Spennumynd

Alita: Battle Angel

Þessi mynd rokkar!

… næstum því.

Lof mér að umorða.

Alita: Battle Angel væri trúlega frábær sci-fi perla ef hana vantaði ekki endi…

Í kringum ágætan þriðjung er eins og óþolinmóður framleiðandi hafi tappað í úrið sitt og krafist þess að myndin ljúki þessu af sem fyrst. Framhaldið síðar… eða ekki.

Vissulega kemur “episódískur” strúktúr ekkert á óvart þegar upprunalegu myndasögurnar spanna hátt í níu stykki. Hins vegar er vanalega munur á “anti-climax” og skyndislúttun en hvort tveggja á við í þessu tilfelli. Sem er fúlt, því ég var að rúlla með þessum epíska en þó low-fi manga-cyberpönk rússíbana.

Alita: Battle Angel er útlitslega töff, stílhrein, ýkt með stolti og melódramatísk en lifandi teiknimynd á allan veg; skemmtileg, dýnamísk, persónudrifin og vel samsett. Allt frá því hvernig heimurinn er byggður til meirihluta hasarsins. Leikararnir standa einnig upp úr og blása lífi í mátulega áhugaverða eða litríka karaktera, en ofar öllu er það titilpersónan sem sigrar þetta allt saman og hittir í mark. Auk þess er aldrei nokkurn tímann ásættanlegt að standast Christoph Waltz þegar hann er svona viðkunnanlegur.

Handritið er vissulega tætt til fjandans, ofureinfaldað en þó sundurlaust sum staðar og endurtekur sig á furðulegan hátt á lokametrunum. En… myndin hefur mikla sál og fullkomlega fangar anime-væb uppruna síns með auknum bragðauka frá latino-kryddi Roberts Rodriguez og cyber-punk blætinu sem James Cameron hefur ekki sýnt síðan á Strange Days dögunum vanmetnu. Stílar þessara ólíku leikstjóra virðast ná saman hér með mikilli harmóníu.

Myndin kallar vissulega eftir framhaldi en stendur samt nokkurn veginn ein og sér og hefði gert það ENN BETUR ef hún hefði leyft sér að snyrta og lagfæra aftari hluta framvindunnar. Hasarinn og fílingurinn heldur og Alita sjálf er einstök í túlkun Rosu Salazar og hvaða brelluteymis sem stóð að hönnuninni á bak við karakterinn. Almennt séð lítur myndin prýðilega út (og sérstakt props til sviðsmynda), hún flæðir, gengur og er sérstaklega svöl í þrívídd.

Besta senan:
Griparmarnir.
Þetta er nú anime aðlögun!

Categories: Ævintýramynd, Sci-fi, Spennumynd, _ | Leave a comment

Glass

Glass væri trúlega meiriháttar ef hún væri viðurkennd sem póstmódernísk paródía, eða grínmynd sem tekur sig svo alvarlega að undirtónarnir og duldu merkingarnar streyma um út í hið óendanlega.

En nei, svo reynist vera að myndin rétt um bil ætlist til þess að þú takir hana alvarlega – eða verra, tengist henni tilfinningaböndum og gerist þátttakandi í spurningaflóðinu, efasemdarflórunni og dramanu í frásögninni. Þar af leiðandi sannar erkitrúðurinn M. Night Shyamalan enn eina ferðina hversu óhóflega er hægt að ofmeta eigin snilligáfu – og endilega varð hann að draga Unbreakable með sér í skítinn, EINU myndina á ferilskránni hans, að mati mínu, sem er áreynslulaus, frábær og gefur dýrðardögum hans í denn eitthvað almennilegt vægi.

Að öllum líkindum verður Glass svo hlægileg einmitt vegna þess að Unbreakable gekk svo vel upp, með sínu alvarlega múdi og krufningarblæti í garð ofurhetjusagna. En ef Shyamalan náði að tappa inn á eitthvað dýpra í tengslum við mannlega þáttinn í Unbreakable, þá hefur það slysast þannig til. Gleymum ekki að Glass er einnig framhald á Split, eða uppstækkaða demo-reel’i James McAvoy demó-reel’inu sem græddi óskiljanlega einhvern hellings pening og ruddi veginn fyrir þessa framlengingu.

Á blaði er það efnileg hugmynd að loka einhverjum þemaþríleik sem sameinar persónur þeirra James McAvoy, Bruce Willis og Samuel L. Jackson. Í smástund virkar eins og möguleikarnir séu ótakmarkaðir, en stærstu spurningarnar voru alltaf þær sömu frá gerjun þessa handrits:

a) Hverju er við (þennan heim og persónurnar) að bæta?

og

b) hvernig í ósköpunum á Shyamalan að geta vakið Bruce Willis úr margra ára svefngöngu sinni þegar gæjum eins og Eli Roth, Sly Stallone og Wes Anderson tókst varla að gera það?

