Teiknimynd

Dýrin í Hálsaskógi

Fyrir marga Íslendinga er erfitt að verða ekki fyrir vægu nostalgíukasti yfir Dýrunum í Hálsaskógi, hvort sem það snýr að minningum einhverra þeirra fjölmörgu sviðssýninga hérlendis í gegnum áratugina eða einfaldlega tilhugsuninni um piparkökulagið. Þessi káta skilaboðasaga norska leikskáldsins Thorbjörns Egner hefur notið svakalegra vinsælda hérlendis og hefur nánast hver lifandi kynslóð séð, lesið eða heyrt hana í einhverju formi.

Egner var auðvitað mikill siðapredikari en honum var ávallt annt um að flytja jákvæðan boðskap og lögin úr sögunum eru allflest enn í dag algjörir eyrnaormar. Þetta sést ekki bara best á Dýrunum í Hálsaskógi, heldur líka Kardemommubænum og Karíusi og Baktusi. Ef það er eitthvað sem hlýtur að hafa ómað oftar á heimilum barna þjóðarinnar heldur en raddir Ladda, þá eru það orðin „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“. Þetta eru krúttleg og þörf skilaboð í krúttlegri og saklausri sögu. Það er í rauninni ótrúlegt að aldrei hefur gengið að flytja hana upp á hvíta tjaldið fyrr en nú.

Það hefur verið heppilegra (og sjálfsagt kostnaðarminna) að í þessari bíóútfærslu, sem unnin er frá heimalandinu, skuli meira haldið sig við gamla skólann en t.d. tölvuteikningar. Dýrin og heimili þeirra lifna gjörsamlega við með litríkum og heillandi brúðumyndastíl, kenndum við svokallað „Stop-motion“. Útlit og samsetning eru almennt nokkuð glæsileg. Persónurnar gætu ekki poppað betur út þó þörf væri fyrir þrívíddargleraugu, þörf sem þessi mynd er blessunarlega laus við. Til gamans má geta að hönnun persónanna er byggð á handbrúðum sem Egner bjó til fyrir brúðusýningu fyrir u.þ.b. sextíu árum.

Útfærsla tónlistarinnar svíkur engan og á norski kvartettinn Katzen­jammer mikið hrós skilið fyrir að nálgast gömlu lögin með huggulegri virðingu og gefa þeim aðeins meiri aukakraft. Það er heldur ekki slegin feilnóta í íslenskri raddsetningu myndarinnar, þó að undirritaður sé mjög forvitinn að vita hvernig myndin spilast út á upprunalega málinu.

Persónurnar eru allar samkvæmar sjálfum sér og handritshöfundurinn Karsten Fullu hefur ákveðið að breyta ekki of miklu í framvindunni eða samtölunum. Við þekkjum öll orðið þessar helstu fígúrur. Lilli klifurmús er bjartsýnn og prakkaralegur en eitthvað svo óvenju elskulegur þrátt fyrir að vera latur og sjálfumglaður. Hann verður ekkert síður auðelskaður í túlkun Ævars Þórs Benediktssonar, en hann lék sjálfur hlutverkið á sviði frá 2012 til 2013. Orri Huginn Ágústsson smellpassar sem Mikki refur, Viktor Már nær mikilli sál í réttlætismúsina Martein og restin kemur fínt út.

Það sem myndin græðir þó mest á er hversu brött, björt og lífleg hún er. Heildarlengdin er ekki nema 70 mínútur og pakkar hverri mínútu í þann ramma og tryggir að börnin fari ekki að iða of mikið í sætum sínum – nema hugsanlega til að dansa, stappa eða dilla sér með tónlistinni.

Sagan er auðvitað beinskeytt og einföld. Byggingin er hress og skiptist heildarsagan sem áður í tvo hluta; sá fyrri leiðir allt að lagafrumvarpsgerðinni frægu þar sem lögð er fram tillaga um grænmetisát og vinsemd. Í þeim seinni sjáum við svo afrakstur samvinnu dýranna, reiða bændur og kæti í afmælisfagnaði. Það hefði trúlega mátt gera meira úr aðlöguninni, jafnvel bæta við fleiri persónum (eitthvað óskaplega er fátt um skepnur í þessum skógi alltaf) eða lauma inn meiri húmor fyrir eldra liðið.

Dýrin í Hálsaskógi sem saga hefur aldrei unnið sér inn neina punkta fyrir marglaga frásögn eða dýpt í persónusköpun, en sjarma sögunnar er ekki erfitt að finna og enn í dag er skiljanlegt að þessi saga eigi sér sess hjá svo mörgum. Ræturnar eru allavega virtar í bíóútgáfunni og haldið upp á þær. Brúðustíllinn innsiglar það líka að með kátínu í útfærslunni er alltaf gott fjör í Hálsaskóginum.

 


Besta senan:

Piparkökuklemman.
Auðvitað.

