„Mynd“

The Snowman

The Snowman er byggð á samnefndum reyfara eftir norska rithöfundinn Jo Nesbø, sjöundu bókinni í röðinni um drykkfellda en fluggáfaða rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (þetta eftirnafn er víst borið fram „húle“ á móðurmálinu). Ætlunin hjá aðstandendum hefur vissulega verið sú að keyra í gang glænýja seríu í líkingu við myndirnar um Jack Reacher eða Alex Cross, en hér eltist herra Hole við fjöldamorðingja sem virðist alltaf fremja voðaverk sín þegar fyrsti snjór vetrarins fellur. Morðingi þessi gefur sér yfirleitt tíma til þess að stilla upp snjóköllum eða kasta snjóboltum til að hrella verðandi fórnarlömb sín, á meðan áhorfandinn flissar.

Þrátt fyrir að söguþráður myndarinnar eigi það til að detta í óbeinan farsa er erfitt að búast við einhverju slöku þegar svona öflugur hópur fagfólks kemur að henni. Sænski kvikmyndagerðarmaðurinn Tomas Alfredson hefur sýnt færni í smámunasemi, afbragðstök á leikurum og oftast dálæti á því að gera andrúmsloftið að heilli aukapersónu. Þetta er hinn sami og gerði t.d. Tinker Tailor Soldier Spy, Låt den rätte komma in og (ótrúlegt en satt?…) bíómyndina um Bert.

Alfredson er umkringdur öflugu samstarfsfólki, fyrir framan og aftan vélina. Meistari Martin Scorsese er einn af framleiðendunum og hefur klipparinn Thelma Schoon­maker sjaldan brugðist frekar en tökumaðurinn Dion Beebe. Þetta er allt fólk í heimsklassa, en einhvern veginn verður útkoman að svellköldum hrossaskít sem er líklegri til að vekja kjánahroll og hlátur í ómældu magni frekar en gæsahúð. Frá framvindu til samsetningar eða almenns trúverðugleika höfum við hér eitt stórmerkilegt klúður.

Liggur við að það sé aðdáunarvert (ef ekki efni í skylduáhorf) hvernig langflestar deildir missa marks; handritið, leikstjórnin, tónlistarnotkunin (hefur nokkurn tímann eins alvarleg bíómynd notast tvisvar sinnum við lag í líkingu við Popcorn með Hot Butter? Af öllum). Og meira að segja klippingin er furðu viðvaningsleg á stundum.

Flæðið er taktlaust sums staðar og til að kóróna allt eru fleiri göt í söguþræðinum heldur en telja má á fingrum beggja handa. Þetta gæti eitthvað tengst því að haugur af myndefni var klipptur úr loka­útgáfunni, af sýnishornum að dæma.

Efniviðurinn er að vísu forvitnilegur en myndina skortir alla spennu, alla dulúð og kyrrð. The Snowman er eins og afsprengi hundrað sakamálauppskrifta, íslensku myndarinnar Grimmdar og linari útgáfu af Millennium-myndinni sem David Fincher gerði. Það eru þokkaleg skot hér og þar en stemningin kemur að jafnaði út eins og mislukkað afrit af afriti. Leikararnir eru flestir áreiðanlegir á góðum degi en heftir hérna af furðulegum hreimum (þetta gerist í Noregi, sjáið til) og handriti þar sem erfitt er að sjá hvað snýr upp eða niður. Allar tilraunir til persónudýptar missa marks í svona týndri framvindu.

Þegar kemur að þjáðum, brotnum mönnum hefur Michael Fassbender margsannað sig sem einn af þessum leikurum sem gætu túlkað slíka menn í svefni, en að því sögðu þá kemur hann hér út eins og hann sé á sjálfsstýringu. Rebeccu Ferguson virðist farnast örlítið betur miðað við mótleikara sinn en hún dettur í sömu gildrur og hefur bara ekki úr sérlega miklu að moða, eða það að kolvitlausar tökur hafi verið valdar oftar en ekki.

Hérna fer nefnilega prýðisgott leikaraval til spillis, þó þurfi reyndar að sigta út krakkaleikara myndarinnar, enda hræðilegir allflestir. Annars hefði verið gaman að finna meira að gera fyrir Chloë Sevigny, James D’Arcy og Charlotte Gains­bourg svo einhverjir séu nefndir.

