Svört gamanmynd

Vinterbrødre

Í dimma kalknámu í Danmörku mæta bræðurnir Emil og Johan til vinnu dag eftir dag. Kuldinn er allsráðandi. Ekki á það bara við um vetrartímann sem umlykur söguna, heldur hvernig mannlegum samskiptum er háttað hjá bræðrunum, þar sérstaklega Emil, sem er töluvert lágstemmdari og sorglegri, hreint út sagt. Í frístundum sínum glápir Emil á nágrannastúlku sína gegnum gluggann og bruggar áfengan viðbjóð úr efnum sem hann stelur úr námunum og selur svo kollegum sínum. En hvað gerist svo þegar Emil er neyddur út fyrir þægindaramma sinn?

Það blasir nánast alveg við augum að leikstjóri myndarinnar eigi sér bakgrunn í ljósmyndun og myndlist. Myndmálið poppar allsvakalega út, meira að segja í hinu hversdagslegasta umhverfi, og oft er spilað með þagnir á réttum stöðum þar sem römmunum er leyft að koma sínu til skila án mikils rembings. Við stjórnvölinn situr Hlynur Pálmason með þétt taumhald þar sem sjálfsörugg og einföld frásögn hans fær að anda út.

Einnig er kvikmyndataka Mariu von Hausswolff alveg meiriháttar og gæðir andrúmsloft og fíling, sem er að mestu óaðlaðandi eða eymdarlegt, ómældri fegurð. Hljóðmyndin er líka ákaflega vönduð.

Dýnamík bræðranna er kostuleg (hvernig samband þeirra á það til að leysast bókstaflega upp í pissukeppni er hrein dásemd), þótt sagan snúist í rauninni öll í kringum einfarann Emil. Hann er einfaldur en flókinn á sama tíma. Það er erfitt að halda upp á hann en maður kemst ekki hjá því að finna örlítið til með honum í baráttu hans við að finna sinn stað í lífinu þegar hristist upp í tilverunni.

Það kemur hins vegar fyrir að myndin virki frekar stefnulaus, í miðbikinu hvað mest, og tekst leikstjóranum ekki alveg að landa bláendanum eins og hann vill. Einnig er leitt hversu lítil áhersla er lögð á Johan og ekki síður leikkonuna Victoria Carmen Sonne sem leikur Önnu, nágranna bræðranna, en bæði tvö eru augljóslega mjög mikilvæg í lífi aðalpersónunnar, ef ekki þau einu mikilvægu.

Vetrarbræður gengur hins vegar listilega upp þrátt fyrir smágalla sína. Hún er heilt yfir skondin, pínu dökk, öðruvísi og tilraunagleðin nýtur sín oftar en ekki, sérstaklega þegar stíllinn daðrar við súrrealisma eða draumkenndar senur.

Lúmskt dáleiðandi og sérviskuleg bíómynd. Hún er ekki gerð fyrir hvern sem er en hún er vel þess virði að líta á.

 

 

Besta senan:
Bræðraslagurinn.

Categories: Drama, Svört gamanmynd | Leave a comment

mother!

Hann Darren Aronofsky er ekki beinlínis þekktur fyrir það að fara pent í hlutina, sama hvaða verkefni hann tekur að sér. Flestar ef ekki allar myndir hans eru ágengar, grafalvarlegar, hugmyndadrifnar og hafa að einhverju leyti snúist um persónur sem haldnar eru vissri þráhyggju sem seinna meir setur líf þeirra á hliðina eða leiðir til sjálfseyðileggingar.

Skilaboðin eru yfirleitt mjög augljós í Aronofsky-myndum en það er sama hvort viðkomandi kann að meta manninn sem leikstjóra eða ekki, það er erfitt að neita því að hvert verk frá honum feli í sér talsvert hugrekki og skilji eitthvað eftir sig.

Það er því óvenju mikið sagt að mother! (já, með lágstaf og upphrópunarmerki víst) sé það djarfasta og svartasta sem Aron­ofsky hefur hingað til komið sér út í; mynd sem er nánast í eðli sínu hönnuð til þess að fæla meirihluta fólks frá, en gerð til þess að skapa umræður. Á einn veg er þetta ein metnaðarfyllsta og brjálaðasta mynd leikstjórans til þessa og á annan sú allra persónulegasta og hreinskilnasta.

Myndin segir frá ónefndu pari á afskekktum stað, sem er einnig ónefndur. Maðurinn er skáld og plagaður af ritstíflu en konan bjartsýn og umhyggjusöm húsfreyja. Hlutirnir virðast samt í fyrstu vera nokkuð rólegir (þó fjarri því að vera „eðlilegir“) en öll tilveran breytist með komu óvæntra gesta. Fyrr en varir fjölgar hratt í mannskapnum og þegar allt fer að flæða út um dyr fer heimur húsfreyjunnar í rúst, á biblíulegan mælikvarða, ef svo má segja.