Hins vegar, annað en einkenndi t.d. Split eða The Visit, nær Glass einhvern veginn að skauta á þeirri kexrugluðu framvindu með því sem hún hefur upp á að bjóða; hún er eiginlega þrælskemmtileg þegar hrannast upp nýjar og nýjar aulalegar lausnir eða hindranir í handrinu (á Bruce Willis sumsé núna að vera kominn með bráðafóbíu fyrir úðurum??). Reglulega fékk ég þá tilfinningu eins og Shyamalan væri að reyna að segja okkur prumpubrandara með grafalvarlegan svip, en tvistið er að hann þykist vera að taka existensíalískan útúrsnúning á hvað prumpubrandari er, frekar en að sætta sig við staðreyndina frá byrjun: Hann er að segja brandara!

Sem afbrigðileg framlenging á Unbreakable og Split er Glass bæði meinlaus, drollandi afþreying og argasta klúður, en á meðan henni stendur er eitthvað reglulega skondið við að þrjár semí-athyglisverðar persónur (ein ofurhetja, einn þorpari og eitt… skrímsli?) bíða eftir að einhver söguþráður hrökkvi í gang á meðan þær eru sífellt yfirheyrðar og grillaðar út og inn um staðreyndir sem áhorfandinn þegar veit.

Allir sem horfa á myndina – og þekkja hinar – vita að hið yfirnáttúrulega tíðkast í þessum bíóheimi, en þrátt fyrir það gengur megnið af atburðarásinni út á séfræðing (sem Sarah Paulson nær bæði að ofleika og geispa sig í gegnum) og tilraunir hans að sannfæra lykilfígúrurnar um annað með sálgreiningu. Það má svo sem gefa handritinu prik fyrir að reyna að bragðbæta það sem hefur á undan komið og þessi furðulegi þríleikur leikstjórans gefur honum að minnsta kosti smá rými til að prófa að víkka út gamlar hugmyndir eða finna nýjan vinkil á þær – en þá man hann að sjálfsögðu að góð saga er eflaust gildislaus nema upp koma plott-tvist sem henda allri spilaborginni niður.

Shyamalan reynir þó að halda utan um einhvern púls með temmilega taktríkri tónlist og reynir hann heilmikið að setja einhverja stílíseringu á tiltölulega þurrt sögusvið og tilheyrandi – en fágætan – hasar. Afraksturinn gengur ekki upp (og hasarinn verður bara leiðinlega… “artí”), en á móti má hafa gaman af berserksganginum hjá McAvoy og hvernig hann reynir að lífga upp á alla myndina með sínum óteljandi stillingum. Kannski horfði ég á Split kolvitlaust frá upphafi? Kannski er hún laumulega frábær gamanmynd (svona eins og The Happening eða Devil) og Glass er hin náttúrulega framlenging af því…

Hvort sem svarið er, þá er ljóst að stærsti brandarinn við Glass er tvímælalaust hvernig hún drekkir jafn fínni mynd og Unbreakable – og líka að raunheimurinn hafi á tímabili daðrað við tilhugsunina um að Shyamalan ætti í raun eitthvað “kombakk” í sér. Upp úr þessu væri sterkasta múvið hans að endurræsa Stúart litla á ný eða taka upp hljóðfæraleik utan kameru.

En hvað Glass varðar… þá fylgir henni svona “enter at own risk” yfirlýsing, sérstaklega ef viðkomandi fílaði annaðhvort eða bæði Unbreakable og Split. Myndin er of heilabiluð og tilgerðarlega undarleg (aftur… næstum því á góðan hátt) til þess að vera of rotin eða leiðinleg til gláps, of farsakennd eða furðulega leikin til þess að vera spennandi en hún er uppfull af umræðuverðum hugmyndum, þó hún viti ekki alveg hvernig best er að vinna úr þeim, og hittir kannski einu sinni eða tvisvar á senu sem er skilyrðislaust góð út af fyrir sig. Það eru litlir sigrar í því, en annars sleppur hún sem forvitnileg og bráðfyndin miðjumoðskássa.

Sem að sjálfsögðu þýðir að þetta er þá besta Shyamalan-myndin síðan Unbreakable.

Vei.

Besta senan:
Eitthvað með McAvoy.

Categories: Drama, Spennumynd | Leave a comment

Venom

Það tók aðeins ellefu ár en harðkjarna Spider-Man-unnendur hafa loksins fengið þann óbeislaða Venom sem þeir þráðu – án nokkurrar aðkomu frá aumingjalegum Topher Grace til þess að spilla fyrir fjörinu. Það verður reyndar að teljast nokkuð merkilegt að ofurhetjugeirinn, og stúdíó-kvikmyndagerð eins og hún leggur sig, sé kominn á þann stað þar sem hægt má búast við kvikmynd úr heimi Köngulóarmannsins án þess að Lóa bregði nokkurn tímann fyrir. Að vísu er það ekki af frumkvæði aðstandenda, heldur tengist þetta allt kómískum réttindadeilum.

