(mynd sem varla er hægt að flokka)

Hross í oss

Til þess að geta metið Hross í oss til fulls er eflaust nauðsynlegt að vera á kafi – og ekki lítið – í hestamennsku og finnast gaman að stara út í flatt tómarúm í hálfan annan tímann án þess að nokkrar kröfur séu gerðar til stefnu, innihalds, persónusköpunnar, skilaboða eða ánægjugildis. Að horfa á myndina er reyndar aðeins skemmtilegra en að horfa á auðan vegg. En væri þetta spurning um að horfa á einhvern klessa hestaskít utan í auðan vegg, mjaka honum með berum höndum svo úr því væri listaverk þá myndi ég frekar kjósa þann möguleika heldur en að leggja á mig þessi töltandi leiðindi aftur.

Það eina sem mér tókst að fá út úr myndinni var ágæt myndataka, nokkur kostuleg stönt-atriði, fínir leikarar (…að gera mjög lítið) og mesta undirliggjandi hrossablæti sem ég hef séð varpaða síðan Zoo kom út – þ.e. þessi sem fjallaði um Mr. Hands. En ef Hross í oss slær ekki í gegn í umræðum á Laufskálaréttum þá er hættulega lítill tilgangur með henni á þessu landi. Hún er öll sett saman úr litlum „smásögum“ sem eiga einhvern veginn að undirstrika dýrslegar hegðanir mannsins, mannleg einkenni hestsins, leggja upp úr tengingu fólks við náttúruna ásamt öðru tilgerðarlegu bulli sem hún afsakar sig með til að fela það að hún spilast út eins og teygt verk sem fór hálfklárað í tökur.

Það er lítið gert til þess að skapa einhverja betri sveitalega hópstemningu með svona fínu liði leikara (enda öll ræman upptekin við það að mynda hrossin (eins fjallmyndarleg og þau eru) frá hverju mögulegu sjónarhorni!) og fékk ég þá tilfinningu að Benedikt Erlingsson, bæði sem leikstjóri og handritshöfundur, hafi ætlað sér að skrifa umfangs- og þýðingarmikla sögu en einungis endað á því að strengja saman aðstæður og ekki vitað hvernig á að móta neina heild úr þeim. Hlutir bara gerast og öllum er sama, a.m.k. mér. Ég hef sjaldan séð eins lítinn áhuga verið lagðan í það að gefa persónum í íslenskri mynd svona einvíð einkenni. Það eina sem Helgi Björns gerir t.d. í allri myndinni er að keyra traktor og ég er ekki frá því að það teljist sem tiltölulega breiður prófíll í þessari mynd.

Tónninn er einkum furðulegur, næstum því fjarverandi, og gengur afskaplega illa að finna mörkin á milli húmors og drama. Þessi tónn er eiginlega fastur á milli og hvort tveggja missir marks, burtséð frá því að varla er neitt til staðar sem hægt er að kalla drama til að byrja með (eða nokkurn skapaðan hlut annan en einfaldlega… „aðstæður“) en samt er hún allan tímann þurr og leiðinlega alvarleg burtséð frá því að bæði titillinn og plakatið er algjör brandari. Húmor læðist stöku sinnum inn en tekst sjaldan á loft fyrir utan eitt eða tvö bros. Ég hélt annars í smástund að myndin teldi sig vera of góða fyrir orðagrín með sögninni „að ríða“ en þar skjátlaðist mér stuttu áður en hún kláraðist. En vei. Hún allavega kláraðist!

Þetta er ein sú alvarlegasta mynd sem nokkurn tímann getur hugsast sem inniheldur reiðmann sem verður óvart „samlokaður“ á milli merar og graðhests í miðjum hasar. Skondið atriði, glæsilega útfært en hefur lítil áhrif á heildarsöguna því það er fyrst og fremst engin almennileg heild. Ég get því ekki fyrir mitt litla líf kallað þetta kvikmynd, heldur tilraun. Ágæta en áttavillta og almennt grútleiðinlega tilraun. En hafa skal það í huga að þetta kemur frá mér sem einstaklingi sem hefur aldrei nokkurn tímann farið eða sýnt áhuga á að fara á hestbak, sennilega í ljósi þess að mér var alltaf kennt  maður ætti aldrei að leika sér að matnum.

thrir

Besta senan:
Steinn Ármann að vera Steinn Ármann.

