Rómantísk

Beautiful Creatures

Auðveldlega gæti maður búið til lítinn leik úr því að spotta þær bíómyndir sem hafa farið í framleiðslu á síðustu árum þar sem vonin er að finna arftaka Twilight-seríunnar. Hæg ástarsaga, unglingaangist, yfirnáttúrulegar hugmyndir – sem eru þar að auki gloppóttar, vannýttar og hálfkjánalegar. Formúlan er þarna strax komin. Kosturinn við samt það að fá „eftirhermur“ af Twilight kemur akkúrat ókostum þess fyrirbæris við, vegna þess að Twilight er eins og andstæðan við hausverkjatöflu og það þýðir að alls ekki er erfitt að búa til eitthvað betra úr sambærilegum hráefnum. Beautiful Creatures sýnir að þetta dæmi stenst nokkuð vel. Þetta er ekki beinlínis afrit en þó keimlíkt á marga vegu og, til mikillar lukku, aðeins skemmtilegra.

Þegar ég er semí-ánægður með eitthvað þá þykir mér nett leiðinlegt að bera það saman við Stephenie Meyer-stórverkin, en hér er það óhjákvæmilegt. Varúlfar og vampírur detta út en nornir og galdrakarlar taka við. Frásögninni er háttað eins og almennt fiðringurinn er af sömu týpu. Stærsti og mikilvægasti munurinn er aftur á móti sá að rómantíkin hér gengur upp (!) og mætti jafnvel ganga svo langt og segja að skjáparið sé bara nokkuð sjarmerandi, þótt tilheyrandi skraut hrindi mann oft svolítið frá því góða. Að minnsta kosti get ég sagt að karakterarnir búi yfir töluvert meiri persónuleika heldur en Edward og Bella nokkurn tímann höfðu, og eru að auki viðkunnanlegri. Reynt er eftir bestu getu að hlaða inn einhverri persónusköpun, sem heppnast ekkert stórkostlega, en tilraunin er einlæg og kemistrían á milli ungu, tiltölulega óþekktu ungu leikaranna heldur þessu í siglingu. Alice Englert (dóttir leikstýrunnar Jane Campion) er ágæt en aðeins litlausari heldur en mótleikari sinn, Alden Ehrenreich (úr síðustu Francis Ford Coppola myndunum tveimur, Tetro og Twixt), sem strax vinnur mann yfir á sína hlið. Hress og skemmtilegur gæi, en saman smella þau prýðilega.

Aukaleikararnir, þá þessir reyndu, geta verið nokkrum skrefum frá því að ofleika en að sjá Óskarssigurvegara eins og Jeremy Irons, Emmu Thompson og Violu Davis láta eins og þau séu stödd á sviði í lélegu leikriti er ekki það versta sem getur hugsast. Frekar en að líta út fyrir að deyja úr leiðindum taka þau hlutverkin sín tvímælalaust alla leið og það er eitthvað sem ég verð að gefa þeim kredit fyrir. Að þeim utanskildum eru flestir of klisjukenndir eða ýktir til að minnast á.

Þegar Beautiful Creatures heldur sér í rólega, jarðbundna gírnum er hún best. Þegar hún springur alveg út í einhvern sjónvarpsþáttalegan fantasíufíling verður hún ódýr og áreynslumikil. Brellurnar eru lélegar, leikstjórnin verður óröuggari en fyrst og fremst verður sagan fyrir barðinu því unnið er svo illa úr ágætum hugmyndum um vont „galdrafólk“ gegn hinu góða sem og kristinni trú. Traustur grunnur en heldur klúðursleg framkvæmdin sem skilur asnalegar spurningar eftir ósvaraðar. Rómantíkin skiptir samt meira máli heldur en fantasían, en það er engin afsökun fyrir að pæla hlutina ekki betur út. Það er líka aðeins of mikill anti-climax bragur á seinustu köflunum, en fínn, óhefðbundinn endir bætir það eiginlega upp… þangað til í blálokin. Ef satt skal segja þá er Beautiful Creatures ein af örfáum myndum sem ég man eftir í fljótu bragði sem er bókstaflega nokkrum sekúndum of löng. Um leið og ein persónan opnar á sér kjaftinn læðist aftur þessi glataða „plís, hættu!“ tilfinning.

