Sori

The Happytime Murders

The Happytime Murders virðist rísa og falla á einni einfaldri (og innantómri) grunnhugmynd. Hún lýsir sér þannig að það sé skilyrðislaust stórfyndið að fylgjast með leikbrúðum blóta, dópa og stunda fleiri ódönnuð dólgslæti. Handritsgerð eða hugmyndaflug með þessum tiltekna húmor fer rakleiðis í aftursætið. Þá stendur í rauninni eftir fátt annað en langdregin sketsamynd sem óskar þess að eiga roð í flugbeittu hnyttnina sem einkenndi t.d. Team America – þar sem háðsádeila og samtímagrín flutti ruddaskapinn á efra plan.

Staðreyndin er sú að The Happytime Murders hefur einfaldlega komið út röngu megin við aldamótin. Þetta er mynd sem ber 16 ára aldurstakmark en er í rauninni gerð handa 12 ára krökkum og styðst við 20 ára gamla brandara. Þá fellur ekki niðurstaðan aðeins í skuggann á ofannefndri brúðumynd, heldur líka uppátækjasemi efnis á borð við Crank Yankers sjónvarpsþættina eða Meet the Feebles frá Peter Jackson.

Það er erfitt að binda líflínuna við brúður í tómu lúalagi þegar aðstandendur eru langt frá því að vera fyrstir í mark, en ófrumlegheit má alltaf fyrirgefa þegar efniviðurinn er tenntur og heldur athygli. Hér er notast við þá hundgömlu tuggu að matreiða skopstælingu á harðsoðna „noir-geiranum“ og sárvantar skarpari eða breiðari vinkil. The Happytime Murders tekur helstu spæjaraklisjurnar fyrir (kynlíf, dóp, svik, kúgun, félagaerjur o.þ.h.) með lítilli meðvitund fyrir þeim klisjugildrum sem handritshöfundar lenda sjálfir í.

Það eina sem gerir verkið eitthvað merkilegt að lágmarki er vissulega aðkoma Brians Henson, son Prúðuleikaraföðursins Jim Henson (og þess má geta að Brian leikstýrði sömuleiðis einni bestu mynd þeirrar seríu, sem er Muppet Treasure Island). Þessari staðreynd fylgir auðvitað loforð um að brúðuvinnan sé til mikillar fyrirmyndar og hönnunin á ýmsum fígúrum skrautleg. Lengra nær það hins vegar ekki þegar persónurnar sjálfar – hvort sem þær eru handstýrðar eða af holdi og blóði – eru svona bragðlausar.

Áreynsluleysi er vanmetinn galdur í groddaragrínmyndum og það nær The Happytime Murders aldrei að mastera. Hún svitnar af rembingi og virðist Henson vera sannfærður um að kjaftagangurinn haldi merkilega bröttum sýningartíma á lofti. Myndin er rétt í kringum 70 mínútur en nær samt lítið á þeim tíma að koma með sögu, skítsæmilega persónudýnamík eða spennandi framvindu til þess að réttlæta þessa lengd sína af viti þegar hálftími hefði dugað.

Það má lengi tönglast á því sem þessi mynd nær hvergi tökum á, en það hversu ískyggilega ófyndin og fyrirsjáanleg hún er við hvert horn er hennar alvarlegasta brot. Það telst til mikils sigurs ef hálfu flissi er náð á þessum sýningartíma. Þar að auki þarf einhver loksins að flytja Melissu McCarthy þær fréttir að mikill kjaftur er ekki alltaf samasemmerki á hláturskast. Á góðum degi (og sérstaklega með efnilegt handrit) er ýmislegt hægt að gera gott við nærveru McCarthy, en þessi bíómynd dregur út hennar verri hliðar. Vonandi fær umbinn hennar vænt spark í heilaga svæðið eftir svona frussandi flopp.

 

Einkunn: Tveir dauðir Kermit’ar af tíu.

Besta senan:
Örugglega einhver throw-away lína sem ég flissaði yfir í míkrósekúndu, en gleymdi svo.
Týpískt.

Categories: Grín, Sori | Leave a comment

The Emoji Movie

Teiknimynd um gangverk snjallsíma og veröld broskalla (eða „tjákna“) hljómar varla eins og ávísun á gæði, en það er svo sem ekki ómögulegt að gera skemmtilegt bíó úr vondri hugmynd, eða efnivið sem er í grunninn samansafn af æpandi vörukynningum. Áhugi fyrir frásögn þarf þá að vera til staðar. Þetta sást til dæmis á vel heppnuðum Legómyndum og stórfínu ævintýri með lukkutröllum í fyrra. Það er hins vegar aldrei góð hugmynd að gera mynd þar sem ekkert liggur fyrir í metnaðinum annað en að stela frá betri teiknimyndum og kynna öpp í 80 mínútur.

