Svört gamanmynd

Undir halastjörnu

Þann 4. febrúar árið 2004 fór kafari í höfnina í Neskaupstað til að kanna skemmdir á bryggjumannvirkjum en fann í staðinn lík sem hafði verið kastað í sjóinn, þyngt með keðjum og umvafið teppi. Continue reading

Categories: Drama, Spennuþriller, Svört gamanmynd | Leave a comment

The Killing of a Sacred Deer

Í upphafsskoti myndarinnar The Killing of a Sacred Deer sjáum við opinn skrokk í miðri skurðaðgerð. Hjarta sem slær fyllir út í rammann og með þessu skoti er ekkert verið að spara sekúndurnar. Segja má að þetta marki viðeigandi upphaf og gefi réttan tón; sýnin er undarlega dáleiðandi en í senn óþægileg til lengdar, á sinn hátt kemur þetta miklu til skila varðandi stefnu og þemu sögunnar og sýnir valdið sem skurðlæknirinn hefur yfir því lífi sem hann er bókstaflega með í höndunum.

Colin Farrell leikur Steven, fjölskylduföður og skurðlækni sem í upphafi sögunnar virðist vera sáttur við lífið og með hlutina á hreinu.
Smám saman kemst til skila að eitthvað er ekki alveg með felldu og spretta upp spurningar um forvitnileg tengsl sem Steven hefur myndað við sextán ára pilt, hinn lokaða og uppáþrengjandi Martin (leikinn af Barry Keoghan). Eftir því sem áhorfandinn fær meira að vita um ásetning og vonir þessa drengs, fer persóna Stevens að skýrast ásamt því sem hann þarf að gera upp við sig, hvað sem það mun kosta hann eða aðra sem standa honum nærri.

Gríski leikstjórinn og handritshöfundurinn Yorgos Lanthimos (Dogtooth, The Lobster) fer ekki í felur með sérvisku sína frekar en fyrri daginn. Lanthimos er einkennilegur en mikill fagmaður; ögrandi, súr en frumlegur, eins og fyrri myndir hans hafa sýnt. The Killing of a Sacred Deer er ýkt saga þar sem glímt er við truflandi og manneskjuleg málefni, en á bak við þetta allt saman liggur sótsvört kómík, sem gerir heildina í rauninni ruglaðri og fyrir vikið bitastæðari. Rétt eins og í öðrum myndum leikstjórans er tilfinningalaus stemning allsráðandi. Andrúmsloftið er lágstemmt, á mörkum þess að vera svellkalt, og viðbrögð persóna eru merkilega dauf, en þetta mótar oft skemmtilega hliðstæðu við yfirdrifnari þætti sögunnar og styrkir þá.

Það tekur framvinduna sinn tíma að fletta af lögunum og kannski fulllangan tíma að koma sér að efninu, en á heildina litið er handritið vel skrifað og veit Lanthimos oftar en ekki hvenær best er að veita réttu svörin. Notkunin á útvöldum klassískum stefjum gefur líka tóninn fyrir rísandi óþægindin og að sama skapi er kvikmyndatakan sérlega eftirtektarverð að því leyti hvernig áhorfandinn lokast inni í veröld Stevens sem smátt og smátt skreppur saman. Myndavélin svífur í kringum hann eins og guðleg vera á stundum, sem er bara viðeigandi í samhengi sögunnar.

Myndin skartar meistaralegum leik frá öllum hliðum. Oft er sagt að því ódýrari sem bíómyndin er, því áreiðanlegri verði Colin Farrell. Í Hollywood-myndum tekst honum örsjaldan að skilja eitthvað eftir sig en í myndum eins og The Lobster og In Bruges er hann aftur á móti framúrskarandi. Í þessari er hann frábær sem hinn ræfilslegi en kyrrláti Steven og fetar glæsilega einstigið á milli þess að vera annars vegar viðkunnanlegur og týpískur en hins vegar ávallt með einhverja dekkri skugga sýnilega. Nicole Kidman vinnur einnig kyrrlátan leiksigur og Barry Keoghan er ógleymanlegur sem hinn ungi Martin.

