Sci-fi

War for the Planet of the Apes

Tæp fimmtíu ár eru liðin frá því að upprunalega Apaplánetu-myndin með Charlton Heston leit dagsins ljós. Það sem byrjaði í fyrstu sem sjálfstæð aðlögun á skáldsögu höfundarins Pierre Boulle varð fljótt að vinsælum myndaflokki, sem hefur þróast merkilega síðan þá, rétt eins og tæknin og aðferðirnar sem hafa farið í það að gæða apana lífi.

Upp úr aldamótunum reyndi leikstjórinn Tim Burton að koma seríunni í gang á ný, með miklu skrauti en slöppum árangri. Áratug seinna var svo gerð önnur tilraun til endurræsingar. Þá kom forsagan Rise of the Planet of the Apes þar sem stillt var upp breiðari sögu um háþróaða simpansann Caesar og hið óumflýjanlega stríð á milli manna og ofurapa, sem hann hefur reynt sitt besta til að koma í veg fyrir.

Fyrsta myndin fjallaði um uppvaxtarár Caesars og hvernig hann öðlaðist greind og sjálfstæði. Í Dawn of the Planet of the Apes er mannfólkið komið í útrýmingarhættu vegna veirusýkingar og gerist Caesar formlegur leiðtogi á meðan togstreita myndast úr öllum áttum. Sú þriðja segir frá þróun hans til þess að verða goðsögn á meðan hann tekst á við erfiðari djöfla en áður.

Nýju Apaplánetumyndirnar nálgast árekstur ólíku hópanna á athyglisverðan máta og í þokkabót eru þær skýrt dæmi um það hvernig skal gera framhalds- eða forsögur. Hver tilheyrandi eining er hæfilega sjálfstæð en hver kafli dýpkar persónusköpunina og bætir náttúrulega ofan á forvera sinn án þess að apa beint eftir honum.

Útkoman hér er hiklaust átakanlegasta, metnaðarfyllsta og útlitslega séð langflottasta eintakið í trílógíunni. War for the Planet of the Apes er vægast sagt tilkomumikil og góð áminning um það að rándýrar brellumyndir geta oft verið listrænar og gerðar fyrir hugsandi fólk. Eins og titillinn gefur til kynna er atburðarásin allt annað en hressileg og myndin er langt frá því að vera hefðbundin sumarafþreying.

Í staðinn kemur hæg, grimm og bítandi „and-stríðsmynd“ þar sem merkilega lítið af hasar er í boði. Til viðbótar eru orustusenur aldrei stílfærðar eins og þær eigi að vera eitthvað sérstaklega „töff“ í ljósi þess að sagan sýnir af fullri hörku eðli stríðs og afleiðingar slíks. Vissulega er hasarinn mikilvægur og öflugur fylgihlutur í myndinni en algjört aukaatriði í samanburði við þemun og karakterana.

Það er ekki annað hægt en að dást að þessari mynd. Öll umgjörð er óaðfinnanleg, frá listilegri kvikmyndatöku til tónlistar sem eflir andrúmsloftið afbragðsvel, og tölvuvinnan sem hér er til sýnis er helbert kraftaverk. Brellurnar eru fyrst og fremst nýttar til þess að þjóna sögunni og persónunum frekar en væntingum áhorfenda um sjónarspil. Það vantar heldur ekkert upp á að Andy Serkis komi með enn einn leiksigurinn í þessu ógleymanlega aðalhlutverki. Þjáning Caesars og myrkt hugarástand skín í gegn um pixlana og magnast hvort tveggja með tilþrifum leikarans.

Hnökralaus frammistaða Serkis skyggir þó ekki á aðra leikara frekar en áður. Flestir, ef ekki allir, standa fyrir sínu. Woody Harrelson er réttur maður á réttum stað og heldur ekki eins einhliða andstæðingur og hann virðist vera í fyrstu. Hin unga Amiah Miller er áhrifarík í hlutverki munaðarlausrar stúlku sem verður á vegi Caesars og Steve Zahn bætir við þörfum léttleika í blönduna án þess að ganga of langt með það.

Í röngum höndum hefði efniviðurinn léttilega getað misheppnast eða orðið kjánalegur. Leikstjórinn Matt Reeves hefur aftur tekið að sér ýkta vísindaskáldssögu með æpandi ádeilu og neitað að búa til heilalaust bíó úr því. Hann sýður hér saman ýmsa tóna; stríðsmynd, flóttamynd og hljóðlátan vestra svo úr verður minnisstæð heild þar sem fasismi, dýrslegt eðli, ótti, fordómar, samkennd og þrautseigja eru skoðuð af mikilli einlægni.

