Spennuþriller

Blade Runner 2049

Þegar Ridley Scott sendi fyrst frá sér Blade Runner árið 1982 hlaut hún frekar dræmar viðtökur og lélega aðsókn, og var það ekki fyrr en einhverjum árum og nokkrum endurbættum útgáfum síðar að fólk fór að keppast við að lofsyngja hana og um leið deila um stærstu ráðgátu hennar.

En hvort sem fólk dýrkar myndina eða þolir ekki er ótvírætt hvað hin dystópíska „noir“ framtíðarstemning í henni gerði heilmikið fyrir kvikmyndasöguna. Þessum stíl tókst hálfpartinn að geta af sér heilan undirgeira af bíómyndum, og óteljandi myndir urðu fyrir áhrifum, til dæmis Brazil, Strange Days, Ghost in the Shell, The Matrix og meira að segja Super Mario Bros.-myndin ömurlega. Í rauninni skrifast allt sem kallast „cyberpunk“ á Blade Runner, ef út í það er farið.

Eðlilega er það ekkert grín að leggja í framhald á költ-klassík sem er bæði sérstæð og býr yfir vissri dulúð. Ábyggilega voru fleiri tugir leiða til þess að klúðra framlengingunni og aðeins tvær leiðir til þess að gera hana rétt. Að því sögðu, þá hittir Blade Runner 2049 algjörlega í mark. Myndin er vönduð, snjöll, oft dáleiðandi og aðdáunarverð.

Þessu listræna kraftaverki er ætlað að vera virðingarvottur við forverann, stækka hann um leið, dýpka þemun, bæta við nýjum og koma með úthugsaða framlengingu sem einnig stendur sjálfstæð. Útkoman er tilfinningaríkari, mikilfenglegri og almennt sterkari mynd að mati undirritaðs.

Leikstjórinn Denis Villeneuve hefur á undraskömmum tíma skipað sér í hóp þeirra betri í dag. Á aðeins fjórum árum hefur hann gert fimm kvikmyndir, sem allar eru annaðhvort góðar eða framúrskarandi. Villeneuve hefur ítrekað sýnt að hann hefur gott auga, þétt tök á uppbyggingu, tilþrifamiklum leikurum, óhugnanlegu andrúmslofti og hefur umfram allt tröllatrú á krafti kvikmyndarammans og er ófeiminn við að leika sér með langar þagnir. Allt þetta kemur bersýnilega að góðum notum í Blade Runner 2049.

Það er ómögulegt að aðrar myndir ársins taki þessari fram hvað sjónræn tilþrif snertir, en það er kannski sjálfsögð krafa þegar um Blade Runner-framhald er að ræða. Það má hins vegar ekki líta fram hjá því hvað tökumaðurinn Roger Deakins fangar mikla töfra með vinnubrögðum sínum og gerir annan hvern ramma að hreinu listaverki. Í myndinni er tryggð haldið við heildarútlit forverans, þar sem gamla tæknin nýtur sín, en ýmsum nýjum sniðum og víddum er bætt við.

Magnaður hljóðheimur og öflug tónlist límir þetta allt saman, að ógleymdri sviðsumgjörð, klippingu og búningum ekki síður. Til að gera gott enn betra nær svo fjölbreytt fólk (og „gervifólk“) að gæða innihaldið aukalífi sem gefur skrautinu allan sinn tilgang. Fremstur fer þar Ryan Gosling, sem er afbragðsgóður. Þetta er krefjandi burðarhlutverk og heldur leikarinn aftur af sér í margbrotinni frammistöðu sem lögreglan K, sem er aldrei almennilega sátt við sinn stað í lífinu. Rétt er að gefa upp sem minnst um þá athyglisverðu þróun sem K gengur í gegnum út myndina.

Öfugt við það sem ráða má af kynningarefninu fær Harrison Ford ákaflega takmarkaðan tíma á tjaldinu, en nærvera hans og andi svífur yfir allri framvindunni. Ford nýtir þó tíma sinn vel og kemur óaðfinnanlega út. Leikur hans er meira marglaga en síðast og hann hefur ekki verið svona vakandi í bíómynd í fjölmörg ár. Hann hefur átt sín augnablik hér og þar en hér sannast það að maðurinn getur verið leikari fyrst og gamall töffari síðan, en ekki öfugt.

Aðrir leikarar smellpassa í hlutverk sína og ná að bæta einhverju smávegis við sinn karakter, þar á meðal Jared Leto, Robin Wright, Carla Juri, Mackenzie Davis og Tómas Lemarquis. Upp úr standa samt Ana de Armas, sem leikur hina „sérsniðnu“ Joi, og Sylvia Hoeks, sem túlkar eftirlíkingu sem fylgir Gosling fast eftir út myndina og glímir sjálf við athyglisverða tilvistarkreppu. De Armas hleypir talsverðri hlýju inn í gráma andrúmsloftsins, þótt persóna hennar sé mest áberandi „gerviveran“ af þeim öllum.

