(mynd sem varla er hægt að flokka)

Eden

Eden er það næsta sem hefur komist því að vera finna arftaka Blossa.

Þetta er (vissulega) meint sem blússandi hrós, þrátt fyrir það að síðarnefnd næntís-dópmynd hafi ekki beinlínis verið snilldarstroka í kvikmyndagerð; þvert á móti hlægileg, þvæld, kjánaleg en á móti stútfull af orku, viðeigandi attitúdi, góðri tónlist og léttum væb sem íslenskar kvikmyndir leyfa sér sjaldan að prófa – þrátt fyrir það ógrynni af dóp-og/undirheimamyndum sem við höfum af okkur getið.

Íslensku krimmamyndirnar hafa auðvitað tekið sig misalvarlega og tæklað mál um fíkniefni eða neytendur slíkra í bobba á ólíkan máta. Hins vegar hefur verið gríðarlegt gegnumgangandi þrot hvað beitingu myndmáls eða sköpun andrúmslofts. Kvikmyndagerðarmaðurinn Snævar Sölvi Sölvason (hinn sami og gerði hina hræódýru Albatross og enn minna séðu Slay Masters) er upprennandi á indisvíðinu, en strax með einni uppgötvun á grunnstiginu er Eden komin fram úr flestum sambærilega subbulegum myndum; og sú uppgötvun snýr að litameðvitund – og jafnvel þó Eden væri rusl á öllum öðrum frontum – þá verður það aldrei tekið frá henni að hún er, sjónrænt séð, ótrúlega lifandi – ælandi og blæðandi litaskiptingum og pallettum eins og enginn sé morgundagur.

Seinast þegar mynd um neyslu náði svona vel að púlla “undir áhrifum” viðbótina með stílnum var trúlega XL frá Marteini Þórssyni, bara hér er það stílhreinna og kannski með meira pönki.

Myndin lítur vel út en græðir líka ýmislegt á einfaldri narratífu – og þarna má fara frjálslega með orðið narratífa – og fókus sem liggur allan tímann á skjáparinu, þeirra sambandi, hamagangi og hvernig gangverk þeirra magnast upp í aðstæðum. Ég get heldur ekki annað en gefið ákveðið hrós til kvikmyndar sem finnur leiðir til þess að gera Fuglastríðið í Lumbraskógi að ómissandi þemaþræði myndarinnar.

En hér segir frá parinu Ólafíu og Óliver sem lenda í kröppum dansi við ranga aðila á réttri stundu. Þá eru þau Hansel Eagle (rólegur…) og Telma Huld Jóhannesdóttir alveg frontuð og sækir leikstjórinn meira í “elskendur á flótta” undirgeirann frekar en eitthvað sveitta skilaboðasögu. Það er aðeins um víxlaða kynjadýnamík í framvindunni og samkvæmt eldri hefðum væri karlmaðurinn orkuboltinn, drífandinn og naglinn á meðan konan bara barbídúkkan í farþegasætinu (sorrí, Blossi) – þessu er snúið við og verður oft til skemmtilegur straumur á milli parsins.

Hansel stendur sig þokkalega sem nýaldarhippinn sem vill bara halda friðnum, en Telma annars vegar flytur myndina á allt annað level; hörð, framsækin, springandi af persónuleika og orku – og leikkonan selur rullu sem hefði alveg getað hrunið á andlitið með rangri tæklun. Ekki er það síst í ljósi þess að Snævar bindur sig ekki við neinn læstan tón og flakkar hann frjálslega úr flippi í alvarleika og jafnvel draumkenndan absúrdleika (komum að því) með áreynslulausum sveiflum, þó ýmsir aukaleikarar mættu alveg vera sterkari, en sleppa.

En aftur að parinu, þá skortir honum… Hansel þetta náttúrulega ó-pósandi karisma sem geislar svo áreynslulaust hér af henni Telmu, enda gædd meiri karakter og smáatriðum, þannig séð. En saman mynda þau gott and-dúó og krútta þau nægilega oft yfir sig til að manni sé ekki of drull um hvernig fyrir þeim fer. Snævar fordæmir heldur aldrei persónur sínar eða lítur bersýnilega niður til þeirra í handritinu fyrir að krauma sér jónur eða taka inn hvað annað í kammó samræðum. Það fylgir þessu líka ákveðinn ferskleiki þegar hugað er svona sterkt að því að leyfa myndinni að njóta hversdagsmómentana á milli alls trippsins sem á milli kemur.

