Rómantísk

Winter’s Tale

Akiva Goldsman hefur verið aðallega þekktur sem handritshöfundur og framleiðandi og eftir að unnið við sagna- og kvikmynda(og sjónvarps-)gerð í rúm tuttugu ár sest hann áhugasamur og kátur í leikstjórasætið með frumraun sinni á hvíta tjaldinu, en gæti orðið smátími þangað til að hann ætti að prófa það aftur.

Heilum sautján árum síðar tókst honum aldrei endanlega að hrista af sér skömmina sem fylgdi því að vera titlaður fyrir handritið á Batman & Robin. Seinna náði hann svo að græja sér (óverðskuldaða!) Óskarsstyttu og setti nafn sitt á marga hittara, öðlaðist þá meira og meira „kred“ í bransanum með hliðarskammti af frægum félgöum. En með fyrstu tilraun sinni til að sanna sig sem eitthvað meira stútar hann hvað af því góða sem var eftir af mannorðinu. Winter’s Tale er svo snilldarlega slæm að hún hefði aðeins getað verið unnin af amatör-leikstjóra, gæðaskertum framleiðanda og meðalgóðum handritshöfundi í besta falli, upp á sitt versta. Þetta skrifast nú allt á sama manninn.

Merkilega náði einn maður að taka svo margar skelfilegar ákvarðanir (í forvinnslu, á tökustað, í klippiherberginu, með brelludeildinni) með ekkert nema hlýjar ásetningar í huga. Einlægni verður óafvitandi að húmor og allir töfrar og mystík sem sóst er eftir breytast í móment sem valda vægum sjokk-svipum. Myndin tekur sig óskynsamlega alvarlega, býður upp á áskrift að aulahrolli og væmnin sem kæfir hana jaðar við persónulega áskorun (og nógu væmin er hún til að War Horse myndi hlæja), ef ekki æfingu í hvernig skal gera fræga leikara að fíflum haldandi að þau séu að gera góða mynd fyrir mann sem á sér öflugt tengslanet.

Goldsman hefur lýst þessari glansandi prumpfantasíu-ástarsögu sem ‘ævintýri fyrir fullorðna’ (en ekki í sömu merkingu og t.d. Backside to the Future) . Sum staðar er myndin kölluð A New York Winter’s Tale, til að forðast eðlilegan rugling við Shakespeare-söguna. Vel gæti ég trúað því að þessi 800 blaðsíðna bók sem hún er byggð á kemur þessari hlægilegu koddaælu til skila betur á blaði. Goldsman er þekktur fyrir það að bæði klúðra fínum bókum og betrumbæta nokkrar bærilegar. Hér hefur hann greinilega tekið stórt kvikindi og hakkað því á röngum stöðum með óskipulagðri nálgun. Sumir þræðir í þessari sögu eru ruglingslegir og ófókuseraðir, að þannig leyti að ég var alveg týndur á tímapunkti. En eina leiðin til að blekkja fræga leikara í hörmung af þessari gráðu er að eiga inni stóran greiða hjá þeim. Winter’s Tale er þessi vandræðalega mixtúra af tímaskekkju, furðulegheitum, leiðindum og hver einasta manneskja á skjánum nær óskiljanlega að halda andliti.

Fyrir utan Colin Farrell og Downton Abbey leikkonuna Rebecca Brown Findlay hafa þessir helstu unnið áður með Goldsman og væntanlega fundist hann eiga eitthvað inni hjá sér. Russell Crowe og Jennifer Connelly voru t.d. í A Beautiful Mind, Will Smith í I Am Legend og William Hurt var ekki látinn gleyma stórvirkinu sem var og hét Lost in Space. Allir sem einn eru hlægilegir vegna þess að samtölin eru glötuð og leikstíllinn enn verri hjá þessum blessaða „leikstjóra“. Ef fantasíusjarminn fylgir ekki svona týpu af myndum er restin svo góð sem glötuð. Leyfist mér þó að benda á það fljúgandi töfrahestur stelur einn senunni. Crowe er jú, reyndar alveg yfirburðavondur og hef ég ekki hugmynd um hvort hann sé að setja upp írskan framburð með alvöru eða til gera grín að hreimnum. Will Smith fer nota bene með hlutverk Djöfulsins í nokkrum atriðum, og sjónin og hallærisleikinn gæti ekki trompast nema sonur hans hefði leikið þetta.