Andrúmsloftið kemur út eins og lífsglaðara, gelgjulegra afkvæmi Tims Burton (ættað frá suðurríkjunum) hafi átt einhverja hönd í því og búningarnir auglýsa sig frekar mikið (rétt upp hönd sem fannst erfitt að glápa ekki á það sem Emmy Rossum gekk í! – *hönd*). Það fylgir þessu einhver kjánahrollur en sjaldan neinn sem kemur of oft eða varir of lengi. Myndin er svolítið þannig í hnotskurn. Hún er hallærisleg á pörtum en ekki nógu mikið til þess að hægt sé að sitja og gera grín að henni allan tímann. Hún er í heildina bara… fín. En það telst til mikils hróss fyrir mynd af þessari tegund. Í alvöru.

fin

Besta senan:
Snjórinn var krúttó. Fékk estrógen-sprautu þarna í smástund.

Categories: Rómantísk | Leave a comment

Warm Bodies

Warm Bodies brýtur nokkrar grundvallarreglur sem að mati undirritaðs er ófyrirgefanlegt (en samt ekki) þegar verið er að díla við ástarsögu á milli uppvaknings og mennskrar píu. Í fyrsta lagi fer sagan eftir svo fyrirsjáanlegri uppskrift að allt sem lofar góðu í byrjunni breytist smátt og smátt í uppstillingu fyrir voða týpíska atburðarás. Þetta væri svosem í lagi ef sjarmi væri mikill, tónninn samkvæmur sjálfum sér og hvergi væri brotin stærsta reglan varðandi efniviðinn; maður á aldrei að gera PG-13 útgáfu af zombie-mynd! Það er hægt, en gagnslaust og alls ekki sniðugt (merkin eru greinilega ekki nógu skýr, þrátt fyrir að aðalpersóna myndarinnar heiti einfaldlega bara „R!“). Skaðinn er ekki gríðarlegur en þetta er ein ástæðan af hverju myndin haltrar með hangandi hendur í stað þess að spretta á nýja staði.

Það er hægt að hrósa myndinni fyrir að vera drifin af sjúklega ferskri grunnhugmynd sem tekur annan vinkil á Romeo & Juliet. Ég, einhverra hluta vegna, sá hana samt bara sem massíft furðulega samsuðu af táningavænni, ófyndnari Zombieland (lóner verður ástfanginn af harðri gellu í miðjum „zombiepocalypse“), hinni vanmetnu Daybreakers (þar sem heimurinn er í skítnum – og skyndilega uppgötvast hálfaulaleg lækning sem gefur gangandi líkum aftur púlsinn) og – já, því miður – Twilight (stúlka laðast að uppréttu líki). Reyndar, ef út í það er farið, er merkilegt hversu auðveldlega þær Teresa Palmer og K-Stew gætu verið systur, en Palmer yrði þá augljóslega „sú hressa“ af þeim.

Warm Bodies mætti vera bitastæðari og eftirminnilegri hugmyndablanda en hún er nokkuð skemmtileg engu að síður og nýtur sérstaklega góðs af fernu: viðkunnanlegum aðalleikara, hressilega óhressum aukaleikara (Rob Corddry, vissulega), ljómandi góðu soundtrack-i sem greip mig frá fyrsta lagi og nokkrum fínum mómentum, sem koma öllu þessu ofangreindu sterkt við, oftar en ekki. Mér líkar afar vel við Nicholas Hoult (þó ég muni alltaf sjá hann sem fyrst og fremst krakkann úr About a Boy) og hann rokkar hér helvíti erfitt hlutverk. Að gera uppvakning skemmtilegan, sympatískan og elskulegan með sparsaman orðaforða er ekki kannski það léttasta sem til er en hann ber sig ofsalega vel. Palmer er þokkaleg sem hinn helmingur rómantíkurinnar en frekar óheillandi og persónuleikalaus, sem betur fer ekki eins óhress og leiðinleg og sú sem hún minnir mig á. Aðrir hafa litlu að bæta við, að utanskildum Corddry. Dave Franco og Analeigh Tipton verða pínu óþolandi eftir smátíma og John Malkovich er flatur og vannýttur í fimmta veldi. Ég fékk aldrei þá tilfinningu eins og hann væri ekki bara að sækja í auðfengna peninga. Þess vegna ákvað ég að bolda ekki nafnið hans.