Mikilvægt er að hafa það strax í huga að myndin er öll ein gríðarstór myndlíking, og þrátt fyrir að tilfinningarnar séu jarðbundnar og eflaust viðtengjanlegar fyrir einhverja, er ekki ætlast til þess að allt sé tekið bókstaflega. Þetta er ekki saga um persónur, heldur erkitýpur og augljósar staðalmyndir fyrir þemun og hugmyndirnar sem sóst er eftir. Smám saman fer myndin að spil­ast út eins og abstrakt martröð, og finna má fyrir áhrifum frá David Lynch og sérstaklega Roman Polanski, þó svo að útkoman sé algerlega einstök í sjálfri sér.

Leikstjórinn nær allavega að vinna fyrir þessu upphrópunarmerki í titlinum.

Aronofsky heldur aldeilis ekki aftur af neinu og hefur margt í huga með mother!
Fyrst og fremst höfum við hér grimma og súrrealíska skilaboðasögu sem hefur sitt að segja um sköpun, móður jörð, átrúnaðargoð, frægð, verstu eðlishvatir mannsins og hvernig eitt einhliða ástarsamband getur rýrnað með eitruðum hætti – svo aðeins eitthvað sé nefnt. Eins og það sé ekki nóg er þetta í senn eitt furðulegasta „rímix“ af gamla testamentinu og nýja sem fyrirfinnst.

Eftir stendur annars vegar frambærilegur og vandaður sálfræðihrollur en hið óvænta er að þarna undir yfirborðinu leynist líka sótsvört kómedía (án gríns). Á komandi árum mun fólk deila stíft um það hvort þetta sé lokkandi, martraðarkennt og bitastætt meistarastykki eða argasta sorp sem búið er að sósa upp úr mikilli tilgerð.

mother! er annars ekki bara fyrsta myndin frá Aronofsky sem notast ekki við tónlist frá snillingnum Clint Mansell, heldur sú fyrsta sem leikstjórinn gerir án stefja yfirhöfuð. Upphaflega var það Jóhann Jóhannsson sem vann að tónlistinni áður en ákveðið var að sleppa henni. Ákvörðun þessi reyndist vera mjög skörp.

Hvaða tónlist sem er hefði getað gert myndina meira yfirþyrmandi og trúlega fullmaníska. Rammarnir lýsa sér meira eða minna sjálfir og öll óþægindin rísa með hjálp frá fyrir­taks hljóðvinnslu, faglegri klippingu, stórglæsilegri kvikmyndatöku frá hinum fasta tökumanni leikstjórans, Matthew Libatique, og ekki síst gallalausum leiktilþrifum frá Jennifer Lawrence, enda er öll sagan sögð frá hennar sjónarhorni og töku­stíllinn í takt við það.

Lawrence hefur tekið að sér krefjandi rullu þar sem nærri því allur tilfinningaskalinn fær að njóta sín í linnulausum nærmyndum. Hvernig stórstjarnan sprengir sig andlega út í seinni hluta sögunnar gerir hann þeim mun átakanlegri. Eymdin, sakleysið og örvæntingin er trúverðug og rúmlega það.

Svo er það Javier Bardem, sem er firnasterkur og áhorfandinn veit sjaldan hvar hann hefur karakterinn. Bardem er hlýr í smáskömmtum en oftast fjarlægur, stundum jafnvel ógnandi. Ed Harris og Michelle Pfeiffer bregður einnig fyrir í mikilvægum aukahlutverkum og stimpla sig sem dularfullar, skemmtilegar og sérlega minnisstæðar viðbætur.

Ákvörðunarstaður framvindunnar er fyrirsjáanlegur en ferðin þangað er samt óljós. Að sjálfsögðu fer það varla á milli mála að ýmsar senur gætu gengið hressilega fram af fólki, minnst tvær. mother! er náttúrulega ekki gerð til þess að vekja mild viðbrögð en Aronofsky er heldur ekki eingöngu að þessu til að ögra eða predika.

Skilaboðin eru einföld en úrvinnslan er marglaga og einlæg í því hvernig myndmáli og tilfinningum er háttað, og heildarpakkinn er eitthvað sem fólk getur túlkað á mismunandi hátt. Það má vissulega deila um það hvort Aronofsky sé að reyna að troða of miklu inn eða ganga fulllangt með hið augljósa en þegar rússíbanareiðin er svona kjörkuð, hvöss, úthugsuð og dáleiðandi í geðveikinni er erfitt að hafa augun af skjánum. Hér er ekki neitt „elsku mamma“.

Besta senan:
Nauðsynlegt er að fyrirgefa.
Eeeeeða hvað?

Categories: Drama(tripp), Spennuþriller, Svört gamanmynd | Leave a comment

Undir trénu

Undir trénu er hresst dæmi um það hvernig er hægt að hnoða öfluga kómík úr litlum harmleikjum, sumum reyndar hversdagslegri en öðrum í þessu tilfelli. Hér segir frá skuggalega venjulegu fólki sem fer í tilgangslaust stríð við hvert annað, fólki sem forðast sín eigin vandamál með því að beina þeim yfir á aðra. Við fylgjumst með nágrannaerjum og forræðisdeilum sem fluttar eru á óheppileg stig. Þess vegna má ekki vanmeta það hvað eitt tré eða viðvaningslegt kynlífsvídeó getur valdið miklum usla, eða verið grimmur kveikiþráður að slíkum.