Samtölin eru stundum eins og beint upp úr myndastrípu og það steikir raunverulega á manni hausinn hvað Arnar Jónsson er fyndinn sem óstereótýpískur krimmaforingi. Þá komum við að hinu enn furðulegra, eða eins og einhverjir munu eflaust segja: “virkilega fokkt-opp kaflanum”. Án þess að segja of mikið má tengja hið yfirnáttúrulega við söguna og allegóríum sem stafa það út að titilinn sé meira en bara skraut og tilviljun.

Hvort metafórurnar og aukni absúrdisminn gangi almennilega upp er erfitt að segja, en hann gefur myndinni visst krydd sem bætist bara við þá dramakómedíuklípusúpu sem hún er fyrir – þannig að það er ekki beinlínis úr takt þó áhrifin skili merkilega litlu. Almennt séð á tilfinningaleveli hefur þessi mynd ekki afar margt af gefa frá sér, þó hún reyni það vissulega. En eins og áður nefndi eru það einhverjir óséðir töfrar sem sumir leikararnir gæða því sem hefur á pappírnum verið.

Að öllum samanburði við Blossa slepptum, er Eden einfaldlega bara rokkandi fín lítil klakamynd; unnin á hnefanum, en brött, hressilega ýkt, sóðalega skemmtileg á köflum og rúllar á sterkum performans frá svakalega efnilegri leikkonu. Hún er mynd sem á örugglega eftir að lifa góðu költ-lífi á klakanum á ókomnum árum (sérstaklega í ljósi þess einnig að hún er JÓLAmynd!) og ljóst er einnig að Snævar Sölvi er ekki fastur innan ramma einhvers eins geira þar sem tök hans á fjölbreytni hafa tekið sýnilegan (lita)kipp. Í heildina yfir, fínasta tripp.

Ábyggilega sexí sexa á góðum degi en þrumandi sjöa undir áhrifum.

Besta senan:
Arnar og Litla hafmeyjan.

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka), Gaman(með drama-)mynd, Spennumynd | Leave a comment

Austur

Hér er hún, fyrsta íslenska „bíómyndin“ sem kalla má pyntingarklám (fyrst ekkert annað kemur til greina), nema með óvæntu tvisti þar sem hún snýr sér að áhorfandanum og sér til þess að hann verði miskunnarlaust fyrir almestu pyntingunni. Þetta gerir hún ekki með ofbeldi, heldur hreinu, ógeðfelldu stefnuleysi og glataðri, bókstaflega fókuslausri úrvinnslu.

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa.

9457466_1280x720

Austur er lauslega innblásin af hinu svokallaða Stokkseyrarmáli þegar manni var rænt og honum pyntað í sumarbústað. Atburðarásin er nákvæmlega ekkert flóknari en einmitt sú setning, og þ.a.l. gerist ekki rass í allri myndinni. Gæja er rænt af einhliða „þöggum“, þeir keyra með hann út á land, og þegar áfangastaðnum er náð pína þeir hann ítrekað… úr ramma. Punktur!

Á góðum degi mætti rúlla upp þessu innihaldi í korters-langa stuttmynd, og illa gerða að auki. Myndin er drekkhlaðin löngum, díalóg-lausum uppfyllingum, sem samanstanda af öllu frá endalausum bílasenum eða skotum af Ólafi Darra að keðjureykja eða éta snakk. Það hefði verið hægt að spila aðeins með sækólógíuna og sambönd einstaklinganna á skjánum, en slíkt er bara aldrei til umræðu.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Engin spenna, engin skilaboð, ekkert sjokk, minni tilgangur. Fórnarlambinu fáum við aldrei að kynnast af viti, baksagan er öll týnd og gleymist alveg sjónarhorn þess eftir einhverjar tuttugu mínútur. Allar aðrar tilraunir til „persónusköpunnar“ eru vanhugsaðar og ódýrar. Sá eini sem er eitthvað líklegur til að sleppa úr þessu óskaddaður er auðvitað Ólafur Darri (nota bene, nýbúinn að deila skjánum með McConaughey, Harrelson, Stiller og Neeson!), bara því hann er sá eini þarna með einhverja reynslu og getu til að skila góðu úr engu.