Það er með hreinum ólíkindum hvað Reeves nær heppilega að forðast alla tilgerð og ná oft ansi langt með afar litlu, eins og með það hvernig hann spilar með þagnir, táknmál, einfalt augnaráð eða önnur smáatriði, gjarnan í nærmyndum. Það kemur fyrir en örsjaldan að sumt er meira útskýrt heldur en þörf er á en á rúmum tveimur tímum er aldrei teygða eða tilgangslausa mínútu að finna í öllu flæðinu.

En auðvitað er magnað að Hollywood-framleiðendur hafi dælt svona miklum peningum í vandaða, kraftmikla „poppkornsmynd“ þar sem áhorfandinn er fenginn til þess að styðja útrýmingarhættu manneskjunnar og halda með öpunum. Heill sé þér, Caesar!

Besta senan:
Margar, satt að segja.

(Þessi dómur birtist upphaflega í Fréttablaðinu 13. júlí)

Categories: Ævintýramynd, Drama, Sci-fi | Leave a comment

Transformers: The Last Knight

Hausverkurinn heldur áfram. Það ætti í rauninni enginn að geta slysast til þess að horfa á fimmtu Transformers-myndina frá Michael Bay án þess að vita nákvæmlega hverju hann á von á. Þetta verður meira bara spurning um það hvort Bay hafi slysast til að gera eitthvað þrælskemmtilegt úr hávaðanum eða hvort sálarlausi, miskunnarlausi, sjálfumglaði og söluóði perrapúki hans hefur tekið alveg yfir.

Transformers-myndirnar hafa verið auðveld skotmörk fyrir gagnrýnendur, en það má ekki horfa framhjá því að þær gera fullt ótrúlega vel – og með hverri mynd verður tæknin alltaf betri til þess að gefa okkur snyrtilegri róbotaslagsmálum. Fyrstu tvær myndirnar eru ekkert sérstakar en ég er kannski einn á því að mér finnst sú þriðja vera frábær afþreying. Sú fjórða var hins vegar drepleiðinleg og refsandi í sýningartímanum, og heimskunni.

Þó efniviðurinn sé byggður á leikföngum sem slást og kjarnaþráðurinn gangi út á að sýna tröllvaxin vélmenni gera allt tryllt, þá þýðir það ekki að handritið þurfi að vera með greind á við flöskuopnara. En það hefur aldrei verið stærsta vandamálið svosem.

Hvað þessa seríu varðar þykir mér þó meira komast til skila að Bay vilji raunverulega gera betur en síðast og spreða sköpunargleðinni – eða sprengja hana í loft upp. Stundum er eins og áhugi hans deyji alveg í framhöldunum með sléttar tölur, og stígur hann alltaf upp enn brjálaðri eftirá með sýniþörfina í aðdáunarverðu og forvitnilegu hámarki.

Með fimmta eintakinu finnst mér eins og sé loksins kominn vilji fyrir því að hrista aftur meira upp og epískt í þessu, og hætta að endurtaka sömu beinu formúlurnar og áður. Eitthvað er að sjálfsögðu af því, en handritið er frussandi út svo mikilli gleði yfir eigið, komplex mýþólógíu (og viðbótum þar á meðal sem myndu fá Dan Brown til að springa úr hlátri) að ruglið verður drulluskemmtilegt.

The Last Knight gæti jafnvel verið næstbesta ef ekki skemmtilegasta og ruglaðasta myndin í röðinni, en eins og með hinar er hún hömruð niður af glötuðu handriti, alltof mörgum karakterum, húmor sem er beyond pínlegur, lengd sem mátti auðveldlega skafa og klippistíl sem kemur stundum út eins og einhver experimental ringulreið. Á köflum er flæði myndarinnar sett saman eins og LANGUR trailer, enda fleiri boltar á lofti en hún ræður við.

Það hefur og getur verið visst skemmtanagildi í þessum skyndibitamyndum (og ég endurtek: Dark of the Moon fannst mér geggjuð) en það eru til mörk yfir því hversu mikinn „Bay-isma“ augu, líkami og sál getur meðhöndlað til lengdar þegar hann er fastur í því sama. Þar meðalið er rúnkið á ameríska herinn, píndur „kynþokki“ og borderline hatursverðar myndir af konum, rasískar stereótýpur eða söguþræðir sem endurtaka sig og eru kæfðir af hávaða og flottasta brelluhamri sem peningarnir kaupa.

Það jákvæðasta sem ég get sagt er að þessi Transformers-mynd er vel tónuð niður af auglýsingarorgíunum eða fánadýrkuninni sem Bay er orðinn vanur. Og gefa má honum prik fyrir að gefa okkur kvenhetju (leikin af Lauru Haddock) sem hann reynir að gera „sterka“ og eftirminnilega – sem henni tekst ágætlega að vera í umsjón leikkonunnar, þó kappinn standist að sjálfsögðu ekki freistinguna að klæða hana upp eins og strippara (ein og Mark Wahlberg orðar það) og leyfa kamerunni að slefa á eftir henni.

