat Stevens, ELO og fleirum. Mixið er geggjað, vissulega, en annað hefði verið vonbrigði.

„Það eru tvenns konar verur í alheiminum; þessar sem dansa og þær sem gera það ekki,“ mælir hinn óborganlegi Drax á einum tímapunkti. Á marga vegu innsiglar þetta hugarfarið sem Guardians of the Galaxy Vol. 2 er ætlað að smita áhorfandann með. Hún er mynd sem gengur út á það að grínast, tjútta og njóta sín í brellu- og tilraunagleðinni, bara hafa gaman. Ekki flóknara en það. Tjúttaðu bara með.

Besta senan:
Tilfinningarík þögn milli Mantis og Drax.

(upphaflega birt á Vísi þann 4. maí)

Categories: Ævintýramynd, Kryddblöndumynd | Leave a comment

Movie 43

Oft hef ég séð góða leikara rústa mannorði sínu tímabundið í stórum hlutverkum og skítamyndum sem lykta svo illa að mig langar að loka augunum vegna sviða, án þess að mér sé leyft það.

Það er hægt að afsaka allan fjanda, eins og lélegt drama, þreyttan hrylling, latan listagjörning, ömurlega hasarmynd, í rauninni hvað sem er sem gerir ágætan leikara að algjöru fífli út lengd á við heila mynd. Einhvern veginn finnst mér alltaf erfiðast fyrir fólk með alvöru hæfileika að hrista af sér skömmina þegar það tekur þátt í viðbjóðslega misheppnuðu gríni, því þá eru allir viljandi að gera sig að fíflum – óafvitandi hversu pínlegir þeir eru – og verra er að mér sem áhorfanda á að finnast þetta ofboðslega fyndið. Mannvonskan er of mikil til að mér finnist þessi ómeðvitaða masókistahegðun eitthvað hlægileg.

Kannski er ég bara of „nojaður“ en fjarstæðukennda kenning mín er sú að Movie 43 gerir sér fulla grein fyrir því hversu vond hún er, og refsar hún þ.a.l. öllum sem koma nálægt henni, forvitninnar vegna. Ímyndið ykkur hnefafylli af myndum sem minna ykkur á það af hverju þið elskið kvikmyndir sem listform, snúið þessari tilfinningu við og þá breytist lokavarann í kvalarfullan hrekk, og áhorfendur eru gerðir að stærsta og mest móðgandi brandaranum. Allir sem telja sig vera með ágætan húmor geta átt von á misþyrmingu sem endar á opnu sári, og það grær ekki fyrr en (segjum) árið 2021.

movie43_0005

Það er staðreyndarvilla að kalla þetta bíómynd, en hvað sem á kalla þetta (segjum fávitapróf) þá tekst Movie 43 að skíta á hverja einustu ferilskrá hjá öllum sem að henni komu, réttlætanlega. Lyktin mun aldrei hverfa því efniviðurinn er óásættanlega slæmur og í ljósi þess að hálft Hollywood tók þátt í þessu rusli verður fallið mun epískara. Sumt af þessu rugli sem stjörnurnar hafa blekkt sig út í er eitthvað sem leiklistaskólar og kvikmyndafræðingar ættu að velta fyrir sér næstu árin. Ég hef séð þær margar hræðilegar á minni ævi, en sjaldan lent á eins einkennilegu klúðri og þessu.

Til að ná áttum, sortera úr hausverknum og spara margar blaðsíður af skoðunum sem leka út úr heila sem hefur orðið fyrir ljótri árás, þá er langsniðugast að brjóta upp Movie 43 og hlaupa í gegnum öll brotin sem hún fremur – í réttri tímaröð.

