Sori

Austur

Hér er hún, fyrsta íslenska „bíómyndin“ sem kalla má pyntingarklám (fyrst ekkert annað kemur til greina), nema með óvæntu tvisti þar sem hún snýr sér að áhorfandanum og sér til þess að hann verði miskunnarlaust fyrir almestu pyntingunni. Þetta gerir hún ekki með ofbeldi, heldur hreinu, ógeðfelldu stefnuleysi og glataðri, bókstaflega fókuslausri úrvinnslu.

Það að Austur hafi tekist að skila sér í kvikmyndahús er dapurt merki um standard (lærði enginn neitt af Blóðhefnd?!) eða stórsigur fyrir stórt „ekkert“. Hún er mynd sem má mín vegna hverfa sem allra fyrst af yfirborði Klakans ef ekki væri hægt að nota hana sem sýnikennslu um hvernig þú átt ekki að fara að því að teygja svona stíft á ímynduðum lopa.

9457466_1280x720

Austur er lauslega innblásin af hinu svokallaða Stokkseyrarmáli þegar manni var rænt og honum pyntað í sumarbústað. Atburðarásin er nákvæmlega ekkert flóknari en einmitt sú setning, og þ.a.l. gerist ekki rass í allri myndinni. Gæja er rænt af einhliða „þöggum“, þeir keyra með hann út á land, og þegar áfangastaðnum er náð pína þeir hann ítrekað… úr ramma. Punktur!

Á góðum degi mætti rúlla upp þessu innihaldi í korters-langa stuttmynd, og illa gerða að auki. Myndin er drekkhlaðin löngum, díalóg-lausum uppfyllingum, sem samanstanda af öllu frá endalausum bílasenum eða skotum af Ólafi Darra að keðjureykja eða éta snakk. Það hefði verið hægt að spila aðeins með sækólógíuna og sambönd einstaklinganna á skjánum, en slíkt er bara aldrei til umræðu.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Engin spenna, engin skilaboð, ekkert sjokk, minni tilgangur. Fórnarlambinu fáum við aldrei að kynnast af viti, baksagan er öll týnd og gleymist alveg sjónarhorn þess eftir einhverjar tuttugu mínútur. Allar aðrar tilraunir til „persónusköpunnar“ eru vanhugsaðar og ódýrar. Sá eini sem er eitthvað líklegur til að sleppa úr þessu óskaddaður er auðvitað Ólafur Darri (nota bene, nýbúinn að deila skjánum með McConaughey, Harrelson, Stiller og Neeson!), bara því hann er sá eini þarna með einhverja reynslu og getu til að skila góðu úr engu.

870ae77d2c2310133b4fc937959c42d92b5bb4e6

Það hefði jafnvel verið sniðugt að gera karakter Ólafs einhvern veginn að þungamiðju sögunnar ef áhugi hefði verið fyrir öðru en bara að rétt skima yfir hans merkilega prófíl sem góðhjartaður (?) pedófíll.

Mikilvægt er að taka það fram að handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson skrifaði m.a. svellkalda saurinn Frost fyrir fáeinum árum, og eiga þær Austur (sem er leikstjórafrumraun hans) einmitt það sameiginlegt að geta ómögulega borið frásögn í fullri – eða svo mikið sem hálfri – lengd. Kannski vildi Jón Atli keyra myndina alla á sniglahægu tensjóni, myndrænni frásögn, hráum realisma og andrúmslofti, en öll svoleiðis mótíf skolast burt þegar annað hver rammi dettur úr fókus og hver sena á eftir annarri meira ósannfærandi.

Monday_night_football_-_sensory_deprivator_1

Hljóðvinnslan er í algeru rugli. Samræður bergmála oft, en þær missa hvort eð er missa flestar marks – eins sparsamlegar og þær eru. Menn rífa aðallega bara kjaft þegar þeir eru ekki að setja upp harðan svip, fikta í kveikjara og tala um allt sem þeir ætla að gera í stað þess að gefa okkur einhverja innsýn í hvað þeir eru að gera og hvernig áhrif það hefur eða hefur ekki á þá. Ef einhvern tímann verður litið yfir flóru íslenskra drasl-indímynda þá má aldrei sú sena gleymast þar sem manni er skipað fullum hálsi að skafa af happaþrennu, eða atriðið þar sem einn fanturinn lofar dóttur sinni að fara með hana í Smáralindina.