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka) | 1 Comment

Movie 43

Oft hef ég séð góða leikara rústa mannorði sínu tímabundið í stórum hlutverkum og skítamyndum sem lykta svo illa að mig langar að loka augunum vegna sviða, án þess að mér sé leyft það.

Það er hægt að afsaka allan fjanda, eins og lélegt drama, þreyttan hrylling, latan listagjörning, ömurlega hasarmynd, í rauninni hvað sem er sem gerir ágætan leikara að algjöru fífli út lengd á við heila mynd. Einhvern veginn finnst mér alltaf erfiðast fyrir fólk með alvöru hæfileika að hrista af sér skömmina þegar það tekur þátt í viðbjóðslega misheppnuðu gríni, því þá eru allir viljandi að gera sig að fíflum – óafvitandi hversu pínlegir þeir eru – og verra er að mér sem áhorfanda á að finnast þetta ofboðslega fyndið. Mannvonskan er of mikil til að mér finnist þessi ómeðvitaða masókistahegðun eitthvað hlægileg.

Kannski er ég bara of „nojaður“ en fjarstæðukennda kenning mín er sú að Movie 43 gerir sér fulla grein fyrir því hversu vond hún er, og refsar hún þ.a.l. öllum sem koma nálægt henni, forvitninnar vegna. Ímyndið ykkur hnefafylli af myndum sem minna ykkur á það af hverju þið elskið kvikmyndir sem listform, snúið þessari tilfinningu við og þá breytist lokavarann í kvalarfullan hrekk, og áhorfendur eru gerðir að stærsta og mest móðgandi brandaranum. Allir sem telja sig vera með ágætan húmor geta átt von á misþyrmingu sem endar á opnu sári, og það grær ekki fyrr en (segjum) árið 2021.

movie43_0005

Það er staðreyndarvilla að kalla þetta bíómynd, en hvað sem á kalla þetta (segjum fávitapróf) þá tekst Movie 43 að skíta á hverja einustu ferilskrá hjá öllum sem að henni komu, réttlætanlega. Lyktin mun aldrei hverfa því efniviðurinn er óásættanlega slæmur og í ljósi þess að hálft Hollywood tók þátt í þessu rusli verður fallið mun epískara. Sumt af þessu rugli sem stjörnurnar hafa blekkt sig út í er eitthvað sem leiklistaskólar og kvikmyndafræðingar ættu að velta fyrir sér næstu árin. Ég hef séð þær margar hræðilegar á minni ævi, en sjaldan lent á eins einkennilegu klúðri og þessu.

Til að ná áttum, sortera úr hausverknum og spara margar blaðsíður af skoðunum sem leka út úr heila sem hefur orðið fyrir ljótri árás, þá er langsniðugast að brjóta upp Movie 43 og hlaupa í gegnum öll brotin sem hún fremur – í réttri tímaröð.

Hér eru 43 pínlegar staðreyndir um myndina og lykilástæður af hverju hún á lítið erindi inn í siðmenningu:
(og já, ég mun feitletra ástæðurnar sem ég held að tengist því beint að myndin er einkabrandari frá sjálfum Satan)

1. Lítum á tölurnar; ekki nema 6 milljón dollara kostnaður, 10-14 tengingarlausir sketsar, 13 bjartsýnir leikstjórar, 19 áttavilltir handritshöfundar og leikarahlaðborð sem undarlega nær að fjórða tug, og verra er að flestir líta út fyrir að lifa sig inn í grínið! Allt þetta mannafl er það sem þurfti til að búa til ein stærstu skammarverðlaun síðustu ára. Flestir leikarar eiga að meðaltali svona fimm mínútna skjátíma og á slíkum tíma eru sumir meira niðurlægðir heldur en nokkurn tímann væri hægt í stakri mynd í fullri lengd.

2. Myndin er 98 mínútur. Ábyggilega hlægileg í eina og hálfa.

3. Ef Kentucky Fried Movie og verstu atriðin úr SNL myndu eignast barn…

4. Framleiðsluna mætti líkja við klesst og tætt púsluspil. Aðstandendur hringdu í eitthvað af sínum frægustu vinum og öll myndin var tekin upp yfir margra ára tímabil. Ef leikarar voru til í þetta en ekki lausir strax, var beðið eftir þeim.

