„Mynd“

Boyhood

Aldrei verður nú hægt að segja að leikstjórinn Richard Linklater vaði ekki í vinnugrein sína af gríðarlegri ástríðu og vissri nákvæmni, vegna þess að með nálguninni einni, þolinmæðina að vopni sem og þessa sannleiksríku og heillandi hversdagsrödd sem einkennir hann á góðum degi, hefur honum tekist að segja nokkuð staðlaða og einfalda þroska- og uppvaxtarsögu með allt annað en hefðbundnum hætti.

Tólf ár er enginn smátími til þess að verja í eina kvikmynd en dag einn fékk Linklater þá mögnuðu hugmynd að segja sögu um uppeldi barna, foreldratengsl og mikilvægi þess að ‘lifa í mómentinu’ (áður en tíminn reynir að rífa það frá okkur), allt frá sjónarhorni ungs drengs. Kryddið mikla fólst í því að skjóta myndina í þrepum, einu sinni á ári og alltaf með sömu leikurum, og þá með sama drengnum í burðarrullunni. Spannar þá aldur hans frá 6 til 18 ára og áhorfandinn fylgist bókstaflega með tímanum líða stöðugt hjá í nálægt þrjá klukkutíma. Og allt þetta eru geysilega gefandi þrír tímar.

boyhood03

Boyhood er löng mynd (og alveg má finna fyrir lengdinni á pörtum), róleg, og gerist þannig séð ekki neitt mikið í henni, þrátt fyrir að heill hellingur sé að baki í smáum skömmtum þegar henni lýkur og langvarandi áhrif hennar eru svakaleg. Allir sem þekkja til leikstjórans og kunna að meta hann vita meira eða minna hvernig hann matreiðir svona efni og svipar þetta að mörgu leyti til Before-trílógíunnar hans (ef hún væri öll þjöppuð niður í eina mynd!) – sem er að mínu mati besti litli þríleikur allra tíma. Annað sem kemst í líkingu við þennan furðulega symplíska en tæknilega séð epíska frásagnarmetnað er Up-heimildarserían frá Michael Apted, líka bara hvað bera, manneskjulega stúderingu varðar, en það sem Linklater hefur greinilega ætlað sér er að fanga ákveðna ‘aspekta’ úr daglega lífinu beint í flösku, eitthvað sem gat ekki heppnast betur.

Gildrurnar sem svona fordæmislaus bíótilraun hefði getað lent í voru nokkrar. Heildarsagan hefði auðveldlega getað virst vera tættari, þ.e.a.s. með sýnilegri merki um sundurlaus kaflahopp. Tökustíllinn hefði getað dottið úr samræmi, aðalleikarinn hefði þar að auki getað vaxið upp í hálfgerðan viðbjóð með nákvæmlega ekkert hversdagslegt karisma. En allt þetta eru þættir sem Linklater hefur gætt sín á – enda ekki eins og hann hefði ekki nægan tíma til að plana sín næstu skref (þó svo að hann gerði hvorki meira né minna en 10 myndir á þessu tímabili sem tökur á Boyhood hófust og þangað til þeim lauk, þar á meðal Before Sunset, Midnight, A Scanner Darkly, School of Rock, Bernie o.fl.).

Linklater hittir á alla helstu naglana eins og hann hefði allt eins getað gert það blindandi; myndin flæðir öll sem ein, skipulögð heild – ef metin er sem samansafn mómenta í stað atburða – og heppnin lá mikið með aðalleikaranum og heildarhópnum. Það sem virkar samt e.t.v. best liggur í náttúrulegum samræðum og heilt yfir grípandi framsetningu sem ljómar af svo mikilli sál. Myndin er laus við alla tilgerð, væmni og þessa hefðbundu „bíótöfra“, og til hins betra í tilfelli Linklaters. Það er hvorki ein sena né augnablik sem ekki mun grafa sig djúpt inn í meðvitund (eða undirmeðvitund) einhvers sem horfir á hana, jafnvel sækja alls konar pósitíft og neikvætt úr minningabankanum. Before-myndirnar gerðu þetta líka, en með öðruvísi sniði. Boyhood er ekkert síður mikilvægari og hefur hrifsað til sín titilinn sem merkilegasta mynd leikstjórans til þessa.

