viðtal

Leikstjórinn talar: Tom Six (The Human Centipede 2)

Þeir sem hafa verið viðstaddir nálægt Tom Six eða hafa séð vídeóviðtöl með honum taka fljótt eftir því að hann er allt öðruvísi en maður myndi fyrst halda um manninn sem gerði báðar Human Centipede-myndirnar umdeildu. Flestir hefðu búist við svartsýnum, ógeðfelldum manni en Six er í rauninni einn hressasti, viðkunnanlegasti og brosmildasti leikstjórinn sem þú finnur þarna úti.

Bíófíkill tók prívatviðtal við misþyrmingarmeistarann og það leit út fyrir að ég var með þeim fáu einu sem fengu „one-on-one“ spjall með hollendingnum. Áreiðanlegar heimildir segja okkur að ýmsir aðrir fjölmiðlar á landinu áttu fyrst einhverja viðtalstíma en vildu svo ekkert með þennan ljúfling hafa eftir að þeir sáu myndina. Í fyrstu átti ég bara bókaðar 6-7 mínútur með honum, en eftir að hinir blaðamennirnir beiluðu fékk ég heilar 20!

Kíkjum á hvað kappinn hafði að segja:
Tekið: 11. 11.11 (stuttu eftir frumsýningu THC: Full Sequence á Íslandi)


(T.V.)Eins og margir vita þá eru framhaldsmyndir í hryllingsmyndageiranum oftar en ekki bara beinar endurtekningar á forverum sínum. Þegar þú byrjaðir að vinna í þessari mynd, varstu með það á bakvið eyrað og var það þess vegna sem þú vildir gera allt, allt öðruvísi mynd?

(Tom Six) Ekki spurning! Ég er mikið fyrir hryllingsmyndir og þoli ekki hvað framhaldsmyndirnar verða oft ófrumlegar. Þær herma bara beint eftir og eru eiginlega alltaf verri. Ég til dæmis elskaði fyrstu Saw-myndina, fyrstu Paranormal Activity-myndina og fyrstu Hostel, en framhaldsmyndirnar eru allar bara að reyna að endurgera þessar fyrstu. Það er óþolandi og fyrir mig sem kvikmyndagerðamann skil ég ekki hvernig sumir leikstjórar nenna alltaf að endurtaka sig eða það sem aðrir gerðu á undan þeim.

Með The Human Centipede 2 vissi ég að mig langaði til að gera þveröfuga mynd við þá fyrstu. Nr. 1 er í lit, þessi svart-hvít. Dieter Laser var stór og mjór, en í þessari er brjálæðingurinn lítill og feitur. Hér veistu heldur ekki alveg hvort „vondi kallinn“ sé í alvörunni vondur. Hann er auðvitað skemmdur, en í fyrri myndinni var mjög ljóst hverjir voru vondir og hverjir voru fórnarlömb. Sú fyrsta var meira sálfræðileg, þessi voða yfirdrifin og ljót. Síðast notaði ég alltaf þrífót en þessi er tekin upp meira „hand held.“

Var ekki miklu meira krefjandi að gera þessa? Og ef svo er, hvernig þá?

Jú, fyrst og fremst vegna þess að við vorum með fleira fólk í margfætlunni. Ef þú prufar að skríða og vera á fjórum fótum í aðeins nokkrar mínútur þá fer þér að líða óþægilega. Manni langar að standa upp en leikararnir voru fleiri og var þetta mjög átakanlegt fyrir þá. Við sýnum miklu meiri viðbjóð, þannig að það þurfti að búa til alls konar gerviefni. Og ef einhverjir eru að velta fyrir sér hvernig fólkið gat verið alveg ofan í rassinum á hvort öðru, þá vorum við með latex-húð yfir hverri rassskin og fólkið gat bitið fast á endann á þeim. Hins vegar var allt þetta latex ótrúlega þunnt, þannig að það var mjög stutt í alvöru endaþarminn. Algjörar hetjur, þessir leikarar.

Burtséð frá því að vera frábær kynning, hvað fannst þér um að breska kvikmyndaeftirlitið (BBFC) hafi spoilað grófustu senunum opinberlega svona langt áður en nokkur annar sá myndina?

