nei takk

A Star is Born (2018)

Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Aftur á móti verður hver og einn að spyrja sig hvort mörkin þar séu loðin þegar um er að ræða endurgerð af endurgerð… af endurgerð.

Continue reading

Categories: Drama, nei takk, Rómantísk | Leave a comment

The Mummy (2017)

Þökk sé ofurhetjumyndum þá er víst ógurlega vinsælt hjá Hollywood í dag að útbúa tengda bíóheima í von um að útkoman jafngildi peningaprentsmiðju. Aðstandendur Universal-stúdíósins sáu gullið tækifæri til þess að gera eitthvað nýtt við sígildu, yfirnáttúrulegu skrímslin sem falla undir þeirra hatt, en þeirra á meðal er Frankenstein-skepnan, úlfamaðurinn, ósýnilegi maðurinn, Drakúla og að sjálfsögðu múmían. Planið er nú að framleiða á færibandi nýjar, poppaðar útfærslur á þessum fígúrum undir heitinu „Dark Universe“.

Upphaflega átti Dracula Untold (þessi með Þorvaldi Davíð) að vera fyrsta innslagið í þessari seríu, en aðsóknartekjur hennar voru litlar og viðtökur annað en hlýlegar. Þess vegna er komið að Tom Cruise (og Russell Crowe í stóru gestahlutverki) að ýta þessu úr vör.

Múmíur í kvikmyndum hafa vissulega tekið á sig ýmiss konar form, reyndar ekki alltaf frambærileg, en það hefði mátt sleppa því að endurlífga þessa. Þessi tiltekna útfærsla múmíunnar lætur fyrstu myndina í seríunni líta út eins og stórbrotna klassík í samanburðinum, en þetta er þó hvorki endurgerð á þeirri mynd né hinni upprunalegu frá 1932. Þú veist þó að þú ert á slæmum stað þegar áhorfandinn er farinn að óska eftir því að Brendan Fraser snúi aftur til að krydda fjörið.

Óheflaður áhugi Tom Cruise virðist litlu sem engu bjarga þar sem myndin er skelþunn, frústrerandi, illa skrifuð, hlægileg þegar leikstjórinn tekur sig of alvarlega og í senn býsna niðurdrepandi þegar hann reitir af sér úrelta brandara.

Það er margt hægt að afskrifa sem einfaldlega „heilalaust afþreyingarbíó“, en yfirleitt gengur slíkt betur upp ef kvikmyndagerðarfólk er annaðhvort meðvitað um aulaskapinn eða leyfir myndunum að taka sig svo alvarlega að þú hlærð frekar að þeim heldur en með. Í The Mummy er frásögnin ekki bara þvæld heldur hefur leikstjórinn enga hugmynd um hvaða takmark hann hefur sett sér; hvort myndin eigi að vera spennutryllir, gamansöm hrollvekja, ævintýraleg ástarsaga eða löng stikla fyrir komandi stefnur og strauma í þessum Dark Universe myndabálki.

Niðurstaðan er sú að reynt er að hræra öllu þessu saman úr handriti sem er hreinn hryllingur út af fyrir sig, en það er stútfullt af kjánalegum samtölum, þreyttum klisjum, aulalegum reddingum og stöðugum útskýringum eða endurtekningum, eins og sé verið að reyna að ná til yngstu krakkanna, eða tala niður til áhorfenda eins og þeir séu krakkar. Á þeim nótum er erfitt að skilja hvers vegna myndin hlaut þau örlög að vera bönnuð innan 16 ára hér á landi.

Það er voða vinsælt að hata Cruise, en hvernig sem má gagnrýna fjölbreytni leikarans eða trúarbrögð verður því ekki neitað að hann gefur sig alltaf fram 100 prósent. Hann er sífellt til í að láta tuska sig fram og til baka eða hanga á hverju sem þarf, ef markmiðið snýst um að vera flottur á skjánum. Það getur líka verið ánægjuleg tilbreyting þegar stórstjörnur breyta til og leika skíthæla í stað þess að blása upp „kúlið“.

Cruise gerði það í Edge of Tomorrow og endurtekur það sig nokkurn veginn hér, en hluti af fjörinu við Edge of Tomorrow fól í sér að sjá drullusokkinn ítrekað deyja á kómískan máta. Í The Mummy er persóna hans svo gott sem ósigrandi og fara taktarnir að missa marks eftir aðeins nokkrar senur. Auk þess er karakterinn einstaklega sjálfhverfur og óheillandi og því er erfitt að halda með honum.

Cruise sóar þeim hæfileikum sem hann hefur, þar sem hann stendur með sama undrandi svipinn alla myndina, en þó er hann í sprækari gír en Annabelle Wallis, einhliða mótleikkona hans. Í sameiningu er eins og takmark þeirra sé að reyna að skapa eins lítið neistaflug og mögulegt er, þótt myndin reyni ítrekað að sannfæra þig um hið þveröfuga. Russell Crowe í hlutverki Dr. Jekylls virðist síðan lítið gera af viti annað en að ofleika, útskýra allt í hel og kynna fyrir áhorfendum hvernig heimurinn á að virka.