Lanthimos leikur sér taumlaust að myndlíkingum og þemum, og fjallar myndin um eftirsjá, flótta undan ábyrgð og gjörðum og ekki síður hvað það er sem skapar fullkomið fjölskyldumynstur. Til gamans má geta þess að nóg er af tilvísunum í harmsögur Biblíunnar og grískrar goðafræði til að vekja umræður. Titillinn vísar einmitt í söguna af Agamemnon konungi, þegar hann drap fyrir slysni hjartar­dýr á heilögum velli og þurfti að gjalda fyrir það með blóðtolli. Satt að segja er ýmislegt sem þessi kvikmynd á sameiginlegt með nýjustu mynd Darrens Aron­ofsky, Mother! Lathimos fer aftur á móti aðeins fínlegar í hlutina heldur en Aronofsky gerði. Sérviska leikstjórans og þessi „tónabræðingur“ hans getur stundum leitt til hallærislegra kafla, en myndin gengur bæði upp í flestu sem hún sýnir og segir frá en sömuleiðis með því sem haldið er óljósu og óræðu.

Það finnst sjálfsagt ekki öllum skemmtilegt að horfa á myndir sem eru gerðar til þess að skapa ákveðin óþægindi, en The Killing of a Sacred Deer er markviss, beitt, úthugsuð saga sem kemur sífellt á óvart. Þetta er mynd sem mun fara öfugt í suma á meðan aðrir munu dást að lágstemmdri geðveiki hennar og mögulega glotta yfir henni í fáein skipti.

 

 

Besta senan:
„Hringekjan.“

Categories: "ert-ekki-að-grínast??" mynd, aww..., Drama, Svört gamanmynd | Leave a comment

Vinterbrødre

Í dimma kalknámu í Danmörku mæta bræðurnir Emil og Johan til vinnu dag eftir dag. Kuldinn er allsráðandi. Ekki á það bara við um vetrartímann sem umlykur söguna, heldur hvernig mannlegum samskiptum er háttað hjá bræðrunum, þar sérstaklega Emil, sem er töluvert lágstemmdari og sorglegri, hreint út sagt. Í frístundum sínum glápir Emil á nágrannastúlku sína gegnum gluggann og bruggar áfengan viðbjóð úr efnum sem hann stelur úr námunum og selur svo kollegum sínum. En hvað gerist svo þegar Emil er neyddur út fyrir þægindaramma sinn?

Það blasir nánast alveg við augum að leikstjóri myndarinnar eigi sér bakgrunn í ljósmyndun og myndlist. Myndmálið poppar allsvakalega út, meira að segja í hinu hversdagslegasta umhverfi, og oft er spilað með þagnir á réttum stöðum þar sem römmunum er leyft að koma sínu til skila án mikils rembings. Við stjórnvölinn situr Hlynur Pálmason með þétt taumhald þar sem sjálfsörugg og einföld frásögn hans fær að anda út.

Einnig er kvikmyndataka Mariu von Hausswolff alveg meiriháttar og gæðir andrúmsloft og fíling, sem er að mestu óaðlaðandi eða eymdarlegt, ómældri fegurð. Hljóðmyndin er líka ákaflega vönduð.

Dýnamík bræðranna er kostuleg (hvernig samband þeirra á það til að leysast bókstaflega upp í pissukeppni er hrein dásemd), þótt sagan snúist í rauninni öll í kringum einfarann Emil. Hann er einfaldur en flókinn á sama tíma. Það er erfitt að halda upp á hann en maður kemst ekki hjá því að finna örlítið til með honum í baráttu hans við að finna sinn stað í lífinu þegar hristist upp í tilverunni.

Það kemur hins vegar fyrir að myndin virki frekar stefnulaus, í miðbikinu hvað mest, og tekst leikstjóranum ekki alveg að landa bláendanum eins og hann vill. Einnig er leitt hversu lítil áhersla er lögð á Johan og ekki síður leikkonuna Victoria Carmen Sonne sem leikur Önnu, nágranna bræðranna, en bæði tvö eru augljóslega mjög mikilvæg í lífi aðalpersónunnar, ef ekki þau einu mikilvægu.

Vetrarbræður gengur hins vegar listilega upp þrátt fyrir smágalla sína. Hún er heilt yfir skondin, pínu dökk, öðruvísi og tilraunagleðin nýtur sín oftar en ekki, sérstaklega þegar stíllinn daðrar við súrrealisma eða draumkenndar senur.

Lúmskt dáleiðandi og sérviskuleg bíómynd. Hún er ekki gerð fyrir hvern sem er en hún er vel þess virði að líta á.

 

 

Besta senan:
Bræðraslagurinn.

Categories: Drama, Svört gamanmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.