Söngva/dansmynd

Dýrin í Hálsaskógi

Fyrir marga Íslendinga er erfitt að verða ekki fyrir vægu nostalgíukasti yfir Dýrunum í Hálsaskógi, hvort sem það snýr að minningum einhverra þeirra fjölmörgu sviðssýninga hérlendis í gegnum áratugina eða einfaldlega tilhugsuninni um piparkökulagið. Þessi káta skilaboðasaga norska leikskáldsins Thorbjörns Egner hefur notið svakalegra vinsælda hérlendis og hefur nánast hver lifandi kynslóð séð, lesið eða heyrt hana í einhverju formi.

Egner var auðvitað mikill siðapredikari en honum var ávallt annt um að flytja jákvæðan boðskap og lögin úr sögunum eru allflest enn í dag algjörir eyrnaormar. Þetta sést ekki bara best á Dýrunum í Hálsaskógi, heldur líka Kardemommubænum og Karíusi og Baktusi. Ef það er eitthvað sem hlýtur að hafa ómað oftar á heimilum barna þjóðarinnar heldur en raddir Ladda, þá eru það orðin „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“. Þetta eru krúttleg og þörf skilaboð í krúttlegri og saklausri sögu. Það er í rauninni ótrúlegt að aldrei hefur gengið að flytja hana upp á hvíta tjaldið fyrr en nú.

Það hefur verið heppilegra (og sjálfsagt kostnaðarminna) að í þessari bíóútfærslu, sem unnin er frá heimalandinu, skuli meira haldið sig við gamla skólann en t.d. tölvuteikningar. Dýrin og heimili þeirra lifna gjörsamlega við með litríkum og heillandi brúðumyndastíl, kenndum við svokallað „Stop-motion“. Útlit og samsetning eru almennt nokkuð glæsileg. Persónurnar gætu ekki poppað betur út þó þörf væri fyrir þrívíddargleraugu, þörf sem þessi mynd er blessunarlega laus við. Til gamans má geta að hönnun persónanna er byggð á handbrúðum sem Egner bjó til fyrir brúðusýningu fyrir u.þ.b. sextíu árum.

Útfærsla tónlistarinnar svíkur engan og á norski kvartettinn Katzen­jammer mikið hrós skilið fyrir að nálgast gömlu lögin með huggulegri virðingu og gefa þeim aðeins meiri aukakraft. Það er heldur ekki slegin feilnóta í íslenskri raddsetningu myndarinnar, þó að undirritaður sé mjög forvitinn að vita hvernig myndin spilast út á upprunalega málinu.

Persónurnar eru allar samkvæmar sjálfum sér og handritshöfundurinn Karsten Fullu hefur ákveðið að breyta ekki of miklu í framvindunni eða samtölunum. Við þekkjum öll orðið þessar helstu fígúrur. Lilli klifurmús er bjartsýnn og prakkaralegur en eitthvað svo óvenju elskulegur þrátt fyrir að vera latur og sjálfumglaður. Hann verður ekkert síður auðelskaður í túlkun Ævars Þórs Benediktssonar, en hann lék sjálfur hlutverkið á sviði frá 2012 til 2013. Orri Huginn Ágústsson smellpassar sem Mikki refur, Viktor Már nær mikilli sál í réttlætismúsina Martein og restin kemur fínt út.

Það sem myndin græðir þó mest á er hversu brött, björt og lífleg hún er. Heildarlengdin er ekki nema 70 mínútur og pakkar hverri mínútu í þann ramma og tryggir að börnin fari ekki að iða of mikið í sætum sínum – nema hugsanlega til að dansa, stappa eða dilla sér með tónlistinni.

Sagan er auðvitað beinskeytt og einföld. Byggingin er hress og skiptist heildarsagan sem áður í tvo hluta; sá fyrri leiðir allt að lagafrumvarpsgerðinni frægu þar sem lögð er fram tillaga um grænmetisát og vinsemd. Í þeim seinni sjáum við svo afrakstur samvinnu dýranna, reiða bændur og kæti í afmælisfagnaði. Það hefði trúlega mátt gera meira úr aðlöguninni, jafnvel bæta við fleiri persónum (eitthvað óskaplega er fátt um skepnur í þessum skógi alltaf) eða lauma inn meiri húmor fyrir eldra liðið.

