Spennumynd

Venom

Það tók aðeins ellefu ár en harðkjarna Spider-Man-unnendur hafa loksins fengið þann óbeislaða Venom sem þeir þráðu – án nokkurrar aðkomu frá aumingjalegum Topher Grace til þess að spilla fyrir fjörinu. Það verður reyndar að teljast nokkuð merkilegt að ofurhetjugeirinn, og stúdíó-kvikmyndagerð eins og hún leggur sig, sé kominn á þann stað þar sem hægt má búast við kvikmynd úr heimi Köngulóarmannsins án þess að Lóa bregði nokkurn tímann fyrir. Að vísu er það ekki af frumkvæði aðstandenda, heldur tengist þetta allt kómískum réttindadeilum.

Lóa-leysið er annars vegar fjarri því að vera lykilvandamálið við sjálfstæða kvikmynd um þorparaskrípið Venom. Það má svo sem ekki neita því að mynd um vinsælasta skúrkinn í heimi Lóa eigi síður möguleika á því að ganga upp þegar vantar réttu hetjuna til að mynda mótvægið. Á móti því er hér komin fínasta afsökun fyrir þungavigtarleikara eins og Tom Hardy til þess að leika lausum hala, innan barnvænna marka. Vissulega.

Til þess að njóta myndarinnar er eina vitið að láta það ekki þvælast fyrir hvað margar ákvarðanir persóna eru taktlausar og bjánalegar, hvað A og B söguþræðirnir eru báðir grautþunnir, hvað framvindan og atburðarásin er lengi að koma sér af stað og reynir að haka í ákveðin tékkbox af úldnum klisjum.

Á pappír er Venom brakandi fersk hugmynd að ofurhetjusögu með sveigjanlegri siðgæðisvita, en hvað úrvinnslu varðar er þessi mynd trúlega fimm eða tíu árum á eftir sinni samtíð. Deadpool-myndirnar ættu m.a. að hafa sýnt fram á að geirinn er farinn að leyfa svigrúm fyrir tilraunastarfsemi, meiri klær og meira pönk. Þess vegna veldur það talsverðum vonbrigðum hvað Venom í rauninni leikur mikið eftir eyranu án nokkurra sénsa. Það kemur hálfpartinn á óvart hvað hægt er að búa til krakkavæna mynd um furðuhetju sem ítrekað étur hausinn af óvinum sínum. Aðeins tenntari nálgun á hráefnið hefði ekki sakað.

Í stórmyndum þessa dagana er þó ekki í boði að framleiða kvikmynd um illmenni án þess að sé þá dregin upp þörf til þess að breyta henni í gallaða hetju, ekki þegar helsti markhópurinn er á grunnskólaaldri. Þá þarf að finna annan, enn verri skúrk fyrir andhetjuna til þess að slást við. Í tilfelli Venom lendir þetta þá í hinni margnotuðu gryfju – sem Marvel Studios myndirnar hafa nú mjólkað niður í tær – þar sem handritið kokkar upp skúrk sem er bein hliðstæða við (and)hetjuna, með nákvæmlega sömu krafta. Þetta skrifast væntanlega líka á efnivið myndasagnanna að einhverju leyti, en það gildir ekki alltaf sem afsökun.

Óneitanlega tekst Tom Hardy að rífa þetta ruslhandrit á betri stað, með dásamlegum ofleik sem slær upp í létta Nic Cage-takta á tíðum. Leikarinn hefur sjálfur gefið í skyn að myndin hafi verið skorin niður um góðar 40 mínútur (hvort sem hann sagði það í gríni eða ekki er enn óvitað). Ef áhorfandinn skoðar saumanna er alveg óhætt að segja að það sjáist merki um að myndin hafi lent í einhverri hakkavél hjá höfuðstöðvum Sony. Skýrasta dæmið um það liggur í stærstu persónuþróun myndarinnar, sem er hjá titlaða sníkjudýrinu. Á augabragði breytist Venom úr fjandsamlega illu kvikindi með heimsyfirráð í huga yfir í mýkra dýr með veikan blett fyrir Jörðu og vont sjálfsálit (algjör „lúser“, eins og hann sjálfur segir). Ekki er það mjög sexí og framleiðendur virðast ekki telja það neinu máli skipta að skilja eftir nokkuð kjöt á hvaða beinum sem hér eru í boði.

Þegar handritið finnur sér tíma til að einblína á hið eitraða samband og hressilegu félagasamskipti milli aðalpersónunnar og sníkjudýrsins, verður útkoman nokkuð skemmtileg. Verst er þó að myndin er ekkert sérstaklega fyndin, sama hve mörgum bröndurum hún hleður inn. Það laumast inn kaótískur hasar af og til, en trekkir sjaldan upp neinn púls. Síðan er einhver staðar rauður þráður að ástarsambandi en einungis til þess að haka við enn eitt boxið. Michelle Williams er t.a.m. frábær leikkona á góðum degi en er meiri uppfyllingarpersóna hér en annað. Riz Ahmed leikur helsta skúrk myndarinnar sem eins konar illa Elon Musk fígúru og kann augljóslega vel við sig, áður en hann leysist upp í þorpara af færibandi.