Í Blade Runner 2049 er ýmissa spurninga spurt um einkenni sjálfsins, meðvitund, minningar og ábyrgðina sem fylgir sköpun. Með svona efnivið er alltaf stutt í predikunina en Villeneuve og handritshöfundarnir eru nógu skarpir til þess að útskýra hlutina aldrei of ítarlega. Réttu hlutirnir eru ósagðir, bitastæð svör eru gefin og margt er til umræðu eftir á, sem eitt og sér ætti að tryggja myndinni eitthvert líf á komandi árum, sama hvað aðsóknin í kvikmyndahúsunum gefur til kynna. Það segir sig eflaust sjálft að myndin er ekki fyrir hvern sem er.

Einhverjir eru líklegir til þess að gefast upp á afslappaðri lengd hennar og enn pínlegri verður upplifunin hjá þeim sem búast við miklum hasar. Þetta er mynd sem fjallar meðal annars um leitina að sálinni og tilgangi, sem er viss kaldhæðni í ljósi þess að hér er í grunninn býsna tilgangslaust framhald með eftirlíkingar og umræður um þær í forgrunni.

Blade Runner 2049 er samt svo fjarri því að vera innantóm eftirlíking af fyrri myndinni. Hún býr yfir mikilli sál og er heilt yfir ómetanlegt innlegg í vísindaskáldskapargeirann og afbragðsdæmi um hvernig gera skal síðbúið framhald án þess að það verði einber uppsuða úr linnulausri nostalgíu.

 

Besta senan:
Joi breytir til.

Og lokaramminn.

Categories: Drama(tripp), Sci-fi, Spennuþriller | Leave a comment

mother!

Hann Darren Aronofsky er ekki beinlínis þekktur fyrir það að fara pent í hlutina, sama hvaða verkefni hann tekur að sér. Flestar ef ekki allar myndir hans eru ágengar, grafalvarlegar, hugmyndadrifnar og hafa að einhverju leyti snúist um persónur sem haldnar eru vissri þráhyggju sem seinna meir setur líf þeirra á hliðina eða leiðir til sjálfseyðileggingar.

Skilaboðin eru yfirleitt mjög augljós í Aronofsky-myndum en það er sama hvort viðkomandi kann að meta manninn sem leikstjóra eða ekki, það er erfitt að neita því að hvert verk frá honum feli í sér talsvert hugrekki og skilji eitthvað eftir sig.

Það er því óvenju mikið sagt að mother! (já, með lágstaf og upphrópunarmerki víst) sé það djarfasta og svartasta sem Aron­ofsky hefur hingað til komið sér út í; mynd sem er nánast í eðli sínu hönnuð til þess að fæla meirihluta fólks frá, en gerð til þess að skapa umræður. Á einn veg er þetta ein metnaðarfyllsta og brjálaðasta mynd leikstjórans til þessa og á annan sú allra persónulegasta og hreinskilnasta.

Myndin segir frá ónefndu pari á afskekktum stað, sem er einnig ónefndur. Maðurinn er skáld og plagaður af ritstíflu en konan bjartsýn og umhyggjusöm húsfreyja. Hlutirnir virðast samt í fyrstu vera nokkuð rólegir (þó fjarri því að vera „eðlilegir“) en öll tilveran breytist með komu óvæntra gesta. Fyrr en varir fjölgar hratt í mannskapnum og þegar allt fer að flæða út um dyr fer heimur húsfreyjunnar í rúst, á biblíulegan mælikvarða, ef svo má segja.

Mikilvægt er að hafa það strax í huga að myndin er öll ein gríðarstór myndlíking, og þrátt fyrir að tilfinningarnar séu jarðbundnar og eflaust viðtengjanlegar fyrir einhverja, er ekki ætlast til þess að allt sé tekið bókstaflega. Þetta er ekki saga um persónur, heldur erkitýpur og augljósar staðalmyndir fyrir þemun og hugmyndirnar sem sóst er eftir. Smám saman fer myndin að spil­ast út eins og abstrakt martröð, og finna má fyrir áhrifum frá David Lynch og sérstaklega Roman Polanski, þó svo að útkoman sé algerlega einstök í sjálfri sér.

Leikstjórinn nær allavega að vinna fyrir þessu upphrópunarmerki í titlinum.

Aronofsky heldur aldeilis ekki aftur af neinu og hefur margt í huga með mother!
Fyrst og fremst höfum við hér grimma og súrrealíska skilaboðasögu sem hefur sitt að segja um sköpun, móður jörð, átrúnaðargoð, frægð, verstu eðlishvatir mannsins og hvernig eitt einhliða ástarsamband getur rýrnað með eitruðum hætti – svo aðeins eitthvað sé nefnt. Eins og það sé ekki nóg er þetta í senn eitt furðulegasta „rímix“ af gamla testamentinu og nýja sem fyrirfinnst.

