Spennumynd

Eden

Eden er það næsta sem hefur komist því að vera finna arftaka Blossa.

Þetta er (vissulega) meint sem blússandi hrós, þrátt fyrir það að síðarnefnd næntís-dópmynd hafi ekki beinlínis verið snilldarstroka í kvikmyndagerð; þvert á móti hlægileg, þvæld, kjánaleg en á móti stútfull af orku, viðeigandi attitúdi, góðri tónlist og léttum væb sem íslenskar kvikmyndir leyfa sér sjaldan að prófa – þrátt fyrir það ógrynni af dóp-og/undirheimamyndum sem við höfum af okkur getið.

Íslensku krimmamyndirnar hafa auðvitað tekið sig misalvarlega og tæklað mál um fíkniefni eða neytendur slíkra í bobba á ólíkan máta. Hins vegar hefur verið gríðarlegt gegnumgangandi þrot hvað beitingu myndmáls eða sköpun andrúmslofts. Kvikmyndagerðarmaðurinn Snævar Sölvi Sölvason (hinn sami og gerði hina hræódýru Albatross og enn minna séðu Slay Masters) er upprennandi á indisvíðinu, en strax með einni uppgötvun á grunnstiginu er Eden komin fram úr flestum sambærilega subbulegum myndum; og sú uppgötvun snýr að litameðvitund – og jafnvel þó Eden væri rusl á öllum öðrum frontum – þá verður það aldrei tekið frá henni að hún er, sjónrænt séð, ótrúlega lifandi – ælandi og blæðandi litaskiptingum og pallettum eins og enginn sé morgundagur.

Seinast þegar mynd um neyslu náði svona vel að púlla “undir áhrifum” viðbótina með stílnum var trúlega XL frá Marteini Þórssyni, bara hér er það stílhreinna og kannski með meira pönki.

Myndin lítur vel út en græðir líka ýmislegt á einfaldri narratífu – og þarna má fara frjálslega með orðið narratífa – og fókus sem liggur allan tímann á skjáparinu, þeirra sambandi, hamagangi og hvernig gangverk þeirra magnast upp í aðstæðum. Ég get heldur ekki annað en gefið ákveðið hrós til kvikmyndar sem finnur leiðir til þess að gera Fuglastríðið í Lumbraskógi að ómissandi þemaþræði myndarinnar.

En hér segir frá parinu Ólafíu og Óliver sem lenda í kröppum dansi við ranga aðila á réttri stundu. Þá eru þau Hansel Eagle (rólegur…) og Telma Huld Jóhannesdóttir alveg frontuð og sækir leikstjórinn meira í “elskendur á flótta” undirgeirann frekar en eitthvað sveitta skilaboðasögu. Það er aðeins um víxlaða kynjadýnamík í framvindunni og samkvæmt eldri hefðum væri karlmaðurinn orkuboltinn, drífandinn og naglinn á meðan konan bara barbídúkkan í farþegasætinu (sorrí, Blossi) – þessu er snúið við og verður oft til skemmtilegur straumur á milli parsins.

Hansel stendur sig þokkalega sem nýaldarhippinn sem vill bara halda friðnum, en Telma annars vegar flytur myndina á allt annað level; hörð, framsækin, springandi af persónuleika og orku – og leikkonan selur rullu sem hefði alveg getað hrunið á andlitið með rangri tæklun. Ekki er það síst í ljósi þess að Snævar bindur sig ekki við neinn læstan tón og flakkar hann frjálslega úr flippi í alvarleika og jafnvel draumkenndan absúrdleika (komum að því) með áreynslulausum sveiflum, þó ýmsir aukaleikarar mættu alveg vera sterkari, en sleppa.

En aftur að parinu, þá skortir honum… Hansel þetta náttúrulega ó-pósandi karisma sem geislar svo áreynslulaust hér af henni Telmu, enda gædd meiri karakter og smáatriðum, þannig séð. En saman mynda þau gott and-dúó og krútta þau nægilega oft yfir sig til að manni sé ekki of drull um hvernig fyrir þeim fer. Snævar fordæmir heldur aldrei persónur sínar eða lítur bersýnilega niður til þeirra í handritinu fyrir að krauma sér jónur eða taka inn hvað annað í kammó samræðum. Það fylgir þessu líka ákveðinn ferskleiki þegar hugað er svona sterkt að því að leyfa myndinni að njóta hversdagsmómentana á milli alls trippsins sem á milli kemur.

Samtölin eru stundum eins og beint upp úr myndastrípu og það steikir raunverulega á manni hausinn hvað Arnar Jónsson er fyndinn sem óstereótýpískur krimmaforingi. Þá komum við að hinu enn furðulegra, eða eins og einhverjir munu eflaust segja: “virkilega fokkt-opp kaflanum”. Án þess að segja of mikið má tengja hið yfirnáttúrulega við söguna og allegóríum sem stafa það út að titilinn sé meira en bara skraut og tilviljun.