Þegar fréttist út að hópur fólks hafið gengið út úr miðri aðstandenda- og fjölmiðlasýningu greip leikstjórinn víst til þeirra orða að sumir áhorfendur höfðu einfaldlega bara ekki magann í þetta undirheimainnlit sem hann kvikmyndaði (kjaftæði…), enda virðist myndin bera „Stranglega bönnuð innan 16 ára“ merki sitt eins og heiðursstimpil og spáir ekkert í vörusvikunum.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

Merkilega lítið er um ofbeldi í Austur (mest bara fáeinar blóðslettur), alveg eins og það er lítið sem líkist súbstans almennt. Förðunin sleppur svosem en þetta er allt bara þurr, þreytandi æfing í stíl og afbragðs áskorun fyrir þolinmæði hvers og eins.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hverjum þessi mynd er ætluð, en mér leiddist svo mikið yfir henni að hugur minn hvarf á staði sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í heilabúinu; dökka, furðulega staði sem komu hvergi umfjöllunarefni myndarinnar við né áhrifum þess. Aðeins tvisvar sinnum á ævi minni hef ég gengið út af bíói og Austur freistaði mín svo, svo mikið. Ég hefði átt að beila og vita betur, en á endanum gat ég bara ekki leyft þessum viðbjóði að sigra mig.

48bb80d5d2c94784004e8d54f6660f8f

 

Einn Bósi Ljósár af tíu…

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, (mynd sem varla er hægt að flokka), aww..., ekkert, Grín, Sori | Leave a comment

Seventh Son

Seventh Son var ekki verið í neinu flýti með að líta dagsins ljós; tekin upp 2012 og sett svo á hilluna tæplega tvö ár. En hvort sem hún hefði komið út í fyrra eða hitt í fyrra er enginn séns að hún hefði flúið undan þeim örlögum að vera ein misheppaðasta fantasíu-ævintýramynd til síðari ára sem svoleiðis betlar eftir heitum sessi á mörgum eitruðum botnlistum.

Þetta er klárlega rétta myndin fyrir alla sem leita að einhverju í líkingu við Eragon, Dungeons & Dragons (’01), The Sorcerer’s Apprentice og verstu partana úr Hobbit-þríleiknum, helst rúllað upp í einn ruglingslegan og viðbjóðslega ljótan CG-haug. Innihaldið, sem byggt er á bókinni The Spook’s Apprentice, ber öll þess merki um að hundómerkilegu handriti hefur verið slátrað í ræmur í eftirvinnslunni og leikararnir eru allir úti á túni.

seven

Það er sárt að sjá tvo af mínum uppáhaldsleikurum gera sig að algjörum bavíönum. Julianne Moore lifir sig inn í kjánalegheitin með bestu lyst en gerir samt ekkert fyrir hlutverkið og bókstaflega æpir eftir Razzie-athygli. Jeff Bridges er heldur ekkert skárri heldur en hann var í R.I.P.D. (sama hve mikið ég reyni að gleyma þeim horbjóði, þá gengur það ekki!) – því fyrst og fremst er hann í nákvæmlega sömu stillingu; mumblandi og þreytulega klikkaður; eins og Rooster Cogburn hafi dottið á hausinn og inn í ranga mynd. Óskiljanlega lék þessi snillingur í True Grit, R.I.P.D. og svo Seventh Son – allar í þessari röð.

Í aðalhlutverkinu, sem fallega, hárprúða hetjan með pírðu augun, er Ben Barnes – frægastur fyrir að leika Prince Caspian, með tveimur ólíkum hreimum. Barnes virðist lítið getað að því gert að vera einstaklega óspennandi, auðgleymdur og persónuleikalaus nærvera á skjánum. Alicia Vikander (sem næst mun sjást í hinni frábæru Ex Machina) er engu skárri og virðist bara poppa upp (bókstaflega) eftir þörfum í plottinu.

1280x720-16K

Svo bregður Kit Harrington fyrir… í svona tvær mínútur, trúlega því hann hefur miklu betri hluti að gera í Game of Thrones – og á meðan Seventh Son stóð hugsaði ég oftar en tvisvar sinnum hvað mig langaði miklu frekar að horfa á þá þætti í staðinn. Myndin er stundum svo þroskaheft lummuleg að það má hafa gaman af soragildinu í henni, en niðurdrepandi er hversu mikil sóun á orku, tíma og aurum hún er.

