(mynd sem varla er hægt að flokka)

Austur

Hér er hún, fyrsta íslenska „bíómyndin“ sem kalla má pyntingarklám (fyrst ekkert annað kemur til greina), nema með óvæntu tvisti þar sem hún snýr sér að áhorfandanum og sér til þess að hann verði miskunnarlaust fyrir almestu pyntingunni. Þetta gerir hún ekki með ofbeldi, heldur hreinu, ógeðfelldu stefnuleysi og glataðri, bókstaflega fókuslausri úrvinnslu.

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa.

9457466_1280x720

Austur er lauslega innblásin af hinu svokallaða Stokkseyrarmáli þegar manni var rænt og honum pyntað í sumarbústað. Atburðarásin er nákvæmlega ekkert flóknari en einmitt sú setning, og þ.a.l. gerist ekki rass í allri myndinni. Gæja er rænt af einhliða „þöggum“, þeir keyra með hann út á land, og þegar áfangastaðnum er náð pína þeir hann ítrekað… úr ramma. Punktur!

Á góðum degi mætti rúlla upp þessu innihaldi í korters-langa stuttmynd, og illa gerða að auki. Myndin er drekkhlaðin löngum, díalóg-lausum uppfyllingum, sem samanstanda af öllu frá endalausum bílasenum eða skotum af Ólafi Darra að keðjureykja eða éta snakk. Það hefði verið hægt að spila aðeins með sækólógíuna og sambönd einstaklinganna á skjánum, en slíkt er bara aldrei til umræðu.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Engin spenna, engin skilaboð, ekkert sjokk, minni tilgangur. Fórnarlambinu fáum við aldrei að kynnast af viti, baksagan er öll týnd og gleymist alveg sjónarhorn þess eftir einhverjar tuttugu mínútur. Allar aðrar tilraunir til „persónusköpunnar“ eru vanhugsaðar og ódýrar. Sá eini sem er eitthvað líklegur til að sleppa úr þessu óskaddaður er auðvitað Ólafur Darri (nota bene, nýbúinn að deila skjánum með McConaughey, Harrelson, Stiller og Neeson!), bara því hann er sá eini þarna með einhverja reynslu og getu til að skila góðu úr engu.

870ae77d2c2310133b4fc937959c42d92b5bb4e6

Það hefði jafnvel verið sniðugt að gera karakter Ólafs einhvern veginn að þungamiðju sögunnar ef áhugi hefði verið fyrir öðru en bara að rétt skima yfir hans merkilega prófíl sem góðhjartaður (?) pedófíll.

Mikilvægt er að taka það fram að handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson skrifaði m.a. svellkalda saurinn Frost fyrir fáeinum árum, og eiga þær Austur (sem er leikstjórafrumraun hans) einmitt það sameiginlegt að geta ómögulega borið frásögn í fullri – eða svo mikið sem hálfri – lengd. Kannski vildi Jón Atli keyra myndina alla á sniglahægu tensjóni, myndrænni frásögn, hráum realisma og andrúmslofti, en öll svoleiðis mótíf skolast burt þegar annað hver rammi dettur úr fókus og hver sena á eftir annarri meira ósannfærandi.

Monday_night_football_-_sensory_deprivator_1

Hljóðvinnslan er í algeru rugli. Samræður bergmála oft, en þær missa hvort eð er missa flestar marks – eins sparsamlegar og þær eru. Menn rífa aðallega bara kjaft þegar þeir eru ekki að setja upp harðan svip, fikta í kveikjara og tala um allt sem þeir ætla að gera í stað þess að gefa okkur einhverja innsýn í hvað þeir eru að gera og hvernig áhrif það hefur eða hefur ekki á þá. Ef einhvern tímann verður litið yfir flóru íslenskra drasl-indímynda þá má aldrei sú sena gleymast þar sem manni er skipað fullum hálsi að skafa af happaþrennu, eða atriðið þar sem einn fanturinn lofar dóttur sinni að fara með hana í Smáralindina.

Þegar fréttist út að hópur fólks hafið gengið út úr miðri aðstandenda- og fjölmiðlasýningu greip leikstjórinn víst til þeirra orða að sumir áhorfendur höfðu einfaldlega bara ekki magann í þetta undirheimainnlit sem hann kvikmyndaði (kjaftæði…), enda virðist myndin bera „Stranglega bönnuð innan 16 ára“ merki sitt eins og heiðursstimpil og spáir ekkert í vörusvikunum.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Merkilega lítið er um ofbeldi í Austur (mest bara fáeinar blóðslettur), alveg eins og það er lítið sem líkist súbstans almennt. Förðunin sleppur svosem en þetta er allt bara þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess. Aðeins tvisvar sinnum á ævi minni hef ég gengið út af bíói og Austur freistaði mín svo, svo mikið. Ég hefði átt að beila og vita betur, en á endanum gat ég bara ekki leyft þessum viðbjóði að sigra mig.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

