Teiknimynd

Incredibles 2

Að sinna foreldrahlutverkinu og fjölskyldulífinu vel, með öllum tilheyrandi hindrunum, getur stundum verið hetjudáðum líkast – eins og snillingurinn Edna Mode mælir. Þessi punktur er ein undirstaða þess hvað það er við Incredibles 2 sem virkar svo vel.

Ofar öllu eru báðar Incredibles myndirnar alveg hreint frábærar sögur af viðtengjanlegri (upp að vissu marki…) fjölskyldudýnamík þar sem bónusinn liggur í frábærum hasaratriðum, geggjaðri retró-framtíðarhönnun, yndislegum karakterum og meira marglaga og viðtengjanlegri þemu en sanngjarnt er að ætlast til af svona bíói.

Það er annars ekkert grín að fylgja eftir einni sterkustu Pixar-myndinni frá upphafi og hvað þá heilum fjórtán árum eftir útgáfu. Hins vegar tekst glæsilega til með Incredibles 2 að byggja ofan á frásögn fyrstu myndarinnar og víkka strigann.

Myndin er ærslafull og litrík en um leið fullorðinsleg og úthugsuð. Hún nýtur einnig góðs af því að vera uppfull af orku, húmor og mikilli sál. Það kemur fyrir að myndin svipi stundum til forvera síns á endurtekningarstigi, þó einnig megi líta á það sem skemmtilegar speglanir.

Hins vegar er stundum ljóst að leikstjórinn og handritshöfundurinn Brad Bird viti ekki alltaf hvað á að gera við undrabarnið Jack-Jack. Mætti jafnvel segja að söguþráður og aðkoma drengsins að honum skili ekki af sér miklu í almennri stefnu myndarinnar. Það breytir því samt ekki að Incredibles 2 er einn spikfeitur æðibiti og það meira. Ég myndi með glöðu geði horfa á aðra, en helst ekki þurfa þá að bíða í hálfan annan áratug eftir henni.

brill

Besta senan:
Flogaveikisbúrið.

Categories: Ævintýramynd, Teiknimynd | Leave a comment

Hotel Transylvania 3: A Monster Vacation

Það verður að segjast að í 90% tilfella verða ærslafullar skrípóseríur þynnri og þreyttari eftir því sem á líður. Hið sama mætti vissulega segja um grínferil Adams Sandler, enda hefur fyndni mannsins legið að mestu í dvala á Dalvík og rýrnað síðan eftir aldamótin. Blessunarlega hefur Hotel Transylvania-myndabálkurinn reynst vera undantekning, enda yfirleitt betra að sjá Sandler stíla inn á barnahópa frekar en unglinga og fullorðna með barnalegum húmor.

Hotel Transylvania-myndirnar búa yfir ákveðinni maníu en jafnframt fjölda skemmtilegra persóna og jákvæðum boðskap sem kemst til skila án rembings. Skilaboðin hafa áður verið margtuggin („Við erum öll eins að innan“ – meira að segja skrímsli, múmíur og aðrar skepnur, merkilegt nokk …) og þráum við öll skilning og tengingu umfram annað inni við beinið. Það má svo sem margt segja um dannaðan húmor myndarinnar og tilheyrandi prumpubrandara (sem eru að vísu fyndnir hér), en með svona stórt og hreint hjarta er ljóst að endurvinnsla og peningaplokk er ekki auðsjánalegt í forgrunni með þriðja eintakinu, eins og hætta hefur verið á.

Þríleikurinn er í umsjón teiknisnillingsins Genndys Tartakovsky, sem hefur komið víða við með seríum eins og Dexter‘s Laboratory, The Powerpuff Girls, Samurai Jack og fleira. Stíll Genndys er – sem fyrr, og ávallt – skemmtilega spastískur og persónuhönnun ávallt dýnamísk, furðuleg og lifandi.

Að vísu slagar engin þessara Transylvania-mynda upp í gæði bestu Pixar-verka en af þrennunni er þessi sú bitastæðasta af þeim sem eru í boði, með skýrari stefnu og pakkaðri framvindu en hin skiptin. Ef orkuhlaðin lita- og skrímslaárás með hlýju hjarta er þér og börnunum ekki ofviða, má svo sannarlega gera margt verra en að kíkja á myndina. Hins vegar skal segjast að undirritaður sá myndina með ensku tali. Teiknimyndir eiga það til að glata hálfri stjörnu í þýðingunni.