Leikstjórn Sergeys Bodrov lætur engar klisjur stoppa sig, og kemur út eins og hún nærist öllu heldur á þeim og tekur þeim öllum fagnandi. Hann reynir að gefa henni epískan „Miðgarðs-fíling“ en léleg klipping og ódýrar brellur – í ógeðfelldu magni – stíga svolítið á þá drauma. Seinast þegar hæfileikaríkur erlendur kom svona illa út úr Hollywood-kerfinu var þegar Oliver Hirshbiegel (Downfall) lét yfir sig vaða með The Invasion. Bodrov gerði t.d. frábæra hluti með stórmyndinni Mongol. Hvernig honum tókst að fara þaðan yfir í þetta er geðrænt púsl sem ég næ ekki að leysa…

SEVENTH SON

Tónlistin er ömurleg (það hljómar eins og Marco Beltrami sé að herma eftir James Horner, þegar hann hermir eftir sjálfum sér!) hasarinn er lélegur og leiðinlegur og þau fáu skipti sem maður finnur fyrir einhverjum votti af hugmyndaflugi þarf ekki skjárinn annað en að drukkna í brellum til að það snúist allt við. Yfirleitt er Newton Thomas Segel frábær kvikmyndatökumaður (hápunktur hans myndi vera Drive) en ekki í þetta sinn. Rammarnir hans eru oflýstir oft og landslagsskotin líta öll út eins og þau séu tekin af einhverjum lager.

Í rauninni er óskaplega fátt jákvætt við Seventh Son, fyrir utan viss móment sem hefðu eflaust getað skipt meiru máli ef myndin kæmi ekki öll út eins og peningauga með metnaðinn sinn í ruglinu. Hún m.a.s. nær hinu undarlegasta markmiði að láta Jupiter Ascending líta út eins og æfingu í frumleika og taumhaldi, og það er bara vegna þess að báðar hugsuðu (mis)stórt og feiluðu, báðar voru settar á hilluna, komu svo út sömu helgi og sýna Óskarsverðlaunahafa tapa sér í ýktum ofleik.

En þar ég efa ekki að The Dude og Maude Lebowski vilji ábyggilega eftir bestu getu gleyma tilvist þessarar hörmungar þá er lítil ástæða til þess að áhorfendur ættu ekki bara að gera það sama.

tveir

Besta senan:
Allt sem albínóorkinn Tusk gerir.

Categories: Ævintýramynd, Sori | Leave a comment

Taken 3

Þegar Pierre Morrel gerði fyrstu Taken-myndina þá tókst honum bæði að stuða svo mikilli orku og hörku í óttalega standard, heilalausa B-spennumynd og gera úr henni eitthvað aðeins meira en það. En líka var það því að þakka að Liam Neeson fann þarna einhvern hvata til að breyta sér í einn svalasta bíópabba nýju aldarinnar. Eftir fáein missterk ár sem hasarstjarna er orðið núna fulláberandi að hann er einungis skokkandi eftir launaseðli og eftir að Olivier Megaton tók við með bæði framhöldin var hvort sem er búið að mergsjúga allt saman úr uppskriftinni sem gerði fyrstu myndina svo grimmt skemmtilega.

Neeson má nú eiga það að hann er í aðeins líflegri gír núna en seinast. Kannski hafði sturlaða launahækkun hans eitthvað um það að segja ($20 milljóna tékki, halló!) en gæti tengst því að Taken 3 er ekki alveg sama rusl-endurtekningin á fyrstu myndinni og fylgir aðeins meira adrenalín og reiði í plottinu að þessu sinni, en gæði plottsins og úrvinnslunnar er allt annað mál.

coff

Hefndarfílingurinn er tekinn á nýtt stig á meðan splæsað er smá Hitchcock/Fugitive-takti þarna líka. Naglinn okkar Neeson er hundeltur, brjálaður, í hefndarhug, fókusaður og með hæfileikana uppi, og Forest Whitaker leikur skarpan lögreglumann sem er aldrei of langt á eftir honum. Allt þetta myndi hljóma svo miklu skemmtilegra ef væri ekki fyrir eitt… eða margt – það að myndin skuli vera næstum því jafnslæm og Taken 2. Öðruvísi jú, meira lifandi og flæðir betur en heilt yfir alveg jafnmikið táningavænt högg í fésið ef á að bera hana saman við frumeintakið.