Á nokkuð skömmum tíma hefur Hafsteinn Gunnar Sigurðsson komið sér í hóp efnilegri íslenskra kvikmyndagerðarmanna starfandi í dag, með gott auga og ástríðufullt grip á þemum sem tengjast ljúfsárum, en yfirleitt fyndnum, samskiptum fólks. Hafsteinn sýnir áhuga persónum sem lengi hafa þurft á sjálfsskoðun eða breytingu að halda, yfirleitt persónum sem eru fastar í einsleitri tilveru. Sambandsslit spila líka gjarnan stóra rullu á einhverjum tímapunkti í öllum verkum mannsins.

Fyrsta myndin hans Hafsteins í fullri lengd, Á annan veg frá 2011, er með þeim vanmetnari sem hafa lengi komið frá þessum klaka. Þremur árum seinna kom svo París norðursins sem átti fína spretti en var aðeins of mikið „bla“ að mati undirritaðs. Nú hafa þeir Huldar Breiðfjörð (sem skrifaði einnig París með Hafsteini) mótað svarta kómedíu, prakkaralega og lúmskt áhrifaríka sem varpar ljósi á sorg og gildrur samskipta- og tengingarleysis á virkilega ferskan máta, með hæfilega óvæntri og brenglaðri framvindu.

Handritið er einfalt í grunninn en spilar með flóknar tilfinningar sem sjaldan eru stafaðar út. Þetta á líka við um það hvernig upplýsingar komast til skila, hvaða spurningum handritið svarar og hvar áhorfendur geta leyft sér að fylla í eyðurnar.

Hafsteini tekst að segja margt með ótal smáatriðum og fær góðan stuðning frá tvennu sem skiptir heildarsvip myndarinnar öllu máli. Fyrst ber að nefna vandaða kvikmyndatöku Moniku Lenczewska, sem gefur sögunni viðeigandi kalda, í raun dapurlega pallettu. Síðan er það býsna geggjuð tónlist frá Daníel Bjarnasyni sem býr til magnandi og furðulegan drunga (með smá aðstoð frá Bach og Rachmaninoff).

Músíkin á sömuleiðis stóran þátt í því hvernig heildin skiptir svo listilega um gír, úr gríni í alvöru, þó myndin eigi það vissulega til að vera grafalvarleg og fyndin á sama tíma. Og stundum drephlægileg.

Leikhópurinn sem hér hefur safnast saman er ekkert annað en meiriháttar, í jafnt smáum sem stórum hlutverkum. Bæði nær hópurinn að gæða þennan „melankólíska“ farsa hressri orku og slá hvergi feilnótu þegar kemur að dramatískari hliðunum. Edda Björgvinsdóttir er þó óumdeild stjarna myndarinnar, með mestu dýptina og eftirminnilegustu persónuna, og hefur ekki í áraraðir eignað sér skjáinn eins og hún gerir hér.

En öll dýnamík karaktera og leikara eins og hún leggur sig, ásamt þrívíðum, mannlegum eða snarbiluðum hliðum þeirra, innsiglar meðmælin. Þar koma til dæmis Þorsteinn Bachmann, Selma Björnsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og (sérstaklega) Siggi Sigurjóns mjög sterk inn. Steindi Jr. kemur einnig vel út með stórfínum leik sem jafnast samt ekki á við áreynslulaus tilþrifin hjá reyndari mótleikurum hans, en hann leggur sig allan fram og passar í hlutverk sem er meira marglaga en mætti halda í fyrstu.

Hlutverk Steinda og þróun hans í myndinni hefur að vísu ekki sama bit í sér og allt sem viðkemur eldra settinu og deilum þess við nágranna sína. Reyndar hefði mátt gera ögn meira með Selmu, jafnvel Víking Kristjáns og Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, en um þau tvö má svo sem deila.

Nágrannastríð í bíómyndum, gaman eða drama, er formúla sem tekið hefur ýmiss konar form. Með þessari mynd hefði einmitt verið auðvelt að ganga of langt með grínið, en hún skarar fram úr með einlægri rödd sem styrkir hana og karakterana, auk þess að ná svona fínt að trekkja upp lágstemmdan spennugjafa úr vaxandi gremjunni.

Undir trénu er laus við tilgerð og rembing, og þess í stað kemur yndislega rugluð, hnyttin, tragísk og faglega unnin mynd að flestu leyti, frá klippingu til hljóðvinnslu. Sem bónus er hún hlaðin ýmsum ógleymanlegum litlum atvikum og ljúfum skammti af vægðarleysi, tilfinningadýpt og kaldhæðni í leiðinni.

Af hverju í helvítinu eru ekki fleiri íslenskar myndir svona góðar?

 

Besta senan:
Þegar Siggi Sigurjóns á ekki til orð.

Categories: Drama, Svört gamanmynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.