boyhood_a

Öll myndin er eins og lifandi minningasafn, og brotin þannig upp. Upplifunin að fylgjast með hinum (ekki lengur) óþekkta Ellar Coltrane undir nafninu Mason eldast úr dreng í ungan, sjálfráða mann á 160(+) mínútum er algjörlega engu lík. Við fáum að kynnast Mason út frá helstu hliðum og sjáum hvernig umhverfi hans og foreldrar móta hann og aðra í kringum sig. Coltrane höndlar sig glæsilega út öll skeið, líklega að því leyti að það virðist sem hann sé ekkert að leika mikið. Hann er bara þarna, og það er meint sem jákvæður hlutur; aldrei pirrandi eða svo þurr að hann falli í gleymsku. Áhorfandinn gerist fluga á vegg hjá fólki sem upplifir alls konar hluti sem gerast ekki sjálfsagðari eða eðlilegri, hvort sem það er kærustumissir, skilnaður, drykkjuvandi, ístöðuleysi, keila, útileiga, hangs á veitingastað, Harry Potter-biðröð … hringurinn er nokkuð ítarlega dekkaður á þessum mikla tíma. Tónlistin sér einnig skemmtilega um að innsigla hvaða „períódu“ við erum stödd í, reyndar bara alflestar vísanir í popp-kúltúr, pólitík jafnvel.

Samhliða Coltrane sjáum við Lorelei Linklater, m.ö.o. leikstjóradóttur, eldast úr lítilli stúlku í soddan dömu. Hún ber sig með ákveðnu öryggi, og nægu af því en Ethan Hawke og Patricia Arquette eiga mikið kredit skilið fyrir sína þátttöku auk traustsins til leikstjórans sem greinilega borgaði sig, og Hawke mun næstu árin græja í sína átt mikla öfundsýki fyrir að eldast betur á tólf árum en margir jafnaldrar hans. Bæði tvö eru ótrúlega góð en Arquette er sú sem ætti skilið að lágmarki Óskarsilnefningu fyrir túlkunina á móðurinni sem stendur sífellt í ströngu á meðan Hawke brettir upp á kammó-ermarnar í hlutverki ‘skemmtilega’ pabbans í hálfu starfi. Það er meira en auðvelt að tengja sig við þetta lið.

original1

Hefði myndin farið hefðbundnu leiðina og skipt út reglulega aðalleikaranum hefði handritið og þemun mögulega haldið henni saman en beina tengingin sem maður heldur við Mason hefði rofnað í tímastökkinu. En vegna þess að myndin rúllar eins og ein heild þá verður grunnnálgunin bara eins og hvert annað kvikmyndagerðartól í stað þess að vera ‘gimmick’. Það segir sig síðan sjálft að myndin eigi alls ekki eftir að töfra hvaða áhorfanda sem er og auðvelt er að líta á hana sem stefnulausa setu, ekki síður ef maður sækist oftar en ekki í sprengingar og hraða. Boyhood er kannski ekki skemmtilegasta myndin sem hægt er að sjá frá þessu ári en klárlega er þetta lagskipt og grípandi perla sem á það verulega skilið að láta sífellt uppgötva sig um næstu áraraðir.

Þetta er masterklassa-kvikmyndagerð, með litlu flassi en hittir á mannlegu nóturnar með ótrúlegasta máta, á svo einlægu, aðdáunarverðu en lágstemmdu stigi; fullkomlega ljúf, oft fyndin, ljúfsár, sorgleg, endalaust persónuleg, breið í nálgun, sannfærandi, uppfull af smáatriðum og heldur manni við efnið í þessum náttúrulega, blómstrandi einfaldleika sínum. Hún drollar pínu, en engu að síður stórmerkileg og ógleymanleg ómerkilegheit, ef þannig má orða það.

fichtBesta senan:
Hawke og Arquette sjá um hana.

Categories: "Mynd", Drama | Leave a comment

Harrý og Heimir: Morð eru til alls fyrst

Það verður seint hægt að segja að flutningur Harrýs og Heimis upp á bíótjaldið haldi ekki í sínar föstu hefðir og skili ekki öllu því sem hann lofar. Hvort dýnamík og húmor þeirra félaga sé skelþunnur, hrukkóttur, gamaldags (…með stolti?) og eigi best heima í styttri innslögum er vissulega allt önnur umræða, og hana ætla ég ekki að loka fyrir.