Hvort metafórurnar og aukni absúrdisminn gangi almennilega upp er erfitt að segja, en hann gefur myndinni visst krydd sem bætist bara við þá dramakómedíuklípusúpu sem hún er fyrir – þannig að það er ekki beinlínis úr takt þó áhrifin skili merkilega litlu. Almennt séð á tilfinningaleveli hefur þessi mynd ekki afar margt af gefa frá sér, þó hún reyni það vissulega. En eins og áður nefndi eru það einhverjir óséðir töfrar sem sumir leikararnir gæða því sem hefur á pappírnum verið.

Að öllum samanburði við Blossa slepptum, er Eden einfaldlega bara rokkandi fín lítil klakamynd; unnin á hnefanum, en brött, hressilega ýkt, sóðalega skemmtileg á köflum og rúllar á sterkum performans frá svakalega efnilegri leikkonu. Hún er mynd sem á örugglega eftir að lifa góðu költ-lífi á klakanum á ókomnum árum (sérstaklega í ljósi þess einnig að hún er JÓLAmynd!) og ljóst er einnig að Snævar Sölvi er ekki fastur innan ramma einhvers eins geira þar sem tök hans á fjölbreytni hafa tekið sýnilegan (lita)kipp. Í heildina yfir, fínasta tripp.

Ábyggilega sexí sexa á góðum degi en þrumandi sjöa undir áhrifum.

Besta senan:
Arnar og Litla hafmeyjan.

Categories: (mynd sem varla er hægt að flokka), Gaman(með drama-)mynd, Spennumynd | Leave a comment

Men in Black: International

Nú er ég alveg tilbúinn til að taka til baka allt það vonda sem ég hef sagt um Men in Black II og 3, þó svo að þær hafi verið báðar slappir og sterílir skuggar forvera síns (og ég skal meira segja leyfa því að slæda að önnur myndin ber rómverska tölu en hin ekki).

Jú jú, hin framhöldin höfðu í það minnsta EITTHVAÐ af steypusjarmanum, sköpunargleðinni og ruglinu sem gerði fyrstu myndina svo skarpa, pakkaða og skemmtilega. Will Smith var allavega gegnumgangandi í stuði, Tommy Lee Jones kann manna best að vera í fýlu og tókst Barry Sonnenfeld í það minnsta að djúsa vaxandi farsagangi þríleiksins einhverja orku.

Hvernig Men in Black International varð að veruleika mun ég seint skilja…

Og ef það er eitthvað sem Independence Day: Resurgence kenndi okkur, það er að þú skiptir ekki bara út góðum Will Smith sísvona…

En ókei, gefum okkur það að nýtt blóð, hressir og áreiðanlegir leikarar og kannski smá stefnubreyting hafi akkúrat verið það sem þetta brand þurfti á að halda, þá er þeim mun meira óskiljanlegt hvernig allir eru hálfsofandi í gegnum svona bitlaust og fúlt handrit sem dettur í sömu gryfju og hinar framhaldsmyndirnar; með því að í rauninni herma bara eftir fyrstu myndinni eina ferðina enn. Það er þó langt frá því að vera stærsti bömmer faktorinn við MIBI, hún er einfaldlega bara mökkleiðinleg.

Á eðlilegum degi er ekkert nema hressandi hluti að segja um Tessu Thompson og Chris Hemsworth, og þau reyna svo sannarlega allt sem hægt er að lífa upp á svona úldið, ófyndið og hugmyndalaust handrit. Hvorki þau né leikstjórinn eða handritið jafnvel nær að gefa kost á einhverri kemistríu á milli þeirra. Þetta er allt steindautt. Allt saman.

Framvindan kemst aldrei á nægilegt flug, hasarinn er illa klipptur og með engan púls og hverjum fínum leikara á eftir öðrum sóað í annaðhvort svæfandi exposition-skitu eða niðrandi brandara; hvort sem leikararnir heita Rafe Spall, Emma Thompson, Rebecca Ferguson eða Liam Neeson.

Nota bene, myndinni er leikstýrt af manni sem hefur notið þess áður að taka við keflinu af Barry Sonnenfeld. Hinn annars ágæti leikstjóri F. Gary Gray náði þó aldrei sömu hæðum þegar hann óð í framhaldið af Get Shorty, Be Cool. Svipað gerist hér og það eru óvenju lítil merki um einhvern sérstakan stimpil frá honum sem kvikmyndagerðarmanni. Að mestu til er hann bara að kópera stíl og tón Sonnenfelds beint (og meira að segja sömu upphafsfonta og stef) en virðist ekki alveg vera í þægindaramma sínum þegar kemur að kjánahasar og neinu of súrrealísku.