Leikkonan Sofia Boutella bar sig eins og ósvikinn töffari í Kingsman: The Secret Service og Star Trek Beyond, en reynist vera ákaflega flöt og áhrifalaus hér. Áætlað var að gera múmíuna að skuggalegri og kynþokkafyllri veru, en í staðinn kemur hún einkar hallærislega út. Það er reyndar ekki Boutella að kenna því í þessari mynd er það undantekning ef eitthvað kemur ekki hallærislega út.

The Mummy inniheldur lítið af sál eða persónusköpun og stemningin er meira í líkingu við leiðinlega vitleysu þegar mun betur hefði farið henni að vera heilalaust stuð. Keyrsla myndarinnar er hröð, en það eitt og sér getur ekki haldið öllu á flugi, burtséð frá því í hvaða brellu- eða áhættuatriði peningunum hefur verið hent.

 


Besta senan:

Flugvélin, býst ég við?

(þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 15. júní)

Categories: Ævintýramynd, nei takk | Leave a comment

After Earth

Það væri frábært tvist ef „gamli“ M. Night Shyamalan myndi einn daginn snúa aftur, eins og allt fallið hefði verið planað, því ég neita að trúa því að einn maður – sem þykist elska atvinnu sína svona mikið – getur ofmetið sjálfan sig svona þvílíkt og gert svona margar feilaðar myndir óviljandi. Ekki nema honum hafi þá frekar tekist að gera fínu myndirnar fyrir slysni.

Í dag hlær maður bara af því en í kringum aldamótin voru sumir orðnir svo fljótfærir að kalla manninn „nýja Hitchcock.“ Egóið hans magnaðist síðan með tímanum og að þessu sinni sameinast það við annað, jafnvel stærra egó. Í fljótu bragði er erfitt að ímynda sér vandræðalegra kombó: M. Night og frægir feðgar sem vilja baða sig í sjálfsdýrkun í sci-fi mynd vinnur lítið úr því sem hún hefur. Rosalega þarf líka orðið að ýta ofan í veröldina að Jaden Smith sé víst kominn til að vera. Ég var akkúrat að vonast til þess að Pursuit of Happyness hafi bara verið svona einstakt, dúllulegt dæmi hjá honum og pabba sínum. Nú er þetta komið gott. Þetta gekk þar, ekki hér.

After Earth hefur fínan grunn en metnaðurinn er í ruglinu. Í samanburði við The Last Airbender skömmina er þessi mynd reyndar aðeins Shyamalan-legri en það hætti að vera góð lýsing fyrir meira en áratugi síðan. Flestir gallar sem hafa hrjáð hægustu myndir leikstjórans (þessar sem voru óspennandi og með svæfandi drama) fylgja með þessari, og líka eitthvað af því sem drap Airbender. Jákvæðir punktar eru til staðar en prumpulyktin er ekki enn farin af mannfýlunni á bakvið hana.

Myndin er leiðinleg, illa skrifuð (almáttugur, þessi framvinda!), sóðalega einföld og áhugalaus miðað við hugmyndaflugið í kringum hana, sem þýðir að „ónefndur“ kvikmyndagerðarmaður hefur enn einu sinni sóað flottu tækifæri til að reyna á þolinmæði smekksfólks. Myndin nær einnig því óskiljanlega markmiði að vera bæði köld og væmin á sama tíma, og það gerir hana enn kjánalegri. Handritið var hálfbakað fyrir en áttavillta leikstjórnin tekur allt sem er slakt og gerir það verra. Það er enginn betri í því að gera Shyamalan-paródíur heldur en hann sjálfur. Ég er næstum því sannfærður um það að eini maðurinn sem hefði getað gert eitthvað sæmilegt úr þessu væri Spielberg, sem étur upp svona feðgasögur meira en nokkur annar.

Will Smith hefur mér alltaf þótt skemmtilegur en sjálfumglaður maður með vafasamt vit á gæðum. Þetta er nú sami maður og sagði pass við Django því honum fannst hann ekki vera í nægilega stóru aðalhlutverki, og varla þarf að ræða hverju hann hafnaði til að gera Wild Wild West í staðinn. Hann á nóg af aðdáendum og nú vill hann sanna sig sem bestasti pabbi í heimi með því að skipuleggja heila bíómynd fyrir og í kringum son sinn. Þetta er Smith-vara út í gegn. Hann framleiðir með konunni sinni, leikur og samdi söguna. Krúttleg tilhugsun, þannig séð, en óneitanlega stuðandi hégómi engu að síður. Hér er einmitt eitthvað sem heimurinn þarf ekki á að halda: latar, dýrar tilfinningafroður sem urðu fyrst og fremst til sem (afmælis?)gjafir handa dekruðu celeb-barni.