Hægt er að ímynda sér að handrit skipti varla of miklu máli í svona mynd en það á eingöngu við um þegar skemmtanagildið ryðst fyrir. Hér er handritið bara einfaldlega lélegt, klisjukennt, sykrað, flækt og makalaust hlægilegt (og þarna er nauðsynlegt að undirstrika það að ofurmennið Bryan Mills lifir skrámulaust af fleiri en eina ruglaða bílveltu!). Hugmyndin er ekki allslaus en þetta er umfram allt skothelt dæmi um hvernig á ekki að vaða í svona afþreyingarmynd. Uppfyllingarefnið í kringum hasarinn allan er nógu aumt fyrir, en verra er það þegar hröðu eltingarleikirnir, byssubardagarnir og slagsmálin byrja þá gerast þær senur ekki meira þreytandi en þegar maður sér stundum ekki hvað í andskotanum er í gangi.

Öll taka og klipping jafngildir verstu eftirhermurnar af Paul Greengrass og seinni-ára Tony Scott á sínu yfirdrifnasta. Megaton virðist vera eðlilega sannfærður um að það betrumbæti tensjónið að klippa saman þrjú/fjögur nötrandi sjónarhorn í eina sekúndu þegar lætin fara af stað. Ofan á þau vonbrigði að þessi leikstjóri kann varla að setja saman nógu effektíva senu af neinni gerð þá bætist við sá harmleikur að ofbeldið hefur verið ritskoðað til að lokka fleiri unglinga. Bæði Taken 2 og 3 eiga það sameiginlegt að fjarlægt allar tennur úr hasarnum og í staðinn gert meira úr rjómalagaðri melódramatík. En eins og gerðist seinast eru engar líkur á því að grófari högg og brák í beinum séu að fara að ýta volgu hlandlyktinni frá. Hún er svo máttlaus og óspennandi þessi mynd að ég var farinn að finna til með öllum sakleysingjunum sem Neeson drepur ómeðvitað á meðan hann þýtur í gegnum allt og alla til að sanna sitt sakleysi.

ried

Whitaker er ásættanlegur en alveg út á þekju, með ekkert til að vinna með og nýtur aðallega góðs af því að gefa skipanir og éta beyglur. Mest undrandi leikaravalið er annars vegar Dougray Scott, í sama hlutverki og Xander Berkeley lék í nr. 1, eins og áhorfandinn eigi bara að taka það náttúrulega í sátt að þessi karakter hafi skyndilega yngst um 10 ár og fengið hárið sitt aftur að auki, burtséð frá því að hegða sér allt, allt öðruvísi. Scott er feykilega vandræðalegur en meira velti ég fyrir mér hvort það sé virkilega svona erfitt að fá Xander Berkeley eða hvort sá gæi hafi þá horft á fyrri myndir leikstjórans. Síðan er það Maggie Grace. Fín leikkona stundum en stendur uppi sem trúlega ein verst skrifaða kvenpersóna sem ég hef séð í spennuseríu, en gerir ekkert að gera annað en að væla, láta leiðbeina eða bjarga sér.

Seinast var það Non-Stop sem sýndi hversu auðvelt er fyrir hetjuna okkar Neeson að breytast ómeðvitað í litla sjálfsparódíu, þó það sé alltaf óneitanlega gaman að sjá hann lúberja illmenni – svo framarlega sem maður sjái hvað er á seiði. Neeson getur því miður ekkert bjargað ‘Tak3n’, eins mikið og hann reynir að vera ekki eins skítsama um allt og síðast. Það leynist samt einhvers staðar ágætis afþreying í þessari mynd sem hefði kannski ekki getað orðið að svona auðgleymdri blóð- og taktlausri travestíu eins og í höndum Megatons.

Bryan Mills fékk sína sénsa og klúðraði því, þannig að upp úr þessu væri skynsamlegra að heilsa frekar aftur upp á John Wick í staðinn.

thrir

Besta senan:
Mills nær „flugi.“

Categories: Sori, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.