Teiknimynd

Toy Story 4

Einu sinni var sú tíð þegar áhorfandinn sá Pixar-lampann trítla inn á kvikmyndatjaldið og stappa (e.t.v. myrða) tölustafinn “i” og það þýddi eitthvað. Í dágóðan tíma tengdi maður þetta kompaní við ákveðin gæði. 

Hvenær breyttist þetta allt?

Sumir myndu segja um leið og Cars 2 var gefin út, aðrir Brave ári síðar (ekki hjálpaði hún allavega), eða jafnvel gæti þetta verið uppsöfnuð þreyta eftir taumlausa dælingu á framhaldsmyndum. Pixar-gæðin eru alls ekki horfin (og Inside Out, Coco og Incredibles 2 eru samanlagðar sjálfsagt betri en allt sem mörg samkeppnisstúdíó hafa gefið út yfir höfuð). En stundum er í lagi að leyfa fortíðinni að eiga sig…

Hugmyndin um Toy Story 4 var í raun – frá mér séð – óásættanleg frá upphafi, ekki nema til hefði staðið að gera þriggja klukkustunda farsa um spænska Bósa. Þá verður maður auðvitað að spyrja sig að einu: Snérist upprunalegi þríleikurinn um Adda eða var þetta alltaf sagan um úrelta kúrekadúkku og stað hennar í lífinu? 

Fyrir utan fínu grafíkina ásamt hlýjum og notalegum endi (sem kemst þó hvergi með tærnar þar sem fullkomni endir þriðju myndarinnar hafði hælana) er fjórða Leikfangasagan algjörlega gagnslaus viðbót, eða verra – hún er auðgleymd. 

Myndin er heldur þunnur þrettándi þegar kemur að sjarma, alvöru spennu, hnyttnum bröndurum og almennri ævintýraþrá. Heppilega er myndin þó ekki að endurvinna fáeina söguspretti eins og forveri hennar gerði (og feisum það, þó Toy Story 3 hafi verið dásamleg, þá óneitanlega snerti hún á ýmist sem hennar forveri var búinn að dekka). Hún kemur inn á þemu um tilgang í lífinu, að vera til staðar fyrir aðra, sjálfsræktun og kafar aðeins út í þá niðurdrepandi og einsleitu tilveru sem fylgir því að vera leikfang.  Það er gaman að sjá söguna finna nýjan endi á örlög karaktera eftir að Addi var dreginn úr myndinni. Í þeim skilningi – og miðað við umfang og sögu kemur myndin út eins og langur, teygður eftirmáli – og hefði frekar átt að vera löng stuttmynd frekar en heil sjálfstæð mynd. Stuttmyndirnar sem hafa verið gefnar út að undanförnu hafa líka flestar verið góðar og er lítil fyrirstaða fyrir því að þessi saga hefði getað verið sögð á 20 mínútum.

Það er auðvitað frábært að sjá Bóthildur (betur þekktur sem Bo Peep) og gríndúóið Keegan-Michael Key & Jordan Peele eigna sér nokkur frábær atriði sem samfastar tuskudúkkur. Peele er sérlega fyndinn sem kanína og glöggir ættu að muna hvað kanínur gegndu stórri rullu í Us. Illmenni myndarinnar er líka útfært af mikilli tilbreytingu frá síðustu tveimur lotum. Biturð hefur oft spilað mikilvæga rullu hjá andstæðingum sagnanna en Toy Story 4 finnur nýtt snið á því hvað andstæðingur er. Tæknilega séð er helsti andstæðingur sögunnar samviska og tilvistarkreppa Vidda.

Athyglisverðasta sköpun myndarinnar er þó vissulega Forky, spónn sem hefur verið föndraður og hefur enga ástæðu til þess að vera á lífi, en um leið og krúttstúlkan Bonnie merkir honum sínu nafni, gerast einhverjir töfrar. Hann hefur skyndilega tilgang; að gleðja hana, veita huggun og vera til staðar fyrir hana – en hvað gerist ef þegar/ef hún fær einhvern tímann leið á honum er allt önnur umræða.

Forky er (á ensku, vissulega) talsettur af Tony “Buster Bluth” Hale og er hreint dásamleg Frankenstein-sköpun, sem gerir það að svo mikilli synd og skömm hvað hann hefur merkilega lítið við söguþráðinn að gera þegar lengra líður á – söguþræði sem hann hrindir sjálfur af stað.

