„She went there“ mynd

Adrift

Oft veit maður ekki hversu dýrmætt fyrirbæri lífið er fyrr en móðir náttúra ákveður að láta til sín taka í stórri sveiflu. Í hamfarasögunni Adrift er rekin sönn lífsreynslusaga Tami Oldham Ashcraft og unnusta hennar. Árið er 1983 og halda þau saman í skútusiglinu frá Tahíti til San Diego en á miðri leið lenda þau í fjórða stigs fellibyl og fer allt í rúst. Þegar Tami vaknar er báturinn ónýtur, maðurinn horfinn og litlar líkur á björgun. Þá verður Tami að nota eðlishvötina, vonina, mátt minninganna og grjótharðan baráttuvilja til að sigrast á dvínandi lífslíkum á sjó.

Það er aldrei sjálfsagt mál að stórbrotin raunasaga verði áreynslulaust að stórbrotinni kvikmynd og þar siglir Adrift einhvers staðar á milli bitlausrar, rómantískrar vasaklútamyndar og meiriháttar sterkrar ófarasögu. Stundum er jafnvel eins og aðstandendur séu ekki alveg vissir um hvorn fótinn á að stíga í, því myndin gengur ekki upp sem hvort tveggja. Hún er í flesta staði vönduð á yfirborðinu (og sérstakt hrós til förðunardeildar og kvikmyndatökuliðs) þó grunn sé og skilur álíka mikið eftir sig og síðdegissápa á blautum sunnudegi.

Adrift er fyrst og fremst frábært sýnidæmi um leikgetu ungu leikkonunnar Shailene Woodley. Það er nánast ómögulegt fyrir áhorfandann að finnast hana ekki trúverðug í krefjandi aðalhlutverkinu og hennar baráttu. Þau Sam Claflin ná vel saman en verða í sameiningu fyrir bölvun stirðra samtala, yfirleitt í atriðum með kraft að markmiði sem enda í melódramatík. Meira geisp heldur en gasp, því miður. Handritið minnir reglulega á það hvað Woodley og Claflin elska hvort annað og eru ástfangin, en myndin skautar svolítið yfir dýptina í sambandinu þeirra. Oft skrifast þetta á ólínulegan strúktúr myndarinnar.

Myndin fær svo sannarlega prik fyrir að segja stóran hluta sögunnar í tættum endurlitum, en heildin græðir lítið á dýnamískum strúktúr þegar hann hefur áhrif á dramabyggingu og er mestmegnis notaður í þágu stórrar sögufléttu. Stundum eru skiptingar milli sena truflandi og eru kostir og gallar við að nota fellibylinn aftarlega í sögunni. Oft er líka meira sagt upphátt en þörf er á og gengur stóra fléttan ekki alveg upp eða hvernig spilað er með hana.

Adrift er tólfta kvikmynd Baltasars í fullri lengd og fylgir henni ögn meiri áhersla á blíðu og von en hefur yfirleitt örlað fyrir í kvikmyndum Baltasars. Leikstjórinn nær hins vegar að græja eins mikinn náttúrulegan blæ og hann getur. Þegar leikstjórar kippa með sér færasta kvikmyndatökumanni heims (sem sagt Robert Richardson – sem unnið hefur reglulega með Scorsese, Stone og Tarantino) er lítill séns á týpískum Hollywood-glansi yfir áferðinni.

Að mati undirritaðrar hefur Claflin í raun og veru meiri skjátíma en þurfti, enda bestu senurnar oftast þær sem sýna Woodley algjörlega berskjaldaða gegn náttúrunni og þróun hennar, drífanda og áskoranir.

Adrift segir í rauninni og gerir fátt betur en var ekki miklu betur tæklað í til dæmis háskamyndunum All is Lost eða Life of Pi jafnvel á vissan hátt. Annars er alveg skiljanlegt að margir sjái þessa mynd sem „Cast Away fyrir Fault in Our Stars eða Titanic-kynslóðina.“ Þá væri vissulega Sam Claflin blakboltinn í þessu tilfelli, en hann nær ómögulega sama sjarma og Wilson heitinn gerði á sínum tíma.

 


Besta senan:
Raymond skellur á.

Categories: "She went there" mynd, Drama | Leave a comment

Atomic Blonde

Atomic Blonde er fjarri því að vera innihaldslaus mynd, en það er ótvírætt að stíllinn sé í algerum forgangi. Þetta væri þó meira vandamál ef stíllinn væri ekki svona poppaður og lokkandi. Myndin er byggð á myndasögunni The Coldest City og sameinar frásagnarstíl gamaldags njósnaþrillera (í líkingu við þessa sem John LeCarré er þekktur fyrir) og harðsoðnari hasarveislur á borð við John Wick myndirnar, þar sem slagsmálasenur líkjast meira stílfærðum og ágengum dansi (segjum „ofbeldisballett“) frekar en linnulausum pyntingarathöfnum. Annars er skemmst að segja frá því að myndin er mátulega hörð – án þess að fara yfir strikið og áhorfandanum er leyft að finna fyrir hverju höggi þegar söguhetjan er komin í gírinn.