Hér eru 43 pínlegar staðreyndir um myndina og lykilástæður af hverju hún á lítið erindi inn í siðmenningu:
(og já, ég mun feitletra ástæðurnar sem ég held að tengist því beint að myndin er einkabrandari frá sjálfum Satan)

1. Lítum á tölurnar; ekki nema 6 milljón dollara kostnaður, 10-14 tengingarlausir sketsar, 13 bjartsýnir leikstjórar, 19 áttavilltir handritshöfundar og leikarahlaðborð sem undarlega nær að fjórða tug, og verra er að flestir líta út fyrir að lifa sig inn í grínið! Allt þetta mannafl er það sem þurfti til að búa til ein stærstu skammarverðlaun síðustu ára. Flestir leikarar eiga að meðaltali svona fimm mínútna skjátíma og á slíkum tíma eru sumir meira niðurlægðir heldur en nokkurn tímann væri hægt í stakri mynd í fullri lengd.

2. Myndin er 98 mínútur. Ábyggilega hlægileg í eina og hálfa.

3. Ef Kentucky Fried Movie og verstu atriðin úr SNL myndu eignast barn…

4. Framleiðsluna mætti líkja við klesst og tætt púsluspil. Aðstandendur hringdu í eitthvað af sínum frægustu vinum og öll myndin var tekin upp yfir margra ára tímabil. Ef leikarar voru til í þetta en ekki lausir strax, var beðið eftir þeim.

5. Það segir yfirleitt of mikið þegar enginn áhugi fer í það að finna góðan titil, eða titil sem eitthvað vit er í.

6. Aldrei verður myndin svo hræðileg að hún byrjar að vera skemmtileg. AL-DREI.

7. Enginn skilningur er á öðru en yfirborðskenndu gríni. Þess vegna er myndin rasísk, barnaleg, ógeðsleg og kvenfyrirlitningin er nánast eins og heill metnaður út af fyrir sig.

8. Kannski hefði verið hægt að gera gott úr sumu efninu þarna, en ekki þegar kvikmyndagerðamennirnir eru apar.

9. Farrelly-bræðurnir eru nógu andskoti mistækir þegar þeir eru saman. Annar þeirra, Peter, er einn helsti aðstandandi þessarar myndar og ef ég þyrfti að giska þá er hann „ófyndni“ bróðirinn.

10. Í fyrstu atriðunum er óbeint varað áhorfendum við að það sem koma verði vægast sagt hroðalegt. Eitthvað er minnst á að maður eigi eftir að skíta út innyflum sínum, blæðandi úr augunum og finna sig knúinn til að slíta af sér tittlinginn eftirá. Ekki bjóst ég við því að myndin myndi best gagnrýna sig sjálfa… áður en hún reynir að þvinga þig til að klára restina af setunni.

11. Mér skilst að til séu tvær ólíkar útgáfur af myndinni og muninn er aðallega að finna á milli sketsana (kallast framing device), en atriðin á milli eru næstum því verri en allt sem á síðan að vera „fyndið.“ Næstum því.

12. Útgáfan sem ég sá fjallaði um nokkra óþolandi unglinga sem pína sig í gegnum hvert djókið á eftir öðru sem þeir horfa á í tölvunni sinni (og við fáum að njóta gleðinnar með þeim). Í hinni útgáfunni eru víst Dennis Quaid, Greg Kinnear, Common og Seth McFarlane eitthvað að flippa. Skal veðja heilum fimmara að það sé örugglega skárri útgáfan.

13. Myndin heldur að hún sé að gera eitthvað nýtt, en hún er bara löt. Hver einasti skets byggist undantekningalaust í kringum aðeins einn brandara (s.s. eitt „punchline“), og atriðin ganga öll út á það að blóðmjólka þann brandara með eins refsandi hætti og hægt er.

14. Í fyrsta sketsinum eru Kate Winslet og Hugh Jackman á stefnumóti. Ekkert óeðlilegt við það fyrir utan lafandi punginn á hálsinum hans. Þetta er brosleg tilhugsun í svona 30 góðar sekúndur. Svo heldur þetta áfram. Og áfram.

15. Þessi pungbrandari hefði ekki einu sinni flogið fyrir áratugi síðan.