 

(jaðrandi við sjöu)

Besta senan:
Músík-slagurinn.

Categories: Teiknimynd | Leave a comment

Justice League

Leiðin að Justice League hefur verið erfið. Nýi DC-heimurinn fór ekki sérlega vel af stað eftir að áhorfendur tóku vægast sagt misvel í Man of Steel, Batman v Superman og Suicide Squad. Þessar tvær seinni voru sérstaklega slakar og leit út fyrir að kraftaverk þyrfti til þess að bjarga þessari seríu af haugunum. Útlitið varð aðeins bjartara þegar Wonder Woman sló í gegn og féll í kramið hjá flestum aðdáendum.

Framleiðendur Justice League áttu þó varla séns frá upphafi. Það sást að þeir reyndu að læra af mistökum sínum (og gólandi kvörtunum aðdáenda) en skipulagið var ekki alveg til staðar. Ljóst var að besta lausnin fyrir þá væri sú að herma meira eftir fjölskylduvænni Marvel-myndunum og leggja meiri áherslu á húmor.

Frá byrjun var framleiðslan sögð vera í tómu tjóni, en að tökum loknum þurfti Zack Snyder að stíga til hliðar eftir fjölskylduharmleik. Þá var Joss Whedon ráðinn til að sjá um eftirvinnslu og aukatökur, og í kjölfarið stokkaðist verulega upp í framvindunni. Því má kalla það ákveðið afrek út af fyrir sig að lokaútkoman skuli ekki vera verri en hún er.

Myndin er alls ekki góð, en nógu hress, hröð og stöku sinnum svöl til þess að verða seint talin leiðinleg. Stóri vandinn er hins vegar sá hvað hún er næfurþunn, götótt, formúlubundin og stútfull af ljótum tölvubrellum. Í heildina kemur út eins og heilan hálftíma vanti í frásögnina og verða senuskiptingar á tíðum klaufalegar. Miðað við allt kynningarefnið er þó ljóst að mikil breyting hefur átt sér stað eftir að Whedon tók við, sérstaklega hvað Superman varðar.

Hópurinn eins og hann leggur sig er reyndar bráðskemmtilegur og hefði mátt fá töluvert meiri tíma til að þróast, saman eða hver í sínu lagi. Upp úr standa Ray Fisher og Ezra Miller sem Cyborg og The Flash. Sjarmi Gal Gadot virðist aukast með hverri mynd og lætur hún betur um sig fara í hlutverki Wonder Woman heldur en áður. Jason Momoa er fínn sem Sjávarmennið sem heldur sig á Íslandi í upphafi sögunnar. Þeir Ben Affleck deila þar saman skondinni senu í Djúpavík þar sem Mamoa gerir það slæma tilraun til þess að tala okkar tungu að Íslendingarnir í rammanum (og salnum) standast ekki mátið að hlæja líka.

Justice League býr yfir ákveðinni bjartsýni sem var skammar­lega fjarverandi í fyrri DC-myndunum. Þau atriði sem svínvirka eru þau sem leyfa kröftum, persónuleika og samspili hetjanna að njóta sín. Því miður hrynur þetta allt í sundur áður en líður að seinni helmingnum og til að bæta gráu ofan á svart er illmennið algjör hryllingur; flatt, óspennandi og álíka ógnandi og fullur poki af kettlingum.

Myndin er ekki laus við litla hápunkta en er almennt flöt og illa unnin. Ef fólk er byrjað að fá leiða á ofurhetjumyndum er ástæðan ekki endilega sú að framboðið á þeim sé of mikið, heldur vegna þess að meirihluti þeirra dettur í eins­leita rútínu. Just­ice League er ein þeirra sem koma nánast beint af færibandinu, meinlaus, kraftlaus og þunn, sem er leitt, því á blaði hefur Superman sjálfur ekki verið svona vel heppnaður í bíómynd í áratugi.

 

Vonum innilega að gefin verði út lengri útgáfa…

 

Besta senan:
Supes mætir liðinu, með skondnum afleiðingum.

Categories: Ævintýramynd, Teiknimynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.