nei takk

Men in Black: International

Nú er ég alveg tilbúinn til að taka til baka allt það vonda sem ég hef sagt um Men in Black II og 3, þó svo að þær hafi verið báðar slappir og sterílir skuggar forvera síns (og ég skal meira segja leyfa því að slæda að önnur myndin ber rómverska tölu en hin ekki).

Jú jú, hin framhöldin höfðu í það minnsta EITTHVAÐ af steypusjarmanum, sköpunargleðinni og ruglinu sem gerði fyrstu myndina svo skarpa, pakkaða og skemmtilega. Will Smith var allavega gegnumgangandi í stuði, Tommy Lee Jones kann manna best að vera í fýlu og tókst Barry Sonnenfeld í það minnsta að djúsa vaxandi farsagangi þríleiksins einhverja orku.

Hvernig Men in Black International varð að veruleika mun ég seint skilja…

Og ef það er eitthvað sem Independence Day: Resurgence kenndi okkur, það er að þú skiptir ekki bara út góðum Will Smith sísvona…

En ókei, gefum okkur það að nýtt blóð, hressir og áreiðanlegir leikarar og kannski smá stefnubreyting hafi akkúrat verið það sem þetta brand þurfti á að halda, þá er þeim mun meira óskiljanlegt hvernig allir eru hálfsofandi í gegnum svona bitlaust og fúlt handrit sem dettur í sömu gryfju og hinar framhaldsmyndirnar; með því að í rauninni herma bara eftir fyrstu myndinni eina ferðina enn. Það er þó langt frá því að vera stærsti bömmer faktorinn við MIBI, hún er einfaldlega bara mökkleiðinleg.

Á eðlilegum degi er ekkert nema hressandi hluti að segja um Tessu Thompson og Chris Hemsworth, og þau reyna svo sannarlega allt sem hægt er að lífa upp á svona úldið, ófyndið og hugmyndalaust handrit. Hvorki þau né leikstjórinn eða handritið jafnvel nær að gefa kost á einhverri kemistríu á milli þeirra. Þetta er allt steindautt. Allt saman.

Framvindan kemst aldrei á nægilegt flug, hasarinn er illa klipptur og með engan púls og hverjum fínum leikara á eftir öðrum sóað í annaðhvort svæfandi exposition-skitu eða niðrandi brandara; hvort sem leikararnir heita Rafe Spall, Emma Thompson, Rebecca Ferguson eða Liam Neeson.

Nota bene, myndinni er leikstýrt af manni sem hefur notið þess áður að taka við keflinu af Barry Sonnenfeld. Hinn annars ágæti leikstjóri F. Gary Gray náði þó aldrei sömu hæðum þegar hann óð í framhaldið af Get Shorty, Be Cool. Svipað gerist hér og það eru óvenju lítil merki um einhvern sérstakan stimpil frá honum sem kvikmyndagerðarmanni. Að mestu til er hann bara að kópera stíl og tón Sonnenfelds beint (og meira að segja sömu upphafsfonta og stef) en virðist ekki alveg vera í þægindaramma sínum þegar kemur að kjánahasar og neinu of súrrealísku.

Eftir Fast & Furious 8 er Gray annars vegar nú orðinn vanur glansandi bílaauglýsingum og það er eina forljóta plögg-senu að finna í þessari, sem einhvern veginn best súmmerar upp hvað öll myndin er mikil söluvöruprumpfroða – Hin íðilfögru Chris Hemsworth og Tessa Thompson að pósa og selja svört jakkaföt og sólgleraugu á meðan þau stíga inn í glansandi Lexus-bíl (eftir að hafa bókstaflega svipt hulunni af honum) og keyra svo af stað til að sparka í rassa.

Svarið liggur þó svo skýrt í augum uppi: Ef viðkomandi vill sjá Hemsworth og Thompson vera bæði töff og eldhress, þá er Ragnarök allan dag að sigra þennan slag. Það er engin skömm í forvitnisglápi og en hafið varann á; Men in Black International sýgur ansi djúpt og kjánalega; söguþráðurinn er leiðinlegur, hasarinn er leiðinlegur, skúrkurinn er leiðinlegur og ég verð leiðinlegri því lengur sem við tölum um þessa mynd. Það er auðvelt að koma með brandara um að áhorfendur þurfi minnisþurrk að glápi loknu, en versti glæpur allra MIB mynda er að sjá til þess að framvindan hverfi úr minninu áður en hún klárast.