Eftir stendur annars vegar frambærilegur og vandaður sálfræðihrollur en hið óvænta er að þarna undir yfirborðinu leynist líka sótsvört kómedía (án gríns). Á komandi árum mun fólk deila stíft um það hvort þetta sé lokkandi, martraðarkennt og bitastætt meistarastykki eða argasta sorp sem búið er að sósa upp úr mikilli tilgerð.

mother! er annars ekki bara fyrsta myndin frá Aronofsky sem notast ekki við tónlist frá snillingnum Clint Mansell, heldur sú fyrsta sem leikstjórinn gerir án stefja yfirhöfuð. Upphaflega var það Jóhann Jóhannsson sem vann að tónlistinni áður en ákveðið var að sleppa henni. Ákvörðun þessi reyndist vera mjög skörp.

Hvaða tónlist sem er hefði getað gert myndina meira yfirþyrmandi og trúlega fullmaníska. Rammarnir lýsa sér meira eða minna sjálfir og öll óþægindin rísa með hjálp frá fyrir­taks hljóðvinnslu, faglegri klippingu, stórglæsilegri kvikmyndatöku frá hinum fasta tökumanni leikstjórans, Matthew Libatique, og ekki síst gallalausum leiktilþrifum frá Jennifer Lawrence, enda er öll sagan sögð frá hennar sjónarhorni og töku­stíllinn í takt við það.

Lawrence hefur tekið að sér krefjandi rullu þar sem nærri því allur tilfinningaskalinn fær að njóta sín í linnulausum nærmyndum. Hvernig stórstjarnan sprengir sig andlega út í seinni hluta sögunnar gerir hann þeim mun átakanlegri. Eymdin, sakleysið og örvæntingin er trúverðug og rúmlega það.

Svo er það Javier Bardem, sem er firnasterkur og áhorfandinn veit sjaldan hvar hann hefur karakterinn. Bardem er hlýr í smáskömmtum en oftast fjarlægur, stundum jafnvel ógnandi. Ed Harris og Michelle Pfeiffer bregður einnig fyrir í mikilvægum aukahlutverkum og stimpla sig sem dularfullar, skemmtilegar og sérlega minnisstæðar viðbætur.

Ákvörðunarstaður framvindunnar er fyrirsjáanlegur en ferðin þangað er samt óljós. Að sjálfsögðu fer það varla á milli mála að ýmsar senur gætu gengið hressilega fram af fólki, minnst tvær. mother! er náttúrulega ekki gerð til þess að vekja mild viðbrögð en Aronofsky er heldur ekki eingöngu að þessu til að ögra eða predika.

Skilaboðin eru einföld en úrvinnslan er marglaga og einlæg í því hvernig myndmáli og tilfinningum er háttað, og heildarpakkinn er eitthvað sem fólk getur túlkað á mismunandi hátt. Það má vissulega deila um það hvort Aronofsky sé að reyna að troða of miklu inn eða ganga fulllangt með hið augljósa en þegar rússíbanareiðin er svona kjörkuð, hvöss, úthugsuð og dáleiðandi í geðveikinni er erfitt að hafa augun af skjánum. Hér er ekki neitt „elsku mamma“.

Besta senan:
Nauðsynlegt er að fyrirgefa.
Eeeeeða hvað?

Categories: Drama(tripp), Spennuþriller, Svört gamanmynd | Leave a comment

Atomic Blonde

Atomic Blonde er fjarri því að vera innihaldslaus mynd, en það er ótvírætt að stíllinn sé í algerum forgangi. Þetta væri þó meira vandamál ef stíllinn væri ekki svona poppaður og lokkandi. Myndin er byggð á myndasögunni The Coldest City og sameinar frásagnarstíl gamaldags njósnaþrillera (í líkingu við þessa sem John LeCarré er þekktur fyrir) og harðsoðnari hasarveislur á borð við John Wick myndirnar, þar sem slagsmálasenur líkjast meira stílfærðum og ágengum dansi (segjum „ofbeldisballett“) frekar en linnulausum pyntingarathöfnum. Annars er skemmst að segja frá því að myndin er mátulega hörð – án þess að fara yfir strikið og áhorfandanum er leyft að finna fyrir hverju höggi þegar söguhetjan er komin í gírinn.

Sögusviðið er Berlín undir lok níunda áratugarins rétt áður en múrinn féll og samfélagsleg uppþot tímabilsins við það að ná hámarki. Charlize Theron leikur Lorraine Broughton, einn af toppútsendurum bresku leyniþjónustunnar, sem beitir kynþokka sínum og gáfum til að halda sér á floti í óútreiknanlegum heimi njósnara á dögum kalda stríðsins.

