Spennumynd

Mission: Impossible – Fallout

Enn og aftur hættir Tom Cruise lífi sínu fyrir framan tökuvélina, okkur til skemmtunar. Þetta er vissulega rótin að gangverki þessa myndabálks og má segja að allt annað sé aukaatriði; spennandi söguþráður, skemmtilegt samspil persóna eða fjörug keyrsla. Mest af þessu víkur fyrir sýniþörf brjálaða, dvergvaxna Vísindakirkjumannsins til þess að sýna að hann sé einn sá besti í sínu fagi.

En hvort sem okkur líkar það betur eða verr, er staðreyndin einfaldlega þessi: hann ER einn sá besti, bæði á sviði hinnar deyjandi bíóstjörnu sem og áhættuleikara sem sýnir hvernig skal gera hlutina sem aðrar stórstjörnur myndu seint þora.

Það er skemmtilegt mynstur komið hjá þessum Mission: Impossible myndum. Sléttu-tölu myndirnar (2, 4, 6) eru lifandi teiknimyndum líkari á meðan oddatölumyndirnar fóta sig örlítið meira í raunsæið eftir allra bestu getu. Að því sögðu, þá er sjöttu (og hingað til allra sterkustu) myndinni nákvæmlega ekkert heilagt þegar kemur að hreinræktuðu afþreyingargildi, tilkomumiklum atriðum, ringulreið og keyrslu. Söguþráðurinn er flæktur en gengur upp, hópurinn nýtur sín til botns og þegar líður að dýnamískum og háskrípalegum lokaþriðjungi er áhorfandinn annaðhvort með eða ekki.

Ef til vill hefur engin mynd í seríunni verið jafn yfirdrifin og þessi síðan John Woo-eintakið frá aldamótunum og er það nokkuð mikið sagt. Heppilega er það ekki týnt fyrirbrigði hjá aðstandendum að einbeita sér sterkt að hjartahlýju og sál innan hóp leikenda og tekst ágætlega til að ýta undir mannlega þáttinn. Melódrama með smávægilegu glassúri fylgir að sjálfsögðu með, og tekur smástund að kyngja, en í þessu tilfelli nær handritið að innsigla það sem hluta af stemningunni og ætti að reynast fullnægjandi fyrir fólk sem hefur fylgt myndabálknum í áraraðir.

Það gerist örsjaldan í þessum myndum að áhorfandinn fái að kynnast ofurhuganum Ethan Hunt (Cruise) af einhverju viti. Þriðja myndin í seríunni kom aðeins inn á hans persónuleika og bakgrunn en Fallout flytur það lengra. Þetta skiptir heilmiklu í hasarmynd sem leggur jafnmikið upp úr sjónarspili eins og þessi gerir, að lykilhetjan sé ekki bara viðtengjanleg á einhvern máta, heldur meira en bara pósandi hasargarpurinn sem hann hefur átt til að breytast í.

En Cruise – rétt eins og Hunt sjálfur – væri í raun ekkert án hópsins sem umkringir hann. Þar koma Simon Pegg, Ving Rhames og sérstaklega eðaltöffarinn Rebecca Ferguson sterk inn. Alec Baldwin kemur prýðilega í stað fjarveru Jeremy Renner (þó hans sé að einhverju leyti saknað líka) en Henry Cavill bætir upp sína takmörkuðu leikgetu með trylltri nærveru. Þarna kemur hann hlaðinn byssum sínum og ómetanlegri mottu sem í sameiningu móta algjöra maskínu og góða viðbót í seríuna. Hefði svo sem ekki verið leiðinlegt að gefa Angelu Bassett meira til þess að gera, en gersemarnar eru ekki alltaf veittar á silfurfati.

Mission: Impossible – Fallout er fyrsta myndin í seríunni þar sem leikstjóri situr við stjórnvölinn oftar en einu sinni. Hingað til hafa myndirnar notið góðs af því að búa yfir mismunandi stílbrögðum ólíkra leikstjóra (sem er sérlega mikill kostur þegar stór hluti þessara mynda eru afskaplega svipaðar í efnistökum), en leikstjórinn og handritshöfundurinn Christopher McQuarrie þverbrýtur þessa reglu en matreiðir um leið allt öðruvísi ræmu en síðast (sem sækir í þokkabót smávegis í Christopher Nolan-takta); ekki aðeins yfirdrifnari, heldur sjálfsöruggari, umfangsmeiri og metnaðarfyllri heldur en hefur viðgengist áður.