Í Emoji-myndinni eru bókstaflega allir krakkar stöðugt límdir við snjallsímann sinn (eins fjarstæðukennt og það kann að hljóma?…) og eiga erfitt með nokkra tjáningu án hans. En það sem þeir vita ekki er að í hvert skipti sem emoji-kall er sendur út, stendur lifandi „tjáknmynd“ vaktina í heimi innan snjallsímans. Sá niðurdrepandi heimur er morandi í brosköllum og öðrum tegundum tákna sem þrá fátt heitar en að vera valin af eiganda símans. „íbúarnir“ mega biðja fyrir því að tækin þurfi ekki á alvarlegri viðgerð að halda í bráð.

Hvert tjáningartákn gegnir augljóslega ákveðinni rullu í samfélaginu. Aðalkarakterinn Gene er fæddur í hlutverk „Meh“-táknsins, en það reynist honum erfið tilvera í ljósi þess að hann hefur miklu fleiri tilfinningar að sýna. Samfélagið ætlast hins vegar til þess að Gene gangi hlutlaus og bældur í gegnum lífið og vegna þessara tilfinningasveiflna er hann „bilun“ í kerfinu í augum æðra fasistavaldsins, svo það kemur þá ekki annað til greina en að eyða honum. En auðvitað leggur Gene á flótta, kynnist nýjum vinum og lærir að taka sig og „galla“ sína í sátt með tímanum og eigna sér þá.

Boðskapur myndarinnar er í eðli sínu mjög jákvæður og hamrar á mikilvægi þess að vera maður sjálfur og þora að gera eitthvað öðruvísi en það sem aðrir búast við af manni. Úrvinnsla þessa boðskapar missir samt marks á allan veg, enda virðist ekki hafa verið mikill áhugi aðstandenda fyrir því að segja sögu né gera eitthvað ferskt eða marglaga við persónurnar eða heiminn sem umkringir þær, þannig að þetta kemur í staðinn bara út eins og væn predikun. Fyrir utan það hefur þessi nákvæmlega sami boðskapur verið fjórfalt betur meðhöndlaður í til dæmis The Lego Movie eða Wreck-It Ralph, tveimur myndum sem hafa augljóslega veitt þessari mikinn innblástur í fleiri deildum, ásamt Pixar-perlunni Inside Out. Það kemur smávegis út eins og einhver framleiðandi hjá Sony hafi bent á þá mynd og hugsað: „Gerum eitthvað svona!“ án þess að skilja til fulls hvað gerði þá mynd svo góða.

Heimurinn í Emoji-myndinni er manískur, illa úthugsaður og sjaldan lokkandi, þrátt fyrir litríka grafík og hönnun sem sleppur fyrir horn og poppar án þess að vera framúrskarandi. Myndin er uppfull af orku og ærslagangi en laus við alla sál, alla hlýju, alla sköpunargleði og almennilega hnyttni. Atburðarásin er bærileg í fyrri hlutanum (og það er einhver dulin snilld falin í valinu á þeim Patrick Stewart (sem talar fyrir saurtáknið), Jennifer Coolidge og Steven Wright í ensku útgáfunni) en fljótt magnast upp leiðindin eftir því sem klisjunum fjölgar, pínlegu orða­gríni og miskunnarlausum „plöggum“ sem jaðra við það að vera eins konar fyrir­tækjaáróður. Meirihluti framvindunnar gengur út á það að fylgjast með Gene eða öðrum stytta sér leiðir í gegnum forrit eins og Instagram, Twitter, YouTube, Just Dance, Spotify og fáum við meira að segja snögga kennslu á CandyCrush. Svo slæmt verður það.

Myndin er vissulega gerð og mótuð fyrir yngri hópa og ætti að einhverju leyti að svínvirka fyrir þá, á meðan flestir utan þeirra eru líklegri til þess að skemmta sér yfir því að spyrja sig hvaða vörukynning kemur næst á meðan á glápinu stendur, ef þeir eru ekki reglulega að kíkja á símana sína hvort sem er.

 

 

Besta senan:
Góðar fimm sekúndur þar sem „fornaldar-tjáknin“ dúkka upp.