16. Jackman var fyrsti leikarinn til þess að vera ráðinn, Winslet kom beint eftir. Þeirra atriði var það fyrsta sem var tekið upp. Síðan var það klippt saman og sýnt öðrum leikurum til að reyna að sannfæra þá um að vera með í restinni.

17. Ég held að leikarar hafi annaðhvort hugsað eitt af þrennu þegar þeir sáu fyrsta sketsinn:

a) „Djöfull er Jackman djarfur! Ég vil vera með.“
b) „Fjölskylda mín er í gíslingu, ég verð víst að vera með.“
c) „Vá hvað ég er með lélegan húmor.“

Er þetta þá allt Hugh að kenna??

18. George Clooney leit víst á handritið og misbauð það sem hann sá. Ef það er einhver duglegur að halda sig frá sorpmyndum undanfarið þá er það Goggi.

19. Eins og á við um alla þá reyna Naomi Watts og Liev Schreiber of mikið, en þeirra til varnar er búturinn þeirra – sem er annar sketsinn í myndinni – ekkert svo hörmulegur. Reyndar sá næstskásti.

20. Watts og Schreiber eru gift í alvörunni. Það er eina ástæðan fyrir því að mér finnst eitthvað örlítið fyndið við þeirra hlut.

21. Anna Faris leikur unga konu sem dreymir um það að kærasti hennar kúki á sig. Hann ákveður þ.a.l. að dæla í sig mexíkóskum mat og hægðarlyfjum. Drulluslappt. Í alvörunni.

22. Faris og Chris Pratt (sem leikur kærasta hennar) eru par í raun. Af hverju er þá ekki atriðið þeirra fyndnara??

23. Þegar heimsendir kemur hef ég áhyggjur af því að það verði ekki til nægur matur handa nánustu, en ég hef sterkan grun um að alltaf verði einhvers staðar til eintök af þessari mynd úti í heimi.

24. Emma Stone og Kieran Culkin eru betri en þetta. Álit mitt á báðum aðilum lækkaði umtalsvert. Hroðalegur bútur.

25. Því lengur sem horft er á myndina, því meira fer hún að minna á hina eitruðu Extreme Movie, sem var verri.

26. Trey Parker og Matt Stone komu að þessari mynd í einhvern smátíma, en bökkuðu síðan út áður en þeir fengu að taka upp atriðið sitt. Fúlt?

27. Richard Gere er greinilega sá eini sem lítur út fyrir að skammast sín. Gott hjá honum, en fyrir að þiggja vinnuna er hann meðsekur.

28. Varla hefur sést meiri vanhelgun á DC-fígúrum en þegar Jason Sudeikis, Leslie Bibb, Justin Long og Uma Thurman koma á skjáinn.

29.  Stutt auglýsing um börn sem föst eru inn í hraðbanka hefði getað orðið fyndnari, en eins og stendur er þetta langbesta atriðið sem er í boði.

30. Chloe Grace-Moretz sést byrja á blæðingum. Elizabeth Banks leikstýrði þessum djóki. Ögh.

31. Hversu furðulegt er það að þetta er ekki eina 2013-myndin þar sem Chloe byrjar á túr í fyrsta sinn?? Hefði haldið að það væri svona „one shot“ dæmi. Greinilega eru sumar að fullorðnast.

32. Movie 43 er ekki rétta myndin til að „fullorðnast“ í.

33. Beint eftir blæðingarlápunktinn kemur feik túrtappaauglýsing. Mátti reyna en átti aldrei séns.

34. Af einhverjum ástæðum ákvað Brett Ratner að leikstýra kafla þar sem Johnny Knoxville og Seann William Scott (einmitt þegar ég hélt að allir þoldu ekki Dukes of Hazzard) eiga samskipti við búálf. Gerard Butler leikur búálfinn. Þetta er ekki eins súrt og það hljómar, bara flatt – eins og flest frá Ratner.

35. Brett Ratner má éta grýtuskitu. En bara ef hann kafnar.

36. Lýsingin að ofan á einnig við um leikstjóra að nafni Steven Brill. Hann gerði til dæmis Little Nicky, Mr. Deeds og leiðinlegu unglingapartana í þessari mynd.

