Sci-fi

Ghost in the Shell (2017)

Unnendur japanskra manga-myndasagna og „anime“ þekkja flestir til fyrirbærisins Ghost in the Shell, sem getið hefur af sér fjölmarga þætti, bækur og nokkrar bíómyndir. Upprunalega bíómyndin frá 1995 var ein dýrasta teiknimynd síns tíma og sópaði til sín lofi fyrir sínar margbrotnu hugmyndir og ekki síður þrælflottan teiknistíl.

Skemmst er frá því að segja að Hollywood-útgáfan, sem er lausleg endurgerð á ’95 myndinni, er strípuð af megni innihaldsins og einkennum þessara sagna og er matreidd sem fátt meira en dýr og tilkomumikill stílgrautur. Ef sami metnaður og fylgir útlitinu hefði verið lagður í handritið, væri útkoman hágæðamynd umhugsunarlaust, því útlitið er algjörlega meiriháttar.

Scarlett Johansson hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir að vera af röngu þjóðerni fyrir aðalhlutverkið, en í myndinni er gerð að minnsta kosti tilraun til þess að svara þeirri umræðu, þrátt fyrir að hún virki svolítið hálfbökuð. Johansson er hins vegar – ótengt þjóðerninu – hvorki góð né slæm í hlutverkinu, fyrir utan það að vera í hörkuformi og hörð í hasarsenum. Annars er það svo sem í eðli persónunnar að vera stíf og svipbrigðalaus, í ljósi þess að hún er nánast meiri vél en manneskja. Það skrifast líka á leikstjórnina og handritið hvað karakterinn nær litlu sambandi við áhorfandann.

Leikhópurinn er almennt fjölbreyttur og fínn, þó gjarnan hefði mátt gera miklu meira við flesta (sérstaklega meðlimi Section 9 hópsins). Franska leikkonan Juliette Binoche setur nauðsynlegan mannúðleika í blönduna, danski leikarinn Pilou Asbæk er þokkaleg viðbót sem sérsveitarlöggan Batou og japanski snillingurinn Takeshi Kitano fær nokkur tækifæri til þess að sýna hversu mikill töffari hann getur verið, þrátt fyrir að hann líti varla út fyrir að nenna þessu. Á móti er Michael Pitt hörkufínn og í réttum gír sem dularfulli hakkarinn Kuze.

En að skrautinu aftur, peningurinn sem hefur farið í framleiðsluna sést svo sannarlega á skjánum. Þetta er önnur mynd leikstjórans Ruperts Sanders og sást það síðast hversu gott auga hann hefur í hinni bragðlausu Snow White and the Hunts­man. Heimurinn í Ghost in the Shell er allavega vel uppstilltur; stórborgin grípandi, litrík og lifandi. Brellur eru til fyrirmyndar og leikstjórinn tvinnar glæsilega saman þetta svokallaða „cyber-punk“ andrúmsloft með úthugsaðri kvikmyndatöku (sem afritar fullt af römmum beint frá upprunalegu teiknimyndinni) og dýnamískri tónlist frá fagfólkinu Clint Mansell og Lorne Balfe.

Það er auðvelt að sjá að hér er efniviður sem hefur verið margunninn áður. Strax má sjá að myndin kemur út eins og útþynnt blanda af Blade Runner og The Matrix (þó svo að sú mynd hafi sótt heilmikinn innblástur í upprunalegu Ghost in the Shell teiknimyndina). Það sem aðskilur annars vegar góða, langlífa „sci-fi“ spennusögu frá tómri hasarveislu er einfaldlega framsetning á þessum þemum sem fylgja sögum um vélmenni sem velta fyrir sér mannlega þættinum eða eðli sálarinnar.

Í Ghost in the Shell endurgerðinni hafa aðstandendur aðeins dýft tánni í þunna speki sem er líkari predikun heldur en marglaga krufningu á athyglisverðum hugmyndum. Það hefði líka munað miklu ef söguþráðurinn væri aðeins hnitmiðaðri og breiðari. Hann trekkir upp litla spennu og allar tilraunir til þess að gefa sögunni einhverja sál og persónum dýpt skilar litlum árangri. Til lengdar verður ómögulegt að standa ekki á sama um fólkið – vélrænt eða ekki – þegar „kúlið“ er það helsta sem skiptir máli.

Með væntingar í lágmarki er þó ágæt afþreying í þessu og erfitt er að finna flottara þrívíddarbíó um þessar mundir. Að minnsta kosti má alltaf leita til teiknimyndarinnar ef viðkomandi er í leit að einhverju bitastæðara.

 

Besta senan:
Majórinn hittir Kuze í fyrsta sinn.