Þetta hafði sína kosti og galla, að sjálfsögðu. Þegar kvikmyndaeftirlitið sagði að enginn með réttu viti ætti að horfa á þessa mynd, þá fékk hún svo gríðarlega athygli að ég var bara nokkuð ánægður. Þegar þú ert að gera hryllingsmynd þá er einn besti heiðurinn sem þú getur fengið sá að einhver snobb manneskja með vald hafi bara liðið ömurlega. Snilldar markaðssetning í raun, en gallinn er auðvitað sá að kvikmyndaeftirlitið ætlaðist til þess að ég myndi breyta myndinni og þeir birtu í smáatriðum lýsingar á atriðum sem ég vildi að kæmu á óvart.

Það voru teknar út tæplega þrjár mínútur og ég er rosalega ánægður að íslendingar séu einir af fáum sem geta séð myndina eins og ég vil hafa hana. Hún er rosalega bitlaus í bretlandi og bandaríkjunum þegar búið er að taka ljótustu senurnar, en það verður reyndar hægt að sjá hana óklippta á DVD sem betur fer.

Finnst þér kvikmyndaeftirlit almennt eyðileggja sýn djarfra leikstjóra þegar þeir vilja ganga eins langt yfir strikið og þeir geta?

Ég trúi engan veginn á svona ritskoðun. Myndin mín er gerð fyrir hryllingsmyndaunnendur og þeir koma til að sjá hreinan viðbjóð án þess að eitthvað snobbað lið sem kemur myndinni ekkert við sé að sigta út hvernig þú átt að sjá hana. Ég trúi bara á aldurstakmörk sem koma í veg fyrir að börn undir lögaldri séu að horfa á eitthvað ljótt. Fullorðið fólk getur ákveðið sjálft hvort það vilji sjá myndina mína eða ekki. Það á ekki að vera til einhver millivegur sem gerir upplifunina „auðveldari“ á þá sem komu til að horfa á allt þetta ógeðslega, og njóta þess.

Hefurðu lent í því að sjá einhvern æla á þessari mynd eða þeirri fyrstu?

Ekki ennþá á þessari. Þeim sem finnst hún vera „of mikið“ hafa annað hvort bara lokað augunum eða farið út úr salnum. Það leið að vísu yfir eina konu sem horfði á þessa í bandaríkjunum. Það þurfti sjúkraliða til að bera hana út úr salnum. Ég man samt þegar ég sýndi fyrstu myndina í bíói í Texas þar sem hægt var að borða heitan mat á meðan bíósýningu stóð, sem er alls ekki sniðugt þegar þú ert að horfa á svona hryllingsmynd. Einhver maður ældi beint ofan í matinn sinn.

Þar sem Human Centipede-myndirnar eru augljóslega ekki gerðar fyrir hvern sem er, þá verð ég að spyrja hvort það séu einhvers konar týpur af myndum sem þú sjálfur neitar að horfa á. Rómantískar gamanmyndir kannski?

Ég er óvenju sterkur kvikmyndaunnandi og get horft á hvað sem er. Það eina sem mér líkar ekkert við eru teiknimyndir. Ég er mjög hrifinn af drama og ekki síður gamanmyndum. Ég sá til dæmis Horrible Bosses um daginn og hló mikið að henni. Borat er líka ein uppáhalds gamanmyndin mín en svo get ég að sjálfsögðu horft á allt þetta mjúka. Blue Lagoon höfðar sterkt til mín og alls konar ’80s myndir.

Hefurðu pælt í að búa til barnamyndir?

Nei, get ekki sagt það. Þær höfða ekkert sérstaklega til mín, eins og ég minntist á með teiknimyndirnar. Mig langar frekar til að prufa mig meira áfram í hryllingsgeiranum og ég er með nokkrar frumlegar hugmyndir sem mig langar til að gera. Allar mjög sjúkar, sálfræðilega. En þann dag þar sem ég hef ekki lengur þannig hugmyndir, þá mun ég kannski prufa mig áfram í drama eða kannski gamanmyndum. Það væri ég alveg til í, og Human Centipede 2 er í sjálfu sér mjög, mjög svört gamanmynd.

Fyrst ég er nú hérna með þér, verð ég að spyrja að klassísku Íslandsspurningunum. Hvernig finnst þér landið og hvað vissirðu um Ísland áður en þú komst hingað?