Kvikmyndataka, stíll og sérstaklega tónlist er til háborinnar fyrirmyndar, af hasarmynd að vera, og rýkur svoleiðis púlsinn upp í hverri hasarsenunni á eftir annarri – þrátt fyrir að útkoman sé í allflestum tilfellum fyrirsjáanleg. Slagsmálasenurnar gefa frá sér mátuleg högg (byssurnar hjá Cavill eiga stóran þátt í því) og eltingarleikir eða áhættuatriði hitta rakleiðis í mark, bæði með sýnimennskunni einni og flottri samsetningu.

Það má ýmislegt segja um þessa mynd ef holur í söguþræði eða endurtekningar eru til umræðu, en Mission: Impossible – Fallout veit 100% hvað hún er að gera í stærri sveiflunum, mokar ofan í aðdáendur seríunnar það sem þeir búast við og kunna að meta, en stendur samstundis hátt yfir öðrum adrenalínsprautum síðustu missera. Hún er stór, hún er rugluð, hún er gaman – og kemst bæði upp með að taka sig alvarlega og vera eins absúrd og henni sýnist. Klikkaði Krúsarinn er ekki orðinn of gamall fyrir þennan skít. Hvenær og hvort það gerist á enn eftir að koma í ljós, en þessi sería virðist hvergi nálægt því að missa dampinn, frekar en aðalleikarinn þegar hann er kominn á fullu í hlaupagírinn. Fallout gæti þó orðið erfitt að toppa úr þessu, en Krúsarinn og félagar mega endilega reyna.

 

 

Besta senan:
Krús á klettinum.

Categories: Spennumynd | Leave a comment

Jurassic World: Fallen Kingdom

Framhaldsmyndirnar í seríunni um Júragarðinn eiga það allar sameiginlegt að hverfa langt í skugga þeirrar upprunalegu. Þar tókst glæsilega að tvinna saman poppkornsbíói við sögu af brjáluðum vísindamönnum að leika Guð. Í kjölfarið hafa aðstandendur verið svolítið týndir þegar kemur að þemum og skilaboðum framhaldsmyndanna og er Fallen Kingdom engin undantekning þar.

Það sést hins vegar strax frá upphafi myndar að sé aðeins meira kjöt á beinum heldur en í forveranum, Jurassic World, og er bersýnilega himinn og haf á milli leikstjórans J.A. Bayona og Colin Trevorrow. Bayona er a.m.k. kvikmyndagerðarmaður á meðan Trevorrow ætti að halda sig frekar við þjónustuver í síma. Á meðan síðasti Júraheimur var geldur og óspennandi er að minnsta kosti að finna haug af geggjuðum römmum og senum í Fallen Kingdom. Í sjálfu sér myndi ég kunna bara helvíti vel að meta þessa mynd ef hún hefði ekki neyðst til þess að erfa aðalpersónurnar úr síðustu mynd, og sérstaklega leyft sér að gera meira við Jeff Goldblum en að henda honum í uppsprengt gestahlutverk.

Persónusköpuninni er ábótavant en á móti sameinast hér tveir gerólíkir helmingar í fína afþreyingarmynd sem sýnir að manneskjan er yfirleitt skepnum verst. Fyrri hlutinn er brandaralega yfirdrifinn (en hey, eldfjall!) og svo þróast sagan hægt og rólega í minniháttar en eftirminnilega „barnahrollvekju“ sem gerist að mestu í einni höll. Þegar sá hluti byrjaði var áhugi minn kominn á annað level, enda finnur þessi Júramynd ýmislegt til þess að skera sig úr hjörðinni og finna nýja vinkla í stað þess að endugera annaðhvort The Lost World eða hina ógeðfelldu Jurassic World III.

Eitt annað sem dregur úr meðmælum eru líka skilaboðin/boðskapurinn, eins og áður kom að. Það er svolítið erfitt að gera mynd um misþyrmingu dýra og pjúra skrísmlamynd á sama tíma. Leikstjórinn mjólkar áherslurnar í báðar áttir og þegar að (furðulega hugrakka) endinum kemur er afstaða myndarinnar til risaeðlanna alveg úti á túni. En að því sögðu er þessi nýi „Indoraptor“ alveg hreint klikkaður!