(þessi dómur birtist í sinni upprunalegu mynd þann 5. apríl)

 

 

Categories: Sci-fi | Leave a comment

Assassin’s Creed

Þrátt fyrir að eigi enn eftir að gera fyrstu frábæru bíómyndina sem byggð er á tölvuleik verður að segjast að geirinn er farinn að spýta aðeins í lófanna og að minnsta kosti reyna oftar eitthvað flott og grand. Meiri metnaður er greinilega lagður í þessi stykki, eins og sást á t.d. Warcraft í fyrrasumar og núna Assassin’s Creed.

En það er sama hversu miklum peningum er kastað í það að endurskapa rétta fílinginn og útlitið vantar enn töfrana til þess að hnoða því í gott, heilsteypt handrit. Þetta þurfa framleiðendur að átta sig á.

assassins_creed_film_06

Ég er enn á því að einhvers staðar leyndist góð kvikmynd í Warcraft (þrátt fyrir misgóða brelludýrð og leikara), nema augljóslega ákvað stúdíóið að þynna hana út og klippa epíkina niður í eins hraða, hasardrifna mynd og hægt var. Svipað leið mér með Assassin’s Creed, nema grunnflötur þessarar bíómyndar er bara stórgallaður til að byrja með og vekur upp spurninguna um hvort hann gangi nokkuð upp í öðrum miðil en tölvuleik. Hann gerir það allavega ekki með nálguninni sem hér varð fyrir valinu.

Assassin’s Creed byggist öll á því að karakterar geti tengt sig við undravél og upplifað minningar forfeðra sinna. Apparatið virkar eins og sýndarveruleika-rússíbani. Fólkið hefur enga stjórn á gjörðum sínum í fortíðinni, það bara fylgist með og fær að herma eftir samtímis… í hnotskurn er þetta fyrir áhorfandann eins og tilfinningin er að horfa á aðra manneskju spila tölvuleik.

maxresdefault-1

Aðalkarakterinn er Callum Lynch (Michael Fassbender, sem finnur fullkomnu blönduna á milli þess að virka áhugasamur og hálfsofandi í senn), sem fær það verkefni að skoða minningar, stökk og eltingarleiki launmorðingja á nítjándu öld á Spáni. Forfaðir Callums heitir . Honum fáum við ekkert að kynnast af viti, en 80% af hasarnum viðkemur honum – og reyndar leit hans að hinu goðsagnarkennda epli úr Edengarðinum.

Öll myndin er eins og æfing í því hvernig á ómögulega að byggja upp spennu með hasarveislu. Plottið er eitthvað óþarflega þvælt og vannært og fékk ég oft tilfinninguna eins og mikilvægar senur hafi vantað. Það sem situr eftir eru annars vegar stórar, vel heppnaðar áhættu- og slagsmálasenur. Stundum svolítið örklipptar, en með flottar sviðsmyndir að vopni og flott kóríógraff er margt til að dást að við hasarinn.

Bömmerinn er bara að okkur er algjörlega sama um nokkurn hlut eða aðila sem er þarna að finna. Flottustu atriðin eru í rauninni bara uppsprengdar „flassbakk“-senur, flottar sem slíkar en framvinduna vantar allan púls. Tónlistarskorið í myndinni er þar að auki betra heldur en hún á í rauninni skilið.

assasinscreed-fassbender-spear

Aldrei hef ég spilað leikinn (þó ég hafi, kaldhæðnislega, nokkru sinnum horft á aðra spila hann) en það þarf engan bíóséní til þess að sjá það að Assassin’s Creed bíómyndin stendur ekki á eigin fótum of vel. Íkonógrafía leiksins er töff svosem (mikið óskaplega var skrattans örninn samt ofnotaður, eiginlega af ástæðulausu. Heildartónninn er svo stóískt alvarlegur og þungur miðað við stökk-keppnirnar og ruglið í plottinu að það er hæpið að sé nokkuð „gaman“ við myndina að finna, og það er eins og það hafi verið sérstakt átak að strípa allan vott af húmor úr öllu handritinu.

Leikstjórinn Justin Kurzel (sem leikstýrði bæði Fassbender og Marion Cotillard í Macbeth fyrir nokkrum árum) veit hvernig hlutirnir eiga að lúkka en orkuna vantar, tilfinningarnar vanta og verður allt á endanum að stílísku en tómu púðri. Frábærir leikarar eins og Cotillard, Jeremy Irons og Brendan Gleeson fá næstum því ekkert að gera annað en að tauta exposition-ræður.

Mesta áhættan sem myndin tekur er að leyfa senunum í fortíðinni að spilast út á spænskri tungu, og slíkt ætti ekki einu sinni að kallast áhætta, heldur bara sjálfsagt stöff. Annars gæti Assassin’s Creed líka vel verið alvarlegasta kvikmynd sem hefur nokkurn tímann verið gerð um leit að einu epli.
bladn

 

Besta senan:
Stóra stökkið, býst ég við. Alltaf ánægjulegt þegar áhættuleikarar eru notaðir í stað tölvugerðra staðgengla. Plús fyrir það.