870ae77d2c2310133b4fc937959c42d92b5bb4e6

Það hefði jafnvel verið sniðugt að gera karakter Ólafs einhvern veginn að þungamiðju sögunnar ef áhugi hefði verið fyrir öðru en bara að rétt skima yfir hans merkilega prófíl sem góðhjartaður (?) pedófíll.

Mikilvægt er að taka það fram að handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson skrifaði m.a. svellkalda saurinn Frost fyrir fáeinum árum, og eiga þær Austur (sem er leikstjórafrumraun hans) einmitt það sameiginlegt að geta ómögulega borið frásögn í fullri – eða svo mikið sem hálfri – lengd. Kannski vildi Jón Atli keyra myndina alla á sniglahægu tensjóni, myndrænni frásögn, hráum realisma og andrúmslofti, en öll svoleiðis mótíf skolast burt þegar annað hver rammi dettur úr fókus og hver sena á eftir annarri meira ósannfærandi.

Monday_night_football_-_sensory_deprivator_1

Hljóðvinnslan er í algeru rugli. Samræður bergmála oft, en þær missa hvort eð er missa flestar marks – eins sparsamlegar og þær eru. Menn rífa aðallega bara kjaft þegar þeir eru ekki að setja upp harðan svip, fikta í kveikjara og tala um allt sem þeir ætla að gera í stað þess að gefa okkur einhverja innsýn í hvað þeir eru að gera og hvernig áhrif það hefur eða hefur ekki á þá. Ef einhvern tímann verður litið yfir flóru íslenskra drasl-indímynda þá má aldrei sú sena gleymast þar sem manni er skipað fullum hálsi að skafa af happaþrennu, eða atriðið þar sem einn fanturinn lofar dóttur sinni að fara með hana í Smáralindina.

Þegar fréttist út að hópur fólks hafið gengið út úr miðri aðstandenda- og fjölmiðlasýningu greip leikstjórinn víst til þeirra orða að sumir áhorfendur höfðu einfaldlega bara ekki magann í þetta undirheimainnlit sem hann kvikmyndaði (kjaftæði…), enda virðist myndin bera „Stranglega bönnuð innan 16 ára“ merki sitt eins og heiðursstimpil og spáir ekkert í vörusvikunum.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Merkilega lítið er um ofbeldi í Austur (mest bara fáeinar blóðslettur), alveg eins og það er lítið sem líkist súbstans almennt. Förðunin sleppur svosem en þetta er allt bara þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess. Aðeins tvisvar sinnum á ævi minni hef ég gengið út af bíói og Austur freistaði mín svo, svo mikið. Ég hefði átt að beila og vita betur, en á endanum gat ég bara ekki leyft þessum viðbjóði að sigra mig.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

 

Einn Bósi Ljósár af tíu…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), aww..., ekkert, Grín, Sori | Leave a comment

Where the Wild Things Are

Það er ómögulegt að taka 300 orða (ekki blaðsíðna, ORÐA…) barnabók og búa til 90 mínútna kvikmynd án þess að tuska hráefninu til, t.d. bæta við aukaplottum, breikka úr smáköflum, alls konar! En líður mér eins og Spike Jonze hafi bara lítið sem ekkert pælt í öllu svoleiðis og reyndi að vera eins trúr bókinni hans Maurice Sendak og hann gat. Sú niðurstaða virðist vera frábær og nett sérstök stuttmynd, en því miður dregin á langinn um heilan auka klukkutíma.

Ef orðið „meandering“ á einhvern tímann vel við kvikmynd, þá set ég það á þessa. Hún byrjar á hárréttu nótunum en síðan kemur út eins og öll þróun staðni í stað um leið og aðalkarakterinn Max fer og hittir þunglyndu og ekkert-svo-rosalega villtu skepnurnar. Þá verður myndin ekki aðeins einhæf, heldur viðburðarlítil, drollandi og inn á milli álíka skemmtileg eða hugljúf og hárköggull í auganu. Annaðhvort sjáum við Max og nýju vini hans vera að leika sér, rífast eða veltast úr depurð.