Winter’s Tale er fyndinn viðbjóður, lítur oft ásættanlega út en samt er svo erfitt að meika hana. Þegar það er fljótt orðið guaranterað að sé nákvæmlega engin leið til að sýna sögunni tilfinningalegan áhuga hellist bara yfir mann hver soraþróunin á eftir annarri. Myndina skortir allt pósitíft í efnistökunum nema krútthjarta, en þegar sagan verður orðin svona fíflaleg er ég annaðhvort kominn inn í óbeina paródíu eða vondan hrekk. Vissulega þakka ég henni svosem fyrir hlátursköstin en á móti líður mér eins og myndin (og þar af leiðandi herra Goldsman) hafi sigrað mig, því þegar ég fékk loksins leið á því að bregða yfir því hve slæm hún var, fattaði ég þá að ekkert væri hægt að gera annað en að leyfa henni að klárast. Átakanleg en óvenju lærdómsrík seta.

tveirBesta senan:
„What have you gotten me into, horse?“

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, Ævintýramynd, Rómantísk, Sori | Leave a comment

Her

Þótt ótrúlegt megi virðast er ástarsaga milli manns við hugbúnað með gervigreind (svona gíga-uppfærð, sexí útgáfa af Makk-dálætinu Siri) einhver sú jarðbundnasta og mannlegasta mynd sem Spike Jonze hefur gert hingað til. Líka sú hreinskilnasta.

Fyrir alla sem þekkja ekki manninn á bakvið vélina hljómar þessi mynd eins og brandari, eða í betra falli Arrested Development-brandari, og má bóka það að hún sé á köflum ruglað fyndin en lágstemmda dramað er það sem lætur hana virka. Með þessum óvenjulega en yndislega sjarma mun Her bókað opna aðdáendahóp Jonze í framtíðinni en ólíklegt er að hún vinni marga á sitt band sem voru lítið sem ekkert hrifnir af fyrri verkum hans. Ég tel samt ekki Björk-vídeóin og Where the Wild Things Are með, útaf ólíkum ástæðum, en sem eigin handritshöfundur gæti hann varla betur staðið á eigin fótum í þetta sinn.

Her hefur helling að segja um fólk, nútímasambönd, tæknina og flýtur á einlægri, einfaldri frásögn. Ég verð hissa af Jonze gerir einhvern daginn betri mynd heldur en Adaptation, án Charlie Kaufman, en Her er engu að síður unnin af blómstrandi væntumhyggju og hefur Jonze aldrei verið persónulegri með skrif á sögu, enda sú fyrsta sem hann hefur frumsamið frá byrjun til enda.

Hefði leikstjórinn gert þessa mynd eftir tíu ár væri hún samt álíka fersk, einstök og relevant í samtíma sínum. Handritið hugsar lógískt fram í tímann í tengslum við hvert samskiptatæknin stefnir en byggir svo skemmtilega úthugsaðan heim í kringum hana (takið t.d. eftir hvað allir eru alltaf einir í margmenni). Hún hittir alveg á naglann með hversu órjúfanleg tengsl við tæknióða fólkið myndum alltaf við græjurnar okkar. Það er að sama skapi með ólíkindum hvernig hún fær mann til þess að „investa“ í alvörunni með frumlegasta ef ekki súrasta skjápari kvikmyndaársins.

Annars hef ég, og eins með örugglega marga aðra, velt því lúmskt fyrir mér tenginguna á milli þessarar myndar og Lost in Translation (sem er önnur ljúf dramedía um einmanaleika og tengingar – og er æði). Það er skiljanlegt miðað við það að Jonze var eitt sinn giftur Sofiu Coppola, og hún skrifaði hann inn í sitt eigið handrit sem mjög önnum kafinn og fjarlægan maka – leikinn af Giovanni Ribisi. Í Her gerir maður ráð fyrir því að leikstjórinn hafi skrifað mikið af sjálfum sér í andfélagslega ljúflinginn sem Joaquin Phoenix leikur, sem er sjálfur nýskilinn og á hægum batavegi eftir hjónaband við spúsu sína sem rólega fór að fjarlægjast.

Allavega…

Kannski eru þetta óhjákvæmilegu afleiðingar þess þegar tveir þekktir og nokk svipaðir listamenn sundrast og skrifa sögur sínar í sitthvoru horninu. En þegar báðar eru settar saman er varla hægt að sjá ekki óviljandi þessi merki, án þess að þau þýði í rauninni neitt. En svo finnur maður alltaf nýjar litlar tengingar. Sama aðalleikkona er augljóslega í báðum myndum, sem eru undir sterkum austurlenskum áhrifum. Her gerist í Kaliforníu, en útiskotin voru öll tekin í Tokyo og Shanghai. Staðsetningarnar eru annars vegar það sem gefa myndinni ákveðinn „framtíðartón“ ef svo má segja. Tónlistareyrað sem hún hefur er ekkert síður aðlaðandi.

Ég kann sérstaklega að meta það í Her hvernig hún leyfir sér aldrei að dvelja of mikið á (semí-)sci-fi hlutanum, heldur dílar hún bara við þau element eins og ekkert sé hverdagslegra. Jonze talar aldrei niður til áhorfena sinna og hlutirnir eru aldrei varpaðir út í handritinu að óþörfu heldur bara layeraðir inn í náttúrulegan díalog eða koma eðlilega fram í gegnum önnur samskipti.