Will reynir að fela það en ég man varla eftir honum hégómafyllri, ótrúlegt en satt. Í sögunni er hann gerður að tilbeðinni hetju með svalan stórgalla – og reyndar útreiknanlega örk og fáránlegt nafn (Cypher… Raige??). En til þess að sjá sérstaklega til þess að skyggja ekki á „kúlið“ hjá syni sínum – því það er hann sem við eigum öll að elska í þetta sinn frekar en hann – þá heldur hann sig frá hasarnum (svona eins og Denzel í Bone Collector). Jaden fær sviðsljósið út af fyrir sig, en það hljómar aldrei ásættanlega nema Jackie Chan fylgi með. Drengurinn er margt, en stór burðarhlutverk gæti tekið hann tíma til að ná tökum á.

Ég skal samt gefa feðgunum það að þeir eru alls ekki lélegir. Jaden er ekkert voðalega heillandi þó. Hann gerir sitt besta og er langt frá því að vera vonlaus, en þegar maður skynjar stoltið og alvöru bönd ríku feðganna dettur maður smávegis út úr. Krakkinn er ágætur en óverðskuldaða bústið sem hann fékk frá foreldrunum mun alltaf svífa yfir honum. Aðeins einu sinni hefur hann leikið í „alvöru“ bíómynd sem var ekki framleidd að hluta til af Will. Sú mynd var endurgerð á ómetanlegri klassík og getur enginn sagt annað en að Jaden hafi verið óþolandi í henni. Vonandi sannar hann sig í framtíðinni á meðan við erum ekki laus við hann.

Will er auðvitað eftirsóttur bransaþursi af ástæðu, hann getur leikið og kastað af sér sjarma. Í After Earth er samt lítið rými fyrir sjarma og leikstíll leikstjórans er leiðinlegur og vandræðalegur eins og vanalega. Mér þykir alltaf svo athyglisvert að sjá hvernig maðurinn reynir svo oft að vekja einhver dramatísk áhrif þegar hann sogar sjálfur allar tilfinningar úr þessum atriðum sínum. Eftir stendur bara kjánahrollur og listræn leiðindi. Undirtónar Vísindakirkjunnar eru sömuleiðis áberandi. Skynja ég smá áróður þarna líka?

After Earth á ýmislegt sameiginlegt með hinni nýlegu Oblivion, að því leyti að vera báðar vísindaskáldsögur unnar af færibandi og egótrippi frekar en umhyggju fyrir grípandi efnistökum. Báðir Tom Cruise og Will hafa sumsé reynt að prufa eitthvað „ferskt“ til að bæta við geirann á þessu ári en endað uppi með tóm útlitsílát, sundurtættar hugmyndir og lata handritsgerð. After Earth er samt talsvert slappari og þegar horft er á hana skín það beint í gegn að Shyamalan hefur ekki haft einbeitta hugmynd um hvernig mynd hann var að gera (ókei, það bjóst enginn við vandaðri vinnu, en samt!). Það eina sem er markvisst eru skilaboðin sem hún hefur að segja um viljastyrk og ótta, en þau eru líka álíka lágstemmd og kaffibolli í andlitið. Það eina sem þarf að óttast er óttinn sjálfur, og það er eins og þessi mynd haldi í raun og veru að hún sé að segja okkur eitthvað nýtt þarna.

Shyamalan og Smith vissu líklega ekki hvort þeir ætluðu að gera þroskaða, ævintýralega og „áhrifaríka“ fjölskyldumynd eða kalda, spennandi sci-fi mynd fyrir breiða nördahópa. Augljóslega gengur hún upp sem hvorugt. Hún er óvenjulega brútal, hæg og langdregin fyrir krakka en fullbarnaleg, ómerkileg, heimsk og fyrirsjáanleg fyrir þá sem eru eldri. Útlitið er ágætt en hasarinn tekur sjaldan flug, og þegar svo gerist, þá hættir hann strax um leið eða rústast með vondri byggingu og ljótum brellum. Handritið velur líka oft mjög ódýrar leiðir til að binda enda á hættulegar aðstæður, og skapa þær. Tónlistin er ekkert spes heldur. Það er mjög lítið eftir til að hrósa.

Shyamalan kann greinilega vel við sig á botninum og ég vona satt að segja að allir sem komu að After Earth lærðu eitthvað af henni. Lady in the Water er algjört listaverk í samanburði en mest er ég feginn að hafa fengið eitthvað örlítið skárra heldur en Airbender. Hræðileg mynd samt. Það verður ekki tekið af henni.

thrir

PS. Trivia-síða myndarinnar á IMDb er merkilegri og athyglisverðari heldur en allt sem sést á skjánum út þessar 100 mínútur.

Besta senan:
Nei.

Categories: Ævintýramynd, nei takk, Sci-fi | Leave a comment

Powered by WordPress.com.