Ég endurtek: Þau leika sér… eða rífast… eða drekkja sorgum sínum með meiri sorgum. Án gríns, ekkert breytist eftir það og þannig heldur sagan áfram. Ég kann yfirleitt að meta það þegar einfaldleiki er rétt nýttur en þetta rúllar alveg fram af. Það er mjög takmörkuð framvinda, lítil sem engin persónuþróun, og, það sem verra er, hvorki söguþráður né kætandi andi til að halda athygli manns. Þemun og undirtónar eru eflaust eitthvað þarna í þessu sem fylgir þroskasögu Max, en til þess að maður eigi að nenna að stúdera þær þarf eitthvað annað til að grípa utan um líka. Kannski þarf ekkert endilega að kvikmynda allar barnabækur á jarðríki. Hefur einhver spáð í því?

Jonze reynir að láta okkur vera annt um persónurnar eða í það minnsta búa til spegilmyndir í gegnum þær sem allar tengjast Max á einhvern máta, og ég er viss um að þeir sem ólust upp við bókina eru þeir líklegustu til að finna fyrir léttu táraflóði, en það gerðist alls ekki í mínu tilfelli. Það sem frekar hélt takmarkaða áhuga mínum var útlitið, stíllinn og segjum fáeinir góðir brandarar. Ég er jafnvel hissa yfir því að geta ekki sagt neitt almennilega jákvætt um þá frábæru leikara sem lána raddir sínar því karakterarnir voru flestir svo hryllilega óþolandi, en enginn þeirra var eins slæmur og strákormurinn Max, þó það sé vissulega tilgangurinn í þroskasögunni Ég fatta þó ekki hvað Jonze sá svona fallegt við tónlistina sem hann notar. Hún setti eiginlega bara ennþá leiðinlegri svip á myndina. Sofia Coppola hlýtur að elska hana.


(Svo… mikið… ekkert!)

Jonze hefur lengi verið ráðgáta sem ég hef fílað meira heldur en ekki. Being John Malkovich var stórkostlega júník frumraun en Adaptation er nálægt því að vera hans ótoppandi meistaraverk. Í þriðju tilraun kemur síðan allt annar kvikmyndagerðarmaður (vonandi hefur það ekki endanleg áhrif á hans feril að slíta sig frá Charlie Kaufman). Hugsunin að taka barnabók og gera fullorðinslega barnamynd handa þeim eldri er athyglisverð þangað til orðafjöldinn í bókinni kemur aftur upp í minnið.

Það er spurning hvort Where the Wild Things Are sé nokkuð kjörin barnamynd, en ég held samt ekki, því einhvern veginn finnst mér hún vera of súr og óþægileg fyrir börn, og stundum jafnvel of áköf í tón (eins og t.d. þegar nokkur skepna að nafni Carol (halló James Gandolfini) tekur sín reiðiköst, eða þegar skepnurnar rétt svo kaffærðu Max í einni stórri hundahrúgu). En er hún þá fyrir fullorðna? Erfitt að segja.

Hún er svo þunn, sjarmalaus, tilgerðarlega teygð og niðurdrepandi. Einu hóparnir sem ég get ímyndað mér að eigi eftir að fíla hana eru þeir sem elska teygðar art-myndir og þeir sem lásu bókina í æsku eða fyrir fimm mínútum. Það er samt spurning hvort Jonze sé ekki bara til í að búa til sérstaka Director’s Cut-útgáfu sem væri þá ekki nema 30-40 mínútur í heild sinni. Þá yrði hún miklu betri og eflaust talsvert flottari aðlögun á bókinni.

Ég er heldur ekki að sjá það hvernig myndin gat kostað $100 milljónir. Í hvað fór þessi peningur?

fjarki

Besta senan:
Let the Wild Rumpus start!

… þó ég viti ekki alveg af hverju.


(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 19.11.2009)

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka) | Leave a comment

Powered by WordPress.com.