Categories: aww..., Söngva/dansmynd, Teiknimynd | Leave a comment

The Emoji Movie

Teiknimynd um gangverk snjallsíma og veröld broskalla (eða „tjákna“) hljómar varla eins og ávísun á gæði, en það er svo sem ekki ómögulegt að gera skemmtilegt bíó úr vondri hugmynd, eða efnivið sem er í grunninn samansafn af æpandi vörukynningum. Áhugi fyrir frásögn þarf þá að vera til staðar. Þetta sást til dæmis á vel heppnuðum Legómyndum og stórfínu ævintýri með lukkutröllum í fyrra. Það er hins vegar aldrei góð hugmynd að gera mynd þar sem ekkert liggur fyrir í metnaðinum annað en að stela frá betri teiknimyndum og kynna öpp í 80 mínútur.

Í Emoji-myndinni eru bókstaflega allir krakkar stöðugt límdir við snjallsímann sinn (eins fjarstæðukennt og það kann að hljóma?…) og eiga erfitt með nokkra tjáningu án hans. En það sem þeir vita ekki er að í hvert skipti sem emoji-kall er sendur út, stendur lifandi „tjáknmynd“ vaktina í heimi innan snjallsímans. Sá niðurdrepandi heimur er morandi í brosköllum og öðrum tegundum tákna sem þrá fátt heitar en að vera valin af eiganda símans. „íbúarnir“ mega biðja fyrir því að tækin þurfi ekki á alvarlegri viðgerð að halda í bráð.

Hvert tjáningartákn gegnir augljóslega ákveðinni rullu í samfélaginu. Aðalkarakterinn Gene er fæddur í hlutverk „Meh“-táknsins, en það reynist honum erfið tilvera í ljósi þess að hann hefur miklu fleiri tilfinningar að sýna. Samfélagið ætlast hins vegar til þess að Gene gangi hlutlaus og bældur í gegnum lífið og vegna þessara tilfinningasveiflna er hann „bilun“ í kerfinu í augum æðra fasistavaldsins, svo það kemur þá ekki annað til greina en að eyða honum. En auðvitað leggur Gene á flótta, kynnist nýjum vinum og lærir að taka sig og „galla“ sína í sátt með tímanum og eigna sér þá.

Boðskapur myndarinnar er í eðli sínu mjög jákvæður og hamrar á mikilvægi þess að vera maður sjálfur og þora að gera eitthvað öðruvísi en það sem aðrir búast við af manni. Úrvinnsla þessa boðskapar missir samt marks á allan veg, enda virðist ekki hafa verið mikill áhugi aðstandenda fyrir því að segja sögu né gera eitthvað ferskt eða marglaga við persónurnar eða heiminn sem umkringir þær, þannig að þetta kemur í staðinn bara út eins og væn predikun. Fyrir utan það hefur þessi nákvæmlega sami boðskapur verið fjórfalt betur meðhöndlaður í til dæmis The Lego Movie eða Wreck-It Ralph, tveimur myndum sem hafa augljóslega veitt þessari mikinn innblástur í fleiri deildum, ásamt Pixar-perlunni Inside Out. Það kemur smávegis út eins og einhver framleiðandi hjá Sony hafi bent á þá mynd og hugsað: „Gerum eitthvað svona!“ án þess að skilja til fulls hvað gerði þá mynd svo góða.

Heimurinn í Emoji-myndinni er manískur, illa úthugsaður og sjaldan lokkandi, þrátt fyrir litríka grafík og hönnun sem sleppur fyrir horn og poppar án þess að vera framúrskarandi. Myndin er uppfull af orku og ærslagangi en laus við alla sál, alla hlýju, alla sköpunargleði og almennilega hnyttni. Atburðarásin er bærileg í fyrri hlutanum (og það er einhver dulin snilld falin í valinu á þeim Patrick Stewart (sem talar fyrir saurtáknið), Jennifer Coolidge og Steven Wright í ensku útgáfunni) en fljótt magnast upp leiðindin eftir því sem klisjunum fjölgar, pínlegu orða­gríni og miskunnarlausum „plöggum“ sem jaðra við það að vera eins konar fyrir­tækjaáróður. Meirihluti framvindunnar gengur út á það að fylgjast með Gene eða öðrum stytta sér leiðir í gegnum forrit eins og Instagram, Twitter, YouTube, Just Dance, Spotify og fáum við meira að segja snögga kennslu á CandyCrush. Svo slæmt verður það.

Myndin er vissulega gerð og mótuð fyrir yngri hópa og ætti að einhverju leyti að svínvirka fyrir þá, á meðan flestir utan þeirra eru líklegri til þess að skemmta sér yfir því að spyrja sig hvaða vörukynning kemur næst á meðan á glápinu stendur, ef þeir eru ekki reglulega að kíkja á símana sína hvort sem er.

 

 

Besta senan:
Góðar fimm sekúndur þar sem „fornaldar-tjáknin“ dúkka upp.