Gullfallegt land, og ég get ekki beðið eftir að kíkja í skoðunarferðir. Ég verð hérna alveg yfir helgina (samtals 5 daga). Annars varð ég fyrst var við landið í gegnum Bobby Fisher, sem mér fannst alltaf svo athyglisverður. Svo heyrði ég að Eli Roth og Quentin Tarantino heimsóttu landið oftar en einu sinni. Mér finnst mest heillandi hvernig þetta er svona einangraður staður í hafinu með litlum fólksfjölda.

Svona að lokum, er eitthvað sem þú mátt segja um þriðju myndina?

Hún mun láta númer tvö líta út eins og Pixar-mynd, og verður klárlega uppáhaldsmyndin mín í þríleiknum. Hún hefst beint þar sem nr. 2 endaði, alveg eins og nr. 2 byrjar með því að sýna endinn á fyrstu myndinni. Þetta er gert svo hægt sé að horfa á allar myndirnar í einum fjögurra tíma rykk. Þriðja myndin verður sú allra sjúkasta en á allt, allt öðru leveli heldur en þessi sem þið sáuð núna. Ég ætla ekki endilega að reyna að toppa sjálfan mig í subbuskap heldur hugmyndum.

Categories: viðtal | Leave a comment

Leikstjórinn talar: Óskar Þór (Svartur á leik)

Bíófíkill tók viðtal við leikstjórann Óskar Þór Axelsson og spjallaði aðeins við hann um tilurð myndarinnar Svartur á leik, uppáhalds senuna hans, ferilinn framundan og kvikmyndasmekkinn almennt.

„Framleiðendurnir keyptu réttinn skömmu eftir að bókin kom út og höfðu m.a. samband við mig til að lesa hana. Ég kolféll strax fyrir bókinni og setti fram mínar hugmyndir um hvernig ég mundi vilja nálgast kvikmyndaaðlögunina. Þeir fíluðu það og ég fékk verkefnið. Lagði drög að fyrsta uppkasti handritsins 2006,“ segir Óskar í tengslum við hvernig hann fékk þetta verkefni í hendurnar.

Upphafið og endir undirheimanna

Aðspurður að því hvað það hafi verið við bókina hans Stefáns Mána sem greip hann mest var svarið skýrt og einfalt. „Ég heillaðist af stílnum, persónunum og sögusviðinu,“ segir hann. „Það var eitthvað mjög „kvikmyndalegt“ við þessa bók og ég sá strax alls konar stílfærslur á senum. Mér leið eiginlega einsog það yrði að koma henni á tjaldið. Þannig að það má segja að þetta hafi verið köllun…“

Undirritaður spurði leikstjórann hvaða sena í myndinni væri í mesta uppáhaldi hjá sér, án þess að segja frá of miklu og þar kom upp í hugann senan þegar Brúnó sést í fyrsta sinn og byrjar að ógna Tóta áður en hann lemur hann. Sú sena gerist mjög snemma í myndinni og telst þar af leiðandi ekki sem spyllir. „Við duttum í algjöran lukkupott þegar við tókum hana upp,“ segir Óskar, „fengum sannkallaðan jólasnjó sem féll allan tímann á meðan við mynduðum fyrri part Hvalfjarðarhlutans, og það var aðfaranótt 1. maí! Ég fíla þessa senu því hún sameinar svo margt sem ég elska í kvikmyndum: leikurinn, „tensionið,“ óvænt atburðarásin og hvað hún er visual með þessum snjó. Aðrar senur sem ég gæti nefnt eru orgíusenan og lokasena myndarinnar. Var mjög ánægður með hvernig þær heppnuðust.“

Þegar viðtalið er tekið hafa yfir 20 þúsund Íslendingar borið augum á þessa mynd og er ljóst að sú tala eigi eftir að hækka töluvert. Óskar segist vera alveg í skýjunum með viðtökurnar, og þar er vægt til orða tekið. „Það er auðvitað alveg svakalega góð tilfinning. Og súrrealísk, segir hann varðandi hvernig honum leið þegar hann sá viðtökurnar. „Við gerðum okkur vonir um að hún myndi höfða ágætlega til áhorfenda enda var það alltaf meginmarkmiðið, en ekkert í líkingu við þetta. Uppselt trekk í trekk og aldrei verið eins mikið selt í gegnum Miði.is. Fyrir utan þetta átti ég ekki endilega von á því að fá góða gagnrýni, a.m.k. var ég viðbúinn að einhver myndi dissa myndina. En það hefur aldeilis ekki orðið, gagnrýni og umfjöllun hefur held ég bara verið rosalega jákvæð, hvert sem litið er. Sem er auðvitað alveg meiriháttar og maður er bara orðlaus. Geri mér grein fyrir því að ég þarf að búa mig undir að það verður pottþétt ekki allt svona jákvætt í næstu bíómynd sem ég geri! Það er einfaldlega ekki hægt. Semsagt, bæði hærður og stoltur yfir þessum viðbrögðum. En um leið er þetta mjög óraunverulegt allt saman.“