Hann er ekki sá eini. Bósi, Dísa, kartöfluhausarnir, Rex og næstum því allir fastagestir seríunnar gegna merkilega litlu hlutverki í framvindunni. Mér finnst aðstandendur vera eitthvað rangri hillu þegar Bósi (svo ég tali nú ekki um sparigrísinn sem yfirleitt stelur senunni) er orðinn að fylgihlut eða bakgrunnsfígúru – og svei mér ef Bósi verður ekki ögn heimskari með hverri bíómynd… Ég skal þó alls ekki neita því að persónan Duke Kaboom (talsettur af Keanu Reeves í sínu Keanu-legasta) er hressandi viðbót, með skemmtilega baksögu, og fyllir í tómarúmið sem kemur vegna skorts á Ken-dúkkunni úr síðustu mynd.

Allt í allt er Toy Story 4 komin til að vera og vissulega gæti hún verið verri, en engum yrði sakað að sjá hana sem bónuseintak – eða uppklapp kannski? – frekar en verðugt og hjartaknúsandi eintak í þessa fínu kanónu hjá Pixar.

Besta senan:
Lyklaplanið.

„Fáum við ekkert að gera?“

Categories: Teiknimynd | Leave a comment

Wonder Park

Snögg spurning:

Finnst þér gaman að horfa á holóttar, froðukenndar, sykurhæpaðar teiknimyndir sem ráðast á augu þín og eyru með öllu og engu?

Wonder Park hefði trúlega átt að vera betur sögð í barnabókaformi, með myndum sem ungt barn hefði skreytt. Myndin er algjör skel af bíómynd – krónískt töfralaus saga um töfrandi skemmtigarð – og aðeins bærilega renderuð grafík forðar hana frá því að vera illhorfanlegt drasl sem sendir út augljós og hálfbökuð skilaboð um sorg, missi og ímyndunarafl. Þetta er algjör fratvara sem hefur nær eingöngu verið hent út til að gefa (semí?-)þekktum leikurum einhver raddhlutverk. Stuð.

En frekar en að eyða óþörfum orðum í þessi ömurlegheit vil ég leggja fram sýnidæmi.

Kíktu fyrst á þessa klippu úr Wonder Park…

Og síðan á þessa seríu af ömurlega flippuðum snillingum eða hálfvitaforeldrum og segðu mér hvort hafi vakið upp jákvæðari viðbrögð.

„Eina vefju bara, sleppum barnaboxinu.”
Af hverju … ekki?
„Vertu hér gæskan á meðan pabbi sækir símann.”
„Þarna sé ég mæðrasvipinn.”
„Þú baðst um hlaup, krakki.“
Það þarf að skemmta foreldrunum í dýragörðunum líka.
„Snooze, takk.”
„Hjálp!”
„Þarna er mamma.”
„Til lukku með nýja litla systkinið, snúlla. Þá fögnum við.”
„Lítinn poka eða stóran?”
Afkvæmið þreifar sig fram í starfi föður síns.

Ef B er fyrir valinu þá náði ég að hlífa þér frá miklum hausverk. Dreifðu orðinu.

Categories: nei takk, Teiknimynd | Leave a comment

Incredibles 2

Að sinna foreldrahlutverkinu og fjölskyldulífinu vel, með öllum tilheyrandi hindrunum, getur stundum verið hetjudáðum líkast – eins og snillingurinn Edna Mode mælir. Þessi punktur er ein undirstaða þess hvað það er við Incredibles 2 sem virkar svo vel.

Ofar öllu eru báðar Incredibles myndirnar alveg hreint frábærar sögur af viðtengjanlegri (upp að vissu marki…) fjölskyldudýnamík þar sem bónusinn liggur í frábærum hasaratriðum, geggjaðri retró-framtíðarhönnun, yndislegum karakterum og meira marglaga og viðtengjanlegri þemu en sanngjarnt er að ætlast til af svona bíói.

Það er annars ekkert grín að fylgja eftir einni sterkustu Pixar-myndinni frá upphafi og hvað þá heilum fjórtán árum eftir útgáfu. Hins vegar tekst glæsilega til með Incredibles 2 að byggja ofan á frásögn fyrstu myndarinnar og víkka strigann.

Myndin er ærslafull og litrík en um leið fullorðinsleg og úthugsuð. Hún nýtur einnig góðs af því að vera uppfull af orku, húmor og mikilli sál. Það kemur fyrir að myndin svipi stundum til forvera síns á endurtekningarstigi, þó einnig megi líta á það sem skemmtilegar speglanir.

Hins vegar er stundum ljóst að leikstjórinn og handritshöfundurinn Brad Bird viti ekki alltaf hvað á að gera við undrabarnið Jack-Jack. Mætti jafnvel segja að söguþráður og aðkoma drengsins að honum skili ekki af sér miklu í almennri stefnu myndarinnar. Það breytir því samt ekki að Incredibles 2 er einn spikfeitur æðibiti og það meira. Ég myndi með glöðu geði horfa á aðra, en helst ekki þurfa þá að bíða í hálfan annan áratug eftir henni.

brill

Besta senan:
Flogaveikisbúrið.

Categories: Ævintýramynd, Teiknimynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.