Í sameiningu hafa þeir Karl Ágúst, Siggi Sigurjóns og Örn Árna haldið utan um þessar sketsafígúrur sínar og alltaf verið samkvæmir sjálfum sér, og/eða uppfullir endurtekninga með ‘film noir’ djók-óði sínum. Einkaspæjararnir byrjuðu fyrst í útvarpi fyrir 26 árum síðan og hafa flakkað á milli alla miðla og var bara sá stærsti eftir. Kalli skrifar handritið, Örn heldur föstu rullu sinni sem sögumaður og Siggi sér um að spökulera yfir sig á meðan allir þrír sjá um hugmyndirnar. Það flæðir allt sem fyrr í orðagríni, fyrirsjáanlega kímnislausri heimsku og áhuganum að rjúfa fjórða vegginn eins oft og má komast upp með, og virkar það í vissum skömmtum.

Harry og Heimir: Morð eru til alls fyrst‘ á sér mesta erindi sitt til yngstu áhorfenda, einnig þeirra sem halda utan um nostalgíuminningar og eldri kynslóðarinnar sem enn hefur ekki tekist að fá leið á Spaugstofunni. Myndin er engin æfing í eðalflippi, heldur bara fyrirsjáanlega flippuð ofsaþunnildi en með þó eingöngu markmiðið að koma áhorfendum í betra skap. Það er eitthvað um rembing og ofmat að hálfu aðstandenda en svona heilt yfir þyrfti maður ansi vel æfðan fýlusvip til að kalla þessa setu einhverja tímasóun, enda ekki nema rétt svo 80 mínútur – með frumlega innbyggðu hléi.

narrator

Í rauninni er þetta fyrsta íslenska myndin sem er hreinræktað grín síðan Jóhannes kom út og því minna sem sagt verður um hana, því betra (eins með Ófeig). Ég þakka líka fyrir það að ég hef séð langtum pínlegri hluti gerast þegar risaeðlur spreyta sig á bíótjaldinu svo dyggir aðdáendur gleymi þeim ekki. Það vinnur með Harry og Heimi að reyna ekkert að vera akkúrat í takt við tímann en þeir hefðu umhugsunarlaust mátt hugsa örlítið meira út fyrir rammann. En þegar maður hefur haft það að atvinnu svona lengi að halda í úreltan húmor er kannski ekki við mörgu öðru að búast. Auk þess … ja … þetta er Ísland!

Grínið sækist vissulega mest í gamlar amerískar spæjarasögur og að kópera stíl vestræna ævintýramynda en þrátt fyrir það er öruggt að útiloka það að hér er ekki beinlínis bíómynd sem er að fara að fljúga út fyrir klakann okkar. Þar af leiðandi sitjum við svolítið upp með þessa séreign okkar og ber þess vegna að koma fram við hana sem peningamaskínu sem veit handa hverjum hún er. En til að tryggja það að húmorinn detti ekki í einhvern vanhugsaðan og ekki-nógu-fjölskylduvænan ellismellagraut að hætti Ágústs Guðmundssonar var tekin sú sniðuga ákvörðun að grípa leikstjóra Sveppatrílógíunnar, og sér hann um að djúsa nægum ærslagangi og orku sem ætti að halda krökkunum kátari.

Bragi Þór Hinriksson er reyndar ekki alveg þessi týpíski leikstjóri eftir pöntun þó svo að hann vinni oft undir stjórn dreifingaraðila. Fyrir miklu, miklu meiri pening gæti hann hugsanlega einn daginn búið til alvöru feik-Hollywood bíó, í stað þess að módela sig svona svakalega grimmt eftir formúlustrúktúrum með grátlega lélegar brellur við sína hönd. Allt það er svosem partur af gríninu, en að búa til brandara úr því hve lítið framleiðslufjármagnið er breytir því samt ekki að ódýri bragurinn er allt annað en sjarmerandi þegar ‘sögusviðið’ stækkar og stækkar. Kemur þetta þar af leiðandi meira út eins og afsökun í dulargervi í stað þess að ganga upp sem djókur. Ég gef Braga að vísu það að hann finnur alveg rétta „andrúmsloftið“ – og fær þar að auki hrós fyrir það fyrst og fremst að reyna að búa til andrúmsloft í þessum stíl – og greinilegt er að þetta er maður sem þekkir sig eitthvað til um kvikmyndir.

darri

Þetta er í raun og veru bara eins og Sveppamynd fyrir stærri aldurshóp, á góðan hátt og slæman. Myndin er þó trú uppruna sínum (aftur… bæði á góðan hátt og slæman) og nýtur góðs af geysilega bröttu rennsli og aukaleikurum sem hafa miklu við að bæta, hvort sem það er bráðfyndinn Ólafur Darri að sýna hvernig rétt skal drekka kaffi úti í fjöllum eða Svandís Dóra að ýkja þann þrælfína kynþokka sem hún hefur. Karl Ágúst og Siggi Sigurjóns keyra sig á mjög takmörkuðum stillingum, eins og fylgir svona einhliða kómík (sem súmmar sig upp í tveimur orðum: „Þegiðu Heimir!“) og þó reyndir séu í henni hefðu þeir mátt leika sér aðeins meira með þessar fígúrur. Örn Árna er hins vegar í mesta stuðinu, sem bæði sögumaður og aðrir karakterar.