 

Einn Bósi Ljósár af tíu…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), aww..., ekkert, Grín, Sori | Leave a comment

Where the Wild Things Are

Það er ómögulegt að taka 300 orða (ekki blaðsíðna, ORÐA…) barnabók og búa til 90 mínútna kvikmynd án þess að tuska hráefninu til, t.d. bæta við aukaplottum, breikka úr smáköflum, alls konar! En líður mér eins og Spike Jonze hafi bara lítið sem ekkert pælt í öllu svoleiðis og reyndi að vera eins trúr bókinni hans Maurice Sendak og hann gat. Sú niðurstaða virðist vera frábær og nett sérstök stuttmynd, en því miður dregin á langinn um heilan auka klukkutíma.

Ef orðið „meandering“ á einhvern tímann vel við kvikmynd, þá set ég það á þessa. Hún byrjar á hárréttu nótunum en síðan kemur út eins og öll þróun staðni í stað um leið og aðalkarakterinn Max fer og hittir þunglyndu og ekkert-svo-rosalega villtu skepnurnar. Þá verður myndin ekki aðeins einhæf, heldur viðburðarlítil, drollandi og inn á milli álíka skemmtileg eða hugljúf og hárköggull í auganu. Annaðhvort sjáum við Max og nýju vini hans vera að leika sér, rífast eða veltast úr depurð.

Ég endurtek: Þau leika sér… eða rífast… eða drekkja sorgum sínum með meiri sorgum. Án gríns, ekkert breytist eftir það og þannig heldur sagan áfram. Ég kann yfirleitt að meta það þegar einfaldleiki er rétt nýttur en þetta rúllar alveg fram af. Það er mjög takmörkuð framvinda, lítil sem engin persónuþróun, og, það sem verra er, hvorki söguþráður né kætandi andi til að halda athygli manns. Þemun og undirtónar eru eflaust eitthvað þarna í þessu sem fylgir þroskasögu Max, en til þess að maður eigi að nenna að stúdera þær þarf eitthvað annað til að grípa utan um líka. Kannski þarf ekkert endilega að kvikmynda allar barnabækur á jarðríki. Hefur einhver spáð í því?

Jonze reynir að láta okkur vera annt um persónurnar eða í það minnsta búa til spegilmyndir í gegnum þær sem allar tengjast Max á einhvern máta, og ég er viss um að þeir sem ólust upp við bókina eru þeir líklegustu til að finna fyrir léttu táraflóði, en það gerðist alls ekki í mínu tilfelli. Það sem frekar hélt takmarkaða áhuga mínum var útlitið, stíllinn og segjum fáeinir góðir brandarar. Ég er jafnvel hissa yfir því að geta ekki sagt neitt almennilega jákvætt um þá frábæru leikara sem lána raddir sínar því karakterarnir voru flestir svo hryllilega óþolandi, en enginn þeirra var eins slæmur og strákormurinn Max, þó það sé vissulega tilgangurinn í þroskasögunni Ég fatta þó ekki hvað Jonze sá svona fallegt við tónlistina sem hann notar. Hún setti eiginlega bara ennþá leiðinlegri svip á myndina. Sofia Coppola hlýtur að elska hana.


(Svo… mikið… ekkert!)

Jonze hefur lengi verið ráðgáta sem ég hef fílað meira heldur en ekki. Being John Malkovich var stórkostlega júník frumraun en Adaptation er nálægt því að vera hans ótoppandi meistaraverk. Í þriðju tilraun kemur síðan allt annar kvikmyndagerðarmaður (vonandi hefur það ekki endanleg áhrif á hans feril að slíta sig frá Charlie Kaufman). Hugsunin að taka barnabók og gera fullorðinslega barnamynd handa þeim eldri er athyglisverð þangað til orðafjöldinn í bókinni kemur aftur upp í minnið.

Það er spurning hvort Where the Wild Things Are sé nokkuð kjörin barnamynd, en ég held samt ekki, því einhvern veginn finnst mér hún vera of súr og óþægileg fyrir börn, og stundum jafnvel of áköf í tón (eins og t.d. þegar nokkur skepna að nafni Carol (halló James Gandolfini) tekur sín reiðiköst, eða þegar skepnurnar rétt svo kaffærðu Max í einni stórri hundahrúgu). En er hún þá fyrir fullorðna? Erfitt að segja.

Hún er svo þunn, sjarmalaus, tilgerðarlega teygð og niðurdrepandi. Einu hóparnir sem ég get ímyndað mér að eigi eftir að fíla hana eru þeir sem elska teygðar art-myndir og þeir sem lásu bókina í æsku eða fyrir fimm mínútum. Það er samt spurning hvort Jonze sé ekki bara til í að búa til sérstaka Director’s Cut-útgáfu sem væri þá ekki nema 30-40 mínútur í heild sinni. Þá yrði hún miklu betri og eflaust talsvert flottari aðlögun á bókinni.