Getum við plís horft aftur á Thor: Ragnarök?

This image has an empty alt attribute; its file name is aviator-20sunglasses-20vector-2048.png

Categories: Ævintýramynd, nei takk, Spennumynd | Leave a comment

Pokémon: Detective Pikachu

Af hverju?

Ókei. $jálfsagt veit maður af hverju, en samt…

Hvað er það við Pokémon-æðið? Er það mýþólógían? Heimurinn? Hönnunin? Dýragrimmdin?

Og af hverju gat ekki Pikachu bara sagt “Pika Pika” alla myndina?

Af hverju Ryan Reynolds? Þetta er súper-truflandi. Jörðin er sammála.

Af hverju þurfti myndin að snúast mest í kringum ungt fólk sem kann ekki að leika? Eða gat að minnsta kosti ekki bjargað sér í gegnum súru tækifærið sem hér var bæði sóað og ekki tekið alla leið.

Þessi neo-noir nálgun er krúttleg, en aldrei gerir sagan neitt spennandi eða nýstárlegt við harðsoðnu spæjaraformúluna. Það nægir ekki bara að vinkillinn skuli vera sá að stór hluti fígúra eru Pokémon-skepnur. The Happytime Murders reyndi þetta í fyrra með glötuðum árangri. Hún tók fyrir úldna noir-formúlu, en gerði ekkert við hana annað en að salta klúrum brúðum út beinagrindina og reiða sig í raun á einn stóran brandara.

Ég efast heldur ekki um að flest allar af þessum árlegu teiknibíómyndum – sem enn þann dag í dag eru framleiddar af færibandi – séu allar hugmyndaríkari og villtari en nokkurn tímann þessi.

Engin Poké-mynd sem inniheldur Mew-Two að ganga berserksgang á að vera svona væmin!
Eða hvað?

Ég gef myndinni þó prik fyrir tvo fína brandara og það að koma Bill Nighy svona vel fyrir í þvælunni. Hann er milljón, sérstaklega þegar Pokémoni fer að tala í gegnum hann.

Annars vont. Poké-mongó.

Besta senan:
Yfirheyrslan var ansi góð. Skal játa það.

Categories: Ævintýramynd, nei takk | Leave a comment

Wonder Park

Snögg spurning:

Finnst þér gaman að horfa á holóttar, froðukenndar, sykurhæpaðar teiknimyndir sem ráðast á augu þín og eyru með öllu og engu?

Wonder Park hefði trúlega átt að vera betur sögð í barnabókaformi, með myndum sem ungt barn hefði skreytt. Myndin er algjör skel af bíómynd – krónískt töfralaus saga um töfrandi skemmtigarð – og aðeins bærilega renderuð grafík forðar hana frá því að vera illhorfanlegt drasl sem sendir út augljós og hálfbökuð skilaboð um sorg, missi og ímyndunarafl. Þetta er algjör fratvara sem hefur nær eingöngu verið hent út til að gefa (semí?-)þekktum leikurum einhver raddhlutverk. Stuð.

En frekar en að eyða óþörfum orðum í þessi ömurlegheit vil ég leggja fram sýnidæmi.

Kíktu fyrst á þessa klippu úr Wonder Park…

Og síðan á þessa seríu af ömurlega flippuðum snillingum eða hálfvitaforeldrum og segðu mér hvort hafi vakið upp jákvæðari viðbrögð.

„Eina vefju bara, sleppum barnaboxinu.”
Af hverju … ekki?
„Vertu hér gæskan á meðan pabbi sækir símann.”
„Þarna sé ég mæðrasvipinn.”
„Þú baðst um hlaup, krakki.“
Það þarf að skemmta foreldrunum í dýragörðunum líka.
„Snooze, takk.”
„Hjálp!”
„Þarna er mamma.”
„Til lukku með nýja litla systkinið, snúlla. Þá fögnum við.”
„Lítinn poka eða stóran?”
Afkvæmið þreifar sig fram í starfi föður síns.

Ef B er fyrir valinu þá náði ég að hlífa þér frá miklum hausverk. Dreifðu orðinu.

Categories: nei takk, Teiknimynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.