Mér finnst stundum rosalega erfitt að hlæja endalaust að sömu bröndurunum aftur og aftur, eða þegar formúla húmorsins verður svo lúin og útreiknanleg. Lukkulega er brandaramagn myndarinnar svo gríðarlega mikið – og stundum fjölbreyttara en mann grunar – að ef einn steindrepst við fyrsta flutning er alltaf stutt í annan, og þegar myndin er svona á kafi í eigin meðvitund er hressandi þegar henni gengur að hitta í mark. Harrý og Heimir eru í sínum fínasta gír, þeir taka sig ágætlega út á stóra skjánum og sökum ömurlegrar samkeppni er myndin þeirra orðin núna ein sú fyndnasta frá okkur í áraraðir. Ég gef henni líka smá klapp fyrir að kynna mér fyrir hugtakinu „Continuity tourette“.

fin

Besta senan:
‘Alltaf er nú sopinn góður’

Categories: "Mynd" | Leave a comment

Lífsleikni Gillz

Note: Fyrst að titilmaðurinn fær að sletta úr sér vitið með enskuna, þá nýti ég hér mér tækifærið einnig í kvíarnar. En bara að þessu sinni.

Jú, hart kann Gillz að lyfta, djamma, umdeilanlega alltof mikið án þess að fara ofan í það með smásjá. En hann veit annars vegar hvaða hópa hann er að tala til en þeir kannski pæla ekki allir í því hvað „sannleikshúmor“ getur auðveldlega breyst í hégómafullan og niðrandi unglingahúmor. Ef einhverjir voru á þeirri skoðun um að „G-maðurinn“ hafi þurft að re-inventa sitt merki áður, eða átt að vera löngu búinn að því, þá hefur sjaldan verið meira þörf á því áður en núna. Burtséð frá misvolgu gæðum þessara fjögurra þátta sem voru klesstir saman fyrir bíóútgáfu, þá er allt löðrandi í svona „too soon“ fiðring þegar maður horfir á eitthvað sem basically er kallað „Ýktar en lógískar lexíur frá umdeilda manninum.“

roeeÉg skal segja þetta um Egil. Hann er alls, alls ekki slæmur ef við erum að ræða um útgeislun á skjá og léttan sjarma (og hvað okkar stuttu samskipti varðar; ákaflega kurteis og kammó gæi). Ef hann kæmi bara ekki svona oft út eins og hann elski sjálfan sig aðeins meira en kameran gerir þá væri hægt að nota hann rétt. Mér t.a.m. fannst hann virkilega standa sig í Svörtum á leik fyrir það sem hann var. Sést líka í þessum þáttum hans að hann kann að leika sér að orðum, þ.e.a.s. burtséð frá slettufjallinu sem myndast á stærð við samanlagðan vöðvamassa á skjánum. Mér fannst annars þættirnir Mannasiðir vera heldur einhæfir í formi en þó þrælgóðir. Kannski er ég bara meira ósammála djók(en-samt-ekki-djók)heilræðum hans í Lífsleikninni, þó ég viðurkenni að hann hitti naglann á höfuðið með einum eða tveimur höggum af hverjum þrjátíu. Sennilega eru tímarnir bara svona breyttir síðan 2010, eða efnið bara almennt orðið þreyttara, þ.a.l. ófyndnara, á vitlausum stað á röngum tíma, í réttu kvikmyndahúsi en samt ekki.

Eins töff og fylgjendur „G-Höfðingjans“ telja það vera að bomba þessu í bíósali þá eru það stór mistök að mínu mati. Á undan sýningunni sem ég fór á var sýnd lengsta – grínlaust, LENGSTA – hamborgaraauglýsing veraldar, frá Fabrikunni (dö…), og hún kom út í bullandi háskerpu en þegar Lífsleiknin fór í gang var þetta eins og að spila DVD disk með árshátíðarvídeói bransaköggla, pixlað og ljótt þegar skellt er því upp á tjöld kvikmyndahússins með mest viðeigandi nafnið. Gillz-höllin hefði líklega leyft þessu að shæna ef hugmyndin hefði verið sú að búa til eitthvað bíómyndaefni frá upphafi, í bíógæðum, en nei. Þessir þættir eiga eingöngu heima á tölvuskjám eða HD sjónvörpum ef maður situr nógu langt frá. Á svoleiðis skala eru framleiðslugæðin og samsetningin meira en ágæt.