Sögusviðið er Berlín undir lok níunda áratugarins rétt áður en múrinn féll og samfélagsleg uppþot tímabilsins við það að ná hámarki. Charlize Theron leikur Lorraine Broughton, einn af toppútsendurum bresku leyniþjónustunnar, sem beitir kynþokka sínum og gáfum til að halda sér á floti í óútreiknanlegum heimi njósnara á dögum kalda stríðsins.

Lorraine er send til að hafa uppi á mikilvægum lista yfir gagnnjósnara, en í Berlín mætir hún sérvitrum stöðvarstjóra að nafni David Perc­ival (leikinn af háfleygum James McAvoy). Fljótlega verður ljóst að fleiri en einungis David hafa eitthvað að fela og Lorraine getur fáum treyst nema sjálfri sér þegar andstæðingar skjóta reglulega upp kollinum í leit að listanum eftirsótta.

Leikstjórinn og áhættuleikarinn fyrrverandi David Leitch er enginn nýliði þegar kemur að hasar. Leitch var annar leikstjóri fyrri John Wick myndarinnar og finnur hér fjölbreyttar leiðir til þess að útfæra eftirminnileg slagsmál eða eltingarleiki sem þræðast í kringum svikamyllurnar og í senn framkvæmir hann með teymi sínu hina ótrúlegustu hluti fyrir varla þriðjung af fjármagninu sem fer venjulega í stærri Hollywood-spennumyndir.

Elísabet Ronaldsdóttir sér meistaralega um að koma bröttu og fjörugu rennsli á heildina og gefa framvindunni aukinn púls ásamt eldfjörugu tónlistarvali þar sem „eitís fílingnum“ er dælt beint í æð – þó segjast verði að Cat People-lagið frá David Bowie verði aldrei betur nýtt heldur en í Inglourious Bast­erds, en bæði sú mynd og Atomic Blonde eiga það sameiginlegt að skarta þýska leikaranum Til Schweiger,­ merkilegt nokk.

Kvikmyndatökumaðurinn Jon­athan Sela leikur sér síðan að lýsingu og neonlitum af miklu afli og rammar inn tímabil myndarinnar á ferskan hátt en skapar sömuleiðis eiturharða stemningu þegar þriðji hver rammi er eins og ofurstílfært listaverk. Það er mikil dýnamík í tökustílnum, sem best nýtur sín í hreint magnaðri „óslitinni“ töku þar sem farið er frá slagsmálum í stigagangi til gatna Berlínar í sömu senu.

En markviss leikstjórnin og slípað útlit myndarinnar er eintóm skreyting til samanburðar við þá rafmögnuðu geislun sem Charlize Theron gefur frá sér. Theron sannaði það með brjáluðum tilþrifum í Mad Max: Fury Road hversu ótakmarkað svöl hún getur verið og undirstrikar þetta enn frekar í Atomic Blonde.
Persónuprófíllinn hjá keðjureykjandi glókollinum Lorraine er mikil ráðgáta en nærvera hennar og marglaga sjarmi skilar sér í gegnum bugaðan en bráðgáfaðan karakterinn.

Myndin verður reyndar eilítið ruglingsleg á köflum (ekki heldur laus við eina eða tvær stórar holur) og gefst lítill tími til að kynnast Lorraine formlega þegar svikamyllurnar hlaðast upp. Við fáum aftur á móti að sjá berskjaldaðri hliðar hennar (í andlegum og bókstaflegum skilningi) og mestmegnis þá í senum með Sofiu Boutella. Í smærri hlutverkum ná menn eins og John Goodman, Toby Jones, Eddie Marsan, Jóhannes Haukur og fleiri að gera meira en gott úr sínum takmarkaða tíma. James McAvoy virðist þó vera staðráðinn í því að stela senunni, enda í rjúkandi gír og óhræddur við ofleikinn, nánast eins og hann sé enn fastur í kvikmyndinni Split, en Boutella bragðbætir myndina með smá sakleysi og nauðsynlegri blíðu í sínu hlutverki.

Í hasarmyndum er venjan annars sú að hetjurnar standa upp óskaddaðar eftir hvern bardaga og ganga úr þeim eins og ekkert hafi í skorist. Þessi hefð er látin eiga sig í þessari mynd, þar sem allir eru reglulega sýndir örþreyttir og bugaðir eftir hina hörðustu slagi, sem sýnir að hver bardagi hefur miklar afleiðingar í för með sér.