Ég er heldur ekki að sjá það hvernig myndin gat kostað $100 milljónir. Í hvað fór þessi peningur?

fjarki

Besta senan:
Let the Wild Rumpus start!

… þó ég viti ekki alveg af hverju.


(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 19.11.2009)

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka) | Leave a comment

Hross í oss

Til þess að geta metið Hross í oss til fulls er eflaust nauðsynlegt að vera á kafi – og ekki lítið – í hestamennsku og finnast gaman að stara út í flatt tómarúm í hálfan annan tímann án þess að nokkrar kröfur séu gerðar til stefnu, innihalds, persónusköpunnar, skilaboða eða ánægjugildis. Að horfa á myndina er reyndar aðeins skemmtilegra en að horfa á auðan vegg. En væri þetta spurning um að horfa á einhvern klessa hestaskít utan í auðan vegg, mjaka honum með berum höndum svo úr því væri listaverk þá myndi ég frekar kjósa þann möguleika heldur en að leggja á mig þessi töltandi leiðindi aftur.

Það eina sem mér tókst að fá út úr myndinni var ágæt myndataka, nokkur kostuleg stönt-atriði, fínir leikarar (…að gera mjög lítið) og mesta undirliggjandi hrossablæti sem ég hef séð varpaða síðan Zoo kom út – þ.e. þessi sem fjallaði um Mr. Hands. En ef Hross í oss slær ekki í gegn í umræðum á Laufskálaréttum þá er hættulega lítill tilgangur með henni á þessu landi. Hún er öll sett saman úr litlum „smásögum“ sem eiga einhvern veginn að undirstrika dýrslegar hegðanir mannsins, mannleg einkenni hestsins, leggja upp úr tengingu fólks við náttúruna ásamt öðru tilgerðarlegu bulli sem hún afsakar sig með til að fela það að hún spilast út eins og teygt verk sem fór hálfklárað í tökur.

Það er lítið gert til þess að skapa einhverja betri sveitalega hópstemningu með svona fínu liði leikara (enda öll ræman upptekin við það að mynda hrossin (eins fjallmyndarleg og þau eru) frá hverju mögulegu sjónarhorni!) og fékk ég þá tilfinningu að Benedikt Erlingsson, bæði sem leikstjóri og handritshöfundur, hafi ætlað sér að skrifa umfangs- og þýðingarmikla sögu en einungis endað á því að strengja saman aðstæður og ekki vitað hvernig á að móta neina heild úr þeim. Hlutir bara gerast og öllum er sama, a.m.k. mér. Ég hef sjaldan séð eins lítinn áhuga verið lagðan í það að gefa persónum í íslenskri mynd svona einvíð einkenni. Það eina sem Helgi Björns gerir t.d. í allri myndinni er að keyra traktor og ég er ekki frá því að það teljist sem tiltölulega breiður prófíll í þessari mynd.

Tónninn er einkum furðulegur, næstum því fjarverandi, og gengur afskaplega illa að finna mörkin á milli húmors og drama. Þessi tónn er eiginlega fastur á milli og hvort tveggja missir marks, burtséð frá því að varla er neitt til staðar sem hægt er að kalla drama til að byrja með (eða nokkurn skapaðan hlut annan en einfaldlega… „aðstæður“) en samt er hún allan tímann þurr og leiðinlega alvarleg burtséð frá því að bæði titillinn og plakatið er algjör brandari. Húmor læðist stöku sinnum inn en tekst sjaldan á loft fyrir utan eitt eða tvö bros. Ég hélt annars í smástund að myndin teldi sig vera of góða fyrir orðagrín með sögninni „að ríða“ en þar skjátlaðist mér stuttu áður en hún kláraðist. En vei. Hún allavega kláraðist!

Þetta er ein sú alvarlegasta mynd sem nokkurn tímann getur hugsast sem inniheldur reiðmann sem verður óvart „samlokaður“ á milli merar og graðhests í miðjum hasar. Skondið atriði, glæsilega útfært en hefur lítil áhrif á heildarsöguna því það er fyrst og fremst engin almennileg heild. Ég get því ekki fyrir mitt litla líf kallað þetta kvikmynd, heldur tilraun. Ágæta en áttavillta og almennt grútleiðinlega tilraun. En hafa skal það í huga að þetta kemur frá mér sem einstaklingi sem hefur aldrei nokkurn tímann farið eða sýnt áhuga á að fara á hestbak, sennilega í ljósi þess að mér var alltaf kennt  maður ætti aldrei að leika sér að matnum.

thrir

Besta senan:
Steinn Ármann að vera Steinn Ármann.

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka) | 1 Comment

Powered by WordPress.com.