Eftir Fast & Furious 8 er Gray annars vegar nú orðinn vanur glansandi bílaauglýsingum og það er eina forljóta plögg-senu að finna í þessari, sem einhvern veginn best súmmerar upp hvað öll myndin er mikil söluvöruprumpfroða – Hin íðilfögru Chris Hemsworth og Tessa Thompson að pósa og selja svört jakkaföt og sólgleraugu á meðan þau stíga inn í glansandi Lexus-bíl (eftir að hafa bókstaflega svipt hulunni af honum) og keyra svo af stað til að sparka í rassa.

Svarið liggur þó svo skýrt í augum uppi: Ef viðkomandi vill sjá Hemsworth og Thompson vera bæði töff og eldhress, þá er Ragnarök allan dag að sigra þennan slag. Það er engin skömm í forvitnisglápi og en hafið varann á; Men in Black International sýgur ansi djúpt og kjánalega; söguþráðurinn er leiðinlegur, hasarinn er leiðinlegur, skúrkurinn er leiðinlegur og ég verð leiðinlegri því lengur sem við tölum um þessa mynd. Það er auðvelt að koma með brandara um að áhorfendur þurfi minnisþurrk að glápi loknu, en versti glæpur allra MIB mynda er að sjá til þess að framvindan hverfi úr minninu áður en hún klárast.

Getum við plís horft aftur á Thor: Ragnarök?

This image has an empty alt attribute; its file name is aviator-20sunglasses-20vector-2048.png

Categories: Ævintýramynd, nei takk, Spennumynd | Leave a comment

Captain Marvel

Marvel Studios-maskínan hefur oftar en ekki verið á hörkugóðu róli, en leiðinlegast er þegar þeir klessa á veg og punga út mynd sem pikkföst í miðjunni; og þar er Captain Marvel.

Myndin er ágætis poppafþreying og með áreiðanlega fína spretti en dýpt sögunnar ristir grunnt, stíllinn er bragðlaus (nánast eins og budgetið hafi verið fyrir meðalstóran sjónvarpsþátt) og klisjurnar alveg eftir færibandinu. Allt þetta væri svosem í hinu fínasta ef titilhetjan lýsti upp skjáinn með harðri og heillandi nærveru, en Brie Larson er ekki alveg sú rétta í þetta hlutverk. Og nei, það hefur lítið með það að gera hversu lítið hún brosir í myndinni.

Þetta er meira í líkingu við það þegar Edward Norton reyndi sitt besta með Bruce Banner; eitthvað var bara… off.

Larson er hæfileikarík leikkona alla daga vikunnar (Short Term 12, halló!), en hún smellur ekki alveg í Captain Marvel hlutverkið af tveimur ástæðum; með persónuna eins og hún er skrifuð nær leikkonan voða litlu karisma, eins og henni er leikstýrt þarna allavega (en lítið batnar þetta í Endgame svosem) – og einnig er karakterinn bara alltof kröftugur og hálfbakaður á blaði. Því kemur út eins og myndin sé að hraðspóla í gegnum allt sem er gildishlaðið í sögunni til að ljúka því af að kynna karakterinn sem fyrst á milli Infinity War og Endgame. Það er ömurlegt að fyrsta MCU-myndin með naglharðri kvenhetju í forgrunni sé svona mikið bla.

Í samanburði er Wonder Woman myndin farin að líta út eins og ólgandi gimsteinn; þar fengum við að minnsta kosti meiri tíma til að anda og tilþrifaríkari áherslu á tilfinningar og prófíl aðalpersónunnar, sem var heldur ekki jafn skilyrðislaust ósigrandi og hún Mar-Vel þegar sú kemst í gírinn. Og á meðan við erum á þeim samanburði var dúndrandi hjartsláttur í gegnum alla Wonder Woman á meðan Captain Marvel nær sínum hæstu hæðum á 90s-mynda banter’i og poppkúltúrsbröndurum.

Annette Bening er flott og kærkomin (ásamt fjörugum Ben Mendelsohn) í geimþvæluna, þar sem segjast verður að drepfyndið kattardýr stelur senunni ofar öllum.

En alltílæ mynd; þunn og hefði alveg getað djúsað meira upp á tilfinningaskalann og persónusköpunina. Það hefði líka alveg mátt víkka umfangið talsvert, þar sem fantasíukennda sögusviðið kemur meira út eins og punt frekar en lykilatriði. Hasarinn er líka undarlega flatur og þó Guardians of the Galaxy eða Thor Ragnarök komist upp með gömlu popplagablætið sitt, þá fær „I’m Just a Girl“ kaflinn hér alveg sex ranghvolfuð augu af tíu, með fullri virðingu fyrir No Doubt.

Getum við núna vinsamlegast fengið Black Widow myndina okkar fyrir 5 árum?

Besta senan:
Flerken að flippa.

Categories: Sci-fi, Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.