Atomic Blonde kemst ekki alveg upp á stall John Wick myndanna en hún á alveg erindi í sambærilegan gæðahóp og inniheldur nokkur hasar­atriði sem eru klárlega með þeim tilkomumeiri sem eiga eftir að sjást á þessu ári. Myndin er ekki gerð til þess að vinna nein stórverðlaun en hún er meira en verðugur og hressilega yfirdrifinn stílgrautur sem ætti að halda óslitinni athygli flestra sem vita hverju skal eiga von á.

 

 

Besta senan:
Er það spurning?

 

(dómurinn birtist upphaflega á Vísi þann 9. ágúst)

Categories: "She went there" mynd, Spennuþriller | Leave a comment

Fifty Shades Darker

Fifty Shades-bækurnar eftir E.L. James munu seint teljast til menningarlegra eða vandaðra bókmennta, en einhverja ánægju virðist markhópurinn fá út úr þeim. Skemmst er frá því að segja að það sama á við um bíómyndirnar, þessar tvær sem nú eru komnar út. Af báðum að dæma hefur verið óskaplega lítið innihald til staðar til þess að bera örlátan sýningartíma uppi. Einnig hefur lítið gagnast að brjóta upp efniviðinn með sveittum athöfnum þegar persónurnar eru svona óspennandi og kemistrían á milli þeirra er sama og steindauð.

Í Fifty Shades Darker er þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið. Anastasia Steele er á uppleið í lífinu eftir að hafa losað sig við vafasama auðkýfinginn Christian Grey. En það líður ekki langur tími þar til Grey kallinn er farinn að betla sig aftur inn í líf hennar, með því loforði að verða stilltur strákur. Af óskiljanlegum orsökum ákveður Anastasia að slá til og prófa hvernig gangi að þróa „vanillu“-samband með honum, eins og hún kallar það; engar bindingar, engin leikherbergi og lítið um flengingar. Á meðan Christian gerir sitt besta til að halda aftur af sér birtast einstaklingar úr fortíð hans sem þykja líklegir til að velta öllu um koll, þar á meðal snargeðveikur, fyrrverandi „skjólstæðingur“ hans og eldri kona sem kenndi honum allt sem hann kann á sviði BDSM.

Aðalleikararnir, þau Dakota Johnson og Jamie Dornan, líta kannski ágætlega út og það að þau geti flutt línurnar sínar án þess að bíta í vör eða óvart springa úr hlátri er vissulega afrek í sjálfu sér. Hins vegar er enginn hiti á milli þeirra og kemur þetta fyrir vikið út eins og að horfa á systkini para sig. Ekki fallegt. Framvindan er líka svo þunn, uppfull af endurtekningum og ómeðvituðum aulahrolli að öflugra samspil á milli þeirra hefði litlu bjargað.

E.L. James vill meina að þetta séu ástarsögur en þetta spilast meira eins og harmleikur. Skilaboð þessara Fifty Shades-mynda virðast stafa það út að fullkomlega sé í lagi að vera í sambandi með heimtufrekum, afskiptasömum, köldum og ógeðfelldum manni svo lengi sem hann er heitur í rúminu annað slagið (sérstaklega ef hann er ríkur og gefur þér fartölvu stöku sinnum ef þú ert þæg). Ég hugsaði oft um hversu miklu betra efni þetta væri ef handritið færi bara alla leið með Christian Grey og breytti honum í fjöldamorðingja sem Ana væri að reyna að sleppa frá. Hann ber sig oft eins og hann eigi betur heima í American Psycho.

Að kalla Fifty ­Shades Darker eins konar pyntingu er of auðvelt skotmark. Allir sem berja þessa sandpappírsþunnu lostasögu augum vita fullvel hvað þeir eru að fara út í, en kallast það þá ekki ákveðin vörusvik þegar þú færð hvorki áherslu á losta né almennilega sögu? Þú færð bara stefnulaust sápuóperudrama og væl í fólki sem fer greinilega ekki vel saman. Kynlífssenurnar eru flestar smekklega gerðar, en stuttar, hálfkjánalegar og í besta falli á pari við það sem sést reglulega í HBO-þáttum, sem hljóta að vera talsverð vonbrigði miðað við það sem bækurnar eru þekktar fyrir.

Að auki eru u.þ.b. þrír litlir söguþræðir hér í gangi sem stefna hvergi og ekkert er gert við (Kim Basinger fær t.d. sama og ekkert að gera). Myndin hefur ekki einu sinni almennilegan endi. Hún bara … klárast. Undirritaður getur samviskusamlega sagt að fyrri myndin sé ögn betri því í henni gerðist eitthvað að minnsta kosti – eða stefndu hlutir eitthvert! Fifty Shades Darker er ekki einu sinni svo slæm að hún verði ánægjuleg, því hvet ég alla sem slysast á hana til þess að mæta með góðan kodda.

 

Gef henni tvær rassakúlur af tíu:

61rmqnlsbbl-_sx355_-e1487335434364
(þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 16. feb)

Categories: "She went there" mynd, Drama, Grín, Sori | Leave a comment

Powered by WordPress.com.