5. Það segir yfirleitt of mikið þegar enginn áhugi fer í það að finna góðan titil, eða titil sem eitthvað vit er í.

6. Aldrei verður myndin svo hræðileg að hún byrjar að vera skemmtileg. AL-DREI.

7. Enginn skilningur er á öðru en yfirborðskenndu gríni. Þess vegna er myndin rasísk, barnaleg, ógeðsleg og kvenfyrirlitningin er nánast eins og heill metnaður út af fyrir sig.

8. Kannski hefði verið hægt að gera gott úr sumu efninu þarna, en ekki þegar kvikmyndagerðamennirnir eru apar.

9. Farrelly-bræðurnir eru nógu andskoti mistækir þegar þeir eru saman. Annar þeirra, Peter, er einn helsti aðstandandi þessarar myndar og ef ég þyrfti að giska þá er hann „ófyndni“ bróðirinn.

10. Í fyrstu atriðunum er óbeint varað áhorfendum við að það sem koma verði vægast sagt hroðalegt. Eitthvað er minnst á að maður eigi eftir að skíta út innyflum sínum, blæðandi úr augunum og finna sig knúinn til að slíta af sér tittlinginn eftirá. Ekki bjóst ég við því að myndin myndi best gagnrýna sig sjálfa… áður en hún reynir að þvinga þig til að klára restina af setunni.

11. Mér skilst að til séu tvær ólíkar útgáfur af myndinni og muninn er aðallega að finna á milli sketsana (kallast framing device), en atriðin á milli eru næstum því verri en allt sem á síðan að vera „fyndið.“ Næstum því.

12. Útgáfan sem ég sá fjallaði um nokkra óþolandi unglinga sem pína sig í gegnum hvert djókið á eftir öðru sem þeir horfa á í tölvunni sinni (og við fáum að njóta gleðinnar með þeim). Í hinni útgáfunni eru víst Dennis Quaid, Greg Kinnear, Common og Seth McFarlane eitthvað að flippa. Skal veðja heilum fimmara að það sé örugglega skárri útgáfan.

13. Myndin heldur að hún sé að gera eitthvað nýtt, en hún er bara löt. Hver einasti skets byggist undantekningalaust í kringum aðeins einn brandara (s.s. eitt „punchline“), og atriðin ganga öll út á það að blóðmjólka þann brandara með eins refsandi hætti og hægt er.

14. Í fyrsta sketsinum eru Kate Winslet og Hugh Jackman á stefnumóti. Ekkert óeðlilegt við það fyrir utan lafandi punginn á hálsinum hans. Þetta er brosleg tilhugsun í svona 30 góðar sekúndur. Svo heldur þetta áfram. Og áfram.

15. Þessi pungbrandari hefði ekki einu sinni flogið fyrir áratugi síðan.

16. Jackman var fyrsti leikarinn til þess að vera ráðinn, Winslet kom beint eftir. Þeirra atriði var það fyrsta sem var tekið upp. Síðan var það klippt saman og sýnt öðrum leikurum til að reyna að sannfæra þá um að vera með í restinni.

17. Ég held að leikarar hafi annaðhvort hugsað eitt af þrennu þegar þeir sáu fyrsta sketsinn:

a) „Djöfull er Jackman djarfur! Ég vil vera með.“
b) „Fjölskylda mín er í gíslingu, ég verð víst að vera með.“
c) „Vá hvað ég er með lélegan húmor.“

Er þetta þá allt Hugh að kenna??

18. George Clooney leit víst á handritið og misbauð það sem hann sá. Ef það er einhver duglegur að halda sig frá sorpmyndum undanfarið þá er það Goggi.

19. Eins og á við um alla þá reyna Naomi Watts og Liev Schreiber of mikið, en þeirra til varnar er búturinn þeirra – sem er annar sketsinn í myndinni – ekkert svo hörmulegur. Reyndar sá næstskásti.

20. Watts og Schreiber eru gift í alvörunni. Það er eina ástæðan fyrir því að mér finnst eitthvað örlítið fyndið við þeirra hlut.

21. Anna Faris leikur unga konu sem dreymir um það að kærasti hennar kúki á sig. Hann ákveður þ.a.l. að dæla í sig mexíkóskum mat og hægðarlyfjum. Drulluslappt. Í alvörunni.