Fallen Kingdom er með ólíkindum vitfirrt, en uppfull af flottum senum og prýðisfínum risaeðluhasar. Trúlega er þetta besta (og grimmasta) Júraframhaldið til þessa, þó það segi í raun og veru lítið.

 

Besta senan:
Ted Levine mætir nýjum félaga.

Categories: Ævintýramynd, Spennumynd | Leave a comment

Rampage

Það er varla hægt að biðja um meira heilalaust bíó heldur en Rampage. Við er auðvitað nákvæmlega engu öðru að búast. Myndin er byggð á tölvuleik þar sem spilarinn hefur það einfalda hlutverk að velja eitt af þremur ofurdýrum, brjóta niður byggingar og drepa hermenn – trekk í trekk og ekkert meir, nema það að valmöguleikar af fígúrum standa á milli górillu, stökkbreyttrar sæskepnu eða fljúgandi úlfs.

Aðeins í Hollywood þykir það sjálfsagður hlutur að grípa grunnhugmynd sem slíka og blása hana upp í fulla lengd. Þess vegna hefur ekkert komið annað til greina en frjáls „aðlögun”, og fyrir valinu varð burðarmynd fyrir stjörnuafl  Dwayne Johnson (áður nefndur – og alltaf þekktur – sem Kletturinn) til þess að spreyta sig sem nýr ókrýndur frasakonungur delluhasars.

Að þessu sinni leikur Johnson ofursjarmerandi prímatasérfræðing sem lendir í miðjum hasar á milli ofannefndra dýrategunda, sem gera auðvitað allt vitlaust eins og nafnið gefur til kynna. Inn í söguþráðinn flækist að sjálfsögðu myndarlegur erfðafræðingur af gagnstæðu kyni með öll svör, illmenni sem eru eins og stigin beint úr teiknimynd og kúrekalöggu sem reynir hreinlega að lykta af töffaratöktum.

Á blaði ætti þetta allt að smella saman á sinn ruglaða máta. Þetta þarf ekki að vera gott, bara stuð. Steypur af þessari týpu eru oft alveg hreint dásamlegt sorp, en í öllum hinum tilfellunum eru þær bara stuðandi sorp. Rampage tekur sig aldrei of alvarlega, sem er jákvætt, en handritið er hvorki fugl né fiskur og þurfa áhorfendur að þola ansi klaufaleg samtöl út í eitt á meðan beðið er eftir næstu eyðileggingu.

Það virðist líka vera vandamál að koma Johnson fyrir í þessa atburðarás, enda sáralítið fyrir manninn til þess að gera án þess að sé traðkað á honum á svipstundu. Handritshöfundarnir – allir fjórir – virðast vera eitthvað týndir þegar kemur að því að finna eitthvað fyrir hann til að gera í stóra bardaganum. Besta lausnin hefði vissulega verið sú að bjóða upp á tröllvaxinn Johnson til þess að slást í för og kýla kvikindin frá sér, í stíl við alvöru B-skrímslamynd, en aldrei verður það svo gott.

Rampage hefur tvennt sem vinnur með henni; hún er hressilega hröð og Johnson er óneitanlega í góðum gír; einbeittur að venju en léttur á því á sama tíma. Í sjálfu sér skipta þessir hlutir litlu máli ef framvindan er meira þreytandi en spennandi, sérstaklega þegar ofan á allt bætast við lélegar brellur annað slagið (sérstaklega í þeim tilfellum þar sem Johnson er áberandi staðsettur fyrir framan tjöld, græn eða blá).

Illmenni myndarinnar eru engan veginn að gera sig, en þau eru í höndum sænsku leikkonunnar Malin Åkerman og Jake Lacy úr The Office; bæði tvö eru háfleyg og með taktlausan ofleik, hvorki spennandi týpur né skemmtilega illkvittin. Ef eitthvað eru þau bara til uppfyllingar, eins og svosem flest annað sem kemur ekki Klettinum við og dýrunum sem ganga berserksgang.

Aðdáendur tölvuleikjanna fá vissulega það sem þeir greiða fyrir, en ef það er eitthvað sem Hollywood skortir ekki, þá er það betra úrval af taumlausu eyðileggingarklámi – og hefur meira að segja Johnson þegar áður leikið í nokkrum slíkum.

 

Besta senan:
Flugvélaatriði sem var aðeins betur gert í xXx3

Categories: Spennumynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.