Categories: Sori, Teiknimynd | Leave a comment

Despicable Me 3

Best er að taka það fram strax í byrjun að viðbjóðslega háar líkur eru á því að bæði markhópur þessarar myndar og allir sem hafa áður elskað þær fyrri verða líklegast ekki fyrir miklum vonbrigðum með nýja eintakið.

Að því sögðu, þá er þriðja Despicable Me myndin klárlega sú sísta í röðinni (Minions er þar meðtalin), en þó ekkert langt á eftir hinum heldur, enda engin þeirra í líkingu við það vera einhver perla. Það var eitthvað samt svo þægilega einfalt við þær en sú þriðja spilast út eins og langur sitcom-þáttur; troðin upp fyrir haus af tvístruðum, misstefnulausum plottþráðum.

Sem algjör sápukúluafþreying gengur hún alveg upp en ef gæði eru til umræðu er myndin frekar flöt og óvenjulega ofhlaðin í senn, eins og hún sé að kasta öllu út sem hún mögulega getur til að reyna að halda seríunni gangandi – þó „heildarsagan“ sem slík hafði í rauninni ekkert marga staði til þess að fara á eftir mynd númer tvö.

A-söguþráðurinn segir frá kynnum fyrrum skúrksins Gru við nýfundinn tvíburabróður sinn, Dru. Hittingurinn er vingjarnlegur en mennirnir díla við ólíka metnaði; Gru hefur sagt skilið við vondu hlið sína í þágu fjölskyldunnar, þó mikill prakkari leynist enn í honum sem berst við það að halda blíðu hlið sinni ríkjandi. Dru er hins vegar ákaflega góðhjartaður og ljúfur en þráir ekkert meira en að gerast óþokki. Erfið tilvera.

B-söguþráðurinn fókusar á Balthazar Bratt, sprellfjörugt 80s-dýrkandi varmenni; gæddur epískum axlapúðum, píanógítar, með sítt að aftan og mottu í takt, Bratt er fyrrum barnastjarna sem tók fréttunum illa þegar þættinum hans var aflýst, svo hann hefur tileinkað sér afgang ævi sinnar með því að lifa óþokkalífinu sem fígúra sín gerði. Stóra planið hjá þessum dúdda er ekki flóknara en að hefna sín á Hollywood (nei, bókstaflega – með því að eyða því frá yfirborði jarðar) fyrir að kremja drauma sína. Trey Parker úr South Park talsetur Balthazar af mikilli dásemd og gæðir þessum karakter auka persónuleika sem íslenska þýðingin kemst ekki alveg í tæru við. Illmennin í Despicable Me-seríunni hafa flest verið nokkuð hugmyndarík og skemmtilega hönnuð, og Bratt nær að skáka sjálfan El Macho úr sessi sem sá eftirminnilegasti til þessa.

En… vandinn er að síðan koma hinir söguþræðirnir. C-söguþráðurinn snýst t.d. um Skósveinanna að… tja… „skósveinast“ á fullu (hver metur við sig hvort það sé frábær hlutur eða þreytandi), í fangelsi þar að auki. D plottið fjallar svo um Lucy að finna sig í stjúpmæðrahlutverkinu, E plottið fókusar á leit yngstu stúlkunnar Agnes að alvöru einhyrningi, F þráðurinn fer létt út í elstu systrina að díla við austur-evrópskan, ágengan „ostadreng“ (??)… Mest af þessu er eins og ein, akfeit uppfylling og tapast þar af leiðandi kjarnaþráðurinn og hvaða hjartastrengi hann reynir að púlla í.

Persónurnar eru enn flestar kætandi á einhvern hátt; Gru, Lucy og stúlkurnar eru huggulegt og flippað fjölskyldukombó, skósveinarnir gera það sem þeir gera best (sem eru lítt góðar fréttir fyrir fólk sem er orðið þreytt á þeim) og illmennið er barasta snilld. Dru er hins vegar meira pirrandi heldur en heillandi, þó örk bræðrana eigi sér viðeigandi og lúmskt fullnægjandi endastöð.

Despicable Me 3 mun ekki enda á neinum topplistum yfir frambærilegar teiknimyndir ársins (og ef valið stæði á milli t.d. þessarar og Cars 3, veljið þá bílana). Samt er myndin bara svo aulalega fjörug og í þokkabót nógu hröð til þess að teiknistíllinn, hæper-ýkti skrípafílingurinn og ærslagangurinn komi skítsæmilega út – en í upprunalegu talsetningunni á Parker mjög stóran þátt í þessu líka. Án Balthazars og persónuleika hans hefði þessi mynd trúlega lamast við fæðingu.

Einkunnin slefar í gjafmilda sexu.

Mjög gjafmilda.

Besta senan:
Upphafsránið. Sami kafli og heill tíser sýndi frá.
Bögg.

Categories: Grín, Teiknimynd | Leave a comment

Powered by WordPress.com.