22. Faris og Chris Pratt (sem leikur kærasta hennar) eru par í raun. Af hverju er þá ekki atriðið þeirra fyndnara??

23. Þegar heimsendir kemur hef ég áhyggjur af því að það verði ekki til nægur matur handa nánustu, en ég hef sterkan grun um að alltaf verði einhvers staðar til eintök af þessari mynd úti í heimi.

24. Emma Stone og Kieran Culkin eru betri en þetta. Álit mitt á báðum aðilum lækkaði umtalsvert. Hroðalegur bútur.

25. Því lengur sem horft er á myndina, því meira fer hún að minna á hina eitruðu Extreme Movie, sem var verri.

26. Trey Parker og Matt Stone komu að þessari mynd í einhvern smátíma, en bökkuðu síðan út áður en þeir fengu að taka upp atriðið sitt. Fúlt?

27. Richard Gere er greinilega sá eini sem lítur út fyrir að skammast sín. Gott hjá honum, en fyrir að þiggja vinnuna er hann meðsekur.

28. Varla hefur sést meiri vanhelgun á DC-fígúrum en þegar Jason Sudeikis, Leslie Bibb, Justin Long og Uma Thurman koma á skjáinn.

29.  Stutt auglýsing um börn sem föst eru inn í hraðbanka hefði getað orðið fyndnari, en eins og stendur er þetta langbesta atriðið sem er í boði.

30. Chloe Grace-Moretz sést byrja á blæðingum. Elizabeth Banks leikstýrði þessum djóki. Ögh.

31. Hversu furðulegt er það að þetta er ekki eina 2013-myndin þar sem Chloe byrjar á túr í fyrsta sinn?? Hefði haldið að það væri svona „one shot“ dæmi. Greinilega eru sumar að fullorðnast.

32. Movie 43 er ekki rétta myndin til að „fullorðnast“ í.

33. Beint eftir blæðingarlápunktinn kemur feik túrtappaauglýsing. Mátti reyna en átti aldrei séns.

34. Af einhverjum ástæðum ákvað Brett Ratner að leikstýra kafla þar sem Johnny Knoxville og Seann William Scott (einmitt þegar ég hélt að allir þoldu ekki Dukes of Hazzard) eiga samskipti við búálf. Gerard Butler leikur búálfinn. Þetta er ekki eins súrt og það hljómar, bara flatt – eins og flest frá Ratner.

35. Brett Ratner má éta grýtuskitu. En bara ef hann kafnar.

36. Lýsingin að ofan á einnig við um leikstjóra að nafni Steven Brill. Hann gerði til dæmis Little Nicky, Mr. Deeds og leiðinlegu unglingapartana í þessari mynd.

37. Einu sinni hefði verið viðeigandi að spyrja hvað Butler væri að gera í dvergastærð, en oftast veit maður ekkert hvað hann er að hugsa hvort eð er. The Bounty Hunter og Playing for Keeps sáu um það.

38. Colin Farrell átti að leika bróður Butlers. Hann hætti við fyrir tökur. Heppinn.

39. Stephen Merchant (sem ég leit alltaf nokkuð hátt til) og Halle Berry (nýkomin aftur á gott ról frá og með Cloud Atlas) eiga í sameiningu einhvern feilaðasta brandara sem mun nokkurn tímann sjást á öllu þessu ári og næsta. Útlit þeirra í lokin er eitthvað sem mun ásækja martraðir barna minna.

40. Það er smá séns á því að Terrence Howard sé kynþætti sínum til skammar. Þar fóru öll stigin sem hann fékk eftir Crash.

41. Josh Duhamel.

42. Þegar lokatextinn byrjar í svona mynd þá er loksins komin ástæða til þess að brosa, en ekki þegar leynist heill aukaskets, sem hefst löngu eftir að myndin ætti að vera búin. Kemur þá ekki leikstjórinn James Gunn með atriði upp úr þurru og minnir enn eitt skiptið á það hvað hann getur verið með sjúkan og leiðinlegan húmor. Þarf ég í alvörunni að hafa núna enn meiri áhyggjur af Guardians of the Galaxy??