Síðan er Val Kilmer efni í heila umræðu út af fyrir sig. Hann fær reyndar ekki nema nokkrar stuttar senur, en eftirminnilegar eru þær. Frammistaðan er stórfurðuleg og ber merki um að ekki hafi náðst mínúta af manninum edrú á filmu. Annaðhvort það eða að maðurinn hafi verið nýstiginn úr jaxlatöku í hvert skipti.

Það er varla sjón að sjá Kilmer og hefur hann meira að segja verið illa „döbbaður“. Leikarinn og hans sérviska er þó aðeins dýrmætt brot af því sem gæti innsiglað það að The Snowman gæti átt sér langt líf framundan sem samansafn af skondnum klippum á YouTube, þar sem best má njóta vafasömu hápunktanna. Heildin hefði einmitt getað orðið æðislegt sorp ef myndin væri bara ekki svona furðuleiðinleg að mestu.

 

í rauninni á myndin skilið miklu minna, en hlátursfaktorinn þarf að virða.

 

Besta senan:
Þegar Fassi brosir óviðeigandi mikið í einum rammanum. Eða þegar hann tekur heimskulegustu ákvörðun veraldar í klímaxinum.

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, "Mynd", Grín, Spennuþriller | Leave a comment

The Human Centipede 3 (Final Sequence)

Því meira sem við tölum um Human Centipede-myndirnar því meira vald erum við að troða í hégómann hjá Tom Six. Hans eina markmið hefur verið að ögra okkur, eins og rasískur sósíópati með skituhúmor á táningsaldri sem hatar konur, allt til þess að setja óneitanlega ógeðfellda grunnhugmynd meira í sviðsljósið. Augjóslega er ég ekki að hjálpa til í þessari deild en hvaða áhorfandi sem er ætti þó að vera löngu orðinn viss um hvort ‘Final Sequence‘ sé eitthvað sem vekur ljóta forvitni hjá honum eða ekki.

Six tókst fyrst að skera sig inn í minni okkar og kúltúr með einni fratleiðinlegri pyningarhrollvekju, annarri örlítið (án djóks) vandaðri en í senn hreint og beint refsandi. Á jákvæðari nótum virðist hann ekki vera hlynntur því að margendurtaka sig og tekur alltaf nýjan tón á sitt látlausa sikkó-hugmyndaflug, en með þriðju myndinni skýtur hann sig meira í fótinn með eigin skít en hann heldur.

Screen-shot-2015-04-14-at-8.37.40-AM-620x400

Final Sequence gerir það sama og meta-fulli forveri sinn. Hún byrjar á lokasenu síðustu myndar og gerist þ.a.l. í heimi þar sem báðir Centipede-titlarnir eru vel þekktir. Snarbilaður fangelsisstjóri gerir margar vafasamar tilraunir til þess að vinna sér inn hræðslu og víst virðingu fanga sinna. Ekki fyrr en um miðbik mynarinnar er loks tekið upp á því að strengja þá alla (já, alla) saman með hætti sem gerir auðvitað leikstjórann ofsalega spenntan, enda hann sjálfur í litlu aukahlutverki.

Það sem mér finnst vera það sjúkasta við Human Centipede 3: Final Sequence er að hún er…, skringilega, „besta“ myndin í þrennunni. Hún hefur einhvern andsetinn púls sem hinar höfðu ekki og kaus miklu frekar að fara sótsvörtu, kómísku exploitation-leiðina í stað þess að kalla sig listilegan pyningarhroll. Önnur myndin í röðinni nauðgaði ítrekað heilanum mínum (…með gaddavír) með sumum köflum. Mér misbauð smá, hataði lífið í nokkrar mínútur eftirá, Six vann, stórt bingó! Að eigin sögn langaði hann til þess að klára trílógína af með brjáluðum usla, því ætlunarverki að láta undanfara sinn líta út eins og „Pixar-mynd“ í samanburði. Það heppnaðist, en samt ekki eins og maður hefði haldið.