Phoenix hefur dílað við marga djöfla í lífinu en styrkleikar hans sem leikari hafa sjaldan verið aðdáunarverðari í sinni vinnu og eftir að eitthvað losnaði í hausnum á honum. Síðast var hann átakanlega góður í The Master og í þessari mynd tekur hann annan – og talsvert blíðari – snúning en gefur ekkert síður eftir. Phoenix er að mestu einn út alla myndina burtséð frá litríkum liðsauka sem kemur og fer í kringum hann, fyrir utan að sjálfsögðu „samleikinn“ sem hann á við röddina hennar Scarlett Johansson. Stýrikerfið Samantha, sem er annar helmingur rómantíkinnar, hljómar eins og hún en aldrei einu sinni sést leikkonan neins staðar. En samt finnur maður fyrir henni, aðallega í gegnum það hversu vel Phoenix nær að selja alla samveruna með hrifningu sinni. Svona frammistöðu má alls ekki vanmeta. Ekki samt pæla of mikið í því fyrirfram eða á eftir hvernig þau „geraða“, því þau gera það. Stunukvótinn sem frú Johansson hefur gefið handóðum unglingum á árinu 2013 verður makalaust langlífur. Sáu ekki annars allir Don Jon?

Amy Adams er alltaf dásamleg og vanalega ein sú snjallasta þegar kemur að hlutverkavali. Það er ekkert neikvætt um hana að segja í Her og litla kemistrían sem hún á með Phoenix er óskaplega trúverðug og sterk. Vandinn við hlutverkið hennar og hvernig það er skrifað er að það kortleggur nánast alveg beint fyrir manni hvert hún og myndin stefnir með hana, og það setur ákveðinn fyrirsjáanleika í hana. Ef út í það er farið er niðurstaðan á stærsta vandamálinu í lokin, eða betur sagt það sem verður um þróunina, pínu máttlaus og hefði mátt leysa með aðeins ósnyrtilegri hætti. Síðan dettur myndin örlítið á langinn þegar verður stöðugt sýnilegra hvert hlutirnir fara, en síðan þegar hún klárast er samt eins og flæðið hafi allt verið þess virði.

Chris Pratt þarf annars ekki að gera annað en að sporta sömu perramottuna og Phoenix og ganga í svipuðum klæðnaði að auki, og hann er lúmskt fyndinn, sama hvað hann segir. Tölvuleikjafígúran sem Spike sjálfur talsetur er líka stórsnilld („She‘s fat!“), Portia Doubleday er æði sem þátttakandi í einum óvenjulegasta trekanti allra tíma en því miður er enginn sem rokkar sinn stutta tíma betur en óséð Kristen Wiig á hinum endanum í símakynlífsatriði. Hilaríus!

Hver og ein þessara leikaraeininga kortleggja skýrt og betur út lífið hjá aðalpersónunni, Theodore. Hann er maður sem hefur þvingað sjálfan sig í félagslega og veraldlega einangrun, og á í einhverju basli með að tína sér saman aftur eftir skilnaðinn. Hann er eðlilegur maður með eðlilega galla en kostirnir eru magir; hann er næmur, kurteis og kvenlegur (eins og Pratt orðar það) enda starfar hann við það að skrifa persónuleg ástarbréf til ókunnugs fólks. Það er allt partur af mjög skerí raunsæisádeilu. En kannski vegna þess að söluvaran sem maðurinn laðast að sé einangruð á sinn veg á að hann auðvelt með að laðast að henni. „Stýrikerfið“ Samantha er svífandi og stöðugt þróandi, vaxandi meðvitund læst inni í hörðu drifi. Í gegnum hana lærir Theodore að verða aftur betri útgáfan af sjálfum sér og byrjar að sjá heiminn í nýju ljósi út frá sjónarhorni forrits sem vill endalaust læra um nýja hluti og stækka stafræna heilabúið.

Gegn öllum náttúrulögmálum er Her ein af betri ástarsögum sem hafa komið út í mörg ár; ljúfsár, sérvitur, fyndin og elskulega lítil. Hún er mynd um tæknina, samskipti, mynd um þörfina til að „tengjast,“ mynd um að læra og horfa áfram svo lengi mætti röfla áfram. Hljómar sjálfsagt allt mjög tilgerðarlega og leiðinlega, og mörgum á sannarlega eftir að finnast hún það, en hjartað og raunsæið verður hvort tveggja millimetrum stærra hjá þeim sem eru á hinu málinu. Tónlistin frá Arcade Fire er líka svolítið gúrme, gleymum því ekki…

atta

Besta senan:
Þriðja hjólið. Og kattarkonan.