Auk þess kynnir hann til leiks unga stúlku (Isabel Moner) sem sannar sig sem ofurmannlegt hörkutól í byrjun sögunnar – en engar áhyggjur, Bay passar að jafnaldrar hennar slefi á eftir henni líka. Myndin virðist síðan bara að gleyma að sé til og gerir hún ekkert merkilegt í öðru, þriðja eða fjórða act’i.
Öh… kei.

En mesta andskotans böggið sem ég finn við þessa mynd, er nákvæmlega það sem mér finnst mest koma í veg fyrir að maður detti almennilega í hana eða geti fylgst með: aspect ratio-skiptingarnar!

Ég hélt að það væri nógu þreytandi þegar Christopher Nolan gerir þetta en hann leyfir að minnsta kosti senum að anda á milli í læstum ramma. Bay hefur áður fiktað með svona lagað, en The Last Knight tekur orðið „overkill“ og mjakar sér upp úr því, og skiptist á milli a.m.k. þriggja mismunandi hlutfalla á sekúndnafresti, sem er enn verra þegar myndin er mestmegnis skotin á IMAX 3D vélar. Ef ég væri níu ára að horfa á þessa mynd í bíó hefði ég haldið að sýningin væri eitthvað gölluð. Hvaða „listræna“ touch er leikstjórinn að reyna að afsaka með þessu? Hvernig gátu fimm klipparar unnið að myndinni og leyft þessu að sleppa svona í gegn? Tekur hinn almenni áhorfandi raunverulega ekkert eftir þessu??

Mark Wahlberg og félagar púla, hlaupa og svitna svo mikið að það verður aldrei hægt að segja að fólkið sé á sjálfsstýringu. Wahlberg hefur nú látið betur um sig fara í þessum heimi og er ánægjulega hress og viðkunnanlegur. Josh Duhamel gerir reyndar ekki skít fyrir myndina með sinni endurkomu, né John Turturro í grátlega gagnslausu subplotti. Eins með Tony Hale úr Arrested Development, hann hefði alveg mátt fjúka.

En Anthony Hopkins er þó ávísun á meðmæli út af fyrir sig. Einhvern veginn hefði ég haldið að hann myndi bara liggja launin og sofa gegnum þessa rullu (á milli þess að henda út öllum mögulegu útskýringaræðum), en kræst, nei. Hopkins er alveg meira en til í þetta og verður svo fjörugur að meira að segja vondu brandararnir hitta í mark undir töfrum þessa manns. Hann er frekar æðislegur, þó ég geti ekki alveg sagt það sama um róbó-brytann hans, Cogman. Sú fígúra er eins og C-3PO – með persónuleika geðsjúklings.

Erfitt er að skilja hvaða almennilega tilgangi mannfólkið gerir innan um átök róbotanna og kemur oft fyrir að oft fari of mikill tími í fólkið og farsakennda snatt þeirra og upplýsingaaflanir. Sjálfur Optimus Prime kemur m.a.s. út eins og hann sé í gestahlutverki í eigin mynd, sem er eiginlega bannað þegar þú gerir sögu þar sem hann fær að vera vondur!

Þó það taki reglulega smátíma að meðtaka allt sem er í gangi í Transformers: The Last Knight, þá er hægt að hafa aulalega gaman að því sem hún hendir framan í áhorfandann, hvort sem það er gígantískur og helflottur lokabardagi eða Anthony Hopkins látandi eins og hann sé á einhverjum fjörugum efnum.

Ég skal alveg játa, ég vil endilega sjá hvert næsta mynd færi með þau fræ sem hún leggur fyrir – og bara enn betri fréttir ef Bay leyfir loksins einhverjum öðrum kvikmyndagerðarmanni að leika sér í þessum botnlausa sandkassa af brellum og dótahugmyndum. En myndin náði samt að skemmta mínum lágt stillu væntingum og virðist satt að segja vera hingað til sú í seríunni sem er mest lík fílingi teiknimyndanna. Ég myndi í alvörunni leyfa einkuninni að sleppa með fína sexu ef myndin væri laus alfarið við þessar skitsó-hlutfallaskiptingar.

 

 

Besta senan:
Lokabardaginn.

Categories: Ævintýramynd, Sci-fi, Spennumynd | Leave a comment

Alien: Covenant

Í kvikmyndasögunni eru fáar geimverur sem eiga sér álíka goðsagnakennda hönnun og „xenomorph“ veran frá málaranum H.R. Giger heitnum, sem fyrst birtist í upprunalegu klassík Ridleys Scott frá 1979. Alien-myndabálkurinn hefur síðan þá farið í gegnum margar stökkbreytingar en ekki getið af sér neitt sem teljast mætti stórkostlegt frá því að James Cameron tók við. Þó hafa ýmsar afbrigðilegar og sérstakar tegundir hugmynda sprottið upp úr þessari seríu.