07-han-solo-2.w529.h352.2x

Með því að gera Final Sequence að ýktri og grunnri aulasatíru meðtekur maður viðbjóðinn allt öðruvísi en áður. Myndin er sjúkari en sú síðasta en hvergi eins abstrakt óhugguleg. Engu að síður er alveg nóg hérna til þesss að tryggja það að þú viljir hvorki ömmu þína né þorramat nálægt þér þegar þú horfir á þessa mynd.

Í fyrsta lagi vil ég þakka Six ó-svo kærlega fyrir að kynna mér fyrir hugtakinu „djúpsteiktir snípar“ og meintu mikilvægi þeirra. Ofan á þann ilm fáum við villimannslega geldingu í nærmynd, senu þar sem manni er bókstaflega nauðgað í nýrað, auk, jú, 500 manna margfætlu. „Mennska lirfan“ fylgir síðan með í kaupbæti, sérstaklega sniðin til þess að geta ekki afséð.

Allt þetta er partur af útreiðinni sem ég bjóst alveg við af Six, en miklu síður gerði ég ráð fyrir einni mest kvennahatandi bíómynd sem hefur verið gerð seinustu árin, eða frá upphafi bíómynda! Það er aðeins ein kona í allri myndinni, klámstjarna m.a.s. (ég treysti á það að einhverjir hér þekki Bree Olson?), og verður stanslaust fyrir andlegri, líkamlegri og kynferðislegri misþyrmingu… og Tom Six vill að þú hlæir að því – og klappir jafnvel líka.

_83790132_18120229405_1f97ac7080_h

En af hverju er þá þessi æsta, ögrandi, rembingsfulla ælufata eitthvað betri en hinar? Nú, til að byrja með er eitthvað lúmskt skondið og frumlegt við þessa meta-nálgun hennar á söguþræðinum. Six sprengir m.a.s. sinn eigin skala í hégómanum með því að leika sjálfan sig í mynd sem oft hælir hans nafni. En það fyndna við það er sömuleiðis hvernig hann gerir smekklega grín að sínu eigin „kúkablæti“.

Þó mér líkaði ekki við hinar tvær myndirnar get ég aldrei sagt annað en að Dieter Laser og Laurence Harvey hafi verið fullkomlega valdir í sín ógeðfelldu hlutverk. Að sjá þessa tvo samankomna nú til að leika allt aðra karaktera jaðar við súra skemmtun. Laser, sér á báti, er merkileg þolraun út af fyrir sig í hlutverki karakters sem er helmingi aumkunnarverðara ógeð heldur en Harvey lék í seinustu mynd… og það er mikið sagt. Laser gæti vel hér verið með einn andstyggilegasta ofleik þessa árs; svo manísk frammistaða en mikið óskaplega nær þetta þýska furðufrík að fíla sig í þessu. Og það að sjá þarna aukalega menn á borð við Tiny Lister og Eric Roberts er annaðhvort hálfgerð snilld eða agalega despó, fyrir þá. En Roberts kemur að vísu fínn þarna inn, og með yfirleitt bestu viðbrögðin.

1280x720-wo0

Á tæknivinnslustigi er þriðja myndin best samsett og skotin. Fyrst að Six er ekkert að skafa undan ýmsum aspektum á kanahatri sínu reynir hann að gera allt eins óaðlaðandi og „amerískt“ og hann getur. Þetta er líka mynd sem skeinir sér með bandaríska flagginu með argasta stolti og þykist búa yfir krassandi samfélagsádeilu og óhefluðum skilaboðum. En ekkert af því ristir dýpra heldur en bara pjúra útreið og rembingsfull ögrun hjá Six. Öðru er ekki við að búast þegar slagorðið er „100% Politically Incorrect“. Ókei…

Human Centipede 3 er það sem hún greinilega vill vera, og það sem hún vill vera á sér víst afmarkaðan, truflandi aðdáendahóp. Ég er trúlega kvikindi fyrir að segja að það eru ágætir sadistasprettir inn á milli, og ég væri að ljúga ef ég segðist ekki hafa setið reglulega forvitinn um hvert færi næst. En fyrir utan það að dragast hart á langinn með þreytandi töfum er myndin bara með höfuð sitt svo fast uppí rassgatinu á sér og allir vita að Six hlær sjálfur hæst að þessu öllu. En hver þarf að eiga það við sig hvort hann sé á svipuðu plani eða ekki með þennan húmor…

fjarki

Besta senan:
Eric Roberts kemst í betra skap.