Categories: Sori, Teiknimynd | Leave a comment

Fifty Shades Darker

Fifty Shades-bækurnar eftir E.L. James munu seint teljast til menningarlegra eða vandaðra bókmennta, en einhverja ánægju virðist markhópurinn fá út úr þeim. Skemmst er frá því að segja að það sama á við um bíómyndirnar, þessar tvær sem nú eru komnar út. Af báðum að dæma hefur verið óskaplega lítið innihald til staðar til þess að bera örlátan sýningartíma uppi. Einnig hefur lítið gagnast að brjóta upp efniviðinn með sveittum athöfnum þegar persónurnar eru svona óspennandi og kemistrían á milli þeirra er sama og steindauð.

Í Fifty Shades Darker er þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið. Anastasia Steele er á uppleið í lífinu eftir að hafa losað sig við vafasama auðkýfinginn Christian Grey. En það líður ekki langur tími þar til Grey kallinn er farinn að betla sig aftur inn í líf hennar, með því loforði að verða stilltur strákur. Af óskiljanlegum orsökum ákveður Anastasia að slá til og prófa hvernig gangi að þróa „vanillu“-samband með honum, eins og hún kallar það; engar bindingar, engin leikherbergi og lítið um flengingar. Á meðan Christian gerir sitt besta til að halda aftur af sér birtast einstaklingar úr fortíð hans sem þykja líklegir til að velta öllu um koll, þar á meðal snargeðveikur, fyrrverandi „skjólstæðingur“ hans og eldri kona sem kenndi honum allt sem hann kann á sviði BDSM.

Aðalleikararnir, þau Dakota Johnson og Jamie Dornan, líta kannski ágætlega út og það að þau geti flutt línurnar sínar án þess að bíta í vör eða óvart springa úr hlátri er vissulega afrek í sjálfu sér. Hins vegar er enginn hiti á milli þeirra og kemur þetta fyrir vikið út eins og að horfa á systkini para sig. Ekki fallegt. Framvindan er líka svo þunn, uppfull af endurtekningum og ómeðvituðum aulahrolli að öflugra samspil á milli þeirra hefði litlu bjargað.

E.L. James vill meina að þetta séu ástarsögur en þetta spilast meira eins og harmleikur. Skilaboð þessara Fifty Shades-mynda virðast stafa það út að fullkomlega sé í lagi að vera í sambandi með heimtufrekum, afskiptasömum, köldum og ógeðfelldum manni svo lengi sem hann er heitur í rúminu annað slagið (sérstaklega ef hann er ríkur og gefur þér fartölvu stöku sinnum ef þú ert þæg). Ég hugsaði oft um hversu miklu betra efni þetta væri ef handritið færi bara alla leið með Christian Grey og breytti honum í fjöldamorðingja sem Ana væri að reyna að sleppa frá. Hann ber sig oft eins og hann eigi betur heima í American Psycho.

Að kalla Fifty ­Shades Darker eins konar pyntingu er of auðvelt skotmark. Allir sem berja þessa sandpappírsþunnu lostasögu augum vita fullvel hvað þeir eru að fara út í, en kallast það þá ekki ákveðin vörusvik þegar þú færð hvorki áherslu á losta né almennilega sögu? Þú færð bara stefnulaust sápuóperudrama og væl í fólki sem fer greinilega ekki vel saman. Kynlífssenurnar eru flestar smekklega gerðar, en stuttar, hálfkjánalegar og í besta falli á pari við það sem sést reglulega í HBO-þáttum, sem hljóta að vera talsverð vonbrigði miðað við það sem bækurnar eru þekktar fyrir.

Að auki eru u.þ.b. þrír litlir söguþræðir hér í gangi sem stefna hvergi og ekkert er gert við (Kim Basinger fær t.d. sama og ekkert að gera). Myndin hefur ekki einu sinni almennilegan endi. Hún bara … klárast. Undirritaður getur samviskusamlega sagt að fyrri myndin sé ögn betri því í henni gerðist eitthvað að minnsta kosti – eða stefndu hlutir eitthvert! Fifty Shades Darker er ekki einu sinni svo slæm að hún verði ánægjuleg, því hvet ég alla sem slysast á hana til þess að mæta með góðan kodda.

 

Gef henni tvær rassakúlur af tíu:

61rmqnlsbbl-_sx355_-e1487335434364
(þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 16. feb)

Categories: "She went there" mynd, Drama, Grín, Sori | Leave a comment

Powered by WordPress.com.