Scott hafði ekki komið að vísindaskáldsögu í áratugaraðir þegar hann snéri svo aftur til seríunnar árið 2012 með upphafssögunni Prometheus. Sú reyndist vera allt öðruvísi kvikindi en aðdáendur áttu von á; hlaðin vangaveltum um trú, guði og tengsl manneskjunnar við slíka þætti svo dæmi séu nefnd. Eftir að myndin hlaut vægast sagt umdeildar viðtökur var ljóst að bæði leikstjórinn og framleiðendur ákváðu að nálgast framhaldið með gamla vinklinum.

Í byrjun þessarar sögu vakna áhafnameðlimir nýlenduskipsins Covenant fyrir mikla tilviljun af völdum stjörnublossa og verða stuttu síðar varir við skilaboð frá óþekktri plánetu. Þessi umrædda pláneta virðist í fyrstu sýn geta boðið upp á ný heimkynni, þannig að ákveðið er að taka áhættuna og kanna umhverfið nánar. En hvað það er sem gæti þarna beðið þeirra er auðvitað bara byrjunin á gleðskapnum.

Alien: Covenant reynir að brúa bilið á milli forvera síns, Prometheus, og fyrstu Alien-myndarinnar. Hún reynir allt sem hún getur til að fylgja formúlu upprunalegu myndarinnar en í senn halda áfram að stúdera sömu hugmyndir og Prometheus gerði. Alien: Covenant spilast á margan hátt út eins og tvær bíómyndir sem hafa verið klesstar saman í eina; Prometheus framhaldið og Alien „endurgerðin“.

Margt væri hægt að nefna sem fór úrskeiðis með útkomuna á Prometheus, en myndin spurði stórar spurningar og hafði góða hugmynd um hvernig sögu hún vildi segja. Þegar Alien: Covenant leyfir sér að vera beint framhald af henni er hugað að þemum eins og sköpun, dauðanum, fjölskyldutengslum og mannlegu leitinni að eigin tilgangi. Því miður á handritið það til að rugla aðeins í samheldni mýþólógíunnar og gerir það seríuna þrefalt götóttari en hún þegar er.

Þegar gamla uppskriftin tekur við breytist þetta í staðlaða skrímslamynd, dregin niður af grunnum persónum sem taka oft á tíðum óskiljanlegar ákvarðanir. Yfirleitt er viss greindarskerðing fígúra eðlilegur fylgihlutur hryllingsmynda en í undanförnum Alien-myndum hefur þetta verið sérlega áberandi vandamál.

Subbuskapurinn er til staðar en gæsahúðin takmörkuð. Það breytir því samt ekki að Scott, sem í ár stígur á níræðisaldurinn, hefur engu tapað hvað auga og hæfileika varðar fyrir því að skapa stóra, flotta bíóheima og þrúgandi andrúmsloft.

Scott sækir auðvitað í öll brögðin sem hann kom sjálfur með við upphaf seríunnar en daðrar einnig við lífsspeki og þemu sem minna gjarnan á Blade Runner. Afþreyingargildið í heildina sér annars vegar um að bæta upp fyrir holur handritsins og aðra hnökra, þó ekki allar. Lokahlutinn er reyndar örlítið flýttur og fyrirsjáanlegur, þó segja má – án þess að spilla – að bláendirinn sé hressilega djarfur.

Katherine Waterston er sterk og sannfærandi í hlutverki sem er til þess sniðið að kalla á eftir samanburði við Sigourney Weaver, en það hefði verið fínt að fá að kynnast persónunni betur. Svipað má segja um stórgóðan Billy Crudup, eða jafnvel Danny McBride, sem kemur á óvart með mýkri, viðkunnanlegri hlið eftir að hafa sérhæft sig í hlutverki skíthæla.

Enginn kemur betur út úr þessari mynd heldur Michael Fassbender og tveir af honum eru víst betri en einn. Þetta er algjörlega hans saga og hann er stórkostlegur sem gervimennin Walter, sá hlýðni, og hinn óútreiknanlegi David.

Bestu augnablikin í Alien: Covenant eru samt ekki skrímslasenurnar, heldur þessar litlu, hljóðlátu þar sem Fassbender veltir lífinu og tilverunni fyrir sér, stundum á móti sér sjálfum. Súra sjónin að sjá einn Fassbender kenna öðrum á flautuna sína er tær hápunktur, af hæfilega tvíræðum ástæðum.

 

Besta senan:
Byrjunin. Eða þegar Fassi segir „I’ll do the fingering“.

Categories: Hrollvekja, Sci-fi, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.