Dýrin í Hálsaskógi sem saga hefur aldrei unnið sér inn neina punkta fyrir marglaga frásögn eða dýpt í persónusköpun, en sjarma sögunnar er ekki erfitt að finna og enn í dag er skiljanlegt að þessi saga eigi sér sess hjá svo mörgum. Ræturnar eru allavega virtar í bíóútgáfunni og haldið upp á þær. Brúðustíllinn innsiglar það líka að með kátínu í útfærslunni er alltaf gott fjör í Hálsaskóginum.

 


Besta senan:

Piparkökuklemman.
Auðvitað.

Categories: aww..., Söngva/dansmynd, Teiknimynd | Leave a comment

La La Land

Glansandi Hollywood-söngleikir hafa aldrei almennilega dáið út en oft og reglulega átt það til að leggjast í dvala. Seinast komust þeir í tísku rétt eftir aldamótin þegar myndir eins og Moulin Rouge og (hin miður ofmetna) Chicago létu til sín taka og heilluðu Óskarsnefndir. Með tilkomu og velgengni myndarinnar La La Land er nokkuð ljóst að búið sé að opna flóðgáttirnar aftur fyrir fleiri söngva- og dansmyndir á næstunni.

La La Land er þriðja mynd leikstjórans Damiens Chazelle í fullri lengd. Seinasta myndin hans frá árinu 2014, Whiplash, var ein af allra bestu myndum þess árs og hérna sannast að Chazelle er ekki bara afar hæfileikaríkur þegar kemur að samsetningu og leikarasamspili, sögum um metnað, drauma og fórnir, heldur undarlega fjölbreyttur líka. Með La La Land matreiðir hann ákaflega ljúfsára, lokkandi og skemmtilega mynd sem á rætur sínar að rekja til Hollywood-söngleikja gullaldartímans og frönsku perlunnar Les Para­pluies de Cherbourg (sem þessi mynd fær ýmislegt „lánað“ frá). Útkoman er bæði nokkuð einstök og dæmigerð, en einlægnin stendur upp úr og aðeins áhorfendur með verstu söngleikjafóbíu munu stand­ast þessa heillandi umgjörð að ógleymdri orku parsins á tjaldinu.

Emma Stone og Ryan Gosling hafa núna þrisvar sinnum sýnt það hversu vel það fer þeim að vinna saman, einu sinni í krúttkómedíunni Crazy Stupid Love og seinna í misheppnuðu glæpamyndinni Gangster Squad. Kemistría þeirra hefur kraftinn til þess að bæta fyrir ýmsa handritsgalla, virðist vera, en sjálfsagt að frátalinni Bird­man hefur Emma aldrei nokkurn tímann staðið sig betur en hér. Að jafnaði hefur hún átt auðvelt með að vera heillandi og viðkunnanleg en hér tekst henni einnig að nýta stórfín raddbönd sín. Hún lífgar upp á klisjukennda persónu og gerir hana bæði elskulega og sterka.

Gosling er ekki mikið síðri, fyrir utan það að söngrödd hans er ekki alveg að smella. Sem betur fer er hún sparlega notuð, annars væri kjánahrollurinn nær því svæði sem Pierce Brosnan tileinkaði sér í Mamma Mia!. Það er svæði sem enginn vill vera á.

Hins vegar fer ekki á milli mála að flottustu „danshæfileikar“ myndarinnar eru í höndum upptökumannsins Linus Sandgren. Myndavélin svífur með glæsibrag í gegnum aðlaðandi og vel æfð númer, auk þess að leyfa heilum senum að spilast oft út í óslitnum tökum. Litanotkunin er líka meiriháttar, sem og búningar og allt sem viðkemur því að fanga rétta andann og gefa nútíma sögusviðinu mjög gamaldags svip, enda fortíðarþrá eitt af lykilþemum sögunnar.

Myndin rýkur af stað með eldhressu og aðdáunarverðu opnunaratriði, sem gefur reyndar bjartari og ýktari tón heldur en við fáum síðan út restina af myndinni og fyrir vikið kannski ekki alveg í réttum takti við efnið. Síðan virðist eins og það gleymist í óvenju langan tíma að myndin sé í rauninni söngleikur, rétt í kringum miðbikið. Fátt er í söguþræðinum sem kemur á óvart (sérstaklega ef maður hefur séð Cherbourg-myndina) en aðalatriðið er að við tengjumst parinu og höldum upp á baráttu þeirra við að eltast við drauma sína.