Categories: Sci-fi, Spennumynd | Leave a comment

Arrival

Það má alltaf fagna því þegar gerðar eru vandaðar vísindaskáldsögur sem miða hátt og nota heilann. Arrival er á marga vegu einstök geimverumynd, lítil og manneskjuleg saga sem býr yfir eitthvað af þeim hráefnum sem útbúa góða, snjalla ,,sci-fi“ mynd; stórar hugmyndir, athyglisverða ágreininga, erfiðar ákvarðanir og grunnhugmynd sem grípur.

Tólf geimskip taka sér stöðu á jörðinni. Viðbrögð jarðarbúa er að ná sambandi við geimverurnar en þar sem við tölum augljóslega ekki tungumálið þeirra getur það reynst eitthvað snúið. Louise Banks, einn besti málvísindasérfræðingur bandaríkjanna, er kölluð á svæðið til að reyna að skilja geimverurnar og komast til botns á því hvað þær vilja. En þá er spurning hvort að tíminn sé á þeirra hlið og brátt vex meiri spenna og ótti á meðal jarðarbúa.

Hérna skiptir öllu máli hvaða væntingar áhorfandinn gerir sér fyrirfram. Arrival á meira sameiginlegt með myndum á borð við Close Encounters of the Third Kind og Contact frekar en nokkurn tímann Independence Day. Búist menn við einhverjum hasar er það ávísun á langdregna fýluferð.

Hin yfirleitt áreiðanlega Amy Adams leikur Louise og fær alveg að skína í þessu hlutverki. Ekki bara eignar hún sér alla myndina áreynslulaust heldur gefur henni mikla sál. Jeremy Renner, Forrest Whitaker og Michael Stuhlbarg eru einnig hörkugóðir í tilþrifaminni hlutverkum.

arrival

Það er nóg af trúverðugum og spennandi tilfinningasveiflum, en almennt er ekki mikið í persónurnar spunnið. Meira er lagt upp úr ráðgátunni og pælingunum í kringum hana frekar en að setja persónusköpun í forgrunn. Heildarmyndin líður fyrir þetta, sérstaklega þegar innihaldið ristir ekkert sérlega djúpt og endurtekur sig örlítið of mikið. Hún nær heldur ekki almennilega að vinna sér inn þennan tilfinningakjarna þegar persónurnar eru svona þunnar, og varð fyrir mér aldrei eins hrífandi og hún átti að vera. Breytir því þó ekki að Amy er gjörsamlega æðisleg í öllum senum.

Arrival vekur hins vegar upp áhugaverðar umræður, spilar með ferska vinkla og lokkar með forvitnilegri framvindu, lágstemmdri spennu og sterkri umgjörð. Hér er líka á ferðinni kvikmynd sem gerir sér alveg grein fyrir því að minna getur oft verið meira.

Leikstjórinn Denis Villeneuve hefur margsannað sig núna sem fagmann þegar kemur að andrúmslofti og tilfinningaspennu. Fyrri myndir hans (t.d. Prisoners, Enemy og Sicario – sem eru allar frábærar) eru að vísu svartsýnni í tón heldur en Arrival, þar sem hann leyfir sér að vera blíðari, en allar eiga það sameiginlegt að glíma allar við einhvers konar örvæntingu eða vaxandi óhugnað.

Arrival gæti vel verið sísta mynd leikstjórans, en það er bara sólid kvarðir um hversu öflugan feril hann hefur átt. Kvikmyndataka og tónlist hefur mikið staðið úr í myndum Villeneuve. Þar er Arrival engin undantekning. Tónar Jóhanns Jóhannssonar ná einstaklega vel að innsigla dulúðina, drungann og ekki síður fegurðina sem fylgir hér með þeirri stemningu sem tökumaðurinn Bradford Young á einnig stóran þátt í að skapa. Klipping, hönnun, hljóðvinnsla og brellur eru sömuleiðis í háum gæðaflokki.

Það eru fleiri skýringar í handritinu en þörf voru á og framvindan er ekki laus við gloppur, en myndin snýst hvort sem er meira um að vekja upp spurningar um mannlega eðlið og heldur en að kafa dýpra í hugmyndirnar og þemun. En þó svo að Arrival sé ekki allra er alveg ljóst að erfitt er að finna annað í líkingu við hana, sem er gott. En miðað við talentið hér á bæ hefði þetta mátt vera virkilega gott.

 

(vil ekki hljóma of plebbalega en þetta mætti kalla háa sjöu)

7

Besta senan:
Adams fer í hylki.

Categories: Drama, Sci-fi, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.