Afþreyingargildið helst samt stöðugt þrátt fyrir þessa gengdarlausu galla og 50/50-leikstjórinn Jonathan Levine (sem skrifar einnig handritið upp úr bók Isaac Marion) tekur þá skynsömu ákvörðun að missa ekki athyglina á rugluðu rómantíkinni. Myndin virkar best þegar hún er sem einföldust en síðan þegar hlutir eru komnir meira á hreyfingu (eins og t.d. með ljótu, tölvugerðu uppvakningunum) var mér meira sama. Tónninn, eins og áður nefndi, er heldur ekki alveg að ríghalda og kemur oft á óvart hvað myndina langar mikið til að vera létt-óhugnanleg án þess að ná nokkurn tímann því markmiði.  Skilaboðum sögunnar er einnig skóflað beint upp í nösina og hefði vel mátt gera betur með allegoríuna og súru grunnhugmyndina í heild sinni. Að öðru leyti gengur Warm Bodies prýðilega upp sem sniðug, skondin og nokkuð skemmtileg unglingamynd sem ráðlagt er að gera ekki of miklar væntingar til.

sex
Besta senan:
Sló-móið eða Hungry Heart montage-ið. Ég er ofsalega gay fyrir þetta Springsteen-lag.

Categories: Rómantísk, Svört gamanmynd | Leave a comment

Love Actually

Jólin eru tíminn til þess að vera mýkri maður heldur en maður venjulega er og þó svo að helstu jólahetjurnar mínar séu hinir óttalausu Jack Skellington, Martin Riggs og John McClane, þá er afskaplega lítið sem á séns í krúttæluna sem ber nafnið Mark, og sá maður er leikinn af Andrew nokkrum Lincoln. Ekki refsa ykkur fyrir að vita ekki hver sá maður er. Hann er tiltölulega óþekktur leikari en hann á heiðurinn af besta mómentinu í allri Love Actually, jafnvel þó hann skari lítið sem ekkert fram úr leikhópnum. Myndin er kannski löng, sykruð og hlaðin fleiri persónum heldur en hún ræður við en hlaðin gullmolum engu að síður. Það eiga sér allir uppáhaldsatriði í henni og góðu atriðin eru mörg og ólík en það sem togar í mínar hjartarætur tengist þessum Lincoln-gæja og brúðkaupsvídeói sem Keira Knightley mátti aldrei sjá. Emma Thompson fylgir annars fast eftir í öðru sæti þegar hún opnar pakka með innihaldi sem hún gerði aldeilis ekki ráð fyrir. Þetta eru ekki þó nema hjartnæmustu. Það tæki langan lista að segja frá atriðunum sem eru þau fyndnu.

Að mínu mati er þessi mynd ein ómótstæðilegasta stjörnubomba sem konur dýrka jafnmikið og The Notebook og færri karlmenn segjast fíla hana en gera. En strákar, trúið mér þegar ég segi að það sé fullkomlega í lagi að viðurkenna að myndin sé virkilega góð. Af hverju haldið þið að naglarnir Liam Neeson og Alan Rickman hafi verið fengnir til að leika svona stór hlutverk í henni?

það vantar fleiri mistilteina

Handritið er bráðskemmtilegt og fyrir utan það að vera krúttandi yfir sig á köflum á besta máta er myndin hlý, ótakmörkuð í sjarma og mjög vel leikin. Það er nánast sjokkerandi hvað það eru margir góðir breskir leikarar hérna. Vissulega er þetta „gimmick“ svo að áhorfandinn þekki persónurnar betur enda eru þær í talsverðu magni og persónusköpunin ekki mjög lagskipt, en það skiptir heldur ekki öllu því þær eru langflestar mjög eftirminnilegar. Auk þess efa ég að myndin hefði virkað í þriggja tíma heildarlengd. Allavega ekki á markhópinn sinn.