Lorraine er send til að hafa uppi á mikilvægum lista yfir gagnnjósnara, en í Berlín mætir hún sérvitrum stöðvarstjóra að nafni David Perc­ival (leikinn af háfleygum James McAvoy). Fljótlega verður ljóst að fleiri en einungis David hafa eitthvað að fela og Lorraine getur fáum treyst nema sjálfri sér þegar andstæðingar skjóta reglulega upp kollinum í leit að listanum eftirsótta.

Leikstjórinn og áhættuleikarinn fyrrverandi David Leitch er enginn nýliði þegar kemur að hasar. Leitch var annar leikstjóri fyrri John Wick myndarinnar og finnur hér fjölbreyttar leiðir til þess að útfæra eftirminnileg slagsmál eða eltingarleiki sem þræðast í kringum svikamyllurnar og í senn framkvæmir hann með teymi sínu hina ótrúlegustu hluti fyrir varla þriðjung af fjármagninu sem fer venjulega í stærri Hollywood-spennumyndir.

Elísabet Ronaldsdóttir sér meistaralega um að koma bröttu og fjörugu rennsli á heildina og gefa framvindunni aukinn púls ásamt eldfjörugu tónlistarvali þar sem „eitís fílingnum“ er dælt beint í æð – þó segjast verði að Cat People-lagið frá David Bowie verði aldrei betur nýtt heldur en í Inglourious Bast­erds, en bæði sú mynd og Atomic Blonde eiga það sameiginlegt að skarta þýska leikaranum Til Schweiger,­ merkilegt nokk.

Kvikmyndatökumaðurinn Jon­athan Sela leikur sér síðan að lýsingu og neonlitum af miklu afli og rammar inn tímabil myndarinnar á ferskan hátt en skapar sömuleiðis eiturharða stemningu þegar þriðji hver rammi er eins og ofurstílfært listaverk. Það er mikil dýnamík í tökustílnum, sem best nýtur sín í hreint magnaðri „óslitinni“ töku þar sem farið er frá slagsmálum í stigagangi til gatna Berlínar í sömu senu.

En markviss leikstjórnin og slípað útlit myndarinnar er eintóm skreyting til samanburðar við þá rafmögnuðu geislun sem Charlize Theron gefur frá sér. Theron sannaði það með brjáluðum tilþrifum í Mad Max: Fury Road hversu ótakmarkað svöl hún getur verið og undirstrikar þetta enn frekar í Atomic Blonde.
Persónuprófíllinn hjá keðjureykjandi glókollinum Lorraine er mikil ráðgáta en nærvera hennar og marglaga sjarmi skilar sér í gegnum bugaðan en bráðgáfaðan karakterinn.

Myndin verður reyndar eilítið ruglingsleg á köflum (ekki heldur laus við eina eða tvær stórar holur) og gefst lítill tími til að kynnast Lorraine formlega þegar svikamyllurnar hlaðast upp. Við fáum aftur á móti að sjá berskjaldaðri hliðar hennar (í andlegum og bókstaflegum skilningi) og mestmegnis þá í senum með Sofiu Boutella. Í smærri hlutverkum ná menn eins og John Goodman, Toby Jones, Eddie Marsan, Jóhannes Haukur og fleiri að gera meira en gott úr sínum takmarkaða tíma. James McAvoy virðist þó vera staðráðinn í því að stela senunni, enda í rjúkandi gír og óhræddur við ofleikinn, nánast eins og hann sé enn fastur í kvikmyndinni Split, en Boutella bragðbætir myndina með smá sakleysi og nauðsynlegri blíðu í sínu hlutverki.

Í hasarmyndum er venjan annars sú að hetjurnar standa upp óskaddaðar eftir hvern bardaga og ganga úr þeim eins og ekkert hafi í skorist. Þessi hefð er látin eiga sig í þessari mynd, þar sem allir eru reglulega sýndir örþreyttir og bugaðir eftir hina hörðustu slagi, sem sýnir að hver bardagi hefur miklar afleiðingar í för með sér.

Atomic Blonde kemst ekki alveg upp á stall John Wick myndanna en hún á alveg erindi í sambærilegan gæðahóp og inniheldur nokkur hasar­atriði sem eru klárlega með þeim tilkomumeiri sem eiga eftir að sjást á þessu ári. Myndin er ekki gerð til þess að vinna nein stórverðlaun en hún er meira en verðugur og hressilega yfirdrifinn stílgrautur sem ætti að halda óslitinni athygli flestra sem vita hverju skal eiga von á.

 

 

Besta senan:
Er það spurning?

 

(dómurinn birtist upphaflega á Vísi þann 9. ágúst)

Categories: "She went there" mynd, Spennuþriller | Leave a comment

Powered by WordPress.com.