En ef við snúum okkur að köldu mati, þá er makalaust hægt að skemmta sér yfir þunnildunum, svo framarlega sem væntingar séu langt niðri í gólfi og heilastarfsemin í fríi. Það er pottþétt svigrúm til þess að halda áfram með þessa seríu og gera brenglaðri hluti en sem stökkpallur og fígúrukynning hefði margt mátt betur gera. Venom má þó eiga það að vera skömminni skárri og ögn villtari heldur en bæði síðasta mynd Köngulóarmannsins sem var eingöngu í meðferð Sony. Þá er ekki minnst á Spider-Man 3 þar sem úrvinnsla fígúrunnar jaðraði við tómt nördaslys. Þegar upp er staðið eru það slíkir litlir sigrar sem skipta mestu, ef einhverju.

 

Besta senan:
Hardy og humarinn.

Categories: Spennumynd | Leave a comment

Mission: Impossible – Fallout

Enn og aftur hættir Tom Cruise lífi sínu fyrir framan tökuvélina, okkur til skemmtunar. Þetta er vissulega rótin að gangverki þessa myndabálks og má segja að allt annað sé aukaatriði; spennandi söguþráður, skemmtilegt samspil persóna eða fjörug keyrsla. Mest af þessu víkur fyrir sýniþörf brjálaða, dvergvaxna Vísindakirkjumannsins til þess að sýna að hann sé einn sá besti í sínu fagi.

En hvort sem okkur líkar það betur eða verr, er staðreyndin einfaldlega þessi: hann ER einn sá besti, bæði á sviði hinnar deyjandi bíóstjörnu sem og áhættuleikara sem sýnir hvernig skal gera hlutina sem aðrar stórstjörnur myndu seint þora.

Það er skemmtilegt mynstur komið hjá þessum Mission: Impossible myndum. Sléttu-tölu myndirnar (2, 4, 6) eru lifandi teiknimyndum líkari á meðan oddatölumyndirnar fóta sig örlítið meira í raunsæið eftir allra bestu getu. Að því sögðu, þá er sjöttu (og hingað til allra sterkustu) myndinni nákvæmlega ekkert heilagt þegar kemur að hreinræktuðu afþreyingargildi, tilkomumiklum atriðum, ringulreið og keyrslu. Söguþráðurinn er flæktur en gengur upp, hópurinn nýtur sín til botns og þegar líður að dýnamískum og háskrípalegum lokaþriðjungi er áhorfandinn annaðhvort með eða ekki.

Ef til vill hefur engin mynd í seríunni verið jafn yfirdrifin og þessi síðan John Woo-eintakið frá aldamótunum og er það nokkuð mikið sagt. Heppilega er það ekki týnt fyrirbrigði hjá aðstandendum að einbeita sér sterkt að hjartahlýju og sál innan hóp leikenda og tekst ágætlega til að ýta undir mannlega þáttinn. Melódrama með smávægilegu glassúri fylgir að sjálfsögðu með, og tekur smástund að kyngja, en í þessu tilfelli nær handritið að innsigla það sem hluta af stemningunni og ætti að reynast fullnægjandi fyrir fólk sem hefur fylgt myndabálknum í áraraðir.

Það gerist örsjaldan í þessum myndum að áhorfandinn fái að kynnast ofurhuganum Ethan Hunt (Cruise) af einhverju viti. Þriðja myndin í seríunni kom aðeins inn á hans persónuleika og bakgrunn en Fallout flytur það lengra. Þetta skiptir heilmiklu í hasarmynd sem leggur jafnmikið upp úr sjónarspili eins og þessi gerir, að lykilhetjan sé ekki bara viðtengjanleg á einhvern máta, heldur meira en bara pósandi hasargarpurinn sem hann hefur átt til að breytast í.

En Cruise – rétt eins og Hunt sjálfur – væri í raun ekkert án hópsins sem umkringir hann. Þar koma Simon Pegg, Ving Rhames og sérstaklega eðaltöffarinn Rebecca Ferguson sterk inn. Alec Baldwin kemur prýðilega í stað fjarveru Jeremy Renner (þó hans sé að einhverju leyti saknað líka) en Henry Cavill bætir upp sína takmörkuðu leikgetu með trylltri nærveru. Þarna kemur hann hlaðinn byssum sínum og ómetanlegri mottu sem í sameiningu móta algjöra maskínu og góða viðbót í seríuna. Hefði svo sem ekki verið leiðinlegt að gefa Angelu Bassett meira til þess að gera, en gersemarnar eru ekki alltaf veittar á silfurfati.