Categories: "Mynd", Sori, Svört gamanmynd | Leave a comment

Albatross

Albatross má eiga það að sjaldan hefur eins lífið verið í húfi í dramanu í einni íslenskri bíómynd, og hefur s.s. hvað lægstu „stakes“ sem ég hef séð til margra ára. Öll framvindan veltir mest megnis á aðeins einni spurningu: ‘Verður golfmótið haldið í Bolungarvík, eða á Ísafirði?“

Spennó…

Reyndar segir myndin frá býsna normal og hlutlausum gæja, borgarbarninu Tomma, sem situr fastur á Bolungarvík eftir að kærasta hans dömpar honum, skyndilega, óvenju grimmdarlega en skiljanlega. Hann virðist ekki vera upp á marga fiska, þó semí-viðkunnanlegur sé. En þá stendur hann eftir húsnæðislaus, peningalaus úti á landi og vinnandi á golfvelli með nokkrum skrautfuglum, og já… lengra nær það varla. Mennirnir hanga og spjalla þarna mikið saman, um stelpur, skuldir, allt, framtíðina, ekkert og listina að skeina sér. Allt sem þarf til að heildartíminn nái að klifra í propper bíólengd.

Það er ekki siðlaust að kalla þetta ‘Clerks-kóperandi’ nálgun að mynd; hún er áberandi hræódýr, viðvaningslega unnin en hversdagsleg með stolti og fjallar um persónur að tala óheflað um allt milli himins og jarðar á meðan fremsti meðaljóninn stendur á tímamótum í sínum kvennamálum. Mikil ábyrgð fellur þarna á díalog og leikendur.

maxresdefault

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Snævar Sölvi á góðvildarstig skilið fyrir að vita a.m.k. hverju hann sækist eftir. Myndin er kannski viðburðarlítil og stefnulaus í stórum sveiflum en athygli og áhugi Snævars liggur greinilega hjá þessum áðurnefnda tragikómíska hversdagsleika, léttum lífspælingum og samverustund karakteranna. Þetta sýndi hann líka í lítt-séðu „tilraunarmyndinni“ Slay Masters (sem ég gerðist svo heppinn að sjá…), allavega þessu seinastnefnda.

Albatross er hins vegar ekki sérstaklega vel skrifuð – eða spunnin – þegar kemur að samtölum, ágreiningi og persónusköpun. Sama þótt við heyrum nokkra gæja uppljóstra sínum vandamálum, krísur og tala um sig sjálfa er merkilega lítið kjöt á beinum þessara fáu persóna sem prýða hér opið landslag. Það eru að vísu undantekningar hjá þeim fáeinu andlitum sem standa upp úr, þar sem þeim hefur tekist að bæta meiru við.

cast_kjartan

Sumir eru góðir (þar aðallega Ársæll Níelsson, Pálmi Gests og Gunnar Kristins), aðrir á volgari endanum eða bara flatt út ósannfærandi. Aðalleikarinn er heldur ekki lekandi af miklu karisma og lýður stór hluti af kjarnasögunni fyrir það hve lítið við fáum að sjá eða heyra frá (fyrrum) kærustu hans. Handritið hefði t.a.m. getað grætt á því að mjólka þeirra samband og fjarlægð meira áður en hún sparkar honum. Eða gert meira úr öðrum kvenhlutverkum.

Það er umhyggja fyrir efninu og annaðhvort venst maður bara karakerunum svona mikið í rólegheitunum eða þeim tekst smávegis að vinna sig yfir á þitt band. En að öðru leyti stendur eftir óminnisstætt og skelþunnt tjill milli félaga sem hefði kannski getað græjað sér auka sjarma ef hefði verið til meira fjármagn fyrir tækni(- og ekki síst hljóð)vinnsluna. En sem heimagerð og meinlaus lítil sveitasaga væri hún örugglega fínasta afþreying fyrir bústaðargláp, en sér í lagi ef hún fylgdi með pylsupakka – svona í stíl við hve ‘sumarleg’ og björt hún er. Getum við plís tekið upp á svoleiðis aftur?

fimm

Besta senan:
Gestsson opnar sig.

Categories: "Mynd" | Leave a comment

Powered by WordPress.com.