43. Elizabeth Banks kemur verst út úr allri myndinni að mínu mati, en bara því hún bæði leikur og leikstýrir.

Hvort sem mér líkar það betur eða verr er þetta ógleymanleg og stórmerkileg mynd. Saklaust grín er eitt, miskunnarlaust mongó-grín er eitthvað sem snertir viðkvæmar taugar. Að leggja í þetta gláp er á ábyrgð lesandans, því Movie 43 er svo sögulega stórt ógeð að hana ætti helst að líta á sem áskorun í stórum vinahópi, til að sjá hver nær að gretta sig sjaldnast. Annars þarf svosem ekki að bragða á hlandinu til að vita það að ekki er góð hugmynd að testa það. Og þeir sem óvart enda á því að hlæja af sér sitjandann kaldhæðnislaust þurfa að láta tékka á sér vitlausa beinið, kannski jafnvel fjarlægja það. Það jákvæðasta sem kom út úr áhorfinu var að mig langaði til að horfa á allar mínar uppáhaldsmyndir aftur, og faðma þeim að mér fastar en áður.

tveir

PS. Julianne Moore og Tony Shaloub fengu þann heiður að vera klippt út úr myndinni. Þau sluppu of auðveldlega (og hversu slæmar ætli þeirra senur hafi þá verið??).

 

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), Kryddblöndumynd, Sori | Leave a comment

The Fountain

Þó kvikmyndir séu oft listrænar þá þýðir það ekkert endilega að þær séu allar list.

The Fountain er ótvíræð list, að mínu mati, hvort sem maður hatar hana eða ekki. Hún er meira sjónrænt ljóð heldur en bíómynd, þar sem kvikmyndaverkfærin eru notuð af meistaralegri væntumþykju og fagmennsku. Engin tilgerð, bara fegurð, ljótleiki og eins mikið af symbolisma, djúpum merkingum og hugmyndum um eitt lykilmálefni og maður getur í sig látið á einum og hálfum tíma án þess að fá svima. Margir þola ekki myndina því hún er of þungmelt, óvenjuleg og útvegar aldrei einföld svör (eða jú, leikstjórinn satt að segja veitir svarið, en áhorfandinn á sýna alla útreikninga). Þeir sem dýrka hana hins vegar eru þeir sem finna sig knúna til að kíkja á hana með reglulegu millibili. Það er hægt að horfa á söguna frá ýmsum sjónarhornum og í öllum “útgáfum” er heilsteypt verk að finna. Greinilega er ég í síðarnefnda hópnum.

Líf, ást og dauði hefur sjaldan tekið á sig svona bitastæða og útlitslega óaðfinnanlega mynd í kvikmyndaforminu. The Fountain dílar við það að sigrast á dauðanum, óttanum við hann og að sjá fegurðina í honum, svo eitthvað sé nefnt. Á bakvið öll lögin sem tengja saman fortíð, nútíð og framtíð er hins vegar óhefðbundin ástarsaga, og „óhefðbundin“ er vægt til orða tekið.


Darren Aronofsky
gerir aldrei neitt auðvelt fyrir mann, en dýrmætur er hann fyrir vikið. Allir sem hafa eitthvað vit á kvikmyndum ættu að geta skrifað langar greinar um það eitt hversu aðdáunarverður snillingur hann er eða getur verið. Það er varla hægt að deila um það að The Fountain er hingað til persónulegasta myndin sem hann hefur nokkurn tímann gert. Ef ég ber hana saman við hans bestu að mínu mati er hún ekki eins mikill andlegur hnífur í endaþarminn og Requiem for a Dream var (á góðan hátt samt, ef nokkuð er til í því), en hún er miklu, miklu dýpri, einstakari og elskulegri. Ég tel hana líka vera langt á undan sinni samtíð.

Ekki besta eða áhrifaríkasta mynd leikstjórans en algjörlega sú sem er mest hægt að dást að, þó ekki nema bara fyrir það að hún gerist að miklu leyti í geimnum og eru aldrei notaðar tölvubrellur í stóru skotunum (lesið ykkur til um það, þetta er býsna geggjað!). Hún er líka í mesta uppáhaldi hjá mér og hefur oftast verið sett í gang á mínu heimili. Þegar það gerist, þá reyni ég ekki að horfa á hana, heldur upplifa hana – með góðu hljóði og á eins stórum skjá og ég kemst að. Persónusköpun og söguþráður skiptir minna máli, heldur meira frásagnarhátturinn og skilaboðin sem snúast í kringum persónurnar. Aronofsky í rauninni lýsir þessu best þegar hann segir að þetta sé einfaldlega „hugleiðing um dauðann.“ Lýsingin hljómar leiðinlega, en til þess er leikstjórinn, svo hægt sé að setja einhvern kraft í þetta. Og maðurinn fer með þessa mynd eins og sitt eigið barn. Ekki það að ég viti neitt um það hvernig foreldri hann er. En ef honum er eins annt um afkvæmi sitt og þessa mynd, þá held ég að hann sé í fínum málum.