Mission: Impossible – Fallout er fyrsta myndin í seríunni þar sem leikstjóri situr við stjórnvölinn oftar en einu sinni. Hingað til hafa myndirnar notið góðs af því að búa yfir mismunandi stílbrögðum ólíkra leikstjóra (sem er sérlega mikill kostur þegar stór hluti þessara mynda eru afskaplega svipaðar í efnistökum), en leikstjórinn og handritshöfundurinn Christopher McQuarrie þverbrýtur þessa reglu en matreiðir um leið allt öðruvísi ræmu en síðast (sem sækir í þokkabót smávegis í Christopher Nolan-takta); ekki aðeins yfirdrifnari, heldur sjálfsöruggari, umfangsmeiri og metnaðarfyllri heldur en hefur viðgengist áður.

Kvikmyndataka, stíll og sérstaklega tónlist er til háborinnar fyrirmyndar, af hasarmynd að vera, og rýkur svoleiðis púlsinn upp í hverri hasarsenunni á eftir annarri – þrátt fyrir að útkoman sé í allflestum tilfellum fyrirsjáanleg. Slagsmálasenurnar gefa frá sér mátuleg högg (byssurnar hjá Cavill eiga stóran þátt í því) og eltingarleikir eða áhættuatriði hitta rakleiðis í mark, bæði með sýnimennskunni einni og flottri samsetningu.

Það má ýmislegt segja um þessa mynd ef holur í söguþræði eða endurtekningar eru til umræðu, en Mission: Impossible – Fallout veit 100% hvað hún er að gera í stærri sveiflunum, mokar ofan í aðdáendur seríunnar það sem þeir búast við og kunna að meta, en stendur samstundis hátt yfir öðrum adrenalínsprautum síðustu missera. Hún er stór, hún er rugluð, hún er gaman – og kemst bæði upp með að taka sig alvarlega og vera eins absúrd og henni sýnist. Klikkaði Krúsarinn er ekki orðinn of gamall fyrir þennan skít. Hvenær og hvort það gerist á enn eftir að koma í ljós, en þessi sería virðist hvergi nálægt því að missa dampinn, frekar en aðalleikarinn þegar hann er kominn á fullu í hlaupagírinn. Fallout gæti þó orðið erfitt að toppa úr þessu, en Krúsarinn og félagar mega endilega reyna.

 

 

Besta senan:
Krús á klettinum.

Categories: Spennumynd | Leave a comment

Jurassic World: Fallen Kingdom

Framhaldsmyndirnar í seríunni um Júragarðinn eiga það allar sameiginlegt að hverfa langt í skugga þeirrar upprunalegu. Þar tókst glæsilega að tvinna saman poppkornsbíói við sögu af brjáluðum vísindamönnum að leika Guð. Í kjölfarið hafa aðstandendur verið svolítið týndir þegar kemur að þemum og skilaboðum framhaldsmyndanna og er Fallen Kingdom engin undantekning þar.

Það sést hins vegar strax frá upphafi myndar að sé aðeins meira kjöt á beinum heldur en í forveranum, Jurassic World, og er bersýnilega himinn og haf á milli leikstjórans J.A. Bayona og Colin Trevorrow. Bayona er a.m.k. kvikmyndagerðarmaður á meðan Trevorrow ætti að halda sig frekar við þjónustuver í síma. Á meðan síðasti Júraheimur var geldur og óspennandi er að minnsta kosti að finna haug af geggjuðum römmum og senum í Fallen Kingdom. Í sjálfu sér myndi ég kunna bara helvíti vel að meta þessa mynd ef hún hefði ekki neyðst til þess að erfa aðalpersónurnar úr síðustu mynd, og sérstaklega leyft sér að gera meira við Jeff Goldblum en að henda honum í uppsprengt gestahlutverk.

Persónusköpuninni er ábótavant en á móti sameinast hér tveir gerólíkir helmingar í fína afþreyingarmynd sem sýnir að manneskjan er yfirleitt skepnum verst. Fyrri hlutinn er brandaralega yfirdrifinn (en hey, eldfjall!) og svo þróast sagan hægt og rólega í minniháttar en eftirminnilega „barnahrollvekju“ sem gerist að mestu í einni höll. Þegar sá hluti byrjaði var áhugi minn kominn á annað level, enda finnur þessi Júramynd ýmislegt til þess að skera sig úr hjörðinni og finna nýja vinkla í stað þess að endugera annaðhvort The Lost World eða hina ógeðfelldu Jurassic World III.

Eitt annað sem dregur úr meðmælum eru líka skilaboðin/boðskapurinn, eins og áður kom að. Það er svolítið erfitt að gera mynd um misþyrmingu dýra og pjúra skrísmlamynd á sama tíma. Leikstjórinn mjólkar áherslurnar í báðar áttir og þegar að (furðulega hugrakka) endinum kemur er afstaða myndarinnar til risaeðlanna alveg úti á túni. En að því sögðu er þessi nýi „Indoraptor“ alveg hreint klikkaður!

Fallen Kingdom er með ólíkindum vitfirrt, en uppfull af flottum senum og prýðisfínum risaeðluhasar. Trúlega er þetta besta (og grimmasta) Júraframhaldið til þessa, þó það segi í raun og veru lítið.

 

Besta senan:
Ted Levine mætir nýjum félaga.

Categories: Ævintýramynd, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.