Lóa-leysið er annars vegar fjarri því að vera lykilvandamálið við sjálfstæða kvikmynd um þorparaskrípið Venom. Það má svo sem ekki neita því að mynd um vinsælasta skúrkinn í heimi Lóa eigi síður möguleika á því að ganga upp þegar vantar réttu hetjuna til að mynda mótvægið. Á móti því er hér komin fínasta afsökun fyrir þungavigtarleikara eins og Tom Hardy til þess að leika lausum hala, innan barnvænna marka. Vissulega.

Til þess að njóta myndarinnar er eina vitið að láta það ekki þvælast fyrir hvað margar ákvarðanir persóna eru taktlausar og bjánalegar, hvað A og B söguþræðirnir eru báðir grautþunnir, hvað framvindan og atburðarásin er lengi að koma sér af stað og reynir að haka í ákveðin tékkbox af úldnum klisjum.

Á pappír er Venom brakandi fersk hugmynd að ofurhetjusögu með sveigjanlegri siðgæðisvita, en hvað úrvinnslu varðar er þessi mynd trúlega fimm eða tíu árum á eftir sinni samtíð. Deadpool-myndirnar ættu m.a. að hafa sýnt fram á að geirinn er farinn að leyfa svigrúm fyrir tilraunastarfsemi, meiri klær og meira pönk. Þess vegna veldur það talsverðum vonbrigðum hvað Venom í rauninni leikur mikið eftir eyranu án nokkurra sénsa. Það kemur hálfpartinn á óvart hvað hægt er að búa til krakkavæna mynd um furðuhetju sem ítrekað étur hausinn af óvinum sínum. Aðeins tenntari nálgun á hráefnið hefði ekki sakað.

Í stórmyndum þessa dagana er þó ekki í boði að framleiða kvikmynd um illmenni án þess að sé þá dregin upp þörf til þess að breyta henni í gallaða hetju, ekki þegar helsti markhópurinn er á grunnskólaaldri. Þá þarf að finna annan, enn verri skúrk fyrir andhetjuna til þess að slást við. Í tilfelli Venom lendir þetta þá í hinni margnotuðu gryfju – sem Marvel Studios myndirnar hafa nú mjólkað niður í tær – þar sem handritið kokkar upp skúrk sem er bein hliðstæða við (and)hetjuna, með nákvæmlega sömu krafta. Þetta skrifast væntanlega líka á efnivið myndasagnanna að einhverju leyti, en það gildir ekki alltaf sem afsökun.

Óneitanlega tekst Tom Hardy að rífa þetta ruslhandrit á betri stað, með dásamlegum ofleik sem slær upp í létta Nic Cage-takta á tíðum. Leikarinn hefur sjálfur gefið í skyn að myndin hafi verið skorin niður um góðar 40 mínútur (hvort sem hann sagði það í gríni eða ekki er enn óvitað). Ef áhorfandinn skoðar saumanna er alveg óhætt að segja að það sjáist merki um að myndin hafi lent í einhverri hakkavél hjá höfuðstöðvum Sony. Skýrasta dæmið um það liggur í stærstu persónuþróun myndarinnar, sem er hjá titlaða sníkjudýrinu. Á augabragði breytist Venom úr fjandsamlega illu kvikindi með heimsyfirráð í huga yfir í mýkra dýr með veikan blett fyrir Jörðu og vont sjálfsálit (algjör „lúser“, eins og hann sjálfur segir). Ekki er það mjög sexí og framleiðendur virðast ekki telja það neinu máli skipta að skilja eftir nokkuð kjöt á hvaða beinum sem hér eru í boði.

Þegar handritið finnur sér tíma til að einblína á hið eitraða samband og hressilegu félagasamskipti milli aðalpersónunnar og sníkjudýrsins, verður útkoman nokkuð skemmtileg. Verst er þó að myndin er ekkert sérstaklega fyndin, sama hve mörgum bröndurum hún hleður inn. Það laumast inn kaótískur hasar af og til, en trekkir sjaldan upp neinn púls. Síðan er einhver staðar rauður þráður að ástarsambandi en einungis til þess að haka við enn eitt boxið. Michelle Williams er t.a.m. frábær leikkona á góðum degi en er meiri uppfyllingarpersóna hér en annað. Riz Ahmed leikur helsta skúrk myndarinnar sem eins konar illa Elon Musk fígúru og kann augljóslega vel við sig, áður en hann leysist upp í þorpara af færibandi.

En ef við snúum okkur að köldu mati, þá er makalaust hægt að skemmta sér yfir þunnildunum, svo framarlega sem væntingar séu langt niðri í gólfi og heilastarfsemin í fríi. Það er pottþétt svigrúm til þess að halda áfram með þessa seríu og gera brenglaðri hluti en sem stökkpallur og fígúrukynning hefði margt mátt betur gera. Venom má þó eiga það að vera skömminni skárri og ögn villtari heldur en bæði síðasta mynd Köngulóarmannsins sem var eingöngu í meðferð Sony. Þá er ekki minnst á Spider-Man 3 þar sem úrvinnsla fígúrunnar jaðraði við tómt nördaslys. Þegar upp er staðið eru það slíkir litlir sigrar sem skipta mestu, ef einhverju.

 

Besta senan:
Hardy og humarinn.

Categories: Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.