Categories: Drama, Gamanmynd, Rómantísk | Leave a comment

I Give it a Year

I Give it a Year væri betri mynd ef allir væru ekki svona rosalega heimskir í henni, en þá þyrfti hún auðvitað líka að vera allt öðruvísi mynd. Hér er (ó)rómantísk deit-gamanmynd á ferðinni um par sem giftir sig í fullmiklu flýti. Skötuhjúin fjarlægjast fljótt og gæla í sitthvoru lagi við framhjáhald. Í kringum þessi viðhöld snýst sitthvort plottið, þar sem áhorfandinn á að *vilja* að parið sem gifti sig í byrjuninni sundrist og sækist í annan paka, í gegnum kómíska atburðarás. Ekki datt mér í hug að deit-markhópnum þætti framhjáhöld vera svona ógeðslega fyndin.

Burtséð frá móralska akkerinu er ekkert að þessum söguþræði og hann er í rauninni bara nokkuð djarfur miðað við rómantíska gamanmynd. Hann hljómar eins og eitthvað úr Woody Allen mynd en ætlunin er meira að vera bresk útgáfa af Judd Apatow afkvæmi, mínus allt dramað. I Give it a Year ætlar sér að vera mjög fyndin, eða krefst þess eiginlega. Stundum er hún það. Að meðaltali myndi ég samt segja að hverjum góðum brandara fylgir a.m.k. einn vandræðalegur, síðan tveir litlir og leim. Heildin verður þess vegna eins og flatt kók í kjölfarið, sem er leiðinlegt því leikstjórinn Dan Mazer hefur í fjölmörg ár unnið með Sacha Baron Cohen, og ég hefði haldið að húmor hans væri meira smitandi en þetta.

Myndin verður líka svolítið týnd í seinni hlutanum, eins og hún ætli í pínustund að stýra söguna í allt aðra (mögulega aðeins „fullorðinslegri“) átt, en hættir síðan við skiptinguna. Það er ansi fatlað að koma með svoleiðis ‘múv’ í mynd sem ætlar sér ekkert að vera annað en einfalt fílgúdd-fjör. Ég er viss um að sálin sé þarna einhvers staðar en mér bara tókst ekki alveg að finna hana. Myndinni tekst að vísu ágætlega að vera gróf án þess að vera endalaust ódýr. Það er allavega eitthvað.

Þetta snýst annars allt um að leyfa húmor og sjarma leikaranna að skína, en eitthvað skilaði það sér illa. Mér líkar reyndar alltaf rosalega vel við Rafe Spall, sama þótt hann leiki oft erkiaula (og þ.á.m. manninn sem laðaðist að typpapíku-slöngunni í Prometheus), og í þessari mynd er hann kætandi lúser, nokkuð skemmtilegur bara. Ég tel einnig fræðilega ómögulegt að líka ekki við Stephen Merchant, en hér hefði reyndar alveg mátt dreifa honum meira út myndina í stað þess að troða honum í pínlegar períódur þar sem hann gengur aðeins of mikið yfir „plís, haltu núna kjafti“ línuna. Myndin hefði samt orðið verri án hans.

Simon Baker er nokkuð góður sem herra Fullkominn (engin ýkja, þannig er ímyndin hans, og hún er reyndar pínu fyndin). Rose Byrne er gullfalleg út alla myndina en fær leiðinlegasta og verst skrifaða karakterinn, svona „highstrung“ gellu í þriðja veldi. Hún reynir líka hvað mest á sig til að vera fyndin. Það var alls ekki svona vandræðalegt að horfa á hana í Bridesmaids eða Get Him to the Greek. Ég skil samt ekki hvernig Anna Faris lét blekkja sig í þessa mynd (og hún á að hafa einhverja góða reynslu af grínmyndum). Hún leikur rosa óaðlaðandi og leiðinlega „krútttýpu“ og handritið leyfir henni hvorki að vera nógu sjarmerandi eða fyndna.

Ef húmorinn hefði oftar hitt í mark eða persónurnar væru áhugaverðari hefði þetta getað heppnast allt. Myndin liggur þess vegna pikkföst í meðalmennskunni, heldur skömmustulega. Og persónurnar eru annaðhvort heimskar stereótýpur eða einhliða fávitar. Sem deitmynd (þar sem kynlífsdjókar eru vel frontaðir) gæti hún orðið svolítið vandræðaleg (enn og aftur, þetta orð) eða bara fínasta kvöldafþreying ef kröfur eru ekki of háar. Það ætti samt ekki að vera ósanngjarnt að vera með einhverjar væntingar, miðað við fólkið sem kom að þessu.

fimm

Besta senan:
Digital myndaramminn sýnir sannleikann.

Categories: Gamanmynd, Rómantísk | Leave a comment

Powered by WordPress.com.