37. Einu sinni hefði verið viðeigandi að spyrja hvað Butler væri að gera í dvergastærð, en oftast veit maður ekkert hvað hann er að hugsa hvort eð er. The Bounty Hunter og Playing for Keeps sáu um það.

38. Colin Farrell átti að leika bróður Butlers. Hann hætti við fyrir tökur. Heppinn.

39. Stephen Merchant (sem ég leit alltaf nokkuð hátt til) og Halle Berry (nýkomin aftur á gott ról frá og með Cloud Atlas) eiga í sameiningu einhvern feilaðasta brandara sem mun nokkurn tímann sjást á öllu þessu ári og næsta. Útlit þeirra í lokin er eitthvað sem mun ásækja martraðir barna minna.

40. Það er smá séns á því að Terrence Howard sé kynþætti sínum til skammar. Þar fóru öll stigin sem hann fékk eftir Crash.

41. Josh Duhamel.

42. Þegar lokatextinn byrjar í svona mynd þá er loksins komin ástæða til þess að brosa, en ekki þegar leynist heill aukaskets, sem hefst löngu eftir að myndin ætti að vera búin. Kemur þá ekki leikstjórinn James Gunn með atriði upp úr þurru og minnir enn eitt skiptið á það hvað hann getur verið með sjúkan og leiðinlegan húmor. Þarf ég í alvörunni að hafa núna enn meiri áhyggjur af Guardians of the Galaxy??

43. Elizabeth Banks kemur verst út úr allri myndinni að mínu mati, en bara því hún bæði leikur og leikstýrir.

Hvort sem mér líkar það betur eða verr er þetta ógleymanleg og stórmerkileg mynd. Saklaust grín er eitt, miskunnarlaust mongó-grín er eitthvað sem snertir viðkvæmar taugar. Að leggja í þetta gláp er á ábyrgð lesandans, því Movie 43 er svo sögulega stórt ógeð að hana ætti helst að líta á sem áskorun í stórum vinahópi, til að sjá hver nær að gretta sig sjaldnast. Annars þarf svosem ekki að bragða á hlandinu til að vita það að ekki er góð hugmynd að testa það. Og þeir sem óvart enda á því að hlæja af sér sitjandann kaldhæðnislaust þurfa að láta tékka á sér vitlausa beinið, kannski jafnvel fjarlægja það. Það jákvæðasta sem kom út úr áhorfinu var að mig langaði til að horfa á allar mínar uppáhaldsmyndir aftur, og faðma þeim að mér fastar en áður.

tveir

PS. Julianne Moore og Tony Shaloub fengu þann heiður að vera klippt út úr myndinni. Þau sluppu of auðveldlega (og hversu slæmar ætli þeirra senur hafi þá verið??).

 

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), Kryddblöndumynd, Sori | Leave a comment

The Great Gatsby (2013)

Baz Luhrmann er kannski aðeins of upptekinn af sýndarmennsku fyrir suma, með sínar yfirgnæfandi dramaskreytingar og æpandi áhuga á því að taka eitthvað gamaldags og gera eitthvað nútímalegra við það. Hann er allavega í réttu fagi, með réttu eyrun. Í minni bók er erfitt að segja eitthvað annað en ofsalega jákvætt um mann sem er giftur flinkum búninga- og leikmyndahönnuði og hefur eingöngu gert tvær myndir í fullri lengd á hverjum áratugi sem hann hefur unnið, og hver þeirra er veisla á sinn hátt.

Eftir að hafa komið með mjög sérstakan snúning á Rómeó og Júlíu fyrir heilum 17 árum síðan stekkur leikstjórinn á eina virtustu amerísku skáldsögu allra tíma sem, nota bene, nálgast fljótlega 100 ára afmæli sitt, og á enn öll sín jákvæðustu lýsingarorð skilið. Að kvikmynda bókina er samt gríðarlega erfitt djobb án þess að strípa niður eitthvað af því sem gerir hana klassíska. Skilaboðin eru tímalaus, en The Great Gatsby, eins og Luhrmann hefur dressað söguna upp, er aðeins meira krem heldur en kaka, en merkilega góð er hún samt. Ábótavant, en lífleg, öðruvísi og glitrandi flott aðlögun.