Af þessum stærstu Óskarstilnefndu myndum í ár er ekkert sem getur slegið út gæði hinnar ómótstæðilegu Moonlight, en La La Land réttlætir tilvist sína og tilnefningahlass með talsverðum sjarma, botnlausri umhyggju fyrir efninu og græðir sitt hvað á því að leika sér að litlum klisjum og forðast melódramatík. Lögin mættu mörg vera eftirminnilegri en hjartað slær fast í þessu kvikindi og tilfinningin eftir stórglæsilegt lokaatriði varir lengi að áhorfi loknu. Myndin er næstum því æðisleg, en gott bíó er hún. Sannarlega.

 

7

Besta senan:
Lokasporin, vissulega.

 

(þessi dómur birtist í sinni upprunalegu mynd í fréttablaðinu 9. feb)

 

 

Categories: Drama, Söngva/dansmynd | Leave a comment

Into the Woods

Ég er allur opinn fyrir skrautlegum og söngóðum ævintýrabræðingum, en ég hef absolút engan skilning á því hvernig er hægt að gera mynd sem vefur prýðilega saman Rauðhettu, Öskubusku, Garðabrúðu og Bauna-Jóa og gera hana svona miskunarlaust leiðinlega. Og þetta kemur frá manni sem kallar sig söngleikjadruslu!

Músíkin er vitanlega smekksatriði en þetta snýst minna um það að kannski 10% söngnúmerana eru annaðhvort eða bæði eftirminnileg og skemmtileg (dúett prinsanna er tær hápunktur! eftir það versnar myndin með hverjum kafla). Auðvitað setur það fullt af strikum í kladdann fyrir söngleik og þar missir Into the Woods marks. En það sem hrjáir hana meira er hversu töfralaus og fókuslaus hún er, með alltof marga bolta á lofti og afbrigðilega þurr í visjúal-stíl.

INTO THE WOODS

Hvar eru litirnir? hvar er lífið? hvar er sjarminn? og umfram allt, hvar er dökka, umtalaða bitið sem gerði Broadway-sýninguna svo fræga? Meira að segja á Disney-kvarðanum er þetta ósköp milt, fyrir utan einhverja smávægilega pedó-strauma frá vonda úlfinum (sem Johnny Depp leikur… ekkert alltof vel, og syngur verr). En án þess að hún hafi gripið mig sérstaklega heldur sagan þolanlegum dampi þangað til að hún lætur eins og allt sé að líða að lokum, og þá taka við 40 grimmt óspennandi mínútur þar sem efniviðurinn er að tefja endinn með brútal hörku. Lokaþriðjungurinn er það sem tekur allra mest á.

Leikstjórinn Rob Marshall hefur aldrei verið upp á marga fiska, og versnar því meira sem myndirnar hans stækka. Ég var enginn aðdáandi Chicago, né Memoirs of a Geisha eða Nine, en þær myndir að minnsta kosti geisluðu á einn hátt eða annan. Eftir að Marshall fór að láta Disney stjórna sér er alveg sama hve miklum peningum hann hendir í fallega búninga og umgjörð, þá er áferðin svo flöt og óheillandi að það er eins og sé búið að sjúga hálft andrúmsloftið úr skjánum. Ég minni á að þetta er sami leikstjórinn og gerði Pirates-myndina sem fæstir muna eftir og enginn bað um.

inherent-vice-image-joaquin-phoenix-katherine-waterston

Það er erfitt að setja út á neinn leikara, að frátöldum Já-manninum Depp. Flestir eru nokkuð góðir og þokkalega raddtjúnaðir. Rauðhetta ber af ásamt Chris Pine sem hinn unaðslega sjálfumglaði og ákveðni prins „Charming“. Meryl Streep flýr ekki undan oflofinu sem hún hefur fengið fyrir voða dýptarlaust og þreytandi hlutverk sem hún hefur hér, en hún spinnur það besta sem hún hefur úr því.

Ég kann annars alltaf við Önnu Kendrick og Emily Blunt. James Corden og Blunt leika bakara og eiginkonu hans sem þræða saman sögurnar frá sinni miðju. Þau eru fín, viðkunnanleg og smellpassa þar sem þau eru en ef myndin hefði stoppað skyndilega hefði mér ekkert legið lífið á að klára hana. Það er átak út af fyrir sig að reyna að sýna persónum umhyggju þegar lögin þeirra getað næstum því rotað mann til svefns.

Ef senurnar eru algjörlega líflausar á skjánum þá er það ekki fólkinu að kenna heldur textanum líklegast, eða leikstjóranum. Into the Woods hlýtur að vera aðeins ætluð Sondheim- eða prinsessufíklum, og engum öðrum.

fjarki

Besta senan:
„Agonyyyyyy“

Categories: Ævintýramynd, Söngva/dansmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.