Leikararnir í þessari mynd eru allir rétt uppstilltir. Enginn á ekki heima þar sem hann er og eru allir ákaflega líflegir, eins og það skíni í gegn að hver og einn vilji af öllu hjarta vera á þessu setti að kvikmynda svona æðislegan sykurpúða. Hugh Grant, Alan Rickman, Emma Thompson, Colin Firth og Liam Neeson eru öll ljómandi góð og það hjálpar einnig að maður haldi með sögunum þeirra. Bill Nighy stelur samt allri myndinni þrátt fyrir þynnstu söguna. Keira Knightley lætur einnig sjá sig af og til, Laura Linney er alltaf góð en ef ég hefði skorið einhverja söguna úr heildinni til að geta lagt meiri tíma í hinar, þá væri það hennar. Linney hverfur síðan bara úr allri myndinni upp úr miðju og sést varla neitt til hennar aftur. Annaðhvort var leikstjóranum svona sama um hana eða hann klippti mikið úr með henni. Þó nokkuð skemmtileg séu þá eru sub-plottin með Linney og Martin Freeman bæði fremur gagnslaus, en þau bættu að vísu nokkrum aukaskilaboðum í heildarmyndina, sem umfram allt gengur út á titilhugtakið í allri sinni mynd.

Flestar ef ekki allar hliðar ástarinnar (og vandamálin sem geta oft flækst með) eru skoðaðar, t.d. út frá samskiptum vinnufélaga, bestu vina, systkina, (stjúp)feðga, krakka, miðaldra eða nýgiftra hjóna. Hér er tekið fyrir hugrekki, draumórar, daðrað síðan við framhjáhald og frábærlega spilað með það hvernig ástin spyr ekki um aldur, tungumál eða aðstæður (elska t.d. hugmyndina um svaka dúlló ástarsögu um feimið flört á milli fólks sem hossast nakið hvort á öðru, sem partur af eðlilegum vinnudegi). Einnig kemur svo inn brot af bandarískri aulagreddugrínmynd um lúða sem dettur óraunsæislega í feitan lukkupottinn, bara til að bæta við meiri handahófskennda fjölbreytni. Hver eining er augljóslega ekki nauðsynleg, en lokaafraksturinn lendir aldrei á leiðinlegum punkti – bara misáhugaverðum – og eftir öll þessi ár er ég persónulega farinn að læra að elska það sem ég fíla ekki við þessa mynd, ekki bara misgóðu aukapersónurnar, heldur hlutir eins og Dido, Kelly Clarkson og Sugababes-tónlisin! Ekki veit ég alveg hvað kom fyrir mig en lögin þeirra passa ótrúlega vel, en það á við um alla tónlist sem hér er í boði.

Öruggt er þó að hver sem ber augum á þessa mynd mun finna eitthvað til að geta tengt sig við. Það er auðvelt að velja miklu betri jólamyndir (eins og It’s a Wonderful Life eða Scrooge-myndina frá ’51, sem eru með þeim bestu sem ég hef séð), en hingað til er Love Actually ein af kannski tveimur myndum sem virðist sjálfkrafa rata í Blu-Ray (áður DVD) spilarann á hverju einasta ári síðan hún kom fyrst út – yfirleitt á Þorláksmessu, einhverra hluta vegna. Þetta er ekki hin fullkomna mynd en þó nálægt því að vera fullkomin jólagjöf sem hefur rúllað fullt af litlum rómantískum gamanmyndum í einn pakka. Umbúðirnar þorir maður ekki einu sinni að tæta í sundur, heldur eru þær vandlega og áhugasamlega opnar að ógleymdri slaufu sem gefur manni ekkert nema spikfeitt glott sem er erfitt að þurrka af sér í faðmi fjölskyldunnar eða hverjum sem manni er annt um á Jesú-afmælinu (gæludýr og asískir koddar í fullri mannsstærð eru að sjálfsögðu meðtaldir). Þetta er skyldueign í allar hillur!

atta
Besta senan:
Þarna gef ég kommenturunum orðið…

Categories: Gamanmynd, Rómantísk | 4 Comments

Powered by WordPress.com.