Það skiptir varla miklu máli hversu oft einhver ætlar að kvikmynda þessa sögu, því það er alltaf þess virði að segja hana aftur og reyna að ná henni betur, enda margir sem túlka hana ólíkt. F. Scott Fitzgerald var sjálfur mikill módernisti og er það ágætis leið til að réttlæta nýju stílíseringuna, bæði hjá framsetningunni og músíkinni. Leikstjórinn gengur samt mörg skref lengra og tjaldar öllu til, svo það sé alveg öruggt að augun verði límd við skjáinn allan tímann.

Baz nýtir reynsluna sína (áhrif úr öllum fyrri myndum hans eru sko vel áberandi) og hrúgar alls konar bíótöfrum og músík-vídeó einkennum í eitt snobbað djass- og popphlaðborð, ef svo má kalla það. Eins mikið og maður býst við því fyrirfram þá er svakalegt hvað skreyting þessa manns er metnaðarfull, lokkandi og rík. Sviðsmyndir, búningar, listræn hönnun, kvikmyndataka og klipping er alveg efni í Óskarsverðlaun. Myndin lítur auðvitað stórglæsilega út, fyrir utan kannski nokkra bakgrunni sem augljóslega voru settir inn eftirá. Það er að vísu meira áberandi í 2D útgáfunni.

Miðað við 140 mínútna sýningartíma er hreint klikkað hversu traust flæðið er. Þetta er ekki alveg sama ofvirka árshátíðin fyrir augu- og eyru og Moulin Rouge! (remix-rússíbaninn sem ég skammast mín ekkert fyrir að halda mikið upp á) en ekkert hrikalega langt frá því í fyrri hlutanum, áður en hlutirnir róast aðeins niður, eðlilega. Leikstjórinn er núna aftur dottinn í þann djarfa pakka að troða nútímatónlist í hundgamla períódu. Lögin eru missterk, en mér fannst þau smellpassa; gömul, ný eða endurflutt, frá átótjúnuðu hipp-hoppi til R&B, Rhapsody in Blue og alls þar á milli! Luhrmann stenst ómögulega þá freistingu að detta í sinn glamúraða gír þegar partíhöldin byrja í Gatsby-sögunni. Ég kvarta samt ekki, ég datt svo mikið inn í þetta. Kann þessi maður að halda partí eða hvað??

Hingað til hefur þekktasta Gatbsy-aðlögunin verið sú sem var gerð árið ’74 með Robert Redford í hlutverkinu góða. Hún var fín en eilítið flöt og átti varla séns í að vera nefnd í sömu setningu og skáldsagan hvað alla dýptina varðar. Nýja myndin er í betri málum þar, án þess að ég kalli hana eitthvað djúpa, og nær betri tökum á t.d. voninni (eða þráhyggjunni, fer eftir hvernig litið er á það), tíðarandanum og sérstaklega þemunum, sem eru unnendum bókarinnar mjög mikilvægar. Hún tekur alveg hæðir og lægðir ameríska draumsins í gegn með réttum hætti en takmörkuðum. Efnishyggjan, idealisminn, stéttamismunurinn, tilfinningaflækjurnar og valdasýkin skín beint í gegn, eins og hún á að gera. Puntið og flugeldasýningin þvælist stöku sinnum fyrir sögunni en andrúmsloftið allavega mótar upplifunina með því að gera stílinn að innihaldinu.