Framtíðin og fyrirmyndir

„Ég er núna með nokkra bolta á lofti,“ segir Óskar varðandi verkefni sem eru á teikniborðinu um þessar mundir. „Eitt er frumsamið handrit sem ég skrifaði áður en ég byrjaði á Svartur á leik. Það heitir The Traveler og er í raun amerísk kvikmynd þó hún gerist 1/3 á Íslandi. Svo er ég að skoða nokkrar íslenskar bækur til aðlögunar en ekkert sem ég get talað um núna. Þá er alltaf haugur af handritum sem maður er að lesa. Málið er að það hangir svolítið á spýtunni hvernig gengur með Svartur á leik, bæði hér heima og út, upp á framhaldið. Þannig að þetta mun örugglega ekkert skýrast almennilega fyrr en eftir nokkra mánuði.“

Óskar var spurður að því hvaða helstu fyrirmyndir í bransanum hann ætti sér, og hann segir að það séu helst þeir sem flakka auðveldlega á milli kvikmyndageira og þeirra sem afkasta miklu. „Til dæmis get ég nefnt Steven Soderbergh, Michael Winterbottom, Danny Boyle, Ang Lee, Coen-bræður og David Fincher,“ segir hann. „Annars held ég sérstaklega upp á Hal Ashby, Kubrick, Altman, Coppola og fleiri sem gerðu flestar sínar bestu myndir fyrir 1980. Annars er ég alæta á kvikmyndir, fer bara fram á að þær séu góðar!“

Óskar bætir því við hvað það er sem hann sækist eftir þegar hann horfir á góða mynd. „Ég er alltaf að leita eftir einhverju nýju, einhverju spennandi sem fær mig til að hugsa „vá, ég vildi að ég hefði gert þessa mynd“. Þetta gerist öðru hverju, ekki mjög oft. Sem er líklega eðlilegt,“ segir hann, „En svo kann ég líka rosalega vel að meta þegar kvikmyndir eru vel gerðar og maður finnur að þær koma frá hjarta þess sem þær gerir. Vel gerð genre-mynd t.d. gerir mig mjög glaðan. Ég get horft aftur og aftur á kvikmyndir sem hafa góðan söguþráð, eru vel leiknar og almennt vandað til verka í öllum deildum.“

Categories: viðtal | Leave a comment

Leikstjórinn talar: Balti (Contraband)

Bíófíkill átti stutt samtal við Baltasar Kormák í tengslum við hina stórmerkilegu Reykjavík-Rotterdam endurgerð. Balti útskýrði hvernig sumar breytingarnar urðu til, hvað hann er að gera um þessar mundir og hvers vegna hann sóttist í það að taka stóran þátt í sömu sögunni í annað sinn.

„Frá því ég las þetta fyrst (semsagt Reykjavík-Rotterdam handritið) var ég mjög hrifinn af þessari sögu. Ég hafði ekki séð bíómynd sem gerðist í þessum hluta heimsins, sem sagt um borð í skipum þar sem er verið að smygla. Þetta var allavega heimur sem mér fannst bíómyndir ekki hafa heimsótt mikið,“ segir Baltasar. „Mér fannst líka gaman að sjá mynd um svona hetjubragð, sem hafði nánast aldrei verið í íslenskum myndum. Það var ágætis tilbreyting að sjá mynd um mann sem reynir að breyta rétt og er ekki í tómu tjóni. Þessi saga um fjölskyldumann sem reynir að vera réttu megin við línuna höfðaði alltaf mjög sterkt til mín. Aðalpersónan gerir hlutina af góðum ásetningi.“

Baltasar segir að með þeirri hugmynd að endurgera myndina hafi hann séð gott tækifæri til þess að gera eitthvað úti. „Mér höfðu verið boðin ýmis verkefni í gegnum tíðina og þetta var það sem ég hafði meira áhuga á en margt annað. Þú færð heldur ekki bestu handritin send til þín í þessari stöðu sem ég var í,“ segir leikstjórinn.