Aronofsky hefur alltaf verið með heilann, gott auga fyrir mögnuðum skotum sem verða svo helmingi öflugri með réttu tónlistinni. Sérgrein hans er líka hvernig hann leyfir leikurum sínum að opna sig alveg og sýna það sem í alvörunni í þeim býr. Meira að segja á slæmu dögunum finnst mér Hugh Jackman vera einn af þessum leikurum sem mér tekst aldrei að líka ekki vel við. Jackman sýnir hugrekki sem aldrei verður nokkurn tímann kennt við Wolverine-ímyndina hans. Frammistaða hans er ákveðin, áhrifarík og nokkuð póetísk, og hvert þessara þriggja lýsingarorða á við um hverja og eina af þessum þremur tímalínum sem heildarsagan er brotin upp í. Það er ákveðin dýpt sem fylgir persónusköpun hverrar tímabilseiningar en að mínu mati svolítið ábótavant. Myndin er í fínni lengd eins og hún er og mótar allt sem hún getur úr hverri einustu senu, en tilfinningalega þykir mér hún samt örlítið köld. Það nær óneitanlega til manns þegar góðir leikarar gera sitt besta í erfiðum rullum en aðeins meiri karakter-fókus, í stað þess að hrúga hugmyndunum og þemunum í forgang, hefði siglt meistaraverkinu í land.

Það má segja að Jackman sé bensíngjöf sögunnar, en sálin er hér um bil öll í höndum Rachel Weisz (sem, um tíma, var frúin hans Aronofsky). Weisz gerir ekki mikið, þannig séð, en breidd þeirra tilfinninga sem hún sýnir er hreint ótrúleg. Sama með Jackman í raun, en Weisz geymir mestan sjarmann. Í sameiningu eru þau tvö það sem gerir það að verkum að handrit Aronofskys verður almennilega trúverðugt. Ástarsaga þeirra, sama hvernig hún er brotin upp, krækir mann strax frá baðsenunni snemma í myndinni. Með þessu staka atriði tekst þessu pari að selja manni kemistríuna, minningarnar og umhyggjuna betur heldur en 80% af rómantískum gamanmyndum nær að gera á lengd við heila bíómynd. Jackman og Weisz gefa líka atriðunum svo raunsæjan en samt svo fantasíulegan tón, sem er væntanlega leikstjóranum að þakka, en gefa manni alveg þá tilfinningu að ómögulegt er að sjá aðra leikara fyrir sér í rullunum.

Það er eitthvað við þessa mynd. Hún talar alltof mikið til mín (trúnó-viðvörun! – kannski því ég hef sjálfur misst náinn aðila og þekki afneitunina vel, eins með að „sleppa takinu“ – og fyrstu kynni mín á The Fountain voru akkúrat stutt eftir náinn missi og gæti það útskýrt hvers vegna ég fílaði hana ekki strax…). Hún er stór og mikill biti sem mun og hefur ábyggilega staðið fast í koki margra manna, en ekki hjá mér.

The Fountain gæti mögulega verið ein af 10 myndum sem ég hef aldrei rætt eins mikið um á ævi minni við aðra (bæði til að kryfja og verja) og þykir mér hún skara fram úr ferli stórkostlegs leikstjóra fyrir það eitt að gera ótrúlega, ótrúlega mikið við rétt svo 90 mínútna tímaramma. Engin sena fer til spillis, engin kameruuppstilling er ekki pæld út eða grípandi á einhvern máta og tónlistin fer í mína bók sem eitt af bestu stefjum síðasta áratugar, sem er enn ein ávísunin upp á það að Clint Mansell er einn sá besti sem er starfandi í sínum geira. Aronofsky er auðvitað skemmdur en skarpur snillingur, Mansell er alltaf góður en þegar þetta undarlega dúó nær saman er ávallt stutt í meistarastykkið. Þannig er raunin hér.

brill

Besta senan:
Lokaspretturinn. Eins og oftast hjá Aronofsky.

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka), Drama(tripp) | 2 Comments

Powered by WordPress.com.