Þessi mynd sýnir upprunalega textanum mikla virðingu en finnur einnig leiðir til að gera uppsetninguna heillandi fyrir nútímaáhorfendur. Maður spyr sig samt hvort hún sé kannski ekki aðeins of háð skrifum Fitzgeralds. Luhrmann heldur í það minnsta hugrekkinu áfram, á röngum stað, með afar þungri voice over-notkun og þvingaðri textaáherslu. Óneitanlega er þetta í takt við lúkkið og flæðið, en stundum koma orðin upp á stöðum þar sem óþarfi er að stafa allt út. Tilfinningalega séð er myndin heldur aum og þess vegna verður hún lítið meira en aðdáunarverð þegar hún á að vera áhrifarík í alvarleikanum, fyrir utan fáein stór atriði sem eru ekki músík- eða veislutengd, en það er þá oftast vegna þess að leikararnir eru með allan huga að því sem þeir gera. Enginn leikari með sjálfsvirðingu þiggur hlutverk í svona umfangsmikilli Great Gatsby-mynd án þess að leggja sig eitthvað fram, og djöfull er ég að meta leikstílinn og hvernig hann er í takt við tímann sinn.

Redford var mjög fínn en einhæfur sem hinn einstaki, dularfulli Jay Gatsby og Leo DiCaprio (í enn einni leit að Óskarsstyttu sem hann á að vera löngu búinn að fá!) sigrar hann um leið og hann fær sína mögnuðu innkomu (með flugeldum!), og í kjölfarið tileinkar sér þetta skemmtilega og flókna titilhlutverk. Rullan fer honum ekkert verr heldur en bleiku jakkafötin. Sjarmanum nær hann hiklaust með drengjalega andliti sínu en hittir líka á hárréttu nóturnar þegar karakterinn sýnir aðeins skuggalegri hliðar – eitthvað sem kom aldrei til greina hjá Redford. Einu skiptin þar sem ég var ekki alveg að kaupa Leo var þegar karakterinn var byrjaður að ofnota þekkta orðatiltæki sitt, sem hann nær ekki alltaf að „púlla“. Kemistrían hans við Carey Mulligan er annars vegar dásamleg, eins og leikkonan er nú vanalega sjálf.

Það tók mig reyndar líka smátíma að venjast Tobey Maguire. Hann er fínn leikari, frábær í vissum senum, en frekar þurr sögumaður. Örugglega hefði einhver annar passað betur í þetta en persóna hans, Nick Carraway, er reyndar líka frekar gölluð í handritinu. Carraway les yfir hálfa myndina, þar sem sagan sögð frá hans sjónarhorni, en samt hverfur hann alltaf meira og meira inn í bakgrunninn sem þriðja hjólið. Sagt var alltaf að Carraway hafi verið nokkurs konar alter-egó Fitzgeralds, og ég fíla hvernig myndin herðir á þessari tengingu með því að láta Carraway skrifa frásögn sína upp. Restin af leikaraliðinu er frekar einhliða í karakterprófílum en enginn er auðgleymdur. Joel Edgerton, Elizabeth Debicki (*slef*), Jason Clarke og Isla Fisher eru t.a.m. fjörug og skemmtileg og hefði eflaust enginn hatað það að sjá aðeins meira gert við þau, helst þessi tvö fyrst nefndu.

Bókin er annars kvikmynduð með slíkum stæl og fögnuði að Luhrmann ætti að hafa tryggt það að enginn kvikmyndaleikstjóri muni snerta hana í komandi framtíð. Mest langar myndina til að vera stærsta, mest „cinematic“ útgáfan af sögunni – og það er hún, og verður. Listræna frelsið sem handritið tekur með völdum breytingum er sömuleiðis meira betrumbætandi heldur en skaðandi að mínu mati, og extra kostur liggur í öllum sjónrænu tilvísunum í Redford-myndina. Best skal auðvitað drekka þessa sögu í sig á blaði, en síðan sakar ekki að hafa aðgang að nýju myndinni ef planið er að upplifa hana eins og kvikmyndað konfekt. Eins ófullkomin og hún er, þá lifði ég mig pínu inn í hana.

thessi

Besta senan:
Á hótelinu. Fitzgerald hefði verið hrifinn.

Categories: Drama, Kryddblöndumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.