Heldur er það þó þreytandi prógrammið þegar fjórir þættir eru sýndir trekk í trekk. Væri ég aðdáandi þáttana væri mér örugglega meira sama, en djókarnir eru svo shallow og fullir endurtekninga að snjallt væri að leyfa sér að speisa þá meira út, sem er einmitt ástæðan af hverju þetta á að vera SJÓNVARPSefni. Hefði ekki verið sanngjarnt að rukka þá töluvert minna fyrir miðann? Eða eru dýrkendum hins Þykka bara slétt sama?

relÍ ljósi umdeildra aðstæðna er skiljanlegt að þetta hefur legið á hillunni síðan 2011. Aðdáendurnir fá að sjálfsögðu alla gleði ofan í sig og ég læt lesendur meta það sín á milli hversu mögnuð fyrirmynd það er sem kennir manni að allir samkynhneigðir karlmenn elska mest að ræða um Eurovision, undantekningarlaust. Þessi „hommaþáttur“ (þriðji í röðinni, fyrstur eftir hlé) er svo ótrúlega Un-PC að ég sökk í sætið af aulahrolli og fáeinum glottum sem ég skammast mín fyrir (þökk sé Arnari Grant að mestu – og Haffa Haff fyrir að hafa húmor fyrir sjálfum sér, kannski fullmikinn). Það er eins og G-Force’ið tali óbeint niður til samkynhneigðra á meðan hann gerir grín af þeim haldandi síðan sjálfur að hann sé að knúsa hópana eins og þeir leggja sig fasta að sér. Að vísu gerir Tálkni (<– „gills“, get it?) mikið grín að sjálfum sér í leiðinni, en ekki alveg á réttum forsendum. Fyndið er eitt, rangt er annað og sérstaklega ef afsökunin er að ganga skilyrðislaust yfir mörk.

Það eru fínir kaflar þarna á milli, og því miður er hægt að kenna vanhæfum leikstjórum um færa rök fyrir því að þetta sé eitt fyndnasta íslenska efni sem hefur lengi ratað í kvikmyndahús – án þess að vera alfarið óviljandi hlægilegt, en fyrir minn ógreiddan aur eitt það vandræðalegasta til skiptana. Eins grunn og hugsunin á bakvið allt er, kemur sannleikurinn aðeins stundum í smáskömmtum. Ég hló t.d. að pælingum með allt utan höfuðborgarsvæðisins sem „krummaskuð“, þangað til efnið er dottið í vestrænu klisjurnar sem G-Bletturinn dýrkar svo og módelar sig eftir. Restin sveiflast til og frá og verður annað hvort  flöt og þegar einkahúmor bransavinanna er kominn í hámark byrjar maður að ranghvolfa augum. Steindi var löngu búinn að mjólka allt sem hann gat út úr staðreyndinni að frægt fólk á Íslandi elskar oft að taka þátt í gríni með öðru frægu fólki. Við föttum! Að vísu, miðað við fjölda íslenskra „stórleikara“ sem ekki mættu á frumsýninguna geri ég ráð fyrir að einhverjir þeirra vilji kannski ekkert tengja sig mikið við efnið, nema þeir voru bara svona uppteknir. Eða sögðu það.

Það er í sjálfu sér nákvæmlega enginn tilgangur að gagnrýna svona „verk“ því verkið gagnrýnir sig sjálft og markhópurinn og áhrifagjörnu einstaklingarnir sem sjá alla djóka sem sannleika eru nokkuð læstir á meðan aðrir horfa í hina áttina. Sumir gefa þessu eflaust átta (útbrennda?) Chuck Norrisa af tíu mögulegum, og tían fullkomnast svo hjá þeim þegar allir sex þættirnir eru komnir í hillurnar þar sem alvöru menningargullmolar ættu að vera, Pappírs-Pési sem dæmi. Hinir, þeir sem slysast til að horfa á þetta og vita ekki af hverju, ættu varla að splæsa í þetta meira en einum eða tveimur Zac Efron’um af tíu. Bara ef þeir eru í góðu skapi.

fimm

Besta senan:
Slagsmál í sveitalífinu.

Categories: "Mynd" | Leave a comment

Powered by WordPress.com.