Endurgerð verður til

„Ég var með umboðsmenn hjá William Morris Endeavor (stærsta umboðsfyrirtækið í heimi), til dæmis Mike Simpson, sem er einnig umbinn þeirra Quentin Tarantino og Tim Burton, en mínum mönnum leist rosalega vel á þetta og sendu frummyndina á nokkra staði,“ segir Baltasar. „Það komu strax jákvæð viðbrögð, meðal annars frá stúdióunum Dreamworks, Relativity og Working Title. Ég hafði einmitt alltaf verið dálítið hrifinn af Working Title og fannst aðstandendur þar vera yfirleitt með mjög vönduð verk.“

Samkvæmt Balta hafði myndin líka verið send á hinn þekkta leikara Mark Wahlberg, þar sem hann er hjá sama umboðsfyrirtæki. „Mark hafði mikinn áhuga á þessu, þannig að ég fór og hitti hann, og síðan aðstandendur fyrirtækisins Working Title þar sem allur pakkinn var settur saman,“ segir Baltasar. „Þeir hjá stúdióinu þekktu myndirnar mínar miklu betur en ég gerði mér grein fyrir – til dæmis Mýrina, 101 Reykjavík og Hafið – og voru hrifnir. Það kom svo bara upp sú umræða hvort ég væri til í að leikstýra þessu. Svo bættist Wahlberg við sem framleiðandi og smám saman vex þetta og vex og verður á endanum að veruleika.“

Reykjavík-Rotterdam/New Orleans-Panama

„Eftir að framleiðendur skoðuðu frummyndina var mikið rætt um til dæmis hvaða breytingar menn vildu gera og hvernig væri best að nálgast efnið,“ segir Baltasar aðspurður að því hver hugsunin hafi verið með því að breyta staðsetningunum.

„Svo fór ég til New Orleans áður en nýja handritið fór í vinnslu til að skoða staðina áður en við byrjuðum að skrifa þetta inn í söguna, og svo fór ég til Panama og Mississippi til að finna áhugaverða staðsetningu fyrir svona smygl, því Mississippi er einmitt þekkt fyrir svoleiðis. Við vildum að minnsta kosti leita að góðum hafnarbæjum og það skemmdi að sjálfsögðu ekki fyrir að það var ódýrara að taka upp á sumum stöðunum, og það sannfærði stúdióið þar sem þeir gátu fengið meira fyrir peninginn sinn.“

Déjà vu tilfinning?

Þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn var ekki bara aðalleikari upprunalegu myndarinnar, heldur framleiðandi, kom upp sú spurning hvort hann hafi ekki fengið sterkt endurlit (déja vu) til hennar þegar Contraband var í tökum, þrátt fyrir að myndirnar séu t.a.m. gerólíkar í stíl. „Það eru einstakar senur þar sem hlutirnir geta ómögulega verið öðruvísi en í frummyndinni. Ég meina, bátur er bátur og skip eru skip, þannig að óneitanlega verða ýmsir hlutir svipaðir en svo á móti eru aðrir hlutir bara allt, allt öðruvísi. En jú, að vissu leyti fékk maður svona endurminningu, en ég hef hins vegar sett upp sömu leiksýningu aftur áður og ég breyti alltaf einhverju. Þannig að ég kom að þessu eins og þetta væri alveg nýtt en kannski með meiri vitneskju um myndina og söguna. Svona eins og heimavinna, nema ég var búinn að undirbúa mig mun betur.“

Baltasar bætir því við að eitt af því fyrsta sem hann vildi breyta í ameríska handritinu var persónan sem Ingvar Sigurðsson lék upprunalega (sem Ben Foster túlkar núna). Honum fannst aðeins þurfa að laga prófílinn og sérstaklega þetta svokallaða „motivation“ á bakvið gjörðir hans, án þess að segja frá of miklu. Baltasar segir líka að það hafi þurft að hræra aðeins í fyrri hluta sögunnar til að fínpússa söguna og gera hana trúverðugri. Að hans sögn ganga tilviljanir betur upp í handritum á Íslandi því augljóslega er þetta mjög lítið land.

Categories: